Tvíbollahraun

Um kl. 15:00 í dag (22.07.2009) var tilkynnt um reyk í hrauninu milli Valahnúka og Helgafells. Slökkviliðsmenn frá SHS komu á vettvang á sexhjóli skömmu síðar. FERLIR fór að sjálfsögðu fótgangandi á vettvang. Þegar á tilkynntan stað var komið varð ljóst að mikinn reyk lagði upp úr hrauninu ofan við Kaplatóur.
Gert klártEldurinn var í jaðri Tvíbollahrauns, sunnan gömlu Selvogsgötunnar, milli Kaplatóa og Strandartorfa. Af ummerkjum að dæma virðist sem göngufólk á leið um Selvogsgötu skömmu eftir hádegi þennan dag hefði sest niður í skjólinu undir jaðri hraunsins, hvílt sig, etið m.a. epli og appelsínubát og síðan kveikt í vindlingi – áður en það hélt ferðinni áfram. Glóðin úr reyktum vindlingnum gæti óafvitandi hafa kveikt eldinn í skrjáfþurru lynginu og mosatóunum með tilheyrandi afleiðingum.
Við fyrstu sýn var að sjá sem óvinnandi vegur væri að slökkva elda og glóðir í skrjáfþurrum mosanum. Þegar reynt var að drepa í á einum stað kom sjálkrafa upp eldur á öðrum skammt frá. Hraunið sjálft er þarna úfið apalhraun og því varla á færi færustu manna að slökkva slíkan eld á þeim staðnum. Allt stefndi í að mosahraunið, eða öllu heldur mosahraunin, norðan Bláfjallavegar og austan Helgafells myndu brenna öðru sinni. Fyrra sinnið var um 980 er Tvíbollahraunið upphaflega rann. Undir því er Þríhnúkahraun, norðaustar Húsfellsbruni og suðvestar Stórubollahraun og Hellnahraun; allt mikil mosahraun. Svæðið sem heild er líka sérstaklega viðkvæmt því um vatnsverndarsvæði Hafnfirðinga er að ræða.
BrunasvæðiðÍ frétt mbl.is frá því í marsmánuði mátti lesa eftirfarandi: “Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og yfirmenn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins æfðu viðbrögð við gróðureldum við Kleifarvatn í gær. Við æfingarnar notaði þyrlusveitin tvö þúsund lítra fötu til að dæla vatni upp úr Kleifarvatni. Fatan var keypt eftir gróðureldana miklu á Mýrum árið 2006.” (Sjá fréttina.)
Þarna var komin lausin að vandanum. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kvödd til með fyrrgreindan búnað, vatn sótt í Hvaleyrarvatn og hellt yfir eldsvæðið, aftur og aftur. Eftir u.þ.b. 20 ferðir með vatn mátti lesa eftirfarandi á mbl.is: “Slökkvistarf stendur enn yfir þar sem eldur kviknaði í mosa og öðrum gróðri í hrauni á milli Helgafells og Valahnjúka við Kaldársel í nágrenni Hafnarfjarðar um klukkan hálf þrjú í dag.
SlökkvistarfiðSamkvæmt upplýsingum slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins gengur slökkvistarf nú betur en það gerði fyrr í dag. Alltaf er þó erfitt að slökkva í mosa og þurfa slökkviliðsmenn að nota skóflur til að grafa upp mosann og komast að eldunum. Þá er erfitt að komast að svæðinu þar sem það er fjarri vegum og erfitt yfirferðar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur því verið notuð til að flytja vatn til slökkvistarfsins í dag. Hún hefur nú flogið tugi ferða með vatn á svæðið og m.a. hellt vatni yfir kanta þess.
Heldur hefur dregið úr eldinum en þó er gert ráð fyrir að slökkvistarf standi fram eftir nóttu og að eftirlit verði á svæðinu í nótt.” Með fréttinni fylgdi að sjálfsögðu mynd frá FERLIR.
GlóðEftir að hafa verið um stund á staðnum, rætt við slökkviliðsmenn og fylgst með vatnsdreifingu þyrlumanna má segja að þar hafi æðrulausir fagmenn verið að verki. Byrjað var á því að slökkva elda upp í vindáttina (að norðanverðu), síðan hugað að jöðrunum beggja vegna og loks lokað fyrir frekari útbreiðslu eldsins til suðurs. Allt tók þetta tíma. Slökkviliðsmenn á jörðu niðri leiðbeindu flugmönnum þyrlunnar inn á svæðið. Í fyrstu virtust aðfarirnar ómarkvissar, en þegar á leið reyndust þær mjög fagmannlegar. Til að mynda var þyrlunni flogið inn yfir svæðið og vatninu sleppt úr skjóðunni á þarflegustu staðina, staðnæmst, bakkað og 2000 lítrarnir þannig nýttir til hins ítrasta. Segja má að eldurinn á svæðinu hafi þannig orðið bæði hin ágætasta æfing við erfitt slökkvistarf við tilætlaðar aðstæður og auk þess má segja að án notkunar þyrlunnar og tilheyrandi búnaðar hefði slökkvistarf þarna verið næsta vonlaust.
SlökkvistarfiðÍ stað þess að allt mosahraunið (eða öll) hafi brunnið þarna á þessum tíma brann einungs svæði sem nam ca. 15×30 metrar – og verður það að teljast lítið við framangreindar aðstæður, þökk sé ágætum slökkviliðs- og þyrluflugmönnum sem og tilheyrandi búnaði.
Undir kvöld birtist eftirfarandi frétt á www.visir.is: “Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins barðist við töluverða gróðurelda í mosa og lággróðri, í hrauni í nágrenni Hafnarfjarðar seinni part dags og fram á kvöld.
HvunndagshetjurRétt fyrir ellefu tókst endanlega að slökkva eldana en þyrla Landhelgisgæslunnar tók virkan þátt í slökkvistarfinu.
Slökkviliðsmaður, sem fréttastofa náði tali af, telur að þyrlan hafi í heildina farið um 50-60 ferðir á svæðið. Þyrlan fór með um tvö tonn af vatni í hverri ferð og jós hún því líklega á bilinu 100-120 tonnum af vatni yfir svæðið.
Í augnablikinu eru tveir slökkviliðsmenn sem vakta svæðið en ljóst þykir að töluverðar gróðurskemmdir hafi hlotist af eldinum, hve miklar er ekki ljóst á þessari stundu.
Ekki er vitað um ástæður eldsupptaka.”
Á mbl.is á sama tíma sagði: “
Slökkvistarfi þar sem eldur kviknaði í mosa og öðrum gróðri í hrauni á milli Helgafells og Valahnjúka við Kaldársel í nágrenni Hafnarfjarðar lauk á tólfta tímanum í gærkvöldi samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni en þyrla hennar var notuð til að slökkva eldinn.Samkvæmt upplýsingum slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins gekk slökkvistarf betur er líða tók á daginn. Alltaf er þó erfitt að slökkva í mosa og þurftu slökkviliðsmenn að nota skóflur til að grafa upp mosann og komast að eldunum. Þá var erfitt að komast að svæðinu þar sem það er fjarri vegum og erfitt yfirferðar. Þyrla Landhelgisgæslunnar var því verið notuð til að flytja vatn til slökkvistarfsins. Hún flaug tugi ferða með vatn á svæðið og hellti  m.a. vatni yfir kanta þess. Gert var ráð fyrir að eftirlit yrði á svæðinu í nótt.” (Sjá fréttina HÉR.)
HÉR má sjá hvert þyrlan sótti vatnið.
Umfjöllun netmiðlanna er sett hér inn vegna þess að með því mun hún lifa þá til mun lengri tíma…

Heimild m.a.:
-mbl.is 17.04.2009.
-mbl.is 22.07.2009.
-visir.is 22.07.2009.

Tvíbollahraun

Tvíbollahraun.