Reykjanesviti

“Vangaveltur hafa verið um nafn fellsins sem núverandi Reykjanesviti stendur á:

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Vatnsfelli.

-1752-7. Ferðabók Eggerts og Bjarna: ” . . . en þrjú lítil leirfjöll skera sig þó mjög úr umhverfinu. Þau heita Hverhólmar, Írafell og Vatnsfell. Í því er dálítið vatn í dýjaveitum, sem safnast þar saman af snjó- og regnvatni, . . . “

-1840. Lýsing Grindavíkursóknar. Geir Bachmann: ” . . . Valahnúkur . . . Skammt þaðan í landnorður er aðrísandi fell, Vatnsfell kallað. ” Sérann nefnir ekki Bæjarfell. Á öðrum stað segir hann: ” . . . Sandfell, Sílfell, Grasfell eða áður nefnt Vatnsfell og fram á Skarfasetur.”

Reykjanesviti

Reykjanesviti. Bæjarfell er framan við nýja Reykjanesvitann á Vatnsfelli.

-1883. Þorvaldur Thoroddsen. ” Upp úr hraununum standa nokkrir móbergshryggir, t.d. Valahnúkur (43 m), sem vitinn stendur á [gamli vitinn], Vatnsfell (54 m) og Sýrfell (105 m).

-1908-10: Herforingjaráðskort, 1:50 þús. : Þar sést fell með rana til suðurs. Orðið ´viti´ er skráð vinstra megin við háfellið en örnefnið Bæjarfell er skráð til hægri og sunnar þar sem raninn byrjar. Ekki er hægt að segja til um hvort örnefnið á við hæsta hluta fellsins (Vatnsfellið, nýi bærinn] eða þann lægsta (Bæjarfellið, gamli bærinn).

-1945 kort 1:100 þús.: Þar er Vatnsfell skráð vsv við Bæjarfellið [smbr. Jón Jónsson hér neðar).

-1926. Lesbók Mbl.. Valtýr Stefánsson, ritstjóri: ” . . . Því var ráðist í það að byggja annan vita á Vatnsfelli.·”

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn nýi. Vitavarðahúsin gömlu neðar.

-1984. Árbók F.Í.. Séra Gísli Brynjólfsson:” . . . reis núverandi viti á Bæjarfellinu. ” Sama rit. Jón Jónsson, jarðfr.:. ” . . Lítð eitt
austar [er að lýsa frá vestri] er gosmalarkeila, Vatnsfell, sem sjór er nú sem óðast að brjóta niður [ þarna er greinilega hvorki átt við fellið sem vitinn er á eða gamla bæjarhólinn, en Vatnsfell heitir annað fell austar með ströndinni]” ” . . . Í fellinu neðan við vitann, Bæjarfelli, stendur bústaður vitavarðar. . .”

-1988. Suður með sjó. Jón Böðvarsson: ” Reykjanesviti trjónar efst á Grasfelli . . . . Eftir byggingu hússins þokaðist gamla örnefnið fyrir heitinu Bæjarfell.”

-1989.

Reykjanesviti

Hús fyrsta vitavarðarins.

Íslandshandbókin. Örn og Örlygur (mynd): ” . . . Bæjarfell með Reykjanesvita fjær . . . “

-1991. Tímaritiði Áfangar. Hafnahreppur. Leó M. Jónsson,: ” . . . og var núverandi viti á Vatnsfelli tekinn í notkun árið 1908.” Í greininni er mynd af fellunum á Reykjanestá tekin úr norðri, frá veginum og undir henni stendur: ” Frá vinstri sést í Bæjarfell [hóllinn (fellið) sem gamli bærinn stóð á] , þá Reykjanesviti á Vatnsfelli . . “

-2004. FERLIR 665: “Var annar viti byggður á Vatnsfelli (Grasfelli), síðar nefnt Bæjarfell, þar sem hann er nú.”

-Vitamálastofnun notar örnefnið Bæjarfell.

Undirrituð velur Vatnsfell, svona fyrir aldurs og úbreiðslu sakir . . “.

-Sesselja Guðmundsdóttir tók saman.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanesviti

Brennisteeeinsfjöll

Á Vísindavef Háskóla Íslands var spurt um; “Hvað er vitað um dyngjugos á Reykjanesskaga?”. Svar Kristjáns Sæmundssonar, jarðfræðings og fyrrverandi deildarstjóra á Orkustofnun, og Magnúsar Á. Sigurgeirssonar, jarðfræðings, var:

Eldgos

Eldgos í Fagradalsfjalli 2021.

“Dyngjugos á Reykjanesskaga byrja sennilega í flestum tilvikum sem sprungugos. Vísbendingar um slíkt má sjá í Fagradalsfjallskerfinu og víðar. Virknin færist síðan smám saman í einn gíg og þróast í sígos sem stendur lengi, jafnvel nokkur ár í stærstu dyngjunum. Hraunframleiðsla er talin lítil eða kringum fimm rúmmetrar á sekúndu. Líklegt er að lengri tími gefist til að bregðast við ógn af þeirra völdum en sprungugosa.

Hegðun og framgangur dyngjugosa eru allvel þekkt. Í aðalgígnum myndast oftast hrauntjörn, full að börmum, sem síðan tæmist út í rásir sem liggja frá honum (hellakerfi) þegar streymi að neðan hættir, eins og til dæmis í Sandfellshæð.

Sandfellshæð

Sandfellshæð.

Dæmi eru um að hraun stígi aftur upp og fylli gíginn. Ef hraunrásirnar eru þá stíflaðar, flæðir yfir gígbarmana (Þráinsskjöldur), en líka getur kvikan troðist sem innskot undir gígsvæðið og belgt það upp (Hrútagjá). Gee og fleiri töldu mikið hraunmagn og frumstætt berg hafa fylgt röskun á þyngdarjafnvægi sem varð við hraða bráðnun jökla í lok ísaldar. Hraunkvika sem þá leitaði upp úr möttli, gat náð til yfirborðs án þess að hægja á sér í skorpunni og breytast að ráði við kvikublöndun, uppbræðslu eða hlutkristöllun. Einkum gæti þetta átt við pikríthraunin og stærstu dyngjurnar, Sandfellshæð og Þráinsskjöld.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Pikríthraunin eða pikrítdyngjurnar eru eldri en ólivínbasaltdyngjurnar, þar sem afstaðan til þeirra sést. Elstu pikrítdyngjurnar eru samkvæmt því um og yfir 14.000 ára. Þær eru litlar, mega kallast ördyngjur, nema þrjár eða fjórar smádyngjur: Háleyjabunga, Lágafell, Vatnsheiði og Dimmadalshæð. Efnismagn í þeim er líklega innan við 0,1 rúmkílómetri. Pikríthraun eru ekki þekkt í Krýsuvíkurkerfinu.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – einn gíganna.

Næst eftir pikrítgosin fylgdu tvö stór dyngjugos. Þá hlóðust Sandfellshæð og Þráinsskjöldur upp, auk nafnlausrar dyngju norðan við Hraunsels-Vatnsfell. Aðrar níu dyngjur dreifast á allan eftirjökulstímann (sjá töflu). Tvær af þeim eru af óvissum aldri, Selvogsheiði og Heiðin há, en eru þó meira en 7500 ára. Þær eru báðar í flokki stórdyngna, meira en einn rúmkílómetri. Næstu sjö dreifast á nokkur þúsund ára tímabil. Sú elsta þeirra er um 7000 ára, en sú yngsta, Stóribolli, líklega um 2500 ára.

Dyngjur

Dyngjurnar á Reykjanesskaga.

Auk þeirra dyngna sem hér hafa verið taldar upp og sýndar eru í töflunni, má nefna að Breiðdalshraun, sem líklega er frá tíundu öld, ber einkenni dyngju, en það er beltótt helluhraun og ólivínríkt, að minnsta kosti sú álman sem liggur frá gígnum norður í Breiðdal. Allar dyngjurnar nema þrjár þær elstu og Hrútagjárdyngjan eru í Brennisteinsfjallakerfi. Ekki verður séð hvort dyngjugosin fylgi gosskeiðum sprunguhraunanna í tíma, til þess vantar fleiri og nákvæmari aldursgreiningar. Flestar yngri dyngjurnar eru tímasettar með hjálp öskulaga.”

Tilvísanir:
-Rowland, S. K. og G. P. L. Walker, 1990. Pahoehoe and aa in Hawaii: volumetric flow rate controls the lava structure. Bulletin of Volcanology, 52, 615-628.
-M.A.M. Gee, R.N. Taylor, M.F. Thirlwall og B.J. Murton, 1998. Glacioisostacy controls chemical and isotopic characteristics of tholeiites from the Reykjanes Peninsula, SW-Iceland. Earth and Planetary Science Letters, 164, 1-5.
-Árni Hjartarson, 2007. Ölfus – Selvogur. Jarðfræðikort 1:25.000, jarðlagalýsing, myndun og mótun lands. ÍSOR-2007/063. Íslenskar orkurannsóknir, Reykjavík.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81329#
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur og fyrrverandi deildarstjóri á Orkustofnun.
Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – hraunið er varð undirstaða Hraunabæjanna.

Vörðufellsborgir

Á Vísindavef Háskóla Íslands var spurt um; “Hvað getið þið sagt mér um Brennisteinsfjöll?“. Svar Kristjáns Sæmundssonar, jarðfræðings og fyrrverandi deildarstjóra á Orkustofnun, og Magnúsar Á. Sigurgeirssonar, jarðfræðings, var:

Kristján Sæmundsson.

Kristján Sæmundsson.

“Ein megingosrein þessa kerfis liggur um Brennisteinsfjöll og kallast Brennisteinsfjallarein. Hún er með suðvestur-norðaustur stefnu og um 45 kílómetra löng, sjá mynd 1. Gosstöðvar ná yfir syðstu 33 kílómetrana. Suðurmörk reinarinnar eru við Geitahlíð, um tvo kílómetra frá sjó, og norðurmörkin norður undir Borgarhólum á Mosfellsheiði. Önnur megingosrein kerfisins liggur um Bláfjöll. Eftir ísöld hefur gosið á henni báðum megin við fjöllin.
Vestan þeirra eru gossprungur frá Svartahrygg í suðri að Vífilsfellshlíð í norðri. Önnur stutt gosrein er um 1,5 kílómetrum austar, austan Bláfjalla. Þar eru upptakagígar Heiðarinnar há, Leitahrauns og Kristnitökuhrauns. Öll gos á eftirjökultíma hafa verið hraungos, engin merki eru um að gosið hafi í sjó við suðurenda kerfisins. Jarðhitamerki á yfirborði eru ljósar ummyndunarskellur á mjóu belti frá Grindaskörðum langleiðis suðvestur að Kistufelli. Hiti er aðeins á smáblettum um 1,5 kílómetrum norðaustan við Fellið.

Magnús Á. Sigurgeirson

Magnús Á. Sigurgeirsson.

Segja má að gossaga Brennisteinsfjallakerfisins sé fremur lítið þekkt frá forsögulegum tíma, það er frá því áður en landnámslagið myndaðist um 870. Jón Jónsson kortlagði gosmyndanir í Brennisteinsfjallakerfinu fyrstur manna. Þar má meðal annars sjá innbyrðis aldursafstöðu hrauna. Síðan þá hefur nyrsti hluti kerfisins verið kortlagður að hluta.
Á árunum 1993 og 1995 könnuðu Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson afstöðu hrauna til öskulaga, einkum við jarðhitasvæðið og í nágrenni þess. Kom þá í ljós að öskulög yngri en 4500 ára eru allvel varðveitt, og reyndist unnt að skipta hraunum í nokkra aldurshópa á grundvelli þess. Nákvæmni þessarar aðferðar er ekki mikil, en hún gefur þó gróft mat. Kristján Sæmundsson kannaði aldur hrauna við Þríhnúka með hliðsjón af þekktum öskulögum. Sumarið 2009 könnuðu höfundar nánar aldur ýmissa hrauna í Brennisteinsfjallakerfinu, einkum dyngjuhrauna.

Forsöguleg hraun

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – herforingjaráðskort 1903.

Óvissa ríkir um aldur forsögulegra hrauna í Brennisteinsfjöllum, einkum þeirra sem eru eldri en 4500 ára (það er eldri en Heklulagið H4). Um aldur yngri hrauna má fara nokkru nær með hjálp öskulaga. Nýverið hefur komið í ljós að tvö hraun, Vörðufellsborgahraun og Hvammahraun, urðu til stuttu áður en landnámslagið féll. Fyrir um 2000-2500 árum runnu Stórabollahraun, Kálfadalahraun, Hellnahraun eldra og ef til vill eitt Hólmshrauna í Heiðmörk. Litla-Eldborg undir Geitahlíð hefur líkast til gosið fyrir um 3500 árum. Hraun eldri en 4500 ára gömul eru meðal annars hraun frá Stóru-Eldborg undir Geitahlíð, Kistufellshraun, Þríhnúkahraunin bæði, Strompahraun og hraundyngjan Heiðin há.

Heiðin há

Í Heiðinni há.

Kolaðar gróðurleifar undan einu hrauni hafa verið aldursgreindar, það er Leitahrauni, sem á upptök á austustu gosrein kerfisins, í Leitum. Benda þær til að það sé um 4600 kolefnisára gamalt, sem samsvarar um 5200 raunárum. Þrátt fyrir gloppótta gossögu Brennisteinsfjallakerfisins er ljóst að hraun þar spanna eftirjökultímann í aldri. Telja má víst að sprunguhraun séu að minnsta kosti 30 frá þessum tíma, en vafalítið mynduð í mun færri „eldum“.

Hraun frá sögulegum tíma

Jarðfræði

Reykjanesskagi – jarðfræðikort.

Allmörg hraun frá sögulegum tíma eiga upptök í Brennisteinsfjallakerfinu. Er samanlagt flatarmál þeirra um 95 ferkílómetrar. Þau eru Selvogshraun, Kistuhraun, Tvíbollahraun, Kóngsfellshraun (Húsfellsbruni), Hellnahraun yngra, Breiðdalshraun, Svartihryggur og Kristnitökuhraunið. Öll hafa þessi hraun runnið yfir jarðveg sem geymir landnámslagið. Ofan á flestum þeirra er varðveitt miðaldalagið frá 1226.
Gróðurleifar undan Breiðdalshrauni og Tvíbollahrauni hafa verið aldursgreindar og gefa 1040±75 kolefnisár fyrir fyrrnefnda hraunið, og 1075±60 kolefnisár fyrir hið síðara.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – loftmynd,

Sé tekið tillit til skekkjumarka greininganna gætu hraunin verið frá 10.-11. öld. Kristnitökuhraunið hefur verið tengt frásögnum ritaðra heimilda og er talið runnið um árið 1000. Öll ofangreind hraun eru talin hafa runnið í sömu eldunum, stundum nefndir Kristnitökueldar.
Rennslisleiðir hrauna
Ólíkt öðrum eldstöðvakerum á Reykjanesskaga liggur megingosrein Brennisteinsfjallakerfisins um 400-500 metra háan fjallabálk.

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

Hraun hafa runnið á ýmsum tímum ofan af Brennisteinsfjöllum og Lönguhlíð til norðurs, suðurs og vesturs. Mörg hraun hafa flætt niður brekkurnar austan Geitahlíðar og um skörð í Herdísarvíkurfjalli, ofan í Selvog og Herdísarvík. Einnig hafa hraun runnið um fjallaskörð vestur af Brennisteinsfjöllum, niður af Kleifarvatni og í Breiðdal.

Hraun sem komið hafa upp við Grindaskörð, hafa streymt til norðurs niður á láglendið norðan Lönguhlíðar, í sumum tilvikum allt til sjávar sunnan við Hafnarfjörð.

Stóribolli

Stóribolli – gígurinn.

Hraun frá nyrsta hluta gosreinarinnar, við Kóngsfell, hafa runnið niður í Heiðmörk. Hraun frá austustu gosreininni, það er Leitahraun, fór annars vegar til vesturs yfir Sandskeið, í Lækjarbotna, Elliðavatn og farveg Elliðaáa til sjávar í Elliðavogi, og hins vegar til austurs niður í Ölfus. Eins og þessi upptalning ber með sér, eru rennslisleiðir hrauna frá Brennisteinsfjöllum fjölmargar og ljóst að erfitt verður að spá fyrir um leiðir þeirra ofan úr fjöllunum. Í því sambandi skiptir lega gosstöðvanna mestu.

Draugahlíðagígur

Draugahlíðagígur (Bláfeldur). Gígurinn arfleifði komandi tíma um taumana frá Brennisteinsfjöllum niður í Selvog.

Vert er að nefna að á síðasta gosskeiði í Brennisteinsfjallakerfinu, á tíundu öld, runnu hraun á fjórum stöðum niður fjallabálkinn, og þar að auki gaus austan við Bláfjöll (Kristnitökuhraun).”

Tilvísanir:
-Karl Grönvold og fleiri, 1995. Ash layers from Iceland in the Greenland GRIP ice core correlated with oceanic and land based sediments. Earth and Planetary Science Letters, 135, 149-155.
-Jón Jónsson, 1978b. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga (1:25 000). OS-JHD-7831. Orkustofnun, Reykjavík.
-Helgi Torfason og fleiri, 1999. Berggrunnskort: Vífilsfell. 1613 III SA-B. Landmælingar Íslands, Orkustofnun, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Kópavogsbær, Mosfellsbær, Seltjarnarnesbær og Reykjavíkurborg.
-Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson, 2001. Brennisteinsfjöll. Rannsóknir á jarðfræði svæðisins. OS-2001/048. Orkustofnun, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 2006. Þríhnúkagígur. Jarðfræðirannsóknir og tillögur vegna gangagerðar. ÍSOR-06144. Íslenskar orkurannsóknir, Reykjavík.
-Magnús Á. Sigurgeirsson og Kristján Sæmundsson, 2010. Eldgos á Reykjanesskaga á 8.-9. öld. Haustráðstefna Jarðfræðafélags Íslands 2010. Ágrip erinda. Jarðfræðafélag Íslands, Reykjavík, 49-52.
-Jón Jónsson, 1971. Hraun í nágrenni Reykjavíkur. I Leitahraun. Náttúrufræðingurinn, 41, 49-63.
-Jón Jónsson, 1983a. Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Náttúrufræðingurinn, 52, 127-139.
Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson, 2001. Brennisteinsfjöll. Rannsóknir á jarðfræði svæðisins. OS-2001/048. Orkustofnun, Reykjavík.
-Jón Jónsson, 1983a. Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Náttúrufræðingurinn, 52, 127-139.
-Jón Jónsson, 1979. Kristnitökuhraunið. Náttúrufræðingurinn, 49, 46-50.
Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun um Reykjanesskaga í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi. Myndir eru fengnar úr sama riti, bls. 387-389.

Heimild: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=65696
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur og fyrrverandi deildarstjóri á Orkustofnun.
-Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun 1151.

 

Reykjanes

Gengið var um suðvestanvert Bæjarfellið sunnan Vatnsfells á Reykjanesi og litið í fallegan brunn er hlaðinn er úr “betons”grjóti upp á dönsku.

Skálafell

Áletrun við Skálabarmshelli.

Hann er sérstakur að því leyti að gengið er inn í hann til að sækja vatn, en ekki bara horft ofan í vatnsaugað eins og algengara var. Segja má að þessi brunnur hafi verið forveri fölmargra annarra er á eftir komu víðar um Reykjanesskagann. Brunnurinn var byggður á sama tíma og (gamla) vitavarðarhúsið, þ.e. þegar fyrsti vitinn hér á landi var reistur á Valahnúk (1879). Næstu brunnar voru grafnir og hlaðnir við helstu kirkjustaðina og síðan við hvern bæinn á eftir öðrum. Flesta þeirra má sjá enn þann dag í dag. Þeir voru reyndar sumir fylltir eða fyrirbyggðir eftir miðja 20. öldina þegar vatnsleiðslur höfðu verið lagðar í hús svæðisfólksins, en enn má berja marga þeirra augum.

Reykjanes

Reykjanes – brunnur.

Tóftir fyrrum útihúsa fyrrum vitavarðar á ystu mörkum Reykjanessins eru skammt frá brunninum. Vitinn sjálfur var hlaðinn úr tilhöggnu grjóti þarna skammt frá, sem dregið var upp á Valahnúk og raðað þar vandlega saman eftir fínni teikningu. Mannvirkið átti að standa um aldur og ævi, en 8 eða 9 árum seinna gerði mikla jarðskjálfta og mynduðust þá þrjár stórar sprungur í bergið skammt frá honum. Bær vitavarðarins skemmdist í jarðskjálftunum og enn meira rask varð á jörðu og öðrum mannvirkjum. Var annar viti byggður á Vatnsfelli (Grasfelli), síðar nefnt Bæjarfell, þar sem hann er nú, á árunum 1907-1908.

Reykjanes

Reykjanesviti á Vatnsfelli.

Skammt undan landi trónar 52 m hár móbergsdrangur úr sjó. Heitir sá Karl. Sjá má þverhnípta klettaeyju (77 m.y.s.) 8 sjómílur utan af Reykjanesi. Eldey er mynduð úr móbergi og er 0,03 km2. Hún er innsta skerið í skerjaklasa miklum. Annað sker, Geirfuglasker, er skammt undan. Þar voru síðustu höfuðstöðvar geirfuglsins, Sothbysuppboðsvæna, en skerið sökk að mestu í eldsumbrotunum 1830. Í Eldey er mesta súlubyggð sem þekkist í heiminum og er eyjan jafnan þakin súlum. Súludans er þar algengur, einkum fyrir varptímann. Við talningu, sem gerð var 1949, var fjöldi súlna þar talin um 70 þúsund.

Reykjanesviti

Flóruð gata milli vitavarðarhússins og Valahnúks, áleiðis að gamla vitanum.

Fuglinn hefur hins vegar ekki verið talinn þar á síðari árum, a.m.k. ekki fugl fyrir fugl. Drangarnir voru baðaðir sól.

Gengið var eftir flóraðri “vitagötunni” að Valahnúk. Undir honum má sjá leifar af vitanum, fast við grjóthlaðið hesthús. Gengið var á Valahnúk, skoðað gerðið, sem áður stóð neðan og til hliðar við gamla vitann. Gott útsýni yfir umhverfið (tækifærið notað og uppdráttur gerður af svæðinu). Hægur andvari var og 8 gráðu hiti. Gengið með austanverðum Valahnúk og litið upp í draugahellir þann er svo rammlega er fjallað um í Rauðskinnu. Þeir, sem þar gistu að næturlagi eftir rekasögun, eru sagðir aldrei hafa orðið samir á eftir – sjá meira HÉR.
Frá hellinum var gengið austur yfir að gamalli volgrusundlaug Grindvíkinga í Valbjargargjá (Saga Grindavíkur). Elstu núlifandi grindjánar (innfæddir) lærðu sína sundfimi í þessari laug – syntu bakka á millum. Hún er hlaðin utan um vermslagjá og þótti allvelboðleg á þeim tíma. Laugin er innan túngarðs.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Lagt var á misgengið eftir að hafa litið á hlaðið skjól refaskyttu neðan við Keldutjarnir. Olíuskipið Clam strandaði undan ströndinni skammt austan við hamravegginn 28. febr. 1950, á stað, sem nefndur var Kirkjuvogsbás (Suður með sjó – leiðsögn um Suðurnes). Það var um tíu þúsund smálesta olíuskip með 54 manna áhöfn. Tuttugu og sjö úr áhöfninni, bretar og kínverjar, drukknuðu, en öðrum var bjargað.
Gengið var austur með ströndinni að Blásíðubás. Básinn er í senn bæði falleg og hrikaleg Ægissmíð (sjá mynd í Grindavíkurbókinni). Í fárvirði 24. mars 1916 hleypti Einar Einarsson frá Merki í Staðarhverfi, þar upp skipi sínu. Áhöfnin, 11 manns, bjargaðist, en skipið brotnaði í spón. Oftar mun básinn hafa bjargað sjómönnum í vanda.

Reykjanes

Reykjanesviti á Reykjanesi. Bæjarfell t.v., Vatnsfell t.h. og Valahnúkar framundan. Eldey við sjóndeildarhringinn.

Áð var við vitann (byggður 1970 – áletrun), sem þar er á bjargbrúninni. Skammt austan við hann er fallegur gatklettur undan bjarginu.

Allt er svæðið þarna mjög eldbrunnið og sundurskorið af gjám, enda snautt að gróðri, nema ef vera skyldi ofanvert Krossavíkur- og Hrafnkelsstaðabergið (borgin). Gamlar sagnir segja frá byggð þar fyrrum, en lítið hefur fundist af minjum. Ætlunin var að nota tækifærið og gaumgæfa það vel að þessu sinni, en engar slíkar fundust. Hins vegar fundust þrjú merkt greni (vörður).

Reykjanes

Reykjanes – Skálafell.

Eldfjöll eru þarna mörg, en öll fremur lág. Þau eru einkum hraundyngjur, s.s. Skálafellið og Háleyjarbungan. Komið var við á hinu fyrrnefna og lóðrétt hellisopið var barið augum (BH-Hraunhellar á Íslandi). Á klöpp nálægt opinu er gömul áletrun í berginu (?RELDA). Forvitnilegt væri að grennslast meira fyrir um þetta.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Á Reykjanestánni er mikið hverasvæði, leirhverir og vatnshverir. Allt er landið þar sundurtætt af jarðeldum, gígum, leirpyttum, gufuhverum o.fl. Stærsti leirhverinn heitir Gunna. Um þann hver er til sú þjóðsaga að kona ein, sem Guðrún hét, hafi gengið aftur. Lék hún menn grátt, reið húsum og fældi fénað. Loks var galdraprestur nokkur fenginn til koma draugnum fyrir og gerði hann það í hver, sem síðan var nefnd Gunna. Við hverasvæðið eru gamlar minjar búsetu og byggðar. Þar er einnig mikið kríuvarp, en fuglinn sá kemur ekki á varpstað fyrr en líða tekur á þriðjungsbyrjun maímánaðar.

Gangan tók 1 og 1/2 klst. Frábært veður.

Reykjanesviti

Skjöldur konungs á Reykjanesvita.

Reykjanes
Sagt er að náttúran á Reykjanesi sé engu lík.
Reykjaneshryggurinn er kannski ekki þekktasta náttúruparadís Íslands en þar er hins vegar náttúran óviðjafnanleg. Reykjanesfjallgarðurinn í öllu sínu veldi með fjöll eins og Keilir, tignarlegt fjall í miðju hrauni, þar sem umhverfið milli fjallanna minnir helst á tunglið. Umhverfið er gráleitt og þar er gamalt mosavaxið hraunið í samspili við græn engi.

Stampar

Stampar – gígur.

Sandvík og svæðið þar í kring er skemmtilegt útivistarsvæði fyrir vini og vandamenn að koma saman og njóta náttúrufegurðar í góðu veðri. Þar er flott strönd þar sem m.a. er hægt að fara í strandblak og fleiri strandleiki ásamt ýmsu öðru.
Hafnarbergið er mjög tignarlegt og þar er fjölskrúðugt fuglalífið í miklum blóma í hrauninu og klettunum. Þar er einn besti fuglaskoðunarstaður á suð/vestur horninu og þar er stutt 40m gönguleið sem orðin er mjög vinsæl hjá göngufólki.
Ýmis hverasvæði eru á Reykjanesinu, s.s. Gunnuhver.

Skálafell

Gígur Skálafells – flugmynd.

Á Reykjanesvitasvæðinu eru ýmsar merktar gönguleiðir út á Reykjanestá og að Skálafelli og einnig frá Valarhnúk út á Önglabrjótsnef þar sem hægt er að fara í stuttar gönguferðir í fallegri og skemmtilegri náttúru en þess má geta að á Reykjanesinu er mikið um merktar gönguleiðir s.s. Prestastígur, Skipsstígur og Skógfellavegur sem eru mjög vinsælar leiðir.
Á Stafnesinu, frá Hvalnesi að Básendum sem er forn verslunarstaður frá tímum einokunarverslunar, má sjá rústir af húsum og festingar polla sem festir hafa verið í klappirnar þar sem verslunarskipin voru bundin.

Reykjanes

Reykjanes – uppdráttur ÓSÁ.

Bergið í Reykjanesbæ er einnig dæmi um fallegt útivistarsvæði og í góðu veðri er þaðan ómótstæðilegt útsýni til fjalla höfuðborgarsvæðisins.

Gunnuhver

Reykjanes – Gunnuhver.

Þetta eru bara lítil dæmi um náttúrufegurð Reykjaness og væri hægt að telja upp endalaust af stöðum, s.s. Bláa-lónið, Garðskaga þar sem er fjara með hvítum sandi og einnig mætti nefna Þórkötlustaðanes í Grindavík og Þorbjörn frá fjallinu sést vítt yfir vestanverðan Reykjanesskaga og jafnvel víðar.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Viðeyjarborg

Í nokkrum FERLIRslýsingum er vitnað til umráða og yfiráða Viðeyjarklausturs á jörðum á Reykjanesskaganum. Til frekari fróðleiks og samhengis verður hér fjallað um upphaf Viðeyjarklausturs og umsvifa þess.

Viðey

Klaustrið á Viðey, sem var starfrækt milli 1226 og 1550, var af Ágústínusarreglu. Allavega mestmegnis. Ágústínusarreglan kennir sig við Ágústínus frá Hippó (354-430) en hann var einn kirkjufeðranna. Bréfið sem reglan sækir fyrirmynd sína í er mjög almennt og því mikill sveigjanleiki í túlkun. Hinsvegar, árið 1344, var Ágústínusarreglan afnumin og Benediktsreglu komið á. Sú regla kennir sig við Benedikt frá Núrsíu og er ein stærsta og fjölmennasta klausturregla í kaþólskum sið. Hún entist þó ekki og var Ágústínusarreglu aftur komið á 8 árum síðar. Nokkur Benediktsklaustur voru á Íslandi, eins og til dæmis Þingeyrarklaustur, Munkaþverárklaustur og nunnuklaustrið á Kirkjubæ.

“Klaustrið hefur trúlega verið sett á messudegi heilags Ágústínusar, 28. Ágúst 1225, en máldagi þess hefur svo sennilega verið kynntur á næsta Alþingi, sem ekki var fyrr en sumarið 1226. Þá var Snorri lögsögumaður og hefur því væntanlega lesið máldagann upp til þinglýsingar. Þorvaldur Gissurarson frá Haukadal var þar fyrst forstöðumaður án titils, en fyrsti spríor er Styrmir Kárason hinn fróði, lögsögumaður og mikill sagnamaður.

Magnús Gissurarson var biskup í Skálholti árin 1216-37. Af bréfi, sem hann ritaði bændum og prestum í Kjalarnesþingi árið 1226 um gjafir til hins nýstofnaða Viðeyjarklausturs, má ráða, að þeim höfðingjum Sunnlendinga hefur þótt það nokkur niðurlæging fyrir fjórðung sinn, að þar skyldi ekkert klaustur vera. Verður að telja víst, að oft hafi verið um þetta rætt. Ekki eru kunnar aðrar ástæður klausturstofnunarinnar en þær, sem Magnús biskup nefnir í bréfi sínu.
ViðeyFleira gæti þó hafa komið til. Á slíkum stað reis jafnan upp andleg miðstöð, sem hlaut að efla trúarlíf á svæðinu. Meinlæta- og kausturstefna var hið algenga svar kirkjunnar, þegar veraldarhyggjan varð of mikils ráðandi í hugum manna. Á síðustu áratugum 12. aldar höfðu íslenskum veraldarhöfðingjum og biskupum borist ítreklaðar áminningar frá erkibiskupi, sem og páfaboðskapur, þar sem höfðingjar voru alvarlega gagnrýndir fyrir siðlaust líferni. Þeir voru sagðir “lifa búfjárlífi” og ásakaðir fyrir margvísleg brot á kirkjuaga.
Meðal þeirra, sem þar voru nefndir, voru Jón Loftsson í Odda og Gissur Hallsson í Haukadal. Klausturstofnun í Viðey gæti verið eðlileg afleiðing þeirrar umræðu.
ViðeyjarstofaAllnokkrir fjármunir fóru út úr landsfjórðungnum í áheitum, sálugjöfum og fleiru, meðan menn gátu ekki leitað þörf sinni farvegar í þeim efnum í heimabyggð. Þá hefur höfðingjum litist það góður kostur að eiga á því möguleika á efri árum að “setjast í helgan stein” með hægu lífshlaupi. Um þessar mundir lögðust af skólarnir í Odda og Haukadal og gæti það einnig hafa verið hvati til klaustursstofnunarinnar.
Þorvaldur fékk sjálfdæmi eftir dráp sonar hans, Björns, á hendur Kolskeggi hinum auðga undir Eyjafjöllum, sem þá var talinn ríkastur manna á Íslandi. Fór hann eftir hinum stærstu gerðum, sem höfðu verið hér á landi. Kolskeggur andaðist 1223, áður en kom til þess að Þorvaldur fengi fébætur. Þorvaldur varð þá fjárhaldsmaður tengdardóttur sinnar, Hallveigar, sem var eini erfingi Kolskeggs, en hann var barnlaus.

ViðeyÞegar Snorri Sturluson hafði sagt sagt skilið við Herdísi Bersadóttur á Borg, kom hann suður um heiðar þeirra erinda að biðja Hallveigar sér til handa. Hét Þorvaldur honum liðsinni við kvonbænirnar og fékk á móti af fé Kolskeggs, sem hann þurfti til klausturstofnunar. Var þetta árið 1224. Keypti Þorvaldur þá Viðey og var þar efnt til klausturs. Vinátta þeirra Snorra og Þorvalds voru tryggð með því að Gissur, sonur Þorvalds, skyldi fá Ingibjargar, dóttur Snorra. Nefndur Gissur stóð síðar yfir höfuðsvörðum Snorra, þá fyrrum tengdarföður síns.
Þorvaldur virðist hafa verið fljótur að tengja saman sonarminninguna og stofnun heilags klausturs. Sú hugmynd var og þekkt á hans tíð að minnast látinna að andlegum leiðum.

Viðey

Viðeyjaklaustur – uppgröftur.

Hvað sem framangreindum ástæðum líður má segja að stofnun Viðeyjarklausturs hafi verið dýrmæt með tilliti til framtíðar íslenskrar menningar.”
Sturla Þórðarson segir, að Viðeyjarklaustru hafi verið sett að vetri en þeir Þorvaldur og Snorri gerðu samkomulag sitt 1225. Bæði annálar og saga Guðmundar biskups hins elsta telja, að Viðeyjarklaustur hafi verið sett 1226 og til þess árs er talinn máldagi klaustursins. Við það ár hafa sagnfræðingar miðað.

Viðey

Fornleifarannsóknir sýna að byggð var hafin í Viðey á 10. öld en árið 1225 var stofnað þar klaustur af reglu heilags Ágústínusar. Í meira en 300 ár var Viðeyjarklaustur mesta helgisetur í Sunnlendingafjórðungi af Skálholti frátöldu. Alþjóðleg hefð er fyrir því að klausturbyggingar myndi umgerð um klausturgarð. Túlka má rannsóknir á svæðinu á þann veg. Byggingar merktar A, B og C hafa verið grafnar upp og sýna langhús (stofu, skála og búr). Þar austur af er sennilega smiðjukofi (D). Aftur af langhúsinu eru lítið rannsökuð bakhús. Kirkjan (E) er tilgátuhús en fyrir myndir eru sóttar í kirkjur á Þingeyrum og á biskupsstólunum. Jarðsjármælingar sýna að fyrir framan Viðeyjarstofu og kirkju hafi verið byggingar, trúlega sjálf klausturhúsin (F), þau eru einnig tilgátuhús.

Snorri Sturluson átti bú beggja megin Viðeyjar, á Bessastöðum og á Brautarholti á Kjalarnesi. Hann dvaldi oft á Bessastöðum, en vitað er að hann dvaldi einnig í Viðey.
Áhrif Viðeyjarklausturs urðu mikil vegna aðstöðu þess og ríkidæmis. Eignaðist klaustrið m.a. flestar sjávarjarðir á norðanverðum Reykjanesskaganum mót jörðum Skálholtsbiskupsstólsins á honum sunnanverðum.

Viðey

Viðeyjarklaustur – tilgáta.

Í klaustrinu var ágætur bókakostur og voru þar iðkuð klausturleg fræði og skrifaðar bækur. Á síðmiðöldum, a.m.k., er líklegt að straumur pílagríma hafi legið til Viðeyjarklausturs á helstu hátíðisdögum kirkjuársins.
Eftir að siðbreyting gekk í garð í Danmörku tók Diðrik af Minden, umboðsmaður hirðstjóra konungs á Íslandi, Viðeyjarklaustur á hvítasunnudag 1539. Menn hans létu greipar sópa og misþyrmdu munkunum og lýstu eigur þess konungseign.

Jón Arason

Minnismerki um Jón Arason og syni hans í Skálholti.

Jón Arason, Hólabiskup, síðasti katólski biskup landsins, fór í herför suður og lagði m.a. Viðey undir sig, endurreisti klaustrið og lét byggja virki í kringum það. Eftir að siðbreytingin gekk endanlega í garð á Íslandi 1550 var klausturlíf í Viðey lagt af og jarðeignir klaustursins komust í eigu konungs.
Að honum látnum sama ár varð siðbótinni komið á um allt land og klausturlíf var endanlega lagt niður. Viðey varð að annexíu frá Bessastöðum og síðar aðsetur Skúla Magnússonar, landfógeta, sem lét byggja Viðeyjarstofu.

Viðeyjarstofa

Viðeyjarstofa er stórt, gamalt steinhús í Viðey á Kollafirði. Hún er elsta hús Reykjavíkur og jafnframt elsta steinhús Íslands, byggð á árunum 1753-1755 sem embættisbústaður fyrir Skúla Magnússon landfógeta.[1] Upphaflega átti húsið einnig að vera bústaður stiftamtmanns en af því varð þó ekki. Arkitekt Viðeyjarstofu var Daninn Nicolai Eigtved, sem meðal annars teiknaði Amalienborg í Kaupmannahöfn. Við hlið hússins stendur Viðeyjarkirkja, sem Skúli lét reisa nokkrum árum síðar.

Viðeyjarstofa er fyrsta steinhús landsins og var fullbyggð árið 1755.
Kirkjan var vígð árið 1774 og er hin næstelzta landsins, sem enn stendur.

Heimild m.a.:
-Erindi flutt í viðey á 750. ártíð Snorra Sturlusonar 23. sept. 1991 (Þórir Stephensen) – Lesbók MBL 17. desember 1991.

Viðey

Margar búræktunartilraunir hafa verið gerðar í Viðey. Ein þeirra átti sér stað sumarið 1861. Þá fékk August Thomsen nokkra héra með gufuskipi frá Færeyjum, og hleypti þeim lausum í Viðey. Héragreyin voru upphaflega frá Noregi en voru fluttir til Færeyja til manneldis þar sem það hafði gefist vel. Sú var ekki raunin hér á Íslandi. Í raun virðist sem nær ekkert hafi getað þrifist á eyjunni sem var flutt þangað, fyrir utan kúmen og gras. Virðist sem allar aðrar tilraunir hafi farið fyrir bý.

Hvaleyrarsel

Gönguleiðin um og í kringum Hvaleyrarvatn er tiltölulega greiðfær. Lagt er af stað frá bifreiðastæðinu syðst á Vatnshlíðinni, ofan brekkunnar norðan við Hvaleyrarvatn, gengið veginn niður að vatninu og inn á göngustíg til vinstri er liggur austan og sunnan þess. Þá er athafnasvæði Skógræktar Hafnarfjarðar og Húshöfði á vinstri hönd. Framundan er skáli Gildis-skáta, en sunnanvert við vatnið, hægra megin við stíginn, eru tóttir af seli, Hvaleyrarseli.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – minjar (ÓSÁ).

Um Hvaleyrarsel segir eftirfarandi í samantekt Gísla Sigurðssonar um Líf og þjóðhætti í Hafnarfirði: “Selstöð átti Hvaleyri við Hvaleyrarvatn og þar höfðu bændurnir haft í seli frá fornu fari. Sér enn tættur seljanna við sunnanvert vatnið. Þau hjón Jón [Magnússon] og Þórunn [Sigurðardóttir (bjó á Hvaleyri 1866-1868 og í Gestshúsum1869-1973] héldu uppteknum hætti Hvaleyrarbænda og höfðu í seli á sumrum við Hvaleyrarvatn. Höfðu þau þar jafnan selsstúlku og smala.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Annaðist selstúlkan mjaltir á málum og matargerð úr mjólkinni auk matargerðar fyrir þau og þjónustubrögð. En smalinn hélt fé í haga og annaðist heimflutning selsafurða. Nú bar svo til kvöld nokkurt, að er smalinn kemur á stöðul, lætur selstúlkan ekki sjá sig. Smalinn kvíar því ánum einn. Gengur síðan heim í sel að skyggnast eftir stúlkunni og finnur hana hvergi. Gengur því heiman frá seli og niður að vatni og vestur með því. Ekki hafði hann lengi gengið, er hann finnur stúlkuna rétt við vatnsbakkann heldur illa útlítandi. Var hún rifin á hol, eins og eftir óargadýr og traðk mikið þar í kring eftir hringmyndaða hófa stóra. Þóttist smalinn vita hvað valdið hafði dauða selstúlkunnar, því sögur hafði hann heyrt um að nykur væri í Hvaleyrarvatni og væri annað árið þar og hitt í Urriðakotsvatni. Smalinn varð flemtri sleginn og tók á rás heim til bæjar á Hvaleyri. Var brugðið við skjótt og lík selstúlkunnar sótt og það jarðsett að Görðum. Uppfrá þessu lögðust niður selfarir við Hvaleyrarvatn. En oft mátti sjá grábleikan hest á beit í Seljahrauninu eftir þetta. þau urðu endalok nykursins, að hann fraus í hel frostaveturinn mikla 1918”.

Hvaleyrarvatn

Stekkur á Selshöfða.

Auðvelt er að finna gömul sel á hraunsvæðum með því að svipast um eftir kennileitum. Þau voru oft við brunna, ár eða læki – og í nágrenninu er yfirleitt að finna kví, stekk, nátthaga og/eða náttskjól, auk graslendis umhverfis.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn um 1960 – Skátalundur nýbbyggður. Mynd ÓKG.

Við stærri sel smá sjá grjótgarða og jafnvel fjárhella. Selshúsin voru yfirleitt tvískipt, annars vegar vistarvera og geymsla og hins vegar eldhús. Allnokkur sel eru í nágrenni Hafnarfjarðar, s.s. Fornasel, Gjásel, Straumssel, Óttarstaðarsel, Lónakotssel og vestar Hvassahraunssel, Knarrarnessel og Brunnastaðasel, auk seljanna í Sogagýg og á Selsvöllum, en þar voru sel frá bæjum í Grindavík. Í Þrengslunum sunnan Selsvalla er Hraunssel frá Hrauni við Grindavík. Í nágrenninu eru auk þess nokkrar fallegar fjárborgir, s.s. Hólmsborg, Þorbjarnarstaðarfjárborg, Óttarstaðarfjárborg og Staðarborg í Vogum.

Hvaleyrarvatn

Stekkur í Seldal.

Þegar komið er við vesturenda Hvaleyrarvatns er beygt suður götuslóða, sem þar er, í átt að Seldal. Á hægri hönd er Selhraun. Þegar horft er til norðvesturs má sjá hraunhól í lægðarsvæði, en í hólnum er op til vesturs. Þar var tófugreni s.l. sumar.

Hvaleyrarvatn

Tjaldað við vesturenda Hvaleyrarvatns fyrrum. Mynd; EJ.

Götuslóðanum er fylgt upp vesturöxlina á Selhöfða (á vinstri hönd) og Seldalurinn á milli hans og Stórhöfða blasir við. Vel má sjá hversu landið hefur blásið burt, en Skógrækt Hafnarfjarðar hefur plantað talsverðu af trjám með vegslóðanum inn dalinn. Úr Stórhöfða kom Stórhöfðahraun vestan og sunnan við höfðann. Þegar komið er upp á Langholtsásinn er Miðhöfði í austur og Fremstihöfði í suðaustur. Gengið er beint áfram, út af veginum, niður ásinn að sunnanverðu og áfram með hraunkantinum framundan að Kaldárseli. Á leiðinni er fallegur hraunskúti undir klettavegg á vinstri hönd. Áður en komið er að Kaldárseli er gengið að farvegi Kaldár þar sem hún sést hverfa niður í hraunið, en áin er u.þ.b. 1100 metra löng í venjulegu árferði frá upptökum sínum í Kaldárbotnum, vatnsbóli Hafnfirðinga. Í þurrkatíð styttist hún til muna.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Talið er að áin renni neðanjarðar þaðan sem hún hverfur niður í hraunið og komi undan Hvaleyrarhrauni í Hraunsvík austan Straumsvíkur. Hæðarmismunur á yfirborði Kaldárbotna og grunnvatnsins vestan við Kaldárhnúk er sem næst 20 m. Orsök þessa mismunar er misgengi er liggur eftir undirhlíðum og noðrur um Búrfell. Það hefur hindrað grunnvatnsstreymið, lokað leið þess vestur og þvingað vatnið upp á yfirborðið. Þegar langvarandi úrkoma hefur verið kemur vatnið líka upp á yfirborðið í Helgadal austan undir misgenginu, en eftir langvarandi þurrkatímabil hverfur Kaldá sjálf stundum alveg. Í Helgadal er talið að byggð hafi verið fyrrum.

Lambagjá

Vatnsleiðsluundirhleðsla yfir Lambagjá.

Þegar komið er að veginum er rétt að fylgja honum framhjá fjárréttinni og beygja þá til vinstri eftir gamla veginum að brekkunni. Áður en komið er að henni er beygt út af veginum til hægri, eftir Lambagjá. Gjáin er friðlýst. Í gjánni er komið að mikilli fyrirhleðslu þvert yfir hana. Þetta er hleðsla undir vatnsleiðslu, sem þarna lá áður fyrr. Fara þarf upp með hleðslunni, niður aftur hinum megin og fylgja gjánni. Á leiðinni er farið undir haft og upp hinum megin. Þegar komið er í enda þess hluta gjárinnar þarf að ganga upp úr henni, en enn ein sigdældin er handan hennar. Síðar verður fjallað um hella austar í hrauninu, en niðri í einum þeirra má auðveldlega sjá kristaltært bergvatnið við jaðar misgengisins, sem getið var um.

Hvaleyrarvatn

Sumarhús í Vatnshlíð um 1960.

Í austri má sjá Búrfell, Húsfell í suðaustri og Helgafell (338 m. yfir sjó) í suðri. Á milli fellanna eru Valahnjúkar.
Þegar þarna er komið er beygt til norðurs og gengið austur fyrir Klifsholtið með Smyrlabúðarhrauni. Þá er komið inn á gömlu Selvogsgötuna er var þjóðleiðin á milli Selvogs og Hafnarfjarðar. Hún er u.þ.b. 10 klst ganga frá upphafi til enda. Erfiðasti hluti leiðarinnar, en jafnframt sá fallegasti, er um Grindarskörðin (Kerlingaskarð). Um hana verður fjallað síðar.
Selvogsgötunni er fylgt til norðurs, með hraunkantinum, framhjá Smyrlabúð og niður að Hvatshelli og Ketshelli (Kershelli). Hlíðin framundan á hægri hönd heitir Setbergshlíð.

Hvatshellir

Hvatshellir – uppdráttur ÓSÁ.

Op Hvatshellis er í jarðfalli þegar halla fer undan og útsýni er yfir að hesthúsabyggðinni austan við Húshöfða. Fallega hlaðin varða stendur á barminum. Neðar má sjá graslendi er bendir til fjárhalds og þar í hraunhól er hellir (Ketshellir). Hann var notaður sem fjárból frá Setbergi meðan fjárbúskapur var rekinn þar og útbeit mest stundið. Ganga má í gegnum hellinn. Hleðslur er beggja vegna en auðveldlega er hægt að ganga þar í gegn ljóslaus. Hvatshellir er mun stærri. Á vetrum hanga bæði grýlukerti úr lofti og standa á gólfi hans. Í ljósadýrt getur verið mjög fallegt þar að líta.

(Sagnir eru um að Hvatshellir sé ofar, austar og norðar í hrauninu, og hafi tapast, en hann var áður samkomustaðar félagsskaparins Hvatar, en félagsmeðlimir eru sagðir hafa málað nafn hans gylltum stöfum á hvelfingu eða gólf hellisins, sbr. grein Ólafs Þorvaldssonar í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48).

Lokaáfanginn er skáhallt yfir hraunið til norðvesturs að Kaldárselsvegi. Sú leið er einnig tiltölulega greiðfær ef fylgt er grónum lægðum, sem þar liggja. Loks er hægt að ganga veginn að bifreiðastæðinu á Vatnshlíðinni.
Góða ferð.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Kaldársel

Gengið var um Kaldársel.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Borgarstandi.

Skoðað var gamla sel- og bæjarstæðið ofan við bakka Kaldár og síðan haldið yfir að Borgarstandi þar sem fjárborgin, stekkurinn og fjárskjólin voru skoðuð. Til hliðsjónar var höfð lýsing Ólafs Þorvaldssonar á aðstæðum í Kaldárseli.
Lengi vel mátti sjá veggi tóftanna í Kaldárseli, allt þangað til fólk fór að sækja í þá reglulegt grjótið og nota í annað. Húsaskipanina mátti rekja greinilega fram eftir 20. öld. Vandlega hlaðnir vegginir voru þegjandi vitni þess, að þar hefði fólk haft aðstöðu og búið endur fyrir löngu, stundum við misjafnar aðstæður.

Kaldársel

Kaldársel – sumarbúðir.

Kaldársel á sér ekki langa sögu sem fastur bústaður og saga þess er svipaður öðrum sögum smábýla á þeim tíma.  Bærinn stóð sem næst á miðjum túnbletti, örfáa metra norðan Kaldár.
Árið 1929 kom út í Reykjavík lítil bók með þremur kvæðum eftir séra Friðrik Friðriksson. Kver þetta nefnist “Útilegumenn”, og heitir annað aðalkvæðið “Kaldársel”. Friðrik var síðasti landnámsmaðurinn í Kaldárseli þar sem fyrir eru nú sumarbúðir KFUMogK. Kvæðið er svona:

”Eitt sinn ég kom
að Kaldárseli,
eyðistað
í ógna hrauni,
gömlu býli
og bæjarrústum:
einmana tóttir
eftir stóðu.

Reikaði ég einn
um rústir þessar, ríkti þar yfir
ró og friður,
unaðskyrrð djúp
við elfu niðinn
svölum gaf sál
og sæla gleði.”

Kaldársel

Kaldársel – stekkur.

Elstu heimild um Kaldársel er líklega að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í sambandi við lýsingu Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott”. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar og er augljóst að staðurinn hafi átt landið, eða allt þar til Hafnarfjarðarbær kaupir það árið 1912. Garðar höfðu einnig um tíma selstöðu í Selgjá og jafnvel neðst í Búrfellsgjá. Ummerki þess má sjá enn í dag.
Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju, ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er fátt heimilda um selfarir  Garðapresta við Kaldá.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellir.

Seltættur má finna í nágrenninu, s.s. í Helgadal. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar (skrifað 1968), en leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar eð elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í a.m.k. eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að fá leigt land eða skipta á hlunnindum undir sel sín hjá landríkari bændum, svo að einsdæmi hefði það ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.

Kaldársel

Kaldársel um 1930. Tóftir Kaldársels hægra megin við nýreist húsið.

Hvenær þessi selstöð hafi fyrst verið notuð frá Hvaleyri, er með öllu óljóst. Þegar litið er á bændatal Hvaleyrar um árið 1700 og það ástand, sem þar var í búskap manna, þegar jarðamat fór fram 1703, sést, að bændur hafa allir búið svo smátt, að varla er hugsanlegt, að selfarir hafi haft og síst svo langt í burtu sem í Kaldárseli, þar eð allgott selland og nóg vatn var helmingi nær Hvaleyri og auk þess í heimalandi, þar sem selstöðin var við Hvaleyrarvatn.

Kaldársel

Kaldársel – Gamla þjóðleiðin.

Vitað er að séra Markús Magnússon á Görðum lét byggja selstöðuna í Kaldárseli upp auk þess sem hann lét hlaða fyrir nálæg fjárskjól, hlaða fjárborgir o.fl. árið 1800 með það fyrir augum að viðhafa þar fjárhald allt árið um kring.
Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli er að hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri höfðu þar í seli. Jón keypti Hvaleyrina 1842. Hann mun hafa verið ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið Hvaleyri. Jón dó árið 1866. Bjó Þórunn eftir það á Hvaleyri til 1873. Þegar Þórunn dvaldist í “Selinu” á sumrin, sem var þó ekki nema við og við, fór hún stundum með orf sitt og hrífu upp með Kaldá og sló þar á hólmum, það sem slægt var, einnig smámýrarbletti milli kvíslanna í Kaldárbotnum. Þegar Þórunn á Hvaleyri hætti selförum að Kaldárseli, lagðist selstöð þar niður með öllu, og má ætla, eftir því sem síðar kemur fram, að það hafi verið 1865 eða 1866.

Kaldársel

Húsin í Kaldárseli 1898 – Daniel Bruun.

Í húsvitjnarbók Garðaprestakalls sést, að ábúandi er kominn í Kaldársel árið 1867, og er svo að sjá sem það sé fyrsta árið, sem fólk sé þar til ársdvalar. Þessi ábúandi var Jón Jónsson, kona hans og tvö börn. Þau munu hafa verið þar tvö eða þrjú ár. Fátæk voru hjón þessi og bústofn þeirra mjög lítill. Hjálparstelpa var hjá þeim, Sigríður Jónsdóttir frá Setbergi. Hún skrifaði m.a. um dvöl sína í selinu sem og skráði raunsanna huldufólkssögu er þar átti að hafa gerst. Jón flutti síðan með fjölskyldu sína að Ási. Við brottförina lagðist búskapur niður í Kaldárseli í nokkur ár.
Árið 1867 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir brottför Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. Þetta ár telur húsvitjunarbókin þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili og hefur þá bæst við vinnukona. Árið 1883 er Þorsteinn orðinn einn í Kaldárseli. Hann dó þar þremur árum seinna.

Steinhes

Kaldársel – Steinhes (Steinhús).

Þegar Þorsteinn fellur frá eru í Kaldárseli nokkrar byggingar og önnur mannvirki. Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergio mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma. – Danski höfuðsmaðurinn Daniel Bruun kom í Kaldársel árið 1897. Hann teiknaði upp húsakostinn og minjar í nágrenninu, auk þess sem hann tók ljósmyndir, sem birtust síðar í bók um ferðir hans. Lýsir Daniel allvel Kaldárseli og umhverfi þar. Hann segir m.a. um húsatætturnar, að “þær séu frábrugðnar flestum, ef ekki öllum þess konar byggingum hér á landi, þar sem þær séu byggðar úr grjóti einu saman”.

Kaldársel

Kaldársel um 1932. Tóftir Kaldársels uppfærðar  inn á ljósmyndina.

Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé og eitt eða tvö hross, kú mun hann aldrei hafa haft þar. Að mestu mun Þorsteinn hafa haft fullorðna féð á útigangi, þar eð heyfengur var þar lítill. Fjárhús með jötu við annan vegg var norðvestan við bæjarhúsin, og mun hann hafa haft lömb sín þar. Fullorðna féð hafði hann við hella, sem voru skammt norður frá bænum, eða þá í fjárborginum uppi á Standinum, sem er nokkru nær. Önnur þeirra er nú horfin með öllu. Þá hafi hann fé sitt við helli í Heiðmörk, svonefndum Þorsteinshelli.
Þegar flytja átti Þorstein látinn til greftrunar að Görðum höfðu burðarmenn á orði, vegna þess hversu þungur hann var, að óþarfi væri að fara með karlfauskinn alla leið þangað og stungu upp á því að hola honum þess í stað niður einhvers staðar á leiðinni. Að Görðum varð hann þó færður að lokum og jarðsettur þar af séra Þórarni Böðvarssyni.

Þorsteinshellir

Fjárskjól við Selgjá (Þorsteinshellir).

Árin 1906 til 1908 var enn gerð tilraun til búsetu í Kaldárseli. Kristmundur Þorláksson frá Stakkavík í Selvogi fékk það til afnota og hélt hann þar afskekktri útigangshjörð sinni til haga og gjafar. Beitahúsavegur Kristmundar var langur þar sem hann var búsettur í Hafnarfirði og árferði óvenjuslæmt. Hann ætlaði að hlaða hús norðvestan við Kaldársel, en mýs lögðust á féð um veturinn svo fjárhaldi þar varð sjálfhætt.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Jón Guðmundsson, bóndi á Setbergi, keypti síðan Kaldársel með það fyrir augum að hafa þarf athvarf fyrir smala og aðstöðu fyrir ferðamenn á ferðum þeirra um upplandið, en húsunum var lítt við haldið svo þau grotnuðu smám saman niður.

Árið 1925 byggði K.F.U.M. hús í Kaldárseli. Eftirfarandi frásögn um upphaf sumarbúða K.F.U.M í Kaldársel birtist í Bjarma árið 1967:

kaldarsel-990

Kaldársel – sumarbúðir.

“Að aflokinni messu á Bessastöðum á annan hvítasunnudag árið 1921, var haldinn stuttur K.F.U.M.-fundur þar í kirkjunni. Þá var stofnaður sjóður, sem hafa skyldi þann tilgang að koma upp sumarbúðum fyrir K.F.U.M. Það voru tveir félagar úr K.F.U.M. í Hafnarfirði, sem lögðu fram hundrað krónur. Seinna mynduðu nokkrir félagsmenn í Hafnarfirði og Reykjavík samtök um þetta mál. Var ákveðið að koma saman fyrsta föstudag hvers mánaðar, annan hvern mánuð í Reykjavík en hinn í Hafnarfirði. Fundir þessir voru bænafundir, þar sem beðið var fyrir málefninu, og að því loknu var lögð fram fórn til sjóðsins. Allt fór þetta fram í mestu kyrrþey. Vorið 1925 var sjóðurinn orðinn nær fjögur þúsund krónur. Var þá farið að hugsa til framkvæmda og lét bæjarstjórn Hafnarfjarðar félaginu í té eignarhald á túninu umhverfis eyðibýlið Kaldársel.

Þetta sama vor var hafizt handa um að byggja skálann. Minnast ýmsir þess enn í dag, er við hin erfiðustu skilyrði varð að bera efnivið allan yfir hraunhálsinn þaðan, sem bifreiðir komust lengst, og upp að Kaldárseli.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Sjá má tóftir selsins að baki hússins.

Um miðjan júní var unnt að vígja skálann. Var þá í honum svefnsalur með 24 rúmum, auk þess lítið herbergi og eldhús. Síðar var hann stækkaður um helming, með því að byggð var fyrir vestan skálann álma til norðurs. Nú fyrir fjórum árum var enn hafizt handa um stækkun skálans, og eru vonir til, að henni verði nokkurn veginn lokið í sumar.

Við framangreinda framkvæmd var það sem eftir var af tóftum selsins í Kaldárseli, sem stóð suðaustan við fyrsta hús K.F.U.M. fram á sjöunda áratug síðustu aldar, fjarlægt. Fáir vita í dag hvar selið stóð ofan við árbakkann.

Saga Kaldársels er hvorki löng né viðburðarrík, en saga er það nú samt.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson – Áður en fífan fýkur – 1968.
-Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 – III. bindi, bls. 180.
-Bjarmi 1967.

Kaldársel

Fjárskjól við Kaldársel.

Hafnarfjörður
Allir virðast alltaf velkomnir til Hafnarfjarðar, í landnám Ásbjarnar Özurarsonar, frænda Ingólfs Arnarssonar, fyrsta norræna landnámsmannsins hér á landi.
Í dag nær lögsagnarumdæmi Hafnarfjaðar yfir þéttbýlið við fjörðinn og 25 km suður fyrir það að háhita- og hverasvæðinu í Krýsuvík í umdæmi Grindavíkur og vestur fyrir Straumsvík. Saga bæjarins er samofin sögu verslunar á Íslandi. Á 15. öld kepptu Englendingar og Þjóðverjar um ítök í fiskveiðum og verslun í bænum og um tíma var bærinn kallaður þýskur „Hansabær“. Reistu þeir m.a. kirkju í bænum. Minnisvarða um hana má sjá sem steinboga við smábátabryggjuna.

Hafnarfjörður

Vitinn – merki Hafnarfjarðar.

Bjarni Síverstsen, sem stundum er nefndur faðir Hafnarfjarðar, settist að í bænum og hóf útgerð og verslun um síðustu aldamót. Í dag er sjávarútvegur, iðnaður og verslun auk vaxandi ferðaþjónustu helstu atvinnuvegir Hafnfirðinga.
Hafnarfjarðar er meðal annars getið við upphaf Íslandsbyggðar. Hingað kom t.d. Hrafna-Flóki á leið sinni að vestan á leið sinni aftur til Noregs, fyrr en nokkur norrænn maður hafði árætt að taka sér fasta búsetu hér á landi. Við það tækifæri rak eftirbát með fóstbróður hans, Herjólfi, frá skipi hans og rak inn í Herjólfshöfn þar sem nú er Hvaleyrarlónið (reyndar talsvert breytt). Fundu þeir dauðan hval og gott lægi. Nýttu þeir hvorutveggja, á ólíkan hátt þó. Síðari saga segir frá Kólumbusi þeim er sagður er hafa fundið Ameríku. Talið er að hann hafi komið við í Hafnarfirði óg fleiri höfnum (s.s. á Rifi) til að afla upplýsinga áður en hann hélt síðan árið 1492 í eina ferða sinna yfir Atlantshafið. Þá bjó okkar fólk þegar yfir vitneskja um land í vestri, en kaus Hafnarfjörð fram yfir það.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Í landi Hafnfjarðar eru margar náttúruperlur, hér má sjá margbreytileika íslenskrar náttúru, hraunið, hitann, vötnin og tjarnirnar auk margs konar fugla- og plöntulíf og sumt bara ansi fágætt – en allt ágætt.

Hafnarfirðingar er stoltir af bænum sínum hvort heldur vísað er til hans sem menningarbæjarins, íþrótta- og útivistarbæjarins eða Vina-, Álfa-, Brandara- eða Víkingabæjarins. Íbúar bæjarins eru rúmlega 21. þúsund. Hafnarfjörður býður gestum sínum upp á að njóta margvíslegrar dægrardvalar og fjölbreyttrar þjónustu. Í nágrenninu eru fjölbreytt útivistarsvæði meðfjölmörgum sögulegum minjum og náttúrufyrirbærum, skemmtilegum gönguleiðum, hellum og reyndar eitthvað fyrir alla.

Heimildir:
-Saga Hafnarfjarðar 1908-1983, Ásgeir Guðmundsson. – Hafnarfirði : Skuggsjá, 1983-1984.

-ÓSÁ tók saman

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – örnefni og gamlar leiðir.

https://ferlir.is/63791-2/https://ferlir.is/baer-i-byrjun-aldar-magnus-jonsson/

https://ferlir.is/as/https://ferlir.is/logsagnarumdaemi-hafnarfjardar-fra-1908/

Landnám

Hér verður áfram fjallað um landnám Íslands. Taka verður umfjöllunina með öllum þeim fyrirvörum, sem þegar hafa verið gerðir um landnám norrænna manna hér á landi, bæði fyrr og síðar.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Englar og Saxar höfðu hernumið Bretlandseyjar um 600 e.Kr. Samkvæmt Ulsterannálum hefjast ránsferðir víkinga til Bretlandseyja laust fyrir 800 e.Kr. Um 30% þeirra, sem námu land á Íslandi eftir 870, komu frá Bretlandi eða Suðureyjum ef taka á mið af Landnámu. Þórður skeggi, Helgi Bjóla og Örlygur gamli voru t.d. búsettir á Suðureyjum áður en þeir tóku sig upp ásamt “þrælum” og fluttust til Íslands. Helgi magri, sem nam Eyjafjörð, var gauskur, en hann var fæddur og uppaldinn á Bretlandseyjum og átti írska móður. Auður djúpúðga og fylgdarlið hennar kom frá Katanesi í Skotlandi.

Landnám Íslands

Landnám Íslands – Samúel Eggertsson.

Fundur Íslands hefur ekki verið sú tilviljun, sem margir vilja halda. Íbúar á norðvesturjöðrum Bretlands hafa eflaust mjög snemma séð ótvíræðar bendingar á náttúrunni um tilveru mikilla eyja og landa norðar og norðvestur í hafi. Sambúð víkinga og Kelta um nokkurt skeið fyrir landnám virðist einnig varpa ljósi á sumt í landnáms- og siglingasögunni. Víkingar stunduðu ekki eiginlegar úthafssiglingar, en á því vandasama sviði sóttu þeir þekkingu til Kelta.
Löngu á undan manninum námu fuglar hér land. Frá Skotlandi finnur fuglinn auðveldlega Orkneyjar og Hjaltland og einnig Færeyjar, Ísland og Grænland. Flestir farfuglanna koma frá Norður-Írlandi. Þar bjuggu Keltar löngu fyrir landnám Íslands. Vor- og haustferðir farfuglanna hafa varla farið framhjá Keltum.

Fornagata

Fornagata í Selvogi.

Á öldunum fyrir Víkingaöld voru Írar ein mesta lærdómsþjóð Evrópu. Þeir höfðu tekið kristni á 5. öld, en einangrast svo er hinir heiðnu Englar og Saxar lögðu undir sig England í kringum 600 e. Kr. Á 7. og 8. og 9. öld gerðust írskir og skoskir munkar miklir trúboðar og kennarar í Evrópu, bæði í Englandi, Þýskalandi og Frakklandi. Þeir hafa eflaust gert sér einhverjar hugmyndir um landið eða löndin, sem fuglarnir og ungar þeirra áttu endurkomu frá á haustin.

Hellir

Hellir landnámsmanna, Papa/Kelta, á Suðurlandi?

Veigamikil rök hníga að því að Írar hafi stundað landaleitir í norðvestri eftir daga Pýþeasar (þ.e. 300 f. Kr.) og gætu því vel hafa fundið Færeyjar og Ísland snemma á öldum. Skiljanlegt er þó að rústir eftir byggð þeirra eða annarra frumherja finnist hér engar, nema ef vera skyldu manngerðir hellar á Suðurlandi. Í sífelldum skorti á hleðsluefni rifu Íslendingar jafnan niður hverja rúst, sem nærtæk var og notuðu efnið í nýrri hús – aftur og aftur.

Keltar

Keltar – landvættir.

Til er skrifleg íslensk heimild um veru írskra trúmanna hér á landi, eftir að norrænir menn setjast hér að. Þá höfðu forfeður okkar umstaflað búðatóttum Íra og tínt allt, sem þar kann að hafa verið að finna. Ekki er að efa að Írar voru í Færeyjum fyrir norræna byggð þar. Heimildir um fund Íslands ganga einnig miklu lengra til baka. Landnáma hefst á á tilvitunun í Beda prest um eyland eitt, kallað Týli, sem á bókum sé talið 6 dægra signing norður frá Bretlandseyjum og einnig eftir lýsingu á sólargangi gæti vel átt við Ísland.

Íslandskort 1576

Íslandskort 1576.

Rit Beda prests, sem í er vitnað, er samið 703 eða 725. Þetta Týli eð Thulenafn gengur einnig í gegnum rit allt frá tímum Grikkja. Pýþeas siglir frá grísku nýlendunni Massalíu (nú Marseilles) um 300 f. Kr. til Bretlands og þaðan norður í Týli, sem gæti eftir lýsingunni að sumu leyti átt við Ísland.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – garður.

Hrafna-Flóki tók með sér hrafna til að vísa sér veginn að landi. Með í för með honum var suðureyskur maður. Gæti það hafa verið tilviljun? Og varla fer Ingólfur út í óvissuna í leit að óþekktu landi, einkum ef hafðar eru í huga fyrri hrakningasögur Garðars og Naddoðs á og við landið. Ingólfur er sagður hafa haft með sér “þræla”, sem voru í raun Keltar. Var það vegna þess að þeir þekktu leiðina?
Þeir Ingólfur og Hjörleifur fóru fyrst til Íslands til að kanna nánar búsetumöguleika, sem talsverðar sögur gengu þá þegar af. Þeir létu sér nægja að hafast við í Álftafirði einn vetur. Staðsetningin er athyglisverð. Hann liggur á milli Papeyjar að norðan og Papafjarðar og Papóss að sunnan, eða í miðri papabyggð, að því er virðist.

Hjörleifshöfði

Hellir í Hjörleifshöfða.

Voru þeir svona hittnir, bráðókunnugir, á leiðina yfir úthafið mikla, að geta siglt beint á miðja papabyggðina, eða höfðu þeir ekki öllu heldur með sér Vestmenn eða mann, sem þekkti leiðina og hafði átt vinsamleg samskipti við Papana og talaði mál þeirra. Völdu þeir ekki einmitt þennan stað til þess að geta haft samskipti við þá menn, sem mest vissu um landið? Og hvað gat verið sjálfsagðara fyrir þá en að vingast við Papana, úr því að þeir höfðu í huga að setjast fáliðaðir að í sama landinu og slá eign sinni á nokkurn hluta þess.

Víkingar og Keltar höfðu lifað í friði saman í 1-3 kynslóðir þegar norrænir menn tóku að nema Ísland. Þegar til landnámsins kemur hafa Keltar haldið uppi siglingum hingað í allt að því öld og ef til vill lengur. Hvað er þá sjálfsagðara fyrir nýliðana að færa sér reynslu hinna í nyt, ráða sér vana menn á skip, þegar sigla á með sína nánustu út á úthafið stóra. Ingólfur hefur varla einungis treyst á mjaltakonur og sauðamenn til þeirra verka.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Í reynsluferð þeirra Ingólfs um Álftafjörð ætti þeim félögum að hafa orðið ljóst að friðsamleg viðskipti við margfalt fjölmennari Íra voru þeim sjálfum fyrir bestu, ef þeir ætluðu á annað borð að setjast að í landinu. Hitt er annað mál, að þegar norrænum mönnum fjölgaði í landinu, hafa þeir sjálfsagt þrengt að byggð papanna, sem kusu þá heldur að hverfa á brott eða hætta ferðum hingað. Hliðstætt upphaf og þróun er margþekkt í samskiptum landnema víða um heim. Ekki þarf að fara lengra en til Norður-Ameríku (nærtækt dæmi) þegar hvíti maðurinn ásældist lönd indíána – fyrst vinsamleg viðskipti, en síðan rán og dráp.

Ingólfur Arnarsson

Stytta af Ingólfi Arnarssyni, fyrsta norræna landnámsmanninum, á Arnarhóli í Reykjavík.

Ingólfur valdi þann kost að setjast að vestan við svæði Íranna svo minni hætta væri á árekstrum. Suðausturhorn landsins lá best við landnáminu, en Ingólfur ákvað einnig að sníða hjá landnámi í Vestmannaeyjum, einu raunverulegu höfninni fyrir allri Suðurströndinni, ákjósalegum stað til fisk- og fuglaveiða og búskap fyrir allmarga bændur. Ástæðan gæti verið sú að Írar hafi þegar verið þar fyrir, enda byggðust eyjarnar seint af norrænum mönnum að sögn Landnámu. Írar voru jafnan nefndir Vestmenn og er það ekki ólíklegri ástæða til nafngiftar eyjanna en síðar saga um þræla Ingólfs, sem nefndir eru Vestmenn í landnámu. Þeir gætu hafa verið að flýja á náðir samlanda sinna, sem þar voru fyrir, eftir drápið á Hjörleifi. Á Suðurlandi eru líka víða manngerðir móbergshellar. Margir þeirra eru taldir hafa verið gerðir af Keltum, sbr. hellana á Hellum og í Landssveit.

Landnám

Landnám Íslands.

Ingólfur settist að í Reykjavík. Öll skynsemi mælir með því miðað við þáverandi aðstæður. Sagan um öndvegissúlurnar er jafn ólíkeg og margt annað. Við komu Ingólfs hafa fjörur og firðir verið þaktir rekaviði líkt og nú á Ian Mayen og því ógjörningur að finna tvo drumba þar innan um á allri slíkri leið. Hefur einhver reynt að ganga fjörur Suðvesturlands og líta í allar víkur og vik á þeirri leið? Og það með þeirra tíma skótau á fótum. Hins vegar má ætla að strandir Reykjanesskagans hafi litið örðuvísi út í þá daga og líklegt má telja að víðast hvar hafi verið greiðfærara, en á öðrum stöðum erfiðara yfirferðar, s.s. undir björgunum er nú liggja ofar í landinu. Hraun á sögulegum tíma hafa ummyndað landið og breytt útlínum þess og aðstæðum allnokkuð frá því sem þá var.
Búpeningur landnámsmanna óx með ólíkindum á fyrstu árum landnámsins. Tölulegar staðreyndir draga í efa möguleika á slíkum flutningum hingað til lands með þeirra tíma skipabúnaði.

Landnám

Siglingar forfeðra vorra.

Aðdragandi að norrænu landnámi hér á landi er sagnakennd og sögnin af fyrsta landnámsmanninum virðist vera arfsögn.
Með fullri virðingu fyrir fornleifafræðingum og öðrum er mikilvægt að benda á að þeir verða a.m.k. að gera tvennt til að leiða hið sennilega í ljós; þ.e. a) að gefa sér tíma til að leita og b) halda áfram að leita (grafa dýpra) þegar eitthvað finnst. Hætta er á að fræðingarnir hafi um of viðurkennda lýsingu af landnáminu til hliðsjónar þegar þeir skoða í jörð – og láta þar við setja. Ekki hætta – leitið lengur og grafið dýpra. Þessu fólki til stuðnings (því það þarf ekki bara skilning, heldur og bæði tíma og fjármuni) er því hér með komið á framfæri við löggjafarvaldið að verja nú fjármunum (umfram þá, sem þegar eru veittir úr Kristnitökusjóði) til rannsókna á “venjulegum” minjum, ekki síst á afskiptasta svæði landsins hingað til – Reykjanesinu. Staðreyndin er nefnilega sú að allar minjar eru jafnmerkilegar. Þær, hver og ein, eru handritin, sem skrifuð voru með hinu daglega striti dugandi fólks.

Sjá meira um Landnám – aldur. Einnig Landnám II.

-ÓSÁ tók saman.

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.