Hafnarfjörður

Hafnarsvæðið neðan við trémiðjuna Dröfn við Mýrargötu/Strandgötu í Hafnarfirði, þar sem Slippurinn var fyrrum, má muna fífil sinn fegurri, jafnvel fyrir tíma slippsins. Áður voru þarna uppsátur smábátakarlanna í bænum og muna margir eldri Hafnfirðinga enn eftir ferðum sínum þangað til að heimsækja trillukarlana undir sunnanverðum Vesturhamrinum.

Hafnarfjörður

Drafnarslippur fyrrum.

Í framhaldi mikilla breytinga á sjávarsvæðinu á liðinni öld er mikilvægt að staldra við og gaumgæfa nánar staðinn að teknu tilliti til hinnar stórmerkilegur bæjarmyndar Hafnarfjarðar fyrrum.

Fyrirhuguð er „Breyting á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025; Hafnarsvæði – Þétting byggðar„. Í umsögn um tllögur að breytingum á Suðurhöfn, Flensborgarhöfn og Hamarshöfn segir m.a. í greinargerð aðalskipulagsbreytinganna frá 07. febrúar 2022:

Hafnarfjörður

Drafnarslippur fyrrum.

„Með greinargerð þessari er gerð grein fyrir breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025. Breytingin nær til suður og austur hluta Suðurhafnar, Flensborgarhafnar og strandlengju meðfram Strandgötu í átt að miðbæ Hafnarfjarðar. Í tillögunni felst að mörkuð er stefna um þéttingu byggðar á svæðinu og breytt landnotkun í samræmi við stefnuna.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – loftmynd 1954.

Fyrir liggur Rammaskipulag Flensborgarhafnar og Óseyrarsvæðis, sem haft er til viðmiðunar við meginhluta aðalskipulagsbreytingarinnar. Reiturinn sem breytingin nær til er merktur sem H1 (Suðurhöfn) og H2 (Flensborgarhöfn) í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025. Landnotkun reitsins er hafnarsvæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi. Utan H1 og H2 nær breytingin til svæðis er liggur með strönd fjarðarbotnsins í átt að Miðbæ Hafnarfjarðar.
Fyrirhuguð breyting er sett fram í greinargerð þessari með almennum texta og sérskilmálum svæðisins og einnig á breytingarblaði, þar sem gerð er grein fyrir breyttri landnotkun á aðalskipulagsuppdrætti.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – mynd með aðalskipulagstillögu.

Skipulagssvæði Suðurhafnar og Flensborgarhafnar byggðist upp sem hafnarsvæði en í tímans rás hafa áherslur, forsendur og eðli starfseminnar á svæðinu breyst. Í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013 – 2025 er svæðið skilgreint sem hafnarsvæði, þ.e. H1 (Suðurhöfn) og H2 (Flensborgarhöfn) og miðsvæði (M). Jafnframt er í aðalskipulaginu sett fram stefna um þéttingu byggðar og uppbyggingu á vannýttum svæðum sem eru í göngufjarlægð frá miðbænum.“

Í MS ritgerð Guðrúnar Guðmundsdóttur um „Endurnýtingu hafnarsvæða – Mótun aðferðarfræðii fyrir skipulagsstefnu Flensborgarhafnar og annarra vannýttra hafnarsvæða“ fá Landbúnaðarháskólanum árið 2014 segir m.a. þar sem lykilorðin eru „Endurbyggð hafnarsvæði, sjávarbyggð, Flensborgarhöfn, miðbær, mannlíf, athafnalíf, útivist, afþreying, menningararfleifð“.

Hafnarfjörður„Í ritgerðinni er gerð grein fyrir hagnýtri úttekt á vannýttu hafnarsvæði við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði, sem var rannsakað í þeim tilgangi að undirbyggja skipulagsstefnu fyrir svæðið.
Rannsóknin byggðist á viðtölum, vettvangsferðum og greiningum byggðar, umhverfis og samfélags. Þannig fengust upplýsingar um áhrifaþætti sem varða framtíðaruppbyggingu svæðisins, einnig viðhorf sérfræðinga, embættismanna og notenda.
HafnarfjörðurNiðurstöður verkefnisins gáfu til kynna jákvæða áhersluþætti og gerð endurbyggingar á hafnarsvæðum sem hafa tekist vel með tilliti til ábata fyrir samfélagið sem svæðið heyrir til. Einnig voru líkur leiddar að hvaða þættir eru líklegir til að laða að mannlíf og athafnalíf á Flensborgarhöfn. Með niðurstöðunum skapaðist grunnur að stefnu um endurbætur athugunarsvæðisins, sem byggði á fyrri rannsóknum og reynslu, viðtölum og hagnýtri rannsókn á svæðinu.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1925 – Fjörukráin.

Í lok verkefnisins voru lagðar til útlínur að stefnu og umbótum á athugunarsvæðinu.

Af verkefninu má draga þær ályktanir að ef vel er að endurnýtingu hafnarsvæða staðið, jafnt hér á landi sem erlendis, virðast þau vel til þess fallin að bjóða upp á umhverfi sem laðar að mannlíf, einkum ef svæðin eru staðsett við eða nálægt miðbæ og að nauðsynlegt sé að undirbyggja skipulagsstefnu fyrir svæði sem á að endurbæta til að ná fram því besta á hverjum stað.“

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1966 – loftmynd.

Í Morgunblaðinu 08.11.2007 segir að „UJF hafna íbúðabyggð á Drafnarsvæði“:
„Aðalfundur Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði fór fram 3. nóvember. Í ályktun um skipulagsmál leggja Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði til að stofnuð verði ný óháð þverpólitísk nefnd sem móti framtíðarsýn um uppbyggingu miðbæjarins. Farið verði í heildstæða skipulagsvinnu á miðbænum frá Vesturgötu til Íshúss sem mótist af kjörorði Samfylkingarinnar um samráð og sátt. Öllum framkvæmdum á svæðinu verði frestað þar til sú vinna hefur farið fram.

Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði krefjast þess að staldrað verði við í háhýsavæðingu miðbæjarins. „Við höfnum því að Drafnarsvæðið verði lagt undir íbúðabyggð. Við viljum að haldin verði hugmyndasamkeppni um skipulag þess opna svæðis sem myndast þegar Dvergur verður rifinn.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður um 1900.

Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði harma þá skipulagsóreiðu sem einkennt hefur uppbyggingu miðbæjar Hafnarfjarðar svo áratugum skiptir. Núverandi miðbæjarskipulag einkennist af hálfkláruðum hugmyndum og skorti á framtíðarsýn,“ segir í ályktun UJ í Hafnarfirði.“

Þegar nýir þéttingareitir myndast á leifum fyrrum nýtinga eiga fulltrúar bæjarins tilhneigingu til að hunsa skynsamlegustu lausnirnar á kostnað þeirra er kunna að gefa sem mestan arð til hlutaðeigandi.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Hótel Björninn.

Hafnfirðingar þurfa þó að hafa dug til að nýta þetta umtalaða dýrmæta svæði í hjarta bæjarins til að endurbyggja helstu byggingar bæjarins, sem nú eru horfnar, s.s. gömlu húsin norðan við Fjörukrána fyrrum, Hótel Björninn á gatnamótum Strandgötu og Reykjavíkurvegar, gamla Flensborgarhúsið, sem þarna var á næstu grösum, sem og önnur fyrrum merkishús bæjarins, t.d. Reykdalshúsið við Brekkugötu 2 er varð eldi að bráð.

Skorað er á Hafnfirðinga að standa sér nær og reyna að varðveita hinu dýrmætu gömlu bæjarmynd – án óþarfa háhýsa og nútíma grænna gímalda á kostnað bæjarbúa.

Heimildir:
-Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025, „Breyting á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025; Hafnarsvæði – Þétting byggðar“.
-MS–ritgerð, desember 2014, Endurnýting hafnarsvæða – Mótun aðferðafræði fyrir skipulagsstefnu Flensborgarhafnar og annarra vannýttra hafnarsvæða, Guðrún Guðmundsdóttir.
-Morgunblaðið, 305. tbl. 08.11.2007, UJF hafna íbúðabyggð á Drafnarsvæði, bls. 49.

Flensborg

Hafnarfjörður – Gamla-Flensborg 1904.

Hafnarfjörður

Í Hafnarfirði eru nú skráð húsin nr. 21 (Arahús) og 25 (Sjóvá-húsið) norðan götunnar gegnt Thorsplani. Húsið nr. 23 var fyrrum tvö hús; Vestur-Brúarhraun og Austur-Brúarhraun. Síðanefnda lóðin hefur nú verið innlimuð í lóð húss nr. 25, en fyrrnefnda húsgrunninum hefur verið gerður sá heiður að hann hefur verið endurhlaðinn að hluta Brúarhraunsklettinum, þar sem húsin stóðu fyrrum.

Jón Magnússon

Jón Magnússon (1902-2002).

Í Fjarðarpóstinum árið 1987 var rætt við athafnamanninn Jón Magnússon (1902-2002) í Skuld undir fyrirsögninni „Þá voru ferðir á 10 mínútna fresti„. Þar lýsir hann að hluta miðbæjar Hafnarfjarðar á yngri árum og nefnir m.a. Brúarhraunsklettinn og bæjunum sem þar voru á þeim tíma:

„Fyrir austan þetta athafnasvæði gekk hraundrangi [Brúarhraunsklettur] eða klettur fram í fjöruna og höfðu þeir þar uppsátur bræðurnir Hinrik og Einar Jóhannessynir ásamt fleirum. Einar átti heima í húsinu sem nú er Strandgata 19 og Hinrik var í næsta húsi við, aðeins fjær götunni. Gatan lá alveg upp við hús Einars og var þar vegaruppfyllingin talsvert há. Næst þar fyrir austan var Arahús og stóð það nokkuð framar. Þarna náði hraunið talsvert fram í fjöru.
Syðst á jarðri þessa hrauns var klettur sem kallaður var Brúarhraunsklettur og upp að þeim kletti var bærinn Brúarhraun fyrir austan Arahús. Tók gatan á sig töluverðan sveig fyrir framan Arahús og lóð Einars Þorgilssonar, því nokkur trjágarður var fyrir framan húsið. Þetta hús keypti Einar Þorgilsson af Þorsteini Egilssyni árið 1910. Í þessu húsi er nú Sjóvátryggingarfélag Íslands og lögmannsskrifstofa Árna Grétars og fleiri.

Hafnarfjörður

Strandgata 23; Vestur – og Austur Brúarhraun.

Næst fyrir sunnan er lítið hús sem ég veit ekki hver byggði. Þá erum við komin að húsi Þórðar Edilonssonar héraðslæknis sem hann byggði fljótlega eftir að hann hóf störf sín hér. Það er Sjálfstæðishúsið.“

Í „Húsakönnun fyrir Miðbær Hafnarfjarðar 2019“ er fjalað um húsin við Strandgötu en þar er ekki minnst á Brúarhraunshúsin.

Þjóðviljinn 26. apríl 1960 fjallar um „Kotin og þurrkvína“ í lýsingu Gísla Sigurðssonar, Byggðasafnsvarðar. Þar segir Gísli að „— Með fyrstu bæjarnöfnunum sem heimildir eru um hér í Hafnarfirði er Brúarhraun. Það var byggt um 1770, en líklega mun hafa verið þar sjóbúðarnefna á 17. öldinni. Klofi var byggður 1775 og Gestshús um 1790“.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – loftmynd 1954.

Í Hamri árið 1956 segir Sigurjón Gunnarsson frá „Stuttri ferð en tafsamri„. Þar lýsir hann við aðstæðum og húsunum á Brúarhraunskletti:

„Nú kemur Steini niður sundið frá bænum og til mín. Ég vil fá hann með mér vestur í bæ, en hann stingur upp á því, að við skyldum fara fram á Brúarhraunsklett og fá okkur hryggjarmat. Brúarhraunsklettur var stór klettur framan við Strandgötuna, dálítið hærri en gatan og náði fram í fjöru rösklega miðja vegu milli flóðs og fjöruborðs.

Hafnarfjörður

Brúarhraun, Strandgata 23.

Efst var kletturinn grasi vaxinn og þar átti Ingibjörg dálitla kálgarðsholu, en framan til voru klappir og þar þurrkuðu sjómenn stundum þorskhausa og hryggi, sem fara áttu til eldsneytis. Við máttum kroppa þann fiskmat, sem var í hryggjunum, en þorskhausana máttum við ekki snerta, en náttúrlega urðum við að hlaða upp þeim hryggjum, sem við tókum niður.
Þarna af klettinum var fagurt útsýni. Fjörðurinn spegilsléttur og fjær Hvaleyrartorfan í gróanda vorsins og upp yfir holtið sást Keilir teygja bláklædda kollhettu sína. Einnig sást fram að Melshöfða og gnæfði bærinn Hlið þar upp yfir. Þar þótti á þeim árum mikil bygging og bjuggu þar stórbændur og útgerðarmenn miklir.

Hafnarfjörður

Strandgata 23, Brúarhraunsbæirnir.

Vestan til við klettinn var Brúarhraunsvör og upp af henni Brúarhraun, voru það tveir bæir. Í syðra Brúarhrauni bjó Guðmundur Ólafsson með Kristínu konu sinni. Guðmundur var snar í hreyfingum og aflasæll formaður. Hann átti sexæring, þann, er hann reri á. Syðra Brúarhraun var timburhús með lágum veggjum og miklu risi. Það sneri hliðinni fram að götunni, voru þar á tveir sexrúðu gluggar. Fyrir vestan þetta hús var bær, er einnig var nefndur Brúarhraun. Þar bjó Magnús Halldórsson með Steinunni konu sinni. Magnús var hár og þrekinn og vel sterkur, fiskimaður og sjómaður góður. Þessir fjórir bæir, sem ég hefi nefnt frá Gunnarssundi stóðu allir dálítið frá Strandgötunni. Voru kálgarðar fyrir framan þá og meðfram götunni háir grjótgarðar til hlífðar ágangi skepna.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðskort 1903.

Vestan til við bæ Magnúsar lá götuslóði upp að þriðja bænum, sem einnig var nefndur Brúarhraun. Þá kom maður á leiðinni þangað upp eftir fyrst að litlum bæ, er kallaður var Magnúsarbær, þar bjó ekkja með börnum sínum. Að efra Brúarhrauni eða Þorsteinsbæ eins og hann var stundum nefndur, bjó Þorsteinn Guðmundsson og Guðrún Guðnadóttir kona hans. Þorsteinn var sjómaður, handfastur og fiskinn og reri oftast hjá öðrum.
Næsta hús fyrir vestan Brúarhraunssund var Arahús. Það stóð þétt við götuna og því mikið staðið þar undir veggjunum, því þaðan mátti hafa tal af öllum, sem um Strandgötuna fóru, því allir þeir, er til Suðurnesja fóru eða komu þaðan og ætluðu lengra, urðu að fara þar um og því von um að frétta þar eitthvað um fiskigöngur eða annað, sem máli skipti. Í Arahúsi bjó á þessum árum Jóel Friðriksson. Fluttist hann hingað af Vatnsleysuströnd. Hann gerði út og var formaður á opnu skipi. Arahús var það háreist að loft var þar og smá kvistur á hlið þeirri, seni að Strandgötunni og sjónum vissi. Þarna uppi bjuggu nú Árni Jónsson og Þuðríður.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Strandgata 1919.

Þarna fyrir framan Arahús var Strandgatan hæst hlaðin að framan, en þar fram af en þó laus við götu klettur dálítill, jafnhár götunni. Illt gat verið að fara þarna um á veturna, þegar vestan garri var, og oftar en varð hefði komið skarð þarna í götuna, ef kletturinn hefði ekki verið fyrir framan og tekið á móti mestu skellunum af vestanbárunni.
Rétt fyrir vestan Arahús lá stígur af Strandgötunni upp að húsi Einars Jóhannessonar Hansen og Jensínu Árnadóttur konu hans. Einar var formaður og gerði út sitt eigið skip á vertíð og bát vor og sumar. Einar var aflamaður mikill og lítið um fisk, ef hann varð ekki var. Þegar Einar reri á bátnum var oftast háseti hans Bjarni Þórarinsson, sem áður er getið.

Árabátur

Árabátur.

Gaman var að sjá, hvernig þeir gömlu mennirnir reru, er þeir komu að í logni. Þeir tóku löng áratog og hvíldu sig fram á árarnar á milli en er þeir tóku í árina var eins og báturinn þrykktist niður að framan og þyti svo áfram.
Fram af húsi Einars var fjós Linnets kaupmanns. Vestan við fjósið lá stígur af Strandgötunni upp með húsi Einars að húsi, er stóð örlítið ofar og vestar. Það hús hét Hraunprýði.“

Húsin tvö í eyðunni nr. 23 við Standgötu, millum húsa nr. 21 og 25, nefndust í byrjun síðustu aldar Vestur- og Austur-Brúarhraun.

Heimildir:
-Fjarðarpósturinn, 2. tbl. 01.02.1987, Þá voru ferðir á 10 mínútna fresti, rætt við athafnamanninn Jón Magnússon í Skuld, bls. 45-53.
-Þjóðviljinn 26. apríl 1960, Kotin og þurrkvíin – Gísli Sigurðsson, bls. 6-7 og 10.
-Hamar, 2. tbl. 30.01.1956, Stutt ferð en tafsöm, Sigurjón Gunnarsson, bls. 3.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Strandgata 1919. Brúarhraunshúsin eru lengst t.v.

Íslandsviti

Á vefsíðu Mbl.is 29.1.2000 mátti lesa eftirfarandi um „Íslandsvitann“ á Sanskeiði, listaverk Claudios Parmiggiani:

claudio parmiggiani

Claudio Parmiggiani.

„Íslandsvitinn var afhjúpaður, skv. fréttum, á Sandskeiði 29.01.2000.“ [Hann er reyndar ekki á Sandskeiði, hvað þá á Hellisheiði, heldur við Arnarþúfur ofan Klifhæðar.]
„Umhverfislistaverkið Íslandsvitinn er eftir ítalska listamanninn Claudio Parmiggiani var vígt í tengslum við Menningarborg 2000 en stór yfirlitssýning á verkum listamannsins verður opnuð í Listasafni Íslands í dag. Um er að ræða vita, sem ólíkt öðrum vitum stendur inni í landi úr augsýn sjófarenda og jafnframt utan byggða og alfaraleiða sem lýsir stöðugu og viðvarandi ljósi sem beinist í höfuðáttirnar fjórar. Listamaðurinn hefur áður reist listaverk utan alfaraleiðar í öðrum löndum.“

Nánari fróðleik um listaverkið „Íslandsvitann“ var að finna á vefsíðunni https://hugrunir.com/2017/03/20/islandsvitinn/:
Íslandsviti„Þessi grein birtist upphaflega í sérstakri sýnigarskrá sem Fondazione Antonio Mazzotta gaf út í tilefni af vígslu verksins Viti eftir Claudio Parmiggiani í januar árið 2000, en verkið stendur ofan við Sandskeið á Hellisheiði. Vitinn var settur upp á vegum Reykjavíkurborgar í tilefni þess að hún hafði verið valin ein af „menningarborgum Evrópu“ árið 2000. Smíði Vitans var framkvæmd af Vélsmiðju Orms og Víglundar og Formax hf. undir eftirliti Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen og Orkuveitu Reykjavíkur. Ólafur Jónsson sá einnig um eftirlit með verklegum framkvæmdum, en undirritaður var listrænn umsjónarmaður verksins. Staðarval Vitans var ákveðið í samvinnu við Orkuveituna.

Íslandsviti

Íslandsviti.

Þegar Claudio Parmiggiani kom til Reykjavíkur fyrir hálfu öðru ári síðan til þess að taka þátt í alþjóðlegri námsstefnu um myndlist á vegum háskólans, kynnti hann í fyrsta skipti hugmynd sína um að reisa útilistaverk á Íslandi. Hugmynd hans var að reisa hér vita, sem átti ólíkt öðrum vitum að standa inni í landi, úr augsýn allra sjófarenda, og jafnframt utan byggða eða jafnvel alfaraleiða.

Þetta átti ekki að vera skúlptúr í hefðbundnum skilningi, ekki mynd af einhverju eða mynd sem sótti réttlætingu í form sitt, heldur einungis viti af einföldustu gerð. Ljós í myrkrinu.

Verkið átti heldur ekki að vera hefðbundinn viti með blikkandi ljósmerki sem varar við blindskerjum og markar siglingaleið, heldur viti með stöðugu og viðvarandi ljósi er beindist í höfuðáttirnar fjórar. Sívalur turn gerður úr járni og ljósi, einfaldur og hreinn í formi sínu.

Íslandsviti

Íslandsviti.

Merking hans og tilgangur voru ekki bara hugsuð út frá fagurfræðilegum forsendum, heldur líka siðfræðilegum.

Að ætla verkinu stað inni í víðerni íslensks öræfalandslags skipti miklu máli, og að hana megi túlka sem ögrandi skilaboð til samtímans. Vitinn átti ekki bara að vera nánast falinn í einum afskekktasta kima í útjaðri Evrópu, á svæði sem kalla mætti eitt síðasta vígi ósnortinnar náttúru í gjörvallri álfunni. Hann átti líka á afdráttarlausan og meðvitaðan hátt að vera fjarri sviðsljósi heimslistarinnar.

Íslandsviti

Íslandsvið við Arnarþúfur.

Sá vilji Parmiggiani að staðsetja verk þetta í óbyggðum á Íslandi verður skiljanlegri þegar við skoðum verkið í samhengi við fyrri verk hans. Þetta er ekki fyrsta útiverkið sem hann reisir utan alfaraleiðar. Á árunum 1975-91 vann hann að verkinu Una Scultura/ Skúlptúr sem staðsett er á fjórum stöðum, í fjórum heimshornum ef svo mætti segja. Fjögur virki hlaðin úr múrsteinum utan um tómarými, staðsett út frá höfuðáttunum fjórum, hvert öðru ólíkt en þó hlutar af einu verki. Í heild sinni er þetta verk einungis til sem hugmynd, og það verður ekki upplifað í heild sinni án langra ferðalaga í tíma og rúmi frá Egyptalandi um Tékkland til Ítalíu og Frakklands. Parmiggiani hefur nýlega unnið hliðstætt verk (Ferro, Mercurio, Oro / Járn, Kvikasilfur, Gull, 1999) á torsóttum fjallstindi á eyjunni Corsicu, þar sem hann felldi gullhúðuð handaför sín í bráðið járn ofan í harða granítklöppina. Það verk ber aftur skyldleika við eldra verk, (Terra / Jörð, 1988) sem er hnöttur úr brenndum leir með lófaförum listamannsins, sem grafinn var til frambúðar í jörð í klausturgarði nútímalistasafnsins í Lyon í Frakklandi.

Claudio

Eitt verka Claudios.

Öll þessi verk tengjast Vitanum hugmyndalega, auk þess sem þau eiga það sameiginlegt með mörgum inniverkum Parmiggiani sem fjalla um skuggann, sporin eða leifarnar, að leggja áherslu á fjarveru myndarinnar í því skyni að skapa áhrifaríkari og um leið sannari nærveru. Nærveru sem er af andlegum toga og er í grundvallaratriðum eðlisólík þeirri þrúgandi nærveru ofhlæðis og auglýsingamennsku sem einkennir margmiðlunarsamfélag árþúsundamótanna.

Til þess að geta tendrað ljós sitt lagði Parmiggiani á sig langt ferðalag inn í vetrarnóttina og þögnina sem ríkja á norðurhjaranum, burt frá þrúgandi ofhlæði orðanna, myndanna og hlutanna, inn í þögnina, kuldann og myrkrið. Ljósið sem hann tendrar lýsir þrjóskufullt í krafti fjarlægðar sinnar, fyrst og fremst vegna þess að það er úr beinni augsýn.

Ljós Vitans fær þannig yfirfærða merkingu sem andlegt leiðarljós í samræmi við gamla hefð um merkingu ljóssins, merkingu sem á sér ekki síst trúarlegar rætur. Suger ábóti frá Saint-Denis, sem kalla má hugmyndalegan föður gotneskrar kirkjulistar, sagði um ljósið að í því „sameinaðist efnið og hið efnislausa, hið líkamlega og andlega“. Merking ljóssins í Vita Parmiggiani tengist þessari hefð í þeim skilningi að það er ekki bara rafmagnsljós, heldur um leið ljós af andlegum toga sem helgar umhverfi sitt á sinn sérstæða hátt, ekki ólíkt og kirkja eða musteri. Ljós sem á rætur í hefðinni um leið og það vísar fram á við.

Íslandsviti

Íslandsviti við Arnarþúfur.

Þótt Viti Claudio Parmiggiani sé umhverfisverk í þeim skilningi að það „helgi“ með vissum hætti þann stað sem hann er reistur á, þá á hann ekkert sameiginlegt með þeim anga af samtímalistinni sem kenndur er við „land-art“: Parmiggiani notar ekki umhverfið eða náttúruna til þess að móta hana með nýjum hætti, heldur á verkið að falla inn í landslagið með sem eðlilegustum hætti og upphefja það.

Einnig er vert að hafa í huga að þrátt fyrir einfalt og hreint form vitans og látlausan efnivið á verkið ekkert skylt við þá stefnu í samtímalistinni sem kennd er við naumhyggju eða minimalisma. Ef einkenni minimalismans felst í því að nálgast innsta kjarna listarinnar með því að svipta formið og hlutinn öllum ytri tilvísunum, þá bendir Viti Parmiggiani í þveröfuga átt: fyrir honum sameinar verkið efnið og hið efnislausa, hið endanlega og hið óendanlega.

Íslandsviti

Íslandsviti við Arnarþúfur.

Í þessu samhengi mætti benda á ákveðinn skyldleika sem finna má á milli Vita Parmiggianis og verks samlanda hans, Piero Manzoni, sem kallast „Sökkull heimsins“ og var sett upp í Danmörku 1959. Verkið er sökkull sem stendur á hvolfi, en á honum hvílir heimurinn (á hvolfi) í öllum sínum óendanleika. Sökkullinn markar því bæði miðju og undirstöðu og vísar til óendanleikans, rétt eins og Vitinn. Þannig má finna viss tengsl Parmiggiani við brautryðjendur konseptlistar í Evrópu á sjöunda áratugnum, þar sem fjarveran, afturfærslan og hin óbeina vísun verða megineinkennin: í stað sjálfsmyndarinnar hefur Parmiggiani sýnt okkur skugga sinn (Autoritratto /Sjálfsmynd, 1979), í stað málverksins sótmyndaðan skugga þess á vegg (Delocazione / Tilfærsla, 1970), í stað litar á lérefti hreint og ómengað litarduftið sem fyllir rýmið óræðri birtu (Luce, luce, luce / Ljós, ljós, ljós, 1968). Hin landfræðilega fjarvist útiverkanna gegnir hliðstæðu hlutverki og vitnar um það þversagnarfulla samspil fjarvistar og kjarna sem Gianni Vattimo hefur gert grein fyrir í nýlegri umfjöllun sinni um verk Parmiggiani.

Í verkum Parmiggiani er það inntakið sem ræður formi verksins í einu og öllu, eða öllu heldur fjarvera inntaksins sem hugmyndar handan hins efnislega forms.

Íslandsviti

Íslandsviti – utan hafs.

Vitinn hefur slíka merkingu í tvöföldum skilningi, en helgar um leið umhverfi sitt sem andlega miðju. Hinn andlegi kjarni listarinnar á tímum árþúsundamótanna lýsir jafnframt með fjarveru sinni í þessu rafmagnsljósi sem hinsta endurskin þess andlega galdurs sem ekki er lengur rúm fyrir í tæknisamfélagi nútímans.“

Hafa ber í huga að „Íslandsviti“ er einungis verk tiltekins listamanns, en alls ekki minnismerki um eitt né neitt sem slíkt.

Heimildir:
-Mbl.is 29.1.2000.
-https://hugrunir.com/2017/03/20/islandsvitinn/

Íslandsviti

Íslandsviti.

Keflavík

Í Faxa árið 1977 skrifaði Gylfi Guðmundsson um „Keflavík vorra daga“:

Faxi

Faxi, jólablað 1977.

„Inngangur þáttarins er eftir Helga S. Jónsson
Þær munu vera æði margar Keflavíkurnar í landinu. Útræði hefur verið frá þeim flestum eða öllum eins og orðtakið landskunna bendir til — að sama sé í hverri Keflavíkinni er róið. Nafnkunnust er Keflavík við Faxaflóa. Hinar koma nú lítt við sögu lengur nema í nánasta nágrenni þeirra, svo mjög hefur höfuðstaður Suðurnesja skuggasett hinar nöfnur sínar, að engum blandast hugur um hvað átt er við þegar Keflavík er nefnd — hvort heldur er hérlendis eða erlendis.
Landið umhverfis Keflavík er hrjóstrugt, eins og reyndar Reykjanesskaginn allur. Næst eru uppblásnir melar og þegar lengra dregur taka við sandar og hraun. Útsýni er aftur á móti vítt og fagurt — beint á móti blasir við eitt fegursta fjall á landinu — þúsund lita fjallið Esja — og Akrafjall og Skarðsheiðin að baki. Lengra til suðurs blánar Hengillinn og Vífilsfell, svo rísa smáfjöll Reykjanesskagans yfir hraunið og ber Trölladyngju og Keili þar hæst — en Snæfellsjökull rís úr hafi í norðri.

Gylfi Guðmundsson

Gylfi Guðmundsson.

Á kyrrum síðkvöldum laugast suðurfjöllin lifandi litum og á skammdegismorgnum leikur sólin sinn gullna logaleik í skýjunum fyrir ofan. Það er fallegt í Keflavík þegar viðrar vel.
Á Keflavík gnauða líka vindar allra átta. Landsynningurinn og útsynningurinn hlaupa óhindraðir yfir lágan skagann og norðanstormurinn stendur beint upp á víkina — þá þeytist sjórokið yfir bæinn — og þeim sem ókunnugir eru finnst þá ömurlegt um að litast. Svona hefur þetta verið frá alda öðli, þeir bera því vitni klettarnir á Vatnsnesinu og Berginu, þeir eru brimsorfnir langt inn til lands. – Hér lýkur Inngangi Helga S. Jónssonar.

Íbúar í Keflavík hafa lengst af byggt afkomu sína á verslun, sjósókn og sjávarútvegi. Árabáturinn var eini farkosturinn á miðin og segl voru undin þegar byr gaf. Barningur á opnum Faxaflóa og brimlending var tíðari en að svífa seglum þöndum.

Vísir

Vísir, einn vélbáttanna, í Keflavíkurhöfn.

Fyrsti vélbáturinn kemur til Keflavíkur árið 1908. Bátur sá var 7 tonn að stærð og hét Júlíus. Það þótti mikið þrekvirki að fá þetta vélknúna furðuverk til Keflavíkur og læra þar öll handtök að. Eigendur bátsins voru 24 talsins því til svo djarfra átaka þurfti samábyrgð margra. Fyrsta vertíð bátsins gekk sæmilega eftir því sem þá var og voru menn fljótir að átta sig á því hvað var að gerast — það var verið að leggja árar upp — og með nýrri tækni var hægt að sækja lengra og bera meiri afla að landi.
Togaraútgerð hefst frá Keflavík árið 1948 er togarinn Keflvíkingur er keyptur hingað. Togari þessi var seldur héðan í apríl 1956.

Keflavík

Keflavíkurhöfn fyrrum.

Nú munu vera gerðir út frá Keflavík 5 stórir skuttogarar, tugir skipa stórra og smárra og fjöldi vélbáta. Og nú er Keflavík orðin ein af stærstu verstöðvum landsins. Öll þessi skip færa okkur björg í bú og veita fjölda fólks vinnu í landi. Útgerðin kallar á margvíslega þjónustu sem ekki er tími til að rekja hér. Þó má nefna skipasmíðastöð, vörubílastöð og ýmiss konar viðgerðarþjónustu.

Árið 1969 voru starfandi í Keflavík 35 útgerðarfyrirtæki, 6 frystihús og 9 aðrar fiskverkunarstöðvar. Verslun hefst í Keflavík líklega í kringum árið 1500 og mun þá jafnframt hafa verið útræði héðan.

Keflavíkurhöfn

Keflavíkurhöfn fyrrum.

Danakonungur gaf út fyrsta verslunarleyfið fyrir Keflavík 1579. Árið 1864 keypti Hans Peder Duus kaupmaður aðrar verslanir sem fyrir voru í Keflavík og þar með varð Duus um tíma einvaldur í verslunarmálum Keflvíkinga. Fljótlega komu þó innlendir aðilar til sögunnar fyrst með útgerð og síðan verslun.
Nú er Keflavík orðin mikill verslunarstaður. Hér er rekið stórt Kaupfélag, sem rekið er í mörgum deildum á öllum skaganum og hér eru verslanir fjölda kaupmanna. Segja má að í Keflavík sé verslunarmiðstöð fyrir byggðirnar í kring.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur.

Í heiðinni fyrir ofan bæinn okkar er Keflavíkurflugvöllur. Þar eru búðir amerískra hermanna sem hér dveljast. Það verður ekki fram hjá því litið að nærvera þeirra hefur haft veruleg áhrif á líf fólks í Keflavík og auðvitað víðar. Niðri í Keflavík býr töluverður fjöldi bandaríkjamanna — og víst er um það að stór hluti leiguhúsnæðis í bænum okkar fer til þessa fólks.Fyrsta félag sem vitað er að stofnað hafi verið í Keflavik er Skotfélagið — „Riffel — Skytte — Forening for Kjeblevig og omegn.” Það var stofnað árið
1869. Nú eru mörg félög í Keflavík með jafn mörgum markmiðum og stefnuskrám. Mörg þessi félög eiga sér merka sögu og hafa sum þeirra markað sín spor í samtíð sína.

Keflavík

Keflavík – Ungmennafélag.

Góðtemplarareglan kom til Keflavíkur fyrir aldamótin. Virðist hún hafa átt gengi að fagna. Og stúkur og bindindisfélög starfa hér enn af fullum krafti. Hér er einnig leikfélag, skátafélög og ýmis félög önnur og klúbbar sem eiga sér víða hliðstæðu annars staðar.
Ungmennafélag Keflavíkur er stofnað 1929. Er það ennþá starfandi og er það elsta starfandi félag í Keflavík. Ungmennafélagið hefur víða komið við sögu. Frá stofnun þess hefur það haldið uppi skemmtanalífi og starfrækt til skamms tíma eina samkomuhúsið sem öll önnur félög áttu sitt innhlaup í. Nú er hús þetta notað til íþróttakennslu á vegum skólanna. Ungmennafélagið hefur lengst af haft forystu um iþróttamál. Félagið á upphaf að byggingu sundhallar, íþróttavallar, leikfimikennslu og annarri íþróttaiðkan.

Keflavík

Keflavík – knattspyrna.

Í Keflavík stunda menn íþróttir af miklu kappi — já flest það sem nefna má í sambandi við íþróttir. Telja má þó víst að knattspyrnan eigi hug og hjarta flestra. Áhugi fólks fyrir þessari skemmtilegu íþrótt er gífurlegur. Íþróttabandalag Keflavíkur hefur lengi átt fast sæti í 1. deild og þegar Í.B.K. á í höggi við andstæðinga sína á knattspyrnuvellinum hópast fólk til að hvetja lið okkar. Margir elta knattspyrnumenn okkar út og suður — og sumir jafnvel til útlanda þegar liðið fer í keppni — enda eigum við gott knattspyrnulið.
Hér koma reglulega út tvö blöð: Suðurnesjatíðindi, fréttablað sem kemur út hálfsmánaðarlega og tímaritið Faxi, vandað og fallegt blað.“

Heimild:
-Faxi, 5. tbl. 01.02.1977, Keflavík vorra daga, Gylfi Guðmundsson, bls. 14-15.

Keflavíkurberg

Keflavíkurberg – Stekkjalág.

Kollafjörður

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1982 fjallar Gísli Sigurðsson, ritsjóri, um „Bara grjót?“ við Kollafjörð:
Kollafjörður„Á Íslandi þarf yfirleitt ekki langt að fara til þess að komast í umhverfi, sem náttúran hefur algerlega mótað — og það með þvílíkum kostum og kynjum, að við stöndum agndofa. Oftast mætir auganu gersamlega ólík náttúrufegurð þeirri sem séð verður í nágrannalöndum okkar til dæmis, þar sem óbyggt eða óræktað land er oftast skógi vaxið. En heilu flæmin á Íslandi, þar sem ekki sést ein hrísla — Reykjanesskaginn til dæmis — eru þeim mun auðugri af annarskonar fegurð, sem helgast af grjóti. Og margbreytileikinn í ríki grjótsins virðist óendanlegur. Sú fegurð nær ef til vill hámarki á Austfjörðum eins og fram kom í ágætum sjónvarpsþætti Ómars Ragnarssonar.
Það eru kannski helzt Flóamenn, Holtamenn og Landeyingar sem þyrftu að bregða sér frá bæ til að sjá grjót. Víðast á landinu er það aftur á móti innan seilingar, ef svo mætti segja, og stundum er full mikið af því góða.

Kollafjörður

Grjót við Kollafjörð.

Grjót er uppistaðan í fegurð Þingvalla og Ásbyrgis; fagrir eru grjótásarnir vestur á Mýrum, fagurt er stuðlabergið hjá Hofsósi, þar sem sagt er að Guðjón Samúelsson hafi fengið hugmyndina að stuðlastíl Þjóöleikhússins. Fögur eru grjótþilin sem gnæfa yfir bæi undir Eyjafjöllum og þannig mætti lengi telja.
Til er einnig í næsta nágrenni Reykjavíkur sérstök fegurð, sem birtist í grjóti og fremur fáir vita um. Úr þeim reit eru myndirnar sem hér fylgja með. Þessi reitur er á norðanverðu nesinu við Kollafjörð, og blasir við af veginum, þegar farið er framhjá Mógilsá og vestur með Esju. En það ber lítið á honum til að sjá og nesið er utan við alfaraleiðir. Þarna er allsfór grjótflákl, sem hallar niður að firðinum, en það er ekki venjulegt grágrýti, heldur einhverskonar sandsteinn, sem er gljúpari og því hafa frost og önnur veðrunaráhrif skilið eftir sig svo sérkennileg merki.

Kollafjörður

Kollafjörður – grjót.

Sumir steinarnir eru eins og nútíma höggmyndir, sumir eins og ormétnir og víða koma fram kynjamyndir.
Mér skilst að sandsteinn af þessu tagi verði annaðhvort til af setlögum úr fínum sandi, sem hleðst upp við árósa og verður að steini á milljónum ára — ellegar þá að fíngerö gosefni hafi i fyrndinni hlaðizt upp og myndað sandstein með tímanum. Ekki er hægt að sjá neina lagskiptingu í þessu furðugrjóti og hins að gæta, að Esjan er hluti af geysimikilli eldstöð, sem náði alla leið útá núverandi Reykjavíkursvæði. Þess vegna má teljast líklegra, að þessi sandsteinn eigi uppruna sinn í gosefnum.

Kollafjörður

Kollafjörður – grjót.

Einhver brögð munu hafa verið að því, að fólk sækti sér einn og einn furðustein í Kollafjörð til að prýða með garð. Það er þó bót í máli, að flestir steinarnir eru ómeðfærileg björg og eins hitt, að ekki er hægt að koma bíl eða öðru flutningatæki þarna mjög nærri.
Þessar línur eru skrifaðar til að koma á framfæri þeirri frómu ósk, að menn lofi þessum reit að halda sér eins og hann er og stundi þar ekki gripdeildir á þessum skrýtnu náttúrumunum. Það gæti kannski virzt út í hött að tala um náttúruvernd í sambandi við grjót á Íslandi. En frásagnir af framferði erlendra ferðamanna á Austurlandi sýna, að það er ekki út í bláinn.

Kollafjörður

Kollafjörður – grjót.

Um leið er ástæða til að benda fólki á þessa sérstöku „sýningu“, ef svo mætti segja; eða kannski ættum við að segja grjótgarð — í næsta nágrenni við mesta þéttbýli landsins. Þangað er aðeins stutt gönguferð frá þjóðveginum, eða Kollafjarðarbænum. En fyrir alla muni: Lofum þessum garði að standa eins og hann er og spillum ekki á nokkurn hátt, því sem þar er.“

Rétt er að geta þess að framangreint grjótmynstur var jafnan nefnt „álfasteinar“ á Reykjanesskaganum.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 3. tbl. 23.01.1982, „Bara grjót?“, Gísli Sigurðsson, bls. 8-9.

Kollafjörður

Kollafjörður – grjót.

William Lewis Telbin

Í Helgafelli 1953 birtist grein um „Íslandsferð Williams Lewis Telbin árið 1884„. Hér er stutt frásögn frá ferðinni í íslenskri þýðingu Þórarins Guðnasonar er birtist í blaðinu:

Helgafell

Helgafell 1953.

[Höfundur þessarar ferðasögu, William Lewis Telbin (1840—1931), var enskur leiktjaldamálari og maður víðförull. Í eftirmælum um hann í The Times var m. a. komist þannig að orði, að hann hefði ferðast „frá Íslandi til Tangier og Írlandi til Vín“. Grein þessi mun rituð árið 1925, en hefur ekki birzt á prenti fyrr en nú. Frændi höf., dr. W. D. Nicol yfirlæknir, lét mér góðfúslega í té eftirrit af handriti gamla mannsins og leyfði, að greinin yrði þýdd og birt á íslenzku. Ág hef leitast við að breyta sem minnstu í þýðingunni, læt t. d. allar tölur standa óhaggaðar, þótt sjálfsagt megi um sumar þeirra deila. Þýð.]

„Við bjuggum í litlu, þokkalegu gistihúsi. Fæðið var fábreytt, enda varla við öðru að búast í svo hrjóstrugu landi, en norski bjórinn var afbragð og kaffið gott, en út í það var látin sauðamjólk.
Tíminn var naumur, og hófum við því fljótlega undirbúning ferðarinnar inn í landið. Gestgjafinn útvegaði okkur túlk, en hann tók svo á leigu hesta, hestadreng og tjald. Við lögðum af stað frá Reykjavík snemma morguns í blíðuveðri. Um nóttina gistum við á prestssetrinu Þingvöllum, skammt frá samnefndu stöðuvatni.

Hengill

Hengill – útsýni til vesturs yfir Reykjanesskaga.

Eftir nálega tveggja mílna ferð á fótinn námum við staðar og litum til baka. Mikils fara þeir á mis, sem nú á dögum ferðast í bíl eða á hjóli; þeim getur orðið jafnhættulegt að líta um öxl og Orfeusi forðum, þótt sá verknaður hefni sín með nokkuð öðrum hætti nú en í grísku goðsögninni.
Héðan sást vítt yfir og margt var að skoða. Reykjanesskaginn, þar sem vitinn er, var lifandi eftirmynd landslagsins á tunglinu, ef dæma má af myndum bókarinnar „Um tunglið“ eftir Hasmyth og Carpenter. Þar var gígur við gíg, en flestir voru þeir litlir unr sig og grunnir, og blikaði á gígbarmana í sólskininu. Í þessum fjarska virtist skaginn líka jafn-lífvana og öræfi mánans, hvergi gróðurtó.

Henglafjöll

Henglafjöll.

Framundan blasti við hinn víðáttumikli Faxaflói og norðan við hann fremur lágur fjallgarður, sem smálækkaði niður að sjóndeildarhring, unz Snæfellsjökull reis í 4850 feta hæð lengst í vestri.
Meira en helmingur þessa tignarlega eldfjalls er þakinn ís og snjó, en aflíðandi hlíðar þess minna dálítið á hið fagra og heilaga fjall Japana, Fusijama.
— Eftir nokkra stund héldum við svo ferðinni áfram. Ég komst brátt að raun um, að klárinn minn var engin asaskepna. Honum mun aftur á móti fljótlega hafa skilizt, að ég væri lítill hestamaður og einnig hitt, að ég gripi sjaldan til svipunnar, en legði því meiri áherzlu á fortölur. Fyrr kom þó, ef við drógumst aftur úr, að hann tók allt í einu á rás og þótti mér það hin bezta skemmtun, ef framundan voru sléttar grundir, en líkaði miður, ef skeiðvöllurinn var stórgrýttur og í honum djúpir götuskorningar. Íslenzku hestarnir eru með afbrigðum fótvissir, og var okkur ráðlagt að leggja taumana fram á makkann og láta klárana ráða, þegar við færum upp og niður illfærar brekkur. Þeir kváðu jafnvel eiga það til að hreyfa sig hvergi, ef taka á af þeim ráðin.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja um 1900.

Þegar leið á daginn, þykknaði í lofti og fór að rigna, í fyrstu lítið eitt, en síðan gerði helliregn. Um kvöldið, þegar við stigum af baki á Þingvöllum, hneig ég niður. Eftir fyrsta daginn á hestbaki og rigninguna var ég annaðhvort of stirður eða máttlaus til þess að geta staðið uppréttur.
Á prestssetrinu voru engir gestir fyrir, svo að við fengum gistingu, að öðrum kosti hefðum við orðið að sofa í kirkjunni. Ekki var þarna um auðugan garð að gresja, hvað mat áhrærði, og urðum við því að grípa til niðursoðna kjötsins, sem við höfðum nestað okkur nreð. Við spurðum prestskonuna, hvort hún ætti nokkuð í staupinu.

Ölfus

Ölfusölkelda á Hengilssvæðinu.

,,Nei“, mælti hún, „við höfum slíkt aldrei um hönd“, og gekk út. Að vörmu spori kom hún aftur og sagði okkur frá því, að árið áður hefði Skoti nokkur heimsótt þau, og hún minntist þess nú, að hann hafði skilið tvær flöskur eftir, en hvað í þeim væri, vissi hún ekki. Á hinn bóginn mættum við ráðstafa þeim eftir geðþótta. Við álitum vandalaust að gizka á, hvað reyndur og hygginn Skoti hefði í mal sínum, og hækkaði nú heldur á okkur brúnin, en að sá hinn sami Skoti skildi nestið sitt eftir í næturstað, því trúðum við trauðla, og lækkaði brúnin því aftur. En til þess að fá úr málinu skorið, tókum við tappann úr annarri flöskunni og sjá, í henni var gott og gamalt skozkt viský!

Ölfusvatn

Ölfusvatn (Þingvallavatn).

Morguninn eftir risum við árla úr rekkju. Ég skoðaði kirkjuna, og í þetta sinn fylgdist félagi minn með mér, en á síðari árum hefur hann gert sitt ýtrasta til þess að venja mig af að skoða kirkjur. Hann segir, að það hafi kostað marga töf og langa, þegar við höfum verið á ferðalagi í bílnum hans. — Þetta var ákaflega einfalt guðshús, aflangur salur með öllu skrautlaus. Þrír gluggar voru á hvorri hlið og steinhlerar fyrir þeim að utan, eins og á fornri kirkju einni í Torcello nálægt Feneyjum.
Í vesturendanum var klefi, þar sem blautar eða fenntar yfirhafnir kirkjugestanna voru geymdar um messuna. En hvaðan fólk kæmi hér til kirkju, gátum við ekki gert okkur í hugarlund.

Þingvellir

Þingvallakirkjugarður – staðsetning gömlu kirkjunnar.

Einskis varð ég vísari, sem gæfi nokkra hugmynd um aldur kirkjunnar; ef til vill hefði nokkuð mátt ráða af þeim fáu legsteinum, sem í kirkjugarðinum voru, en áletranirnar voru flestar máðar, og svo kunnum við ekkert í íslenzku.
Þótt Þingvallavatn sé mesta stöðuvatn landsins, getur það ekki talizt stórt. Úr miðju vatninu rís keilulaga eyja, og líkist vatnið því mest, að það lægi á botni mikils eldgígs. Út frá því liggja djúpar og víðar sprungur í basaltklettana, en gjárbotnarnir eru huldir fagurbláu vatni. Á klettunum, sem eru eins og vígi milli gjáa, var háð Alþingi hið forna. Víðsvegar kring um vatnið standa reykjarstrókar upp í loftið, andgufa sjóðheitra vatnshvera.“…

Heimild:
-Helgafell, 3. hefti, 01.12. 1953, W.L. Telbin, Íslandsferð árið 1884, Þórarinn Guðnason íslenzkaði, bls. 10-11.

Sandey

Sandey í Þingvallavatni.

Anna Kr. Pétursdóttir skrifaði um „Nafnlausa fjelagið„, undanfara Ferðafélags Íslands (FÍ) í Litla Bergþór árið 2021. Þar segir m.a.:

Nafnlausa fjelagið„Upp úr fyrsta áratug 20. aldar var til félagsskapur sem gekk undir nafninu „Nafnlausa fjelagið“. Nafnlausa fjelagið er undanfari Ferðafélags Íslands (FÍ) og gaf afrakstur starfsemi sinnar til byggingar sæluhússins í Hvítárnesi þegar félagið var lagt niður og sameinað FÍ. Stofnendur Nafnlausa fjelagsins voru nokkrir ungir menn í Reykjavík sem áttu það sameiginlegt að hafa mikinn áhuga á útilegum og ferðalögum þeim tengdum. Allt frá æsku vissi ég að hann afi minn, Einar Pétursson (1892-1961), hafði verið meðlimur í þessu félagi en vissi ekkert sérstaklega mikið um hvað félagið hafði á stefnuskrá sinni nema að tilgangurinn var að kanna fáfarnar slóðir á Íslandi og hálendisferðir voru mikið áhugamál hjá þeim. Því miður, þá hef ég ekki nema nokkur minningarbrot sem tengjast þessu merka félagi.

Nafnlausa fjelagið

12. júní 1913, fánatökunni mótmælt í Reykjavíkurhöfn. Hópur fólks mótmælir aðgerðum Rothe skipherra á varðskipinu Islands Falk. Fyrr um daginn lét hann sjóliða gera bláhvítan fána sem Einar Pétursson var með í skut á róðrarbát sínum upptækan, enda þótti tiltækið brjóta í bága við siglingalög danska konungsríkisins. Í kjölfarið gripu Íslendingar til mótmælaaðgerða, m.a. með því að ögra skipherranum á danska varðskipinu og sigla um höfnina með fjölda bláhvítra fána og syngja íslensk ættjarðarkvæði.

Einar afi minn var sá Einar sem var tekinn til yfirheyrslu af danska yfirvaldinu 12. júní árið 1913 þegar að hann reri á einmennings kappróðrabáti sínum í kringum herskipið Islands Falk þar sem skipið lá á legu sinni í Reykjavíkurhöfn. Afi var með fánann Hvítbláinn í stafni bátsins en ekki þann danska og það fór heldur betur fyrir brjóstið á skipherra Islands Falk sem gerði fánann upptækan og það hafði ýmsa eftirmála í för með sér sem ekki verður skrifað um í þessari grein.

Nafnlausa fjelagið var fámennt félag, stofnað þann 11. ágúst 1916 af nokkrum ungum mönnum sem áttu það sameiginlegt að hafa gaman af að fara í gönguferðir um helgar og ferðast inn í óbyggðir og fjarlægar sveitir í sumarleyfum sínum. Svæðin sem þeir fóru aðallega um og könnuðu voru fáfarin og afskekkt svæði eins og Reykjanesskaginn, Þingvellir, Uxahryggir og Ok. Einnig svæðin í kringum Langjökul, Hvítárnes og Kerlingafjöll. Skýringuna á nafngiftinni á félaginu segir Skúli Skúlason ritstjóri vera þá að stofnendur félagsins voru að búa sig undir sumarleyfisferðalag og keyptu sér sameiginlega í nestið í versluninni Liverpool við Vesturgötu.

Björn Ólafsson

Björn Ólafsson (1895-1974).

Í stað þess að skrifa á reikninginn nöfn allra þátttakenda var kosið að láta Nafnlausa fjelagið standa fyrir úttektinni og festist þessi nafngift við félagið (sjá Mbl. 11.ág.1956, bls. 6). Nokkuð víst er að aðal stofnandi félagsins var Björn Ólafsson, stórkaupmaður og síðar ráðherra. Björn stóð fyrir leiðangrinum í Þórisdal árið 1918 og birtist frásögn hans, „Ferð í Þórisdal“ af leiðangrinum í Eimreiðinni 1918 24. árg., 3-4.tölubl., bls. 206217.
Þeir menn sem mynduðu kjarnann í félaginu með Birni Ólafssyni voru Einar Viðar, Helgi Jónasson frá Brennu, Tryggvi Magnússon, Einar Pjetursson stórkaupmaður og Gunnar Kvaran. Þess utan voru oft með þeim í ferðunum ýmsir kunningjar þeirra samkvæmt skrifum Skúla Skúlasonar ritstjóra, sem ritaði frásögn um félagið sem birtist í Morgunblaðinu þann 11. ágúst 1956.
Félagið virðist hafa verið rekið af miklum metnaði. Fáni var hannaður með merki þess, þríhyrnd veifa sem sést á myndum ef vel er að
gáð. Félagsmenn virðast hafa lagt sig fram um að vera prúðbúnir á ferðum sínum, því að á nokkrum myndum sést að félagsmenn hafa borið hálsbindi.

Nafnlausa fjelagið

Einar Pétursson (1892-1961) stundaði líka skautahlaup, á þessari mynd er hann sá hvítklæddi vinstra megin, sá hvítklæddi hægra megin er bróðir hans Sigurjón á Álafossi. Milli þeirra er afi minn Magnús Magnússon skipstjóri sem þarna er sigurvegari en varð síðar að lúta í lægra haldi fyrir Sigurjóni.

Á einhverjum starfsárum félagsins héldu þeir úti skrifstofu sem kölluð var „Leiðbeiningarskrifstofa Nafnlausa fjelagsins“ sem staðsett var í Hafnarstræti í Reykjavík. Félagið tók aðallega að sér að leiðbeina erlendum ferðamönnum sem komu til Íslands með skemmtiferðaskipum og þurftu leiðsögn. Félagið fékk mikið lof fyrir framtakið eftir því sem ég hef ég lesið í ýmsum heimildum frá þessum tíma. Félagið gaf líka út bækling eða smárit sem kallað var „Útilega” og er talið með fyrstu leiðbeiningarbæklingum sem gefnir hafa verið út hérlendis um útilegu.
Á starfsárum félagsins hafði safnast í sjóð sem ákveðið var að myndi renna til byggingar á sæluhúsi í Hvítárnesi þegar að félagið yrði lagt niður við stofnun Ferðafélags Íslands. Eitt síðasta verkefni félagsins var að fara í leiðangur inn í Hvítárnes til að velja staðsetningu undir sæluhúsið.“

Heimild:
-Litli Berþór, 1. tbl. 01.06.2021, Nafnlausa fjelagið, Anna Kr. Pétursdóttir, bls. 37-39.

Ferðafélag Íslands

Ferðafélag Íslands á Eyjafjallajökli 1931. Félagið var stofnað með formlegum hætti þann 27. nóvember 1927 í svokölluðum Kaupþingssal í húsakynnum Eimskipafélags Íslands.

Ferlir

Í Morgunblaðinu 2006 er umfjöllun Svavars Knúts Kristinssonar um Reykjanesskaga undir fyrirsögninni „Reykjanesið hefur eitthvað að bjóða fyrir alla„. Þar segir að „Gönguhópurinn FERLIR hefur safnað gríðarlegu magni upplýsinga um minjar á Reykjanesi.

FERLIR

FERLIRsfélagar á göngu um Húshólmasvæðið. Fremstur fer Dagbjartur Einarsson, Grindvíkingur nr. 1 (þann daginn).

Gönguhópurinn FERLIR, sem upphaflega stóð fyrir Ferðahóp rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík, hefur nú síðan 1999 staðið fyrir fjölbreyttum og áhugaverðum ferðum um Reykjanesskagann. Hófst starfsemi félagsins á því að lögreglufólk áhugasamt um útivist og hreyfingu tók sig saman og ákvað að kynnast sínu nærtækasta umhverfi með heilbrigðri hreyfingu. Varð Reykjanesskaginn fyrir valinu, bæði vegna nálægðar og lítils áhuga og vitundar fólks almennt um það svæði. Síðan starfsemi FERLIR hófst hefur mikil þekking á gönguleiðum og kennileitum skapast og má hana nú finna á síðu félagsins, www.ferlir.is.

Viðbót við þekkingu
Ómar Smári Ármannsson, einn af stofnendum FERLIR, segir upplýsingarnar í raun góða viðbót við þá vitneskju sem áhugasamir einstaklingar um efnið höfðu lagt til. „Allt sem lýtur að minjum, hvort sem um er að ræða forn- eða náttúruminjar, hefur verið okkur hugleikið, hvort sem þeirra hefur verið getið í gögnum, gamalt fólk bent á, eða grafið hefur verið upp á annan hátt,“ segir Ómar.

Húshellir

Í Húshelli.

„Þessar minjar eru allar til og einhver hefur vitað af þeim, en þegar fólk deyr falla þær í gleymsku. Síðan rifjast þetta upp þegar þær eru skoðaðar.“
Ómar segir ekki alltaf nákvæmlega vitað hvað fundið er þegar hópurinn gengur fram á eitthvað sem bent hefur verið á. Því sé alltaf reynt að koma öllum upplýsingum á framfæri gegnum vefsíðuna. „Hún er orðin ágætt yfirlit yfir hvað er að finna á þessu svæði auk þess sem hægt er að vinna úr efninu,“ segir Ómar.

Selalda

Selalda – Strákar; fjárskjól.

„Það er hægt að nýta það sem er til og áþreifanlegt til að átta sig betur á búsetusögunni, atvinnusögunni, þróuninni og þeim aðstæðum sem fólk hefur búið við, að varpa betra ljósi á söguna. Fólk skrifaði ekki um það sem var sjálfsagt á þeim tíma, en nú þykir fólki það sem þótti sjálfsagt þá sérstakt.“
Gönguferðir um Reykjanesskagann segir Ómar bjóða upp á gríðarlega fjölbreytta upplifun, sérstaklega hvað varðar tengsl sögu, menningar og náttúrulegra aðstæðna. „Þegar þú gengur um þetta svæði geturðu tengt minjarnar og nýtingu á landinu við þær aðstæður sem fólk þurfti að takast á við á mismunandi tímum. Reykjanesskaginn er, ef vel er að gáð, nokkuð ljóslifandi fyrir augum manna, ef þeir hafa þau opin,“ segir Ómar og tekur undir þá spurningu blaðamanns hvort göngurnar gagnist ekki rannsóknarlögreglumönnum afar vel.

Sigurður Eiríksson

Ómar og Sigurður Eiríksson frá Norðurkoti við Dauðsmannsvörðu í Miðnesheiði.

„Þetta skerpir óneitanlega athyglisgáfuna og hjálpar mönnum að setja hlutina í samhengi við aðrar aðstæður en menn eiga við dags daglega. Það getur gagnast öllum, óháð starfi þeirra.“

Sækja þekkingu í eldri borgara

„Við höfum haft þann hátt á hjá okkur að við erum með fastar ferðir,“ segir Ómar. Hverjum sem er er leyft að koma með og taka þátt og hefur hópurinn leitað til fólks með þekkingu á ákveðnum svæðum, sem hefur leiðsagt honum.
„Gamla fólkið veit ýmislegt og oft hefur enginn spurt um þessa hluti í háa herrans tíð. Fyrst þegar við komum er það dálítið á varðbergi og veit ekki alveg hvað það á að segja, en síðan fer það að opnast og það rifjast upp fyrir því ýmislegt frá fyrri tíð og það deilir miklu með okkur.“

Staðarhverfi

Óli Gamalíasson frá Stað sýnir FERLIRsfélögum fornan brunn.

Þó ferðir FERLIR hafi orðið þekktari og hróður hópsins breiðst út hefur engu að síður verið reynt að halda fjöldanum í lágmarki, en Ómar segir ekki mega vera nema ákveðinn fjölda því annars verði tafir. „Hins vegar höfum við farið inn í aðra hópa og tekið að okkur leiðsögn og farið með hópana af sérstökum tilefnum án endurgjalds,“ segir Ómar. „Þetta er líka spurning um að gefa sér tíma til að pæla og þá er gott að hópurinn sé þannig samsettur að hann hafi áhuga á því tiltekna viðfangsefni sem verið er að skoða þá stundina. Sumir hafa áhuga á þjóðlegu hlutunum, aðrir á hellum, enn aðrir hafa áhuga á ströndinni og sjávarbúskapnum. Þá hafa sumir áhuga á seljunum eða jafnvel jarðfræðinni og jarðlögunum.

Hraun

Refagildra við Hraun. Gildran sú er með fjórum inngöngum, sem þykir mjög sjaldgæft. Refagildran, sem er ein af u.þ.b. 100 slíkum sem hefur aldrei verið fornleifaskráð. Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni, er hér ásamt Sesselju Guðmundsdóttur og öðrum FERLIRsfélögum við refagildruna ofan Hrauns-Leynis.

„Reykjanesið hefur eitthvað að bjóða fyrir alla þá er hafa áhuga á hreyfingu og útivist, hvort sem er að ræða náttúru eða minjar“, sagði Ómar að lokum.

Heimild:
-Morgunblaðið, 206. tbl. 03.08.2005, Reykjanesið hefur eitthvað að bjóða fyrir alla, bls. 16.

Ferlir

Í hellinum FERLIR í Brennisteinsfjöllum. Félagar í gönguhópnum fundu hann og skírðu að sjálfsögðu í höfuðið á félagsskapnum – líkt og a.m.k. sumir hellaleitarmenn hafa gert í gegnum tíðina.

Íslandskort 1590

Á Reykjanesskaganum, fyrrum landnámi Ingólfs, eru a.m.k. 12 þekktir verslunarstaðir frá upphagi byggðar og fram á 18. old. Þessir staðir voru Járngerðarstaðir, Staður, Hafnir, Básendar, Keflavík, Vogar, Bieringstangi, Hafnarfjörður, Reykjavík, Blikastaðir, Hvammur og Búðasandur (Maríuhöfn).

Staður

Staður í Grindavík. Hafnarkort Dana frá einokunartímanum á 17. öld.

Í BA ritgerð Sigurjónu Guðnadóttur til náms í fornleifafræði, „Nautn og nytjar„, frá árinu 2012 er m.a. fjallað um uppgrafna verslunarstaði hér á landi og erlenda gripi, en í henni er einnig fjallað um verslun í hinu sögulega samhengi:

„Verslun og viðskipti hafa þekkst á milli manna hér á landi um langa tíð. Vöruviðskipti og verðlagning hefur gengið manna á milli og þróast í gegnum tíðina um leið og vöruleiðir breyttust og breiddust út með tilheyrandi afleiðingum.
Viðskipti og vöruskipti þekktust vel þar sem erlendir aðilar komu til Íslands með varning frá heimalandi sínu og hafa fornleifarannsóknir sýnt það, og eins eru til ritaðar heimildir um verslunarstaðina og hvernig lög voru í kringum þessa verslunarstaði.
Eftir landnám voru verslunarstaðirnir fáir á mikilvægum stöðum, en eftir að verslun Englendinga og síðan Þjóðverja fór vaxandi á 16. öld, fjölgaði stöðunum með tilheyrandi átökum. Sautjánda og og 18. öldin einkenndust síðan af einokunarverslun Dana.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Þar sem Ísland byggðist fyrst og fremst á bændasamfélagi, munu bændur sem hafa ætlað sér að taka þátt í vöruskiptum og verslun getað framleitt eitthvað umfram það sem þá vantaði fyrir bæi sína og ábúendur. Allt sem var umfram sjálfsnotkun á vörum var þá hægt að reyna að selja eða til að skipta út vörum fyrir aðrar sem hafa verið meiri þurfi fyrir bæinn.
Til að skilja tilgang verslunarstaðanna verður reynt að greina hugsunarháttinn á bak við þá, lögin, gjaldeyri og verð og hvers lenskir þessir viðkiptamenn voru sem komu til Íslands til þess að eiga viðskipti við heimamenn. Hægt er að sjá út frá legu og útfærslu á verslunarstöðunum að einhvers konar stýring og hugsunarháttur hefur farið fram á þessum stöðum. Staðirnir voru jafnan uppsettir sem lítil verslunarþorp og einhver miðstýring hefur verið við þessa staði. Reynt að finna tengingu á þeim hvað varðar uppsetningu þeirra og jafnvel hvort það hafi verið menn frá sama landi sem settust að á fleiri en einum stað.

Vissulega voru einhver lög um hvernig átti að hegða sér varðandi verslunarstaði. Skattar og annað fylgdi því að fá að leggja að landi og stunda sín viðskipti.
Nokkuð áberandi þykir að sjá í Biskupasögum að sjómenn og kaupmenn hafi heitið á biskup við Íslandsstrendur til að komast klakklaust að landi. Í því samhengi er helst heitið á Þorlák biskup sem var biskup í Skálholti frá árunum 1178 – 1193. Þar má nefna að kaupmenn sem komu frá Vestmannaeyjum og voru á leið sinni til Eyrar (Eyrarbakka), líklegast með varning, lentu í slæmu óveðri og hétu á Þorlák biskup um að þeir kæmust á leiðarenda. Fyrir kraftaverk hætti óveðrið og þeir komust samdægurs til Eyrar. Ekki er sagt frá því þarna hverju þeir hétu á Þorlák, en til eru í Biskupasögunum frásagnir um hverju var heitið fyrir góðan byr og örugga ferð.

Básendar 1726

Básendahöfn og Keflavíkurhöfn 1726.

En þó svo að verslunarstaðirnir séu nefndir, þá hefur það sést að í fæstum tilvikum eru einhver viðskipti í gangi. Þessir staðir virðast frekar vera samkomustaðir þar sem fólk var að koma til landsins.
Ritaðar heimildir segja ýmislegt sem fornleifar myndu ekki sýna okkur. Þá helst um mannlífið og hvernig menn áttu að haga sér varðandi viðskiptahættina og samskipti við hina og þessa sem stunduðu viðskiptin eða réðu yfir svæðunum. Óháð því hvaða staður er til umfjöllunar, þá kemur sum staðar skýrt fram hvað mátti og hvað ekki á þessum stöðum á meðan aðrar heimildir sýna það aðeins óbeint s.s. verðlag á vörum og skatta. Þá er einnig mikilvægt að skilja hvernig almenn starfsemi hefur farið fram á stöðunum, á annan hátt en að þar hafi aðeins verið vörur til að eiga viðskipti með. Líkt og í dag hafa vörurnar kostað eitthvað, burtséð frá því í hvers konar formi gjaldeyririnn var. Þessar vörur þurfti að vega og meta.

Í íslensku fornbréfin segir að sex skip hafi átt að koma til landsins á hverju ári. Mikið misræmi er í túlkun þeirra. Í bréfi sem skrifað var á Þingvöllum þann 1. júlí 1419 segir; „Kom oc ydart bref hit j landhit til oss j huerio ij forbudut oss ath kaupslagha met nokora vtlendska mænn. En worar rettarbetøtr giora suo raadh firer atg oss skyldæ koma sæx skip af noreghi arligha: huat sæm æi hefuer komit vpp a langha tima: huar af ydr naadh ok þetta fatæka landh hefuir tækit grofuan skada:…“.

Búðasandur

Búðasandur – uppdráttur.

Í Lögmanns annál frá árinu 1419, þaðan sem þessi texti kemur, útskýrðu Íslendingar í bréfi til Eiríks konungs hvers vegna þeir skiptu við útlendinga þrátt fyrir bannið sem sett hafði verið á þá. Bréfið er undirritað af 24 mönnum þar sem tveir eru lögmenn og einn hirðstjóri.
Gamli sáttmáli er skrifaður á eftir bréfinu eða á 15. old. Tilgangurinn með bréfinu var að sýna fram á hvernig Ísland hafi verið áður en Íslendingar gengust undir stjórn Noregskonungs og að Íslendingar hafi ákveðið að sameinast konungi vegna fátæktar sem var í landinu, átti þá konungurinn að vera n.k. verndarhringur.
Í þessu skjali eru nefnd skipin sex sem áttu að hafa komið til Íslands og segir í bréfinu að þeir vilji þjóna konungi í samræmi við sín fornu lög, hefðir og skilmála sem forfeður þeirra settu.
Eins og áður kom fram hafa þessi sex skip verið túlkuð á ýmsan hátt og m.a. hefur til dæmis verið talið að þessi skip hafi verið tilraun konungs til einokunar á Íslandi, setja skorður konungs yfir vald viðskipta Íslendinga og Norðmanna og að tryggja kaupsiglingu fyrir afurðir sínar.
Ekkert bendir til að viðskiptakjör Íslendinga hafi farið versnandi um miðja 13. öld eða að illa hafi gengið að fá skip til landsins. Að tengja skipin sex við fátækt landsmanna hafi varð til á 15. öld, meðal annars þegar Íslendingar hylltu Eirík af Pommern árið 1419 en Lögmanns annáll greinir frá því að árið 1413 hafi Eiríkur af Pommern bannað alla verslun Íslendinga við útlenda kaupmenn sem þeir höfðu ekki skipt við áður. Aftur á móti hafði konungurinn í Englandi lagt blessun sína yfir viðskiptin á milli þeirra og Íslendinga. Það sem hvatti helst Íslendinga til að taka saman í sáttmálana var áhuginn á viðskiptum við Englendinga sem voru að aukast til muna og frekari bein viðskipti voru í gangi.

Maríuhöfn

Maríuhöfn 2020.

Ýmsar túlkanir hafa komið fram á þessum texta varðandi skipin sex og hvort fátækt hafi virkilega ríkt á Íslandi á 14. og 15. öld en þessi texti virðist vega þyngra en ýmsir aðrir textar sem er að finna í íslenskum fornritum. Það sem þykir svona mikilvægt við þetta textabrot er mikilvægi Íslendinga við samskipti erlendis og þá hvernig viðskiptin hafa farið fram. Var allt komið í ólag á 14. öld þannig að Íslendingar neyddust til að biðja um aðstoð frá Noregskonungi og þar af leiðandi að fá aðeins sex skip til Íslands á hverju ári, eða var þetta leið konungs til þess að einoka viðskipti Íslendinga eingöngu við Norðmenn?
Björn Þorsteinsson telur hins vegar að ekki sé víst að Íslendingar hafi í raun verið háðir Norðmönnum varðandi matvælainnflutning þar sem hann telur að sex skip til landsins hefðu ekki nægt til að flytja allt sem Íslendinga vantaði á síðari hluta 13. aldar, heldur að Íslendingar hefðu þurft að koma afurðum sínum á markað og að þessi sex skip hefðu verið nægilega mörg til þess. Þannig hafi verslun ekki verið svo illa stödd á þessum tíma þrátt fyrir það sem ritaðar heimildir virðast gefa í skyn.
Helgi Þorláksson tekur undir þetta og segir Gunnar Karlsson þar sem hann vitnar í Helga, að með þessum sex skipum hafi þau getað borið samtals 720 tonn, eða ríflega 120 tonn hvert þeirra. Áætlað er að Íslendingar hafi haft um 550 – 660 tonn af vaðmáli til að flytja út ár hvert og passar það við áætlanir á kaupsiglingunum til Íslands sem hafa verið, líkt og sagt var, um 700 tonn.
Líklegt er að umræðan um þessi sex skip séu til komin vegna deilna varðandi fiskveiði og verslun Englendinga á Íslandi á 15. öld. Englendingar voru farnir að venja komur sínar við Íslandsstrendur bæði til viðskipta og til veiða.

Víkingar

Víkingaskip – knörr í legu.

Íslendingar versluðu vel við þá og hafa því viljað halda því áfram þó svo að Noregskonungur hafi sett bann á það. Árið 1412 greinir Lögmanns annáll frá því að ensk skip hefðu komið til Íslands. Sumir fræðimenn hafa dregið þá ályktun að ensk skip hafi ekki komið til landsins áður og því sé útilokað að enskir kaupmenn hafi verið hér á landi undir lok 14. aldar.
Enskir kaupmenn eru samkvæmt heimildum taldir fyrst hafa komið til Íslands árið 1412 og áttu þeir menn að hafa orðið strandaglópar fyrir austan á Mýrdalssandi. Sumarið eftir kom á sömu slóðir enskt kaupskip og endaði með því að sigla til Hafnarfjarðar því skipstjórinn vildi ekki sigla til Eyrarbakka. Þessir kaupmenn höfðu leyfi Noregskonungs til að versla við Íslendinga. Björn Þorsteinsson telur að þetta hafi sem sagt verið fyrstu tveir rannsóknarleiðangrarnir til að versla við Íslendinga. Árið 1413 og 1414 hafa Englendingar verið komnir til að vera við Íslandsstrendur. Í fyrstu voru það fiskiduggur sem voru við strendur Íslands en þegar Englendingarnir þurftu að koma að landi til að fá vatn og mat komust þeir að því að Íslendingar voru tilbúnir að selja þeim vistir og skreið fyrir annan nauðsynlegan varning.
Munur er á Gissurarsáttmála og Gamla sáttmála. Gissurarsáttmálinn er skrifaður af Gissuri jarli Þorvaldssyni og tók aðeins gildi á Norðurlandi og Suðurlandi. Gamli sáttmálinn tók gildi fyrir allt Ísland. Gissurarsáttmálinn kvað á um að sex skip skyldu koma til Íslands næstu tvö sumur þangað sem hentugast þætti eftir landi. Skipin áttu að vera hlaðin þeim gæðum sem Íslendinga vantaði. Íslendingar settu í skilmálaskrá á 14. öld að tvö þessara skipa ættu að fara suður fyrir land á Íslandi. Önnur tvö norðan megin og síðustu tvö ættu að fara sitt hvorum megin við Ísland, vestan megin og austan megin.

Víkingaskip

Steinrissa af víkingaskipi, sem fannst við fornleifauppgröftinn að Stöð hefur líklegast verið verndargripur fyrir erfiða ferð yfir hafið. Danskir sérfræðingar hafa að undanförnu grandskoðað steininn. Þeir efast ekki um að teikningin sé af skipi en þykir hún óvenjuleg.

Miklar breytingar urðu síðan um veturinn 1340 – 1341, en þá komu til landins ellefu skip frá Noregi sem fóru öll á suðurhluta landsins, þar af voru sex í Hvalfirði. En þó virðist sem mismunandi túlkanir hafi verið á þessum lögum eftir því hvaða fræðimaður hefur lesið sáttmálann, Boulhosa telur að samkvæmt sáttmálanum hafi konungurinn ekki áætlað sex skip á Ísland heldur hafi Íslendingar staðið vörð um að a.m.k. sex skip kæmu til Íslands fyrir viðskipti, en Noregskonungur hefði sett á einokun þar sem þýskir kaupmenn voru orðnir færari í viðskiptum. Um aldamótin 1300 var komið á bann frá Hákoni Magnússyni þar sem hann lýsti því yfir að: „Enginn útlenskur maður skyldi flytja góss eða senda norður um Bergvin eða í annars staðar til sölu í hérað eða gera félag til Íslands eða annarra skattlanda míns herra konungs“.

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn 1776-1778 skv. mælingum H.E. Minor.

Talið er að Grágás hafi verið rituð á árunum 1117 – 11183. Í henni er sagt frá ýmsum lögum sem varða verslunarhætti á Íslandi. Lög þóttu það mikilvægasta þegar byrjað var að rita bækur. Í Íslendingabók segir frá þegar Bergþór Hrafnsson hafði fyrsta sumar sitt lesið upp lög Íslendinga og eftir það var ákveðið að rita skyldi þau lög niður. Hann, ásamt fleirum höfðu þá aðsetur hjá Hafliða Mássyni og festu lögin í bók, sem varð Grágás og skrifuðu einnig ný lög sem þeim leist betur á en fyrri lög er voru þá til staðar. Í Grágás er sagt að allir menn nema Norðmenn, skyldu greiða hafnartoll. Slíkt gjald rann til landeigenda og átti verðið að vera „…öln vaðmáls eða ullarreyfi það er sex geri hespu, eða lambsgæru.“ En þeim sem lögðu við land átti landeigandi einnig að útvega húsrúm fyrir komumenn.

Grágás

Texti í Grágás.

Skattur, svo kallaðir landaurar, var lagður á skip Íslendinga sem komu að höfn í Noregi. Sá skattur rann til konungs í Noregi og þurftu þeir að borga skattinn til varðmanna í kaupstöðunum. Gjaldið var sex feldi og sex álnir vaðmáls eða hálf mörk silfurs. Íslendingar nutu þó þeirra fríðinda í Noregi að þeir máttu höggva allan þann við sem þeir þörfnuðust og fengu einnig að njóta vatns þar í landi.
Árið 1425 fullyrðir Hannes Pálsson að konungur fái fjórðung tekna af hverju skipi sem siglir til Íslands þannig að einhver skattur hefur verið lagður á skip sem sigla til Íslands vegna viðskipta. Sé það rétt, telur Boulhosa að það hljóti að hafa freistað kaupmenn til að reyna að komast framhjá banninu og sigla því til annarra hafna en Björgvinjar.
Jónsbók er talin hafa verið tekin í notkun árið 1281 en hún segir lítið til um reglur kaupmanna við verslun, aftur á móti eru ýmis lög í Jónsbók tekur þessa setningu beina frá Norges gamle lov III nr. 55. Bls. 134.

Í Íslendingabók er talað um að fyrsta handritið af lögum Íslands hafi upphaflega verið kallað Hafliðaskrá þar sem þeir höfðu aðsetur á Breiðabólsstað, bæ Hafliða Mássonar og telur Ól. Lárusson að sú bók sé varðveitt í meginatriðum í Grágás.
Lög voru í gildi varðandi magn sem átti að vera fyrir skipsmenn, þannig að miklu skipti greinilega hversu mikið var sett um borð í skipin áður en farið var erlendis. Fyrir tvo menn átti t.d. að vera jafn mikill þungi og samanlagðar þrjár tunnur fullar af vatni, sem átti þá að vera af fatnaði, mat og drykk. Einnig skipti máli í hvers konar ástandi skipin voru en leyfi var veitt til að sigla á skipi sem ausa þurfti úr þrisvar sinnum á tveimur dögum. Nema ef háseti segði til um annað. Komst hásetinn að því að ausið var úr skipum að næturlagi gat það varðað við sektum.

Herjólfshöfn

Herjólfshöfn í Hafnarfirði – forn verslunarstaður.

Einnig segir þar að þegar menn kæmu að landi áttu þeir að hlaða veggi fyrir skip sín og koma sér fyrir. Engan toll átti að greiða, sem var nýtt frá því að Grágás var í notkun. Jónsbók er talin hafa verið skrifuð á árunum 1280 – 1281 sem gerir um 163 ár á eftir Grágás, einhverjar breytingar áttu sér stað þar á milli þó svo stutt sé á milli þessara lagabóka, en engin ástæða var samt gefin fyrir þessum breytingum.
Gamli sáttmáli er sagður hafa verið ritaður á 13. öld þegar Íslendingar gengust undir vald Noregskonungs á árunum 1262 – 1264. Meira kemur fram í sáttmálanum heldur en í annálum og sögum um sama tíma þegar Ísland gekkst undir vald Noregskonungs en slíkt á sér skýringu þó hugmyndum og vangaveltum varðandi tilurð og þýðingu þessa texta hafa verið fleygt fram og aftur.
Sérstök leyfi voru gefin til viðskipta á milli landa þar sem konungurinn hafði stjórn. Með þessum leyfisveitingum gat konungurinn komið á viðskiptum við enska kaupmenn sem höfðu verslað lengi við Norðmenn, og Þjóðverja sem voru nýkomnir á vettvang og vildu auka sinn skerf innan viðskiptanna.
Goðar höfðu ákveðin völd yfir verslunarstöðunum þó svo ekki sé vitað nákvæmlega hver staða þeirra var. En líkur eru á að konungur hafi ráðið eitthvað um verðlag á Íslandi, löngu fyrir 1262 þá er líklegt að goðarnir hafi séð til þess að þau verð hafi verið notuð sem konungur hafði skipað.

Jónsbók

Texti í Jónsbók.

Þegar Jónsbók var skrifuð hafa lögin um skatt með komu skipa verið afnumin, en slíkt tíðkaðist þó á þeim tíma þegar Grágás var í notkun, nema líkt og áður hefur verið sagt, hafi verið um Norðmenn að ræða. Þó svo að eitthvað sé sagt frá viðskiptum og kaupum í Grágás, þá er ekki mikið talað um erlenda kaupmenn sem komu til Íslands og hver lögin um þá ættu að vera, nema talað er um að allir nema Norðmenn skyldu greiða toll.
Hvað helst ætti að flytja til landsins eða reglur um viðskiptin er ekki sjáanlegt í lögunum, sem getur gefið þá skýringu að það hefur þótt mikilvægara hvernig kaupmenn höguðu sér sín á milli frekar en hvernig þeir háttuðu sínum viðskiptum.
Fyrir stjórn Noregskonungs réði hvert hérað fyrir sig yfir verslun en goðar náðu því að nokkru leyti undir sitt vald þegar leið á 13. öld. Gunnar Karlsson fer svolítið yfir þetta í Goðamenning. Hann segir þar að það hafi verið óvenjulegt að höfðingjar hafi ráðið verði á vörum á Íslandi um 1200 en það sem hafi breyst smám saman. Grágás sýnir að lagaákvæði hafi verið um skipulagt verðlagseftirlit og að landið hafi átt að skiptast í „héraðstakmörk“ með forráðsmenn til þess að leggja lag á mjöl, léreft, við, vax og tjöru. Gunnar telur þetta þó vera tilbúningur síðari alda og sé aðeins lagafrumvarp. Það eru engar upplýsingar til um hvernig hreppum var skipt niður fyrr á árum, ekki fyrr en árið 1703 þegar manntalið var skráð á landinu. Hafi slíkt verið til staðar þá hefðu goðar verið í hreppstjórnum. Goðar og höfðingjar voru sem sagt yfir verslunarstöðunum og seinna meir var það kirkjan sem var yfir þeim enda sést það á Grágás um hver helsta innflutningavaran hefur verið, mjöl, léreft, viður, vax og tjara.

Vaðmál

Vaðmál mælt. Stofnun Árna Magnússonar, Reykjavík, (Ref.: Jónsbók, GKS 3269b 4to. 15. öld.).

Menn áttu ekki að reyna að græða á viðskiptum og „ágóðahyggja“ var litin hornauga á Þjóðveldisöld. Það þótti ekki til sóma sé tekið mið af Hávamálum sem menn fóru mikið eftir á þeim tíma. Menn áttu aðeins að vera með jöfn vöruskipti.

Stjórnvöld í sunnan- og vestanverðri Evrópu vildu hafa ákveðin verð í samræmi við vörur. Gjaldmiðill hefur skipt öllu varðandi vöruskipti og -kaup. Þó lítið hafi fundist á uppgraftarsvæðunum af einhverju sem geti bent til að verslað hafi verið með gulli og silfri, hefur eitthvað fundist af því en heimildir segja einnig að hrein vöruskipti hafi verið í gangi þar sem t.d. vaðmál og skreið giltu sem ákveðin mælieining fyrir gjaldi.
Ákveðið verðlag var komið á milli íslenskra stjórnvalda og norskra kaupmanna á 13. öld. Helgi vitnar í kenningar um réttlátt verðlag sem hefur líklegast áður verið óþekkt á Íslandi, en þar sem segir í Grágás að matsmenn ættu að meta vörur og líklegast einnig aðrar vörur sem ekki höfðu neitt verð, þá hafi smám saman fest í sessi ákveðið verðlag fyrir ákveðna vöru eða sem ákveðinn gjaldmiðill.
Gjaldmiðill til afborgunar á ýmsum vörum voru margs konar líkt og hefur komið fram, og má í raun skipta vöruflokkum niður á tímabil í Íslandssögunni. Mjög algengt er t.d. að sjá að á fyrri hluta miðalda hafa Íslendingar verslað mikið með vaðmál og á seinni hluta miðalda hefur skreið aukist í miklu mæli.

Mælitæki

Mælitæki. Stofnun Árna Magnússonar, Reykjavík (Ref.: Jónsbók, AM 147 4to (Heynesbók), 15. öld.).

Silfur var gjaldgengur gjaldmiðill og var talið í aurum en einn eyrir vó um 27 grömm. Lögsilfur af ákveðnum skírleika reyndust vera 6 álnir í vaðmáli og nefndist vaðmálseyrir. Ein alin taldist vera 49 sm. Í einni mörk voru 8 aurar eða 48 álnir vaðmáls. Kringum 1100 reiknaðist einn eyrir silfurs á mörk vaðmála. Silfur hafði hækkað mjög í verði ef tekið er mið af vaðmálum, en hækkunin hafði verið áttföld. Til að vaðmál væri gjaldgengt, þurfti það að vera af ákveðinni gerð, breidd og þyngd miðað við lengd. Fyrir 1330 var vaðmál aðal gjaldmiðillinn og verðeiningin. Vaðmál og annað léreft áttu að vera í sömu mælieiningu en stika sem átti að mæla slíkt átti að vera tveggja álna löng sem jafngilti 98 sm. Sá sem ætlaði að kaupa vaðmál (léreft eða klæði) mátti síðan ráða hvort mælt væri að hrygg eða að jaðri.
Verslunarmál hafa verið bæði af félagslegum og pólitískum toga, en það hefur þótt ákveðin valdastaða að geta verslað með silfri, Silfrið gat einnig staðið eitt og sér sem skartgripur og stöðutákn. Vaðmálið tók við af silfri sem helsti verðmælir. Mikið magn af silfri hefur borist til landsins á fyrstu öldum eftir landnám en farið þverrandi þegar hefur liðið á 11. öld. Silfrið var vegið í vogarskálum og skírleikinn kannaður með því að marka skorur í silfrið.

Vaðmálsskór

Jarðfundinn skór úr vaðmáli, frá miðöldum.

Jón Jóhannesson nefnir að samkvæmt Íslendingasögunum virðist sem goðar hafi haft rétt á að leggja verð á vörur erlendra kaupmanna en öruggu dæmin fyrir því séu ekki eldri en frá 13. öld. Hann dregur því þá ályktun að goðar hafi ráðið um verð, hafi það verið talið nauðsynlegt og að eingöngu hefðu verið voldugustu goðar sem gátu ráðið um það. Gunnar Karlsson er sammála því og segir að lagaákvæði hafi verið í Grágás um „skipulagt verðlageftirlit“ þar sem landinu var skipt upp í nokkur héraðstakmörk með forsvarsmenn í hverju takmarki til þess að leggja lag á mjöl, léreft, við, vax og tjöru. Skipting þessara hreppa eru ekki til í heimildum og í raun eru fyrstu skráðu hrepparnir frá 1703.
Svokallaðir reiknispeningar voru notaðir við viðskipti erlendis og var Ísland engin undantekning frá því enda hafa nokkrir slíkir peningar fundist á Íslandi. Þessir reiknispeningar höfðu tvíþættan tilgang, annars vegar vegna stærðfræðinnar og hins vegar vegna myntarinnar sjálfrar.
Stærðfræðilegi grunnurinn svipar til talnagrindar, þar sem þurfti einnig eitthvað undir peningana til þess að geta reiknað, fjöl, borð eða jafnvel dúk. Þessar myntir voru verðlausar til kaupa og átti aðeins að notast við reikning.

Silfurmynd

Hluti silfurmyntar.

Myntin sjálf sagði til um verð á umsaminni vöru eða þjónustu. Myntir þessar gengu undir ýmsum nöfnum en þar má nefna svarta peninga og klausturpeninga. Á 13. öld fóru eftirlíkingar á enskum sterlingum og frönskum écum að verða lang algengastar. Útliti á myntunum var skipt í ýmsa flokka en algengustu flokkar voru í einhverjum trúarlegum tilgangi, útskýring á því að reiknispeningar væru í raun verðlausir, stærðfræðileg notkun á mynt og svo mætti lengi telja. Ástæða þess að reiknispeningar lögðust af er sögð vera vegna pappírs en það þótti síðar auðveldara að reikna á pappír frekar en með reiknispeninga. Kýrverð jafngilti sex ám loðnum og lembdum í fardögum á vori.

Fiskar og aðrar sjávarafurðir urðu síðan gjaldmiðill á 14. öld þegar aukning hafði verið á skipum sem komu til landsins en talið er að um árið 1340 hafi komið hingað 21 skip og fóru sjávarafurðir út frá því að vega meira í verðmæti heldur en vaðmál.
Árið 1420 var bréf skrifað sem segir að skreið hafi hækkað í verði úr 6 vættum hundraðið í allt að 3 ½ vætt. En það er um 71,4% hækkun en skreið varð aðalkaupeyrir Íslendinga.

Tjara

Tjara.

Verð á Íslandi voru föst í sér í ákveðnum hlutföllum. Verð á vörum þótti nokkuð mikilvægt og hægt er að sjá það í heimildum hvernig hlutfall var á milli verða og vara, þó hafa verðgildin verið breytileg í gegnum tíðina. Grágás segir eins og áður er nefnt, að leggja skyldi verðlag á mjöl, léreft, við, vax og tjöru, „átti að liggja við tólf merkur vaðmála ef menn keyptu dýrara en það verðlag sem sett var á“. Jónsbók segir aftur á móti að eftirfarandi vörutegundir yrðu að vera verðlagðar, léreft, vax, skrúðklæði og eirkatlar. Frjáls samkeppni átti að vera og því var samningur á milli kaupanda og seljanda bönnuð.
Verðlag sjálft á vörum var breytilegt og að ekki hefur alltaf verið sama verðeining fyrir vörurnar. Helstu gjaldmiðlarnir hafa þó verið alin og kúgildi, álnir þá helst notaðar tengt vaðmál. Helgi Þorláksson hefur skoðað verðgildin í Vaðmál og verðlag þar sem hann segir að kúgildið festist í 120 álnum á 14. öld og í raun voru komin föst verðgildi á 14. öld.
Ýmsar mælieiningar voru notaðar í verðgildum er sýna í hnotskurn að verðgildin á milli kúgildis annars vegar og silfurverð hins vegar. Nokkuð staðlað verð var á milli álna, marka og aura en kúgildi hefur verið svolítið á reiki gagnvart hinum verðeiningunum og líklegast verið ákveðið á hverju vorþingi fyrir sig. Eftir lögfestu Jónsbókar hefur þó líklegast verið komin regla á þessa verðeiningu.
Mælitækin voru ónákvæm og voru því oft þrír menn fengnir til þess að meta vöru til að komast að samkomulagi um verð en það er nákvæmlega það sem Grágás segir til um matsmennina sem áttu að koma sér saman um verð á vöru.

Mjöl

Mjöl.

Almennt er sagt að á fyrstu árum eftir landnám hefðu Íslendingar að mestu verið með sjálfsþurftarbúskap. Rekaviður og íslenskur viður var notaður í hýbýli og báta, járnvinna var gerð með rauðablæstri og fatnaður unninn úr dýrum sem bjuggu á landinu. Á landnámstímanum hafi viðskipti á milli Íslands og Noregs verið þau helstu vegna þess að Íslendingar hafa sótt í það sem þeir þekktu og þar af leiðandi til Noregs. Talað er um 100 íslensk skip í tengslum við viðskipti en aðeins 47 norsk sem komu til Íslands, þ.e. Íslendingar fóru frekar til Noregs eftir vörum heldur en að Norðmenn kæmu til Íslands.
Rétt eins og í viðskiptum í dag, þarf jafnvægi í verslun þar sem nóg er af framboði og eftirspurn. Á meðan Íslendingar keyptu ýmsan varning erlendis frá voru þeir einnig að selja innlendar vörur til erlendra markaða. Það sem þótti helst vinsælast voru aðallega ullarvörur og þá helst vaðmál, vararfeldir og einnig var talað um að Íslendingar væru að selja óunna ull. Íslenska vaðmálið seldist helst í Þýskalandi og Englandi þar sem það var helst notað í föt, tjöld, segl og umbúðir.

Fiskur, brennisteinn, fálkar og lýsi var einnig vinsæll varningur erlendis en slíkt fór þó ekki að verða vinsælt fyrr en á 14. öld. Íslenskir fálkar voru þar vinsælastir og er talað um að þeir hafi verið notaðir síðan helst sem gjafir milli aðalsmanna og höfðingja. Á 14. öld breyttust aðalvörur til útflutnings, en skreið og lýsi fóru þá að vera vinsæl á sama tíma og eftirspurn eftir vaðmáli varð minni. Einnig fóru sjávarvörur að verða vinsælli en landbúnaðarvörur.
Fiskútflutningar var vinsælli á Suður- og Vesturlandi heldur en frá Norðurlandi og má þar nefna að norskt skip sem lagði frá höfn að Gásum fórst við strendur Íslands árið 1323 og náðist að bjarga miklum hluta farmsins, þar á meðal var ekki skreið en mikið magn af lýsi fannst þar, það er heimildin um að lýsi hafi verið útflutningsvara og er ritað í Biskupasögum.

Brennisteinn

Brennisteinn í Seltúni í Krýsuvík.

Gæði íslensks vaðmáls fóru þverrandi eftir því sem leið á og fyrsta kvörtunin barst árið 1329 frá Magnúsi Eiríkssyni konungi. Talið er að líklega skýringin á verri gæðum vaðmáls hafi verið vegna minnkandi vinsælda á því og að góð vaðmál voru nú farin að berast til Norðurlanda með Hansakaupmönnum.
Brennisteinn var vinsæll á 14. öld og var flutt út í tunnum, hann var síðan notaður sem púður fyrir byssur og annað slíkt. Um 1200 var vætt10 smjör sem hefur einnig verið útflutningsvara, metið á 30 álnir en í Jónsbók er sagt frá verði smjörs sem var þá metið á 48 álnir og á 14. eða 15. öld hækkaði verðið enn meir þar til það var komið uppí 80 álnir. Þessi mikla verðhækkun hefur stafað af mikilli eftirspurn en smjörið var vinsælt með harðfiski.
Skipta má íslenskum miðöldum í tvennt hvað helstu útflutningsvörur varðar. Fyrir 11. öld var helsta útflutningsvaran vaðmál og önnur ullarvara og á 13.-15. öld hefur það verið fiskur og þá helst skreið. Það stangast þó á við það sem Björn Þorsteinsson segir, að skreið hafi verið vinsælli á 14. öld. Slíkt er þó erfitt að segja með vissu þar sem ritaðar heimildir samræmast oft ekki og fræðimenn eru ekki sammála. Þessar breytingar hafa samt sem áður verið til staðar, að vaðmál vék fyrir fiski og skreið.

Skreiðalest

Skreiðalest.

Þegar leið á 14. öld voru gæði þeirra vara sem bárust til Íslands einnig farin að rýrna mikið. Í skilmálaskrá sem Íslendingar sendu til Magnúsar minniskjaldar segir; „Skreið og mjöl viljum vér ei flytjist meiri, meðan hallæri er í landinu, en kaupmenn þurfa til matar sér.“Hallæri var þá orðið svo mikið á Íslandi að menn voru ekki tilbúnir að sleppa meira en nauðsynlega þurfti af harðfiski og mjöli.
Einhverju hafa þeir þó þurft að fórna til að geta keypt aðrar nauðsynjar eins og timbur. Þær vörur sem taldar voru til nauðsynja til innflutnings voru samkvæmt Grágás mjöl, léreft, viður, vax og tjara. Mjöl hefur verið talið mjög mikilvægt þar sem ekki var hægt að rækta alls staðar korn á Íslandi. Mjölið kom lang oftast frá Noregi en þó stundum frá Orkneyjum. Oft var þó flókið að flytja það til landsins þar sem konungur Noregs og stundum erkibiskupinn í Niðarósi þurftu á tíðum að gefa leyfi til útflutning á mjöli. Tvenns konar léreft var flutt til landsins en báðar tegundirnar voru helst notaðar fyrir kirkjur og undirföt. Annað léreftið er talið hafa komið frá Niðurlöndum og hitt frá Englandi. Ýmsar aðrar vefnaðarvörur voru einnig fluttar til Íslands, þær voru misdýrar og til í ýmsum litum og þóttu því góð munaðarvara.
Mikill viðarskortur hefur orðið á Íslandi eftir landnám þar sem nær allur viður var notaður í húsabyggingu og annað sem þótti nytsamlegt, og því þurfti að flytja við til Íslands, einnig segir Jón Jóhannesson að Íslendingar hafi farið erlendis í sérstakar ferðir til þess eins að kaupa sér við. Tjara hefur verið nauðsynleg til varnar gegn fúa og var því notuð á kirkjur og skip. Tjaran hefur skipt það miklu máli að hægt var að greiða tíund sína í tjöru.

Reykjavík 1835

Reykjavík 1835.

Nýjustu rannsóknir við „urban“ eða þéttbýlisþróun á verslunarstöðum er að finna hjá Søren M. Sindbæk en hann hefur helst fjallað um verslunarstaði og þéttbýlismyndun, og fjallar gjarnan um tengingu þess á milli. Hann nefnir í einni grein sinni að það sem geri útslagið við staðsetningu verslunarstaða séu auðveld tengsl við útlönd, svo sem hvort staðsetning sé hentug upp á alfaraleið skipa eða ekki, fremur en pólitísk völd sem ákveði staðina. Fróðlegt væri að kanna hvort slíkt ætti við um Ísland, þrátt fyrir að ritaðar heimildir hafi gefið í skyn að verslun hafi stjórnast af pólitík gæti það hafa verið mál síðari tíma og við upphaf verslunarstaða hafi valið einkennst af þægindum við alfaraleið skipa og nálægð við helstu staði inni í landi. Þar sem verslunarmenn frá mismunandi stöðum hafa komið á hvern verslunarstað fyrir sig, hafa verið mismunandi reglur og mælieiningar á hverjum gjaldmiðli fyrir sig verið til staðar sem síðar með tímanum festu sig í sessi og urðu að ákveðnum reglum manna á milli þó svo enginn sérstakur með pólitísk völd stjórnaði hverjum verslunarstað fyrir sig.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður fyrrum.

Staðirnir voru fyrst og fremst tengd fiskveiðum og skipaviðgerðum en höfðu þróast þannig að skip gátu siglt þangað með varning þar sem hafnir voru þar til staðar. Algengasta sjávargreinin var án efa fiskveiðarnar við þessi svæði sem rannsökuð hafa verið. Sé mið tekið af tegundum í beinasöfnum frá mörgum stöðum voru Evrópumenn á víkingatímanum ekki vanir að veiða djúpsjávarfiska, heldur fiska úr grunnum vötnum nálægt ströndinni.
Fólk sem settist að við sjóinn hafði aðrar þarfir en fólk sem settist að inni í landi og stundaði landbúnað.
Verslunarstaðirnir á Íslandi voru nánast eingöngu við sjó en til var einnig að vöruverslun var stunduð við þingstaði. Aðeins fjórir verslunarstaðir sem voru með vöruskipti á milli erlendra aðila og Íslendinga á milli landnáms og siðaskipta á Íslandi hafa verið rannsakaðir með uppgrefti, Kolkuós, Gásir, Maríuhöfn og Gautavík.“

Heimild:
-Nautn og nytjar, Uppgrafnir verslunarstaðir á Íslandi og erlendir gripir. Ritgerð til BA í fornleifafræði, Sigurjóna Guðnadóttir maí 2012.

Þingvellir

Alinmálssteinninn framan við Þingvallakirkju. Á steininn eru ristaðar löggiltar alinlengdir.

 

Brunntorfur

Í Andvara árið 2017 er grein Gunnars F. Guðmundssonar um Björn Þorsteinsson, sagnfræðing og prófessor.  Í greininni er m.a. fjallað um „Ræktunarmanninn Björn Þorsteinsson„:

Andvari

Aldvari – forsíða 2017.

„Í minningargrein, sem Sigurður H. Þorsteinsson skrifaði um bróður sinn, leitaði hugurinn til fyrstu samverustunda þeirra bræðra:
„Fyrstu minningar mínar eru frá leik á Hellu, t.d. er Högni bróðir okkar var í heimsókn. Þó sitja sennilega þær lengst er hann hvatti mig til forvitni um lífið í kringum mig, nágrennið og til hverskonar lestrar og náms. Stundirnar sem hann gekk með mér um valllendi og hraun í Selsundi og sýndi mér hverja plöntuna af annarri og útskýrði fyrir mér leyndardóma þeirra og tilgang í ríki náttúrunnar.“
Náttúran og gróðurríkið var Birni alla tíð hugleikið, og í náttúrufræði náði hann frábærum árangri á stúdentsprófi. Hann var baráttumaður fyrir ræktun og uppgræðslu örfoka lands og lét þau orð falla í viðtali að landeyðing væri „höfuðglæpur“. Engu væri þar frekar um að kenna en íslenskum sauðfjárbúskap sem væri víða „vélvædd rányrkja“. Þegar Björn mælti þessi orð, var hann orðinn roskinn maður, kominn á eftirlaunaaldur og hafði lengi átt í stríði við þrályndar rollur á Reykjanesskaga. Hann var á þeim tíma ásamt félögum sínum að vinna brautryðjendastarf sem var ævintýri líkast.

Björn Þorsteinsson

Björn Þorsteinsson (1918-1986).

Það hófst í byrjun sjötta áratugarins, þegar Bjarni Bjarnason, skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni, gaf Skógrækt ríkisins sinn hlut í jörðinni Straumi, um 2000 hektara. Landsvæði þetta hefur verið kallað Almenningur frá fornu fari. Með nýjum skógræktarlögum árið 1955 var skógræktarstjóra heimilt, að fengnu samþykki ráðherra, að leigja einstaklingum, félögum eða stofnunum lönd á erfðafestu innan girðingar Skógræktarinnar gegn því að leigutakar gróðursettu barrskóg í landinu samkvæmt fyrirmælum skógræktarstjóra og samningi við leigutaka. Allur skógur í landinu skyldi verða eign leigutaka en meðferð hans og grisjun háð fyrirmælum skógræktarstjóra.
Fljótlega eftir að lögin tóku gildi, hófust ræktunartilraunir á afmörkuðu svæði í Straumi, og um eða upp úr 1960 gerðu fjórir félagar samning við Skógræktina um leigu á landi til skógræktar. Fékk hver þeirra tíu hektara. Þessir menn voru: Björn Þorsteinsson, Broddi Jóhannesson, síðar rektor Kennaraháskólans, Marteinn Björnsson verkfræðingur og Þorbjörn Sigurgeirsson eðlisfræðingur og síðar prófessor við Háskóla Íslands, allir miklir náttúruvinir.

Brunatorfur

Brunatorfur – kort.

Straumsheiðin þótti ekki kræsileg til ræktunar og tvísýnt um árangurinn, en mennirnir létu það ekki á sig fá og gengu til verks af eldmóði. Ekki bætti úr skák að girðingin, sem átti að afmarka tilraunarreitina, var tæplega fjárheld, svo að „ókindin“ eða „girðingafanturinn“, eins og þeir kölluðu sauðkindina, olli þar oft töluverðum usla.
Birni Þorsteinssyni var tamt að skoða athafnir manna í ljósi sögunnar, og þannig leit hann einnig á þetta ræktunarstarf. Hann sá fyrir sér að á fyrstu árum Íslandsbyggðar hefði Reykjanesskaginn búið yfir miklum landkostum, undirlendi mikið, varp- og akureyjar þar sem hægt var að rækta bygg, góð fiskimið, laxár og veiðivötn, sellátur, hvalreki og geirfuglabyggð skammt undan, fuglabjörg, góðar hafnir, heitar laugar og talsverður trjáreki.

Björn Þorsteinsson

Björn Þorsteinsson í Brunatorfum.

Að auki var á Reykjanesi beitiland sem aldrei brást og skógur mikill. Þetta var sannkallað gósenland, að sögn Björns. Almenningur var enn gróðursæll og skógi vaxinn, þegar Sigríður Bogadóttir biskupsfrú og Árni Thorsteinsson landfógeti létu sækja þangað reynivið í garða sína um og eftir miðja 19. öld og hófu með því trjárækt í Reykjavík. En eftir það fór að síga á ógæfuhliðina. Björn kunni skýringar á því. Á 19. öld yfirfylltust sveitir landsins af fólki, og þá flýði það í hrönnum til verstöðvanna. Á Vatnsleysuströnd komst fólksfjöldinn upp í um 650 manns árið 1870. „Þá var gróðri skagans eytt svo að hann hefur staðið rúinn og eyddur eftir.“ Björn vildi endurheimta landið sem horfið var og klæða það skógi eins og fyrr á öldum. Hann lagði því til að Reykjanesskagi yrði friðaður fyrir sauðfé og að fólk fengi þar úthlutuð ræktunarlönd.
Ávinningurinn yrði þrenns konar: „Fólki hættir að leiðast, orkuvandinn leysist því að menn losna við að flýja austur á Hérað eða til sólarlanda sér til afþreyinga og nytjaskógar og unaðsreitir munu prýða Reykjanesskaga.“ Björn unni landi sínu og þjóð, en hann var ekki svo mikill þjóðernissinni að ekki mætti vaxa annar viður úr íslenskri fold en innlendir stofnar.

Björn Þorsteinsson

Björn við Skilningstréð.

Aðrar trjátegundir, aðfluttar, þrifust ekkert síður, einkum stafafura, bergfura og sitkagreni, og í skjóli þeirra spratt síðan upp sjálfsáinn birkiviður. Í trjálundi Björns bar af eitt slíkt birkitré, fagurlimað og laufskrúðugt, rúmlega fimm metrar á hæð og um 30 sentímetrar í þvermál. Var það nefnt skilningstréð.

Björn hlaut um síðir verðskuldaða viðurkenningu fyrir ræktunarstarfið, því að hann var einn fimm framtaksmanna um skógrækt sem Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við Skógrækt ríkisins heiðruðu í mars 1985 með listaverki eftir Hallstein Sigurðsson.
Björn Þorsteinsson var „ósvikið barn útivistar og íslenzkrar náttúru“, segir Bergsteinn Jónsson prófessor í minningargrein um kollega sinn.

Brunntorfur

Brunatorfur (Brunntorfur) – loftmynd.

Hann rifjaði það upp, þegar þeir hittust á aðfangadag jóla næstum tveimur árum fyrr. Björn hafi þá verið sárt leikinn af erfiðum sjúkdómi og svo lamaður í kverkum að hann hafi átt örðugt um mál: „En við þessar örðugu aðstæður snerist ræða hans um þau áform hans að kaupa vörugám, sem boðinn var til sölu! Til hvers? Jú, úr honum mætti fyrirhafnarlítið gera skýli, sem hann þyrfti nú nauðsynlega að koma sér upp í landareign sinni í Hafnarfjarðarhrauni, þar sem hann á liðnum árum hefur komið sér upp álitlegum trjálundi. Um þetta ræddi hann af lífi og sál, og þetta þoldi enga bið, því að með vordögum ætlaði hann að leita út í guðsgræna náttúruna. Yrði slíkt að venju allra meina bót.“
Ekki varð Birni bót meina sinna. En lundurinn lifir manninn. Á heiðinni sunnan við Kapelluhraun er nú vaxinn upp myndarlegur skógur, unaðsreitur, mönnum til yndisauka um ókomin ár. Þökk sé þrotlausri elju og þolgæði Hraunverjans Björns Þorsteinssonar og félaga hans.“

Sjá einnig meira um skógrækina í Brunatorfum HÉR.

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01,2017, Ræktunarmaðurinn Björn Þorsteinsson, Gunnar F. Guðmundsson, bls. 56-59.

Brunatorfur

Í Brunatorfum.