Básendar

Í lok ágúst 2009 var gengið um Básenda með Jóni Ben Guðjónssyni frá Stafnesi. Jón er borinn og barnfæddur Stafnesingur og þekkir hvern hól á svæðinu.
BásendagatanGísli Brynjólfsson ritað um “Básendaför” í Lesbók Morgunblaðsins árið 1978. Þar kemur ýmislegt fram um staðháttu á Básendum:
“Hér skal litið um öxl – a.m.k. tvær aldir aftur í tímann – og litast um á þeim slóðum þar sem allt fór í auðn árið fyrir aldamótin 1800. Og hefur ekki verið byggð síðan. Þetta eru Básendar fyrir eina tíð syðsta byggðin á Miðnesi en tók af í flóðinu mikla, sem við plássið er kennt – Básendaflóðið – aðfaranótt 9. janúar 1799.
Ekki eru Básendar kunnir fyrir útræði heldur sem pláss þar sem “útnesjafólkið fátækt og spakt” varð að leggja inn fiskinn sinn hversu léttur, sem hann reyndist, því að reizlan var bogið og lóðið var lakt eins og Grímur kvað í sínu kvæði.
BrunnurBærinn Básendar var byggður í Stafneslandi upphaflega – hvenær skal ekki sagt.
Þar var ekki mikið um fiskirí enda var Stafnes sjálft frá fornri tíð eitthvert besta útver og þaðan skemmst í fiskileit á öllu Miðnesi. Frá Stafnesi gengu líka konungsbátarnir. Hefur það eflaust verið nokkur hagur fyrir verzlunina og  vera í næsta nágrenni við útgerð þeirra.
Bæði enskir og þýskir hafa verzlað á Básendum fyrr á öldum. Gekk á ýmsu í viðskiptum þeirra þar eins og víðar við Faxaflóa og á Suðurnesjum. Eitt sinn (árið 1645) kom hollenskt skip á Básenda. Á því var íslenskur maður, Einar Þórðarson, – og verzlaði þar.
Árið 1640 var tekin upp sigling til Básenda eftir nokkurt hlé. Hélst svo, þar til verslun lagðist þar alveg niður.
BásendarVerslunarsvæðið var Hafnir og Miðnes. Þó voru merkin ekki gleggri en svo, að mikil deila og málaferli urðu milli Básenda og Keflavíkurkaupmanns um nyrstu bæðina á Miðnmesi (Kirkjuból, Kolbeinsstaði og Hafurbjarnastaði).
Höfðu bæir þessir sótt verzlun ýmist til Keflavíkur eða Básenda. Gekk dómur í málinu 1693 á þá leið, að svo skyldi standa, sem verið hefði að undanförnu. Voru menn því litlu nær. Þetta kom þó ekki að sök þegar sami kaupmaður verzlaði á báðum stöðunum. Þá ber þess að geta, að Grindavík var a.m.k annað veifið einskonar útibú frá Básendum. Fengu Grindvíkingar styrk til að flytja afurðir sínar til Básenda og úttektina heim. Samt var Básendaverzlunarsvæði fámennt og innleggið misjafnt. Það fór Kaupmannshúsiðvitanlega eftri því, hvernig fiskaðist. Básendar voru dæmigerð fiskihöfn mótsett sláturhöfn, þar sem sveitabændur voru aðalviðskipta-mennirnir.
Básendar voru því fámennur staður. Þar var lítið um að vera nema í kauptíðinni, sem stóð misjafnlega lengi fram eftir sumri eftir því hvenær kaupmanni þóknaðist að læsa búðinni og hætta að höndla, ef enginn var eftirleggjarinn.
næst siðasti kaupmaðurinn á Básendum hét Dines Jespwersen. Þegar hann hætti, lokaði hann búðinni 16. ágúst 1787. Mundi þá engin vara fást þar fyrr en næsta vor. Bændur í Rosmhvalaneshreppi með hreppsstjóra og prest í fararbroddi kærðu þetta til Skúla fógeta, töldu að með þessu væri emstum hluta sveitarinnar stefnt í opinn dauðann, skepnur voru fáar sökum grasleysis s.l. sumar, afli svo rýr s.sl. vertíð, að “kaupstaðavaran hrökk ekki fyrir vorum þungbæru skuldum”, En nógar matvörur lágu lokaðar inni í kaupstaðnum engum til nota nema mús og maur. En fólkð má deyja úr hor og hungri, kónginum og föðurlandinu til skaða.

Friðlýsing

Engum trúði þetta fólk betur til að rétta sinn hag heldur en honum, sem yfir rummungunum reiddi hátt, réttar laganna sverð.
Skúli brást heldur ekki trausti þeirra. Hann rak nauðsyn hinna bágt stöddu Suðurnesjamanna við Levetzone stiftamtmann, sem úrskurðaði, að eftir nýjárið mætti sýslumaður opna Básendabúð og láta fólkið fá nauðsynjar sínar, vitanlega eftir ströngustu útlánsreglum.
Þrír menn hafa lýst ummerkjum á Básendum síðan þar varð auðn.

Um það bil hálfri öld eftir Básendaflóð var Magnús Grímsson, síðan prestur á Msofelli, f. 1825 d. 1860, á ferð um Reykjanes til að athuga fornminjar.
Um Básenda segir sr. Magnús, að á nesinu milli voganna sjáist greinilega rústir af Básendabænum. Það hefur verið lítill bær með svör niður undan út í norður-voginn.
Litlu ofar eru rústir af búðinni og vöruhúsinu, 11 faðmar á lengd og 7 á breidd. Vestan þess var stór og mikill sjóvarnargarður. Ofan við vöruhúsið var Kaupmannshúsið. Utan um það hefur verið 200 ferfaðma garður. “Allar þessar rústir sýnast hafa verið vandaðar og sterklega gjörðar,… undistöður hrundar, mjög skörðóttar.”
BásendarInn í höfnina var vandratað, en legan góð. Kaupskipin munu hafa legið í syðri voginum, bundin 4 eða 5 festum, “það kölluðu þeir svínbundið”. Tvo af festarboltunum sá sr. Magnús, ferkantaða járnstólpa með gati og digrum járnhring ryðbrunna mjög. Alls munu festarboltarnir hafa verið níu, 5 í fjörunni, 4 á útskerjum. Brunnur hafði verið á Básendum – djúpur og góður. Á botni hans var eikarkross og svo hver tunnan upp af annarri, svo að eigi félli saman. Nú fullur af sandi.

FestarkengurAf örnefnum telur sr. Magnús þessi: Brennitorfa þar sem kaupmenn höfðu brennt út gamla árið. Nokkur sunnar er Draughóll þar sem sjómenn höfðu rótað í dys fornri án þess að finna nokkuð fémætt. Í suður frá Draughól eru klettar tveir allháir með nokkurra faðma millibili – Gálgaklettar. áttu Básendamenn að hafa lagt tré milli klettanna og hengt þar menn þegar þá greindi mjög á við einhverja.

Næsta lýsing á Básendum er frá 1919. Þá var þar á ferð Vigfús fræðimaður Guðmundsson, og skrifaði síðan um Básenda og Básendaflóðið í 3.h. Blöndu. Er oft og  víða til hennar vitnað enda V.G. viðurkenndur nákvæmur og natinn fræðimaður.
V.G. segir, að enn sjáist miklar leifar mannvirkja á Básendum: Fimm sambyggðar kofatættur þar sem bærinn stóð, grunnur vöruhússins, 20 , á lengd og 12-15 m á breidd og tveir húsgrunnar aðrir, en hæst og norðaustar á hraunrimanum telur V.G. að útihúsin hafi staðið. Þá getur hann um brunninn fullan af sandi, kálgarð 400m2 og lítil kringlótt fiskbirgi, þar sem fiskurinn var verkaður í skreið.

FiskbirgiÁ þangi vaxinni klöpp, 42 m frá húsgrunninum stóra, stendur gildur járnfleinn, 30 cm hár. Hann er steyptur í klöppina með bræddu blýi. Í gati á teininum er brot af hring. Í hann voru skipin á legunni bundin. Síðan rekur V.G. verzlunarsögu Básenda, segir frá flóðinu og síðasta kaupmanninum.

Sá þriðji, sem ritað hefur um Básenda, er Magnús Þórarinsson fyrrnefndur. Hans skrif er að finna í Safnritinu “Frá Suðurnesjum” – Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi. Magnús stráir um sig örnefnum í krafti kunnleika síns og stálminnis. Hann nefnir Stóra og Litla-Básendahól. Þarna er Gunnusandur, framan við hann Innri innsiglingarvarðanRóklappir, Rósandur, Rósker, – fyrir utan það skerjagarðurinn: Básendasker. Innan þeirra er ílangt lón – höfnin – með bindibolta á skerjum og klöppum í kring.
Suðurtakmörk hafnarinnar eru við Arnbjarnarhólma.
Utan kauptíðar var hér oftast aðeins fámennt heimili. Hér var hvorki búskapur né útræði í stórum stíl.
Árið 1703 bjó á Básendabæ Árni Þorgilsson 47 ára með konu sinni Jódísi Magnúsd. 12 árum eldri, og dóttur þeirra Steinunni 17 ára. Þau höfðu vinnumann og vinnukonu. Hjá þeim er Árni Jónsson (60 ára) stjúpfaðir Jódísar, veikburða. Loks er Rasmus, eftirliggjandi á Básendum. Þ.e. vetursetumaður tile ftirlits fyrir kaupmanninn.
Ytri innsiglingarvarðanNæstu áratugi fara ekki sögur af fólkinu á Básendum. síðan er það að þakka sr. Sigurði Sívertsen á Útskálum, að við vitum hverjir bjuggu þar á síðari hluta 18. aldar. Hann ritaði sálarregestur Hvalsnesþings 1758-1790 upp úr rotnum sundurlausum blöðum. Það manntal sýnir, að á Básendum fjölgaði mikið um 1780. Þá eru þar til heimilis hátt í 20 manns; kaupmaðurinn, Dines Jespersen, 40 ára, kona hans, 2 börn og tökubarn, pige (stofustúlka), beikir og kona hans, 2 drengir (námspiltar við verzlunarstörf), ráðsmaður, vinnumaður og  vinnukona. Auk þess er þar Ingjaldur Pétursson tómthúsmaður með fólki sínu.
Hér verður ekki sagt frá Básendaflóðinu fræga. Það er allt að því átakanlegt, að lesa um það, hvernig flóðbylgjan hrífur kaupmanninn, þennan Á Básendum“almáttuga” mann og allt hans fólk, hrekur þau stað úr stað uns þau bjargast upp á baðstofupallinn í Loddu (Lúðvíksstofu) nær, “örmagna af kulda, áreynslu og hugsýki” og var tekið þar af mestu alúð og hjartagæsku.
Þannig kastaði Básendaflóðið síðustu kaupmanns-fjölskyldunni á Básendum í fang eins fátæks hjáleigubónda, sem bjargaði henni frá bráðum bana.”

Í skrifum Helga S. Jónssonar – Básendar, verslunarstaður á Suðurnesjum, í Lesbók Mbl 1967 kemur m.a. eftirfarandi fram um Básenda:
“Básenda er ekki getið í Landnámabók, heldur miklu síðar og þá fyrst sem útbýlis frá Stafnesi.
BásendabærinnUm 1500 er þar mannaferð nokkur en mest útlenzkir. Þá lentu enskir og þýskir í orrustu um verzlunarvöldin og söfnuðu þýskir liði um suðurnes og fengu 48 stríðsmenn og er talið í gömlum annálum að ekki hafi komizt lífs af nema 8 þeirra manna, sem af Suðurnesjum voru. Í þetta skipti höfðu Þjóðverjar sigur yfir Englendingum. mestur hluti þeirra þýzku voru menn, sem höfðu bólfestu að Básendum, svo að þá þegar skömmu eftir aldamótin 1500 eru Básendar byggðir.
Undir Stafnes lágu 24 hjáleigur auk Básendakaupstaðar. Ennþá lifa ýmis kúnstug nöfn þeirra í minnum, s.s. Refshalakot, Gossa, Hattkollur, Þemba, Halastaðir og Lodda.
Talið er að upphaflega hafi síðastnefnda kotið heitið Lúðvíksstofa. Þar er talið að búskapur hafi verið fram Básendará miðja 19. öld. Nokkur grasnyt munhafa fylgt Loddu. Sagan hermir, að þar hafi um eitt skeið búið Bergþór nokkur og kona hans Þorkatla; voru þau gleðimanneskjur og gestrisin mjög. Er svo sagt, að talsháttur sá hafi myndazt um heimili þeirra, að “lítið en ljúft væri í Loddu veitt”. Bergþór bóndi dó snögglega og gerðist draugur í Loddu.
Að Þembu bjó eitt sinn maður er Narfi hét. Hann var fæmdur burtu af faktor og dó að Kirkjuvogi í Höfnum. Gerðist hann síðan draugur að Þembu.
Básendar voru mikill verzlunarstaður í sinn tíð. Árið 1655 eru innfluttar vörur til Básenda taldar vera 10185 ríkisdala virði, en útfluttar vörur þaðan fyrir 11324 ríksidali. Þarna mun vera um nokkurs konar vöruskiptaverð á staðnum að ræða, en ekki endanlegan hagnað á íslenska varningnum.

BásendarVaran sem flutt var til landsins var ekki fjölbreytt á nútímamælikvarða. Fáar tegundir matvöru, veiðarfæri, trjáviður og járn, lítilsháttar af fatnaði og efni til fatagerðar. Árið 1655 voru fluttar til Básenda 193 tunnur af mélvöru, 18 tunnur skonrok og 30 tunnur skipakex. Það ár fengu þeir 3 kjöltré, 12 stefnistré, 24 stykki 7 og 10 álna tré, 8 hástokksefni og 30 planka, 386 línur af mismunandi lengdum og 36 pund af netagarni, 1000 öngultauma og 1 1/2 þúsund öngla. Svolítið var af salti og koparkötlum, talsvert af skeifum og hóffjöðrum, flauelshöttum og höttum með þremur snúrum. Einna ríflegastur hefur innflutningur á drykkjarvörum verið. Það kom í Básendabúð á þessu eina ári 1 uxahöfuð af frönsku víni, eitt anker franskt brennivín, 16 tunnur kornbrennivín, 6 tunnur mjöður, 8 föt og 24 tunnur Lybist öl, 12 tunnur 3ja dala öl, 30 tunnur af 6-marka skipsöli. Með þessari lagervöru eru tilfærðar 3 tunnur af tjöru og er samanlagt innflutnings-verðmætið 700 ríkisdalir.

BásendavörinÞegar Danir tóku upp siglingar að Básendum árið 1640, lagðist Grindavíkurhöfn niður, enda þótt höfnin væri talin nokkru betri en Básendar. Mestu mun hafa ráðið að það var betri veiðistöð.
Kaupsvið Básenda var ekki fjölmennt. Árið 1703 voru þar ekki nema hátt á 4. hundrað manns. Á Stafnesi hafði konungsútgerðin aðalbækistöð sína, enda var þar talin bezta verstöð á öllu landinu. [Ofan við Stafnes má enn sjá leifar af 30-40 hlöðnum fiskbyrgjum.] Þegar konungsbátarnir hættu 1769, hnignaði mjög útgerð frá Stafnesi Jónog þar af leiðandi verzlun að Básendum.

Árið 1684 leigði Tomas Jensen Dobbelsteen Grindavíkur- og Básendaverzlanir fyrir 740 ríkisdali. Hann var stöðugt að berja sér yfir tapinu á verzluninni, en hækkaði þó leigutilboð sitt árið 1689 í 1150 ríkisdali og hélt þeirri leigu til 1694.

Básendar eyddust í miklu sjávarflóði 9. janúar 1799, í stórvirði, sem gekk yfir af suðvestri. Í skýrslu Hinriks Hansens, síðasta kaupmannsins á Básendum, segir m.a.: “Íbúðarhúsið – suðurhliðin í burtu, sú sem að sjónum snéri, sömuleiðis hálf norðurhliðin, gluggar allir brotnir og burtu. Lýsisbúðin er algjörlega farin.
Hús þetta byggði kaupmaður í fyrra. Önnur hús sem Festarhringursópuðust alveg í burtu voru íslenski bærinn, lítið vörugeymsluhús, skemman og hlaðan. Þau hús sem eitthvað hékk uppo af voru Sölubúðin, Bræðsluhúsið, Vöruhúsið mikla og fjósið. Garðurinn umhverfis var einnih gjörfallinn, þó hlaðinn væri úr stórgrýti. Sjö bátar af ýmsum stærðum voru gjörónýtir.”
Vorið eftir og árið 1800 dvali Hansen á Stafnesi og vann að því að flytja til Keflavíkur nothæft timbur og reisti af því hús, sem alla jafna var kallað “Svarta pakkhús”, en varð síðar að flutt um set vegna skipulagsbreytinga. Þar hrundi það í stormi og efnið notað í álfabrennu.”

LetursteinnÁ göngunni með Jóni Ben var m.a. tekið mið af örnefnalýsingum frá Básendum: “En víkjum nú aftur upp á land. 20 til 30 föðmum suður af Stóra-Básendahól er graslaus klapparhóll; heitir hann Litli-Básendahóll. Sunnan við þann hól stóð Básenda-verzlunarstaður. Þar fram af er malartangi með sljóu horni. Á tanganum sér enn til rústa eftir meira en 150 ár, en 1799 var Básendaflóð. Sunnan við tanga þennan er ílangt lón; það var Básendahöfn. Leiðin inn á höfnina hefir verið löng milli skerja, en að mestu bein og djúp. Sundmerki eru nú gleymd. Má enn sjá leifar af umbúnaði, hringjum og stólpum, sem var tinsteyptur í klappir og sker til þess að svínbinda skipin.

Varla hefir þetta verið góð og örugg höfn, eins og nokkrir hafa talið, en það vita kunnugir bezt, hve Áletrunhollt er að vera á vélarlausum dekkbát inni á milli skerja sunnan við Stafnes í sunnanátt og hroða, þó að sumri sé. En stundum dróst afgreiðsla skipanna fram á haust, enda brotnaði þar skip 1669, albúið til siglingar, og tvö skip 1714, hlaðin fiski, segir Suðurnesjaannáll.

BásendarSkúli Magnússon landfógeti ræðir í sýslulýsingu sinni nokkuð um Básenda, þar segir svo: „Verzlunarhöfnin Básendar er í Stafneslandi. Þar er höfn 2 skipum milli lands og skerjagarðsins, en þó hættuleg, einkum í vestanstormum, þegar hásjávað er. Nokkur skip hafa farizt þar, einkum fyrrum, enda var ekki siglt á höfn þessa um hríð. Höfnin er því eigi örugg nema um hásumar og með því að nota járnhringa þá, sem reknir hafa verið bæði í kletta í skerjagarðinum og í jarðfasta fjöruklettana. Eru þeir festir með blýi, svo að hægt sé að binda skipin í þá. Í innra skipalæginu eru 4 járnhringar og 3 í hinu ytra. Í fyrr nefndu skipalægi er dýpið 2 1/2 faðmur um fjöru, en 4 1/2 í hinu síðar nefnda. Þarna lækkar og lækkar í sjónum um 9 fet í góðu veðri, þegar stórstreymt er, en um 5 fet, þegar smástreymt er. Innsiglingin er hættuleg, og verður að gefa nánar gætur að siglingamerkjunum á landi … Kringum hinar lágu klappir, sem verzlunarhúsin standa á, er allt þakið svörtum sandi, og eru aðstæður því illar til fiskverkunar.

KvarnarsteinnAftur á móti er fiskverkunarstæði því betra kringum Stafneslendingu, einkum á Refshalabæjum svo nefndum. Að vísu hafa þeir lagzt í eyði síðan konungsbátarnir voru lagðir niður 1769. Þó mætti byggja þá upp aftur, ef þörf væri á, því að á Stafnesi hefir þótt fremst fiskiver á Íslandi um vetrarvertíð á fyrri tímum og allt fram að því ári. En síðan hefir sjósókn þorrið þar mjög.“

Efalaust hefir útgerð og sjósókn þorrið á Stafnesi, sem annars staðar á síðari hluta 18. aldar og framan af þeirri 19., þegar eymdarhagir voru á landi hér, enda mátti víst heita, að Stafnes væri í eyði um aldamótin 1800 (sjá um Básendaflóð eftir Vigfús Guðmundsson í Blöndu III, bls. 57). En á síðari hluta 19. aldar voru 20 til 25 stórskip gerð út á vetrarvertíðum af bændum á Miðnesi, og ætíð var Stafnes talið í fremstu röð, með þá merkismennina hvern fram af öðrum: Erlend Guðmundsson, Eyvind Pálsson og Hákon Eyjólfsson. Það hefir í annálum og öðrum ritum verið talað um útgerð og aflabrögð á Stafnesi, og yngsti annállinn, Suðurnesjaannáll, sem ritaður var á 19. öld, er fjölorður um mikil aflabrögð hjá Stafnesmönnum, enda var þar bezt til sóknar af Miðnesi á tíma áraskipanna.

BásendarBátsendahöfn mun heita réttu nafni Brennitorfuvík, en Brennitorfa var þar fyrir ofan. Þar höfðu Básendamenn brennur sínar. Stendur þar nú varða á grjótholti, en Torfan sjálf er örfoka. Sunnan við Brennitorfu er Draughóll og Draughólskampur með sjó fram til suðurs. Fram af kampi þessum er stór klettahólmi úti í sjó; heitir hann Arnbjarnarhólmi. Þar eru suðurtakmörk Básendahafnar. “

Kristján Eldjárn, fyrrum þjóðminjavörður, kom að Básendum og setti m.a. niður “friðlýsingarskiltið”, sem þar er enn í kaupmannshúsarústunum. Tiltölulega auðvelt var að sjá út grunna fyrrum verslunarhúsanna sem og tóftir gamla bæjarins. Neðri og efri innsiglingarvörðurnar má enn sjá beggja vegna hafnarinnar sem mið á Pétursvörðu er trjónir hæst á heiðinni.

Loddubrunnur var brunnur frá bænum Loddu. Hann er enn til, því að Eiríkur Jónsson, sem síðar bjó í Norðurkoti, gróf hann upp um eða fyrir 1920. Skammt norðaustan við brunninn, hálfa leið að Glaumbæ, er hóll, sem hefur verið sléttaður. Þar vildi Jón meina að hafi verið hin víðfræga Lodda, þ.e. kotið sem kaupmaðurinn komst að eftir undanhaldið í flóðinu 1799.

Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Stafnes.
-Jón Ben Guðjónsson frá Stafnesi.
-Gísli Brynjólfsson – Básendaför, Lesbók Mbl 09.07.1978.
-Helgi S. Jónsson – Básendar, verslunarstaður á Suðurnesjum, Lesbók Mbl 26.05.1967.Vöruhúsið