Douglas

Enn átti eftir að staðsetja tvö flugvélaflök sem vitað var um, þ.e. Douglasvél, sem fór niður á “hraunssléttu SA Helgafells” 1944 og aðra, sem fórst í Lönguhlíðarfjöllum, Hudson eða sama ár. Líklega er þó hér um eina og sömu flugvélina að ræða. Í skýrslu ameríska hersins frá 11. júní 1944 segir: “An Icelandic sheepherder reported a crashed in a lava bed about 8 miles southeast of Hafnarfj0rdur. The plane was idendified as the RAF C-47, missing since 7 March, 1944.”

BrakÍ viðtali, sem Sævar Jóhannsson tók fyrir nokkrum árum (óbirt) segir viðmælandinn, Ingólfur Guðmundsson, m.a. frá slysstaðnum í Huldum í Sveifluhálsi (í des. 1944).
Um atvikið í Kistufelli segir: “Við fórum oft í “kröss” hjá hernum. Í eitt skipti, það hefur verið 1944, fórum við í veðurathugunar Hudson, sem “krassaði” í Lönguhlíðarfjöllunum. Hún var að koma inn yfir land utan af sjó. Það var slæmt skyggni, flugmaðurinn hefur séð hæð framundan og rifið snöggt í þannig að vélin fór ekki upp heldur “massaði” inni í hæðina. Við fundum vélina og það var ömurleg aðkoma. Daginn eftir fór Björn Jónsson og fleiri dugmiklir kappar með hermönnum að sækja líkin og ýmislegt úr vélinni. Þeir villtust og voru villtir í 2 eða 3 daga. Það var þannig, að Björn átti að vera leiðsögumaður, enda öllum staðháttum kunnur, en officerinn, sem fór fyrir leiðangrinum og Björn átti að lóðsa, þóttist vita betur en Björn og því fór sem fór. Björn vissi upp á hár, hvar vélin var. því hann fann hana daginn áður. Hermennirnir sem voru aðal “burðardýrin” voru með ferkantaða vatnsdunka með sér, því þeir máttu ekki drekka vatn úr lækjum sem urðu á vegi þeirra. Það gerði frost svo vatnið fraus í dunkunum og svo gerði vitlausa austanátt. Þeir komu ekki niður fyrr en tveimur eða þremur dögum seinna og að mig minnir á Vatnsendahæð. Björn skilaði sér til byggða á eðlilegum tíma enda öllum leiðum vel kunnugur”. (Slys þetta er skráð 31. mars 1945. Fjórir fórust)
Áður hefur verið lýst að “fjárhirðir” hafi fundið flak um 8 mílur suðaustur af Hafnarfirði sbr. skrá hersins (Record of Events): “11. júní 1944: Íslenskur fjárhirðir tilkynnti um hrap flugvélar í hraunið u.þ.b. 8 mílur suðaustur af Hafnarfirði. Um var að ræða breska flugvél, C-47, er saknað var síðan 7. mars sama sama ár.” Sennilega er þetta sama vélin og sögð er hafa farist efst í Kerlingargili eða “Lönguhlíðarfjöllum” sbr. framangreint. Sú vél átti einnig að hafa verið Douglasvél, en leifar hennar má m.a. sjá í Óbrinnishólabruna norðvestan Lönguhlíða.
BrakUm skoðun á því brakinu kom fram eftirfarandi hugleiðing: “Ljóst er að að skoða þarf nánar svæðið “undir Lönguhlíðum inn við Grindarskörð” með hliðsjón af því hvort þar kunni að leynast álpjötlur, skinnur, rær og/eða leiðslur úr flugvélinni. Hafa ber þó í huga að flugvél, sem var að flytja varahluti, fórst þarna á svæðinu á 5. áratug síðustu aldar. Brak úr henni sást lengi vel.
Sagnir um að flugvélahlutar eftir flugslys hafi síðar verið dregnir til Hafnarfjarðar eru nokkrar, t.d. flak Canso-vélar (Canadian-Vickers Canso A), sem fórst efst í Sveifluhálsi utan við Huldur. Brak úr henni fannst mörgum árum síðar í Hrútagjárdyngju. Það gæti hafa hent flugvélina undir Lönguhlíðum því brak er að finna í hrauninu norðvestan við meintan nauðlendingarstað. Á því braki má lesa stafina .032 ANRA. Skv. upplýsingum þess manns, sem best þekkir til flugslysasögunnar fyrrum, Eggerts Norðahls, mun “.032” vera þykktin á álinu, en ANRA gæfi til kynna að þarna gætu verið leifar breskrar Douglas flugvélar, sem fórst á hraununum suð-austan við Helgafell (átta mílur suð-suð-austur af Hafnarfirði 7. mars 1944. Flakið fannst fyrst 11. júní 1944). Á hlutum, sem þar fundust áður var einmitt áletrunin .032 AN eða .032 ANRA stimplað á plöturnar að innanverðu. “Hugsanlegt er að ANRA standi fyrir Army Navy Rolled Aluminium eða eitthvað álíka. Á öðrum hlutanum er merki Breska flughersins svo enginn vafi er á hvers þjóðar hún var“.
BrakÞá var ekki um annað að ræða en fara á vettvang og leita uppi slysstaðinn. Eftir að hafa gengið brúnir Lönguhlíðar sunnan við Kerlingargil kom í ljós að flugvélinni hafði verið flogið í hlíðina eins og fram kemur í framangreindri lýsingu. Undir hlíðinni er brak úr vélinni, s.s. pústgrein frá mótor og ýmislegt annað. Ofan þess eru smásteinóttar skriður, sem hafa verið að hylja brakið smám saman síðustu 65 árin (skrifað 2009). Ekki er útilokað að hluti braksins kunni að vera ofar á brúninni. (Sjá meira undir Lönguhlíð – flugvélaflak II.)
Nú má segja að tekist hefur að staðsetja öll þekkt flugvélaflög á Reykjanesskaganum frá stríðsárunum. Enn á þó eftir að skoða svæðið sunnan við Leiti austan Bláfjalla, en þar sagt vera heillegt brak úr herflugvél. Auk þess á eftir að skoða betur í Lakadal, en þar var gengið fram á brak úr flugvél árið 2005.

Frábært veður. 

Heimild m.a.:
-Sævar Jóhannsson.
-Dagbókafærslur ameríska hersins (MACR) hér á landi 1944 og 1945.

Lönguhlíð

Brak við Kerlingagil.