Vatnsendahæð

Í dagbók lögreglunnar í Gullbringu- og Kjósarsýslu (lögreglunnar í Hafnarfirði) er þann 16. júlí 1944 skráð eftirfarandi: “Kl. 01:20 var tilkynnt um að mikill eldur sæist nálægt Vífilsstaðavegi, er liggur frá Reykjanesbraut. Lögregluþj. nr. 90 fór, ásamt U.S.A. lögreglu á staðinn. Hafði herflugvél hrapað þarna, og kviknað í henni. Hún brann alveg upp.”
SlysstaðurinnÍ skýrslu ameríska hersins (Record of Events) frá þessum degi árið 1944 má sjá eftirfarandi bókun: “At 0202 hours an RAF “Hudson” aircraft crashed and burned about fine miles Southeast of Reykjavik airport. The crew of five were all killded.”
Þegar leitað var eftir fólki, sem kynni að muna eftir atvikinu fyrir 65 árum (skrifað 2009) var úr vöndu að ráða því það fólk væri nú a.m.k. á níræðisaldri. Reynt var að staðsetja vettvanginn m.v. framangreind viðmið. Af loftmyndum að dæma virtist staðsetningin vera á eða við Vatnsendahæð.
Á vettvangiLeitað var til fólks frá Vatnsendabænum, en allt kom fyrir ekki – þangað til FERLIR hitti fyrir fyrrum vinnumann á bænum. Aðspurður um hvort hann þekkti vel til staðhátta á svæðinu sagðist hann gjöra það öðrum fremur því hann hefði smalað svæðið meira og minna frá árinu 1973. Vildi hann jafnframt geta þess að svonefnd Vatnsendahæð væri ekki sú þar sem fjarskiptamöstrin hefðu verið heldur héti það Vatnsendahvarf þrátt fyrir það sem stæði jafnan á landakortum. Vatnsendahæðin væri í suður frá bænum, en Vatnsendahvarf í vestri. Þá hefði suðurhluti Elliðavatns ekki heitið það framan af heldur Vatnsendavatn – og hana nú.
SkotfæriHér var greinilega kominn maðurinn, sem leitað var að. Aðspurður um hvort hann hefði séð brak úr flugvél á svæðinu sagðist hann vissulega hafa gert það. Á fyrstu árum sínum að Vatnsenda hefði hann stundum farið út í Vatnsendahæð til að leita að braki og skotfærum úr flugvélinni. Eftir rigningar hefði glampað á brakið svo auðveldara var að leita á svæðinu. Brakið hefði verið mjög dreift um afmarkaðan stað í hlíðinni. Þar hefðu fyrrum verið berir melar, en nú væru þar gróningar með lúpínu á milllum. Sjálfur hefði hann hirt nokkur skothylki af tveimur stærðum. Eitt hefði verið ósprungið með öllu, 29 árum eftir óhappið, en önnur báru þess greinileg merki að hafa brunnið. Þau voru án kúlu.
Viðkomandi bauðst til að fylga FERLIR á vettvang. Þegar þangað var komið gekk hann öruggum skrefum upp á mela í hlíð Vatnsendahæðar, staðnæmdist, benti og sagði: “Hér var þetta, gæti verið spölkorn ofar, en brakið var dreift hér um svæðið”.
Þegar svæðið var leitað sáust engin ummerki eftir slysið, enda 36 ár liðin frá því að viðkomandi var á svæðinu, auk þess sem bæði mold var í undirlagi og sáð hafði verið á yfirborðið, bæði lúpínu og öðrum yfiborðsþekjandi gróðri.
Hnit voru tekin á staðinn með það fyrir augum að leita svæðið betur síðar. Hlutaðeigandi fylgdi FERLIR heim á leið, náði í fyrrgreind skothylki og bauðst til að lána þau til frekari skoðunar. Á minna hylkinu, 8,5 cm langt, mátti á botni sjá bókstafina “L” og “C” og tölustafina “42”. Skothylkið var óskemmt. Á stærra skothylkinu, 13,0 cm langt, mátti á botni sjá bóktafina “L” og “C” og tölustafinn “4”.
SkotfærinÞar með virtist hafa tekist að staðsetja enn eitt flugvélaflakið (slysstaðinn) á Reykjanesskaga frá stríðsárunum. Enn er þó eftir að staðsetja tvö, þ.e. Douglasvél, sem fór niður á “hraunssléttu SA Helgafells” 1944 og aðra, sem fórst í Lönguhlíðarfjöllum, Hudson eða Douglas sama ár. Líklega er þó um eitt og sama atvikið að ræða. Sævar sagðist muna eftir vélbyssum um þessu slysi. Þær væru í höndum tiltekins aðila, sem auðvelt væri að nálgast. Það gat hins vegar stangast á við flugvélartegundina.
Þegar FERLIR leitaði til Eggerts Norðahls og bar þetta undir hann stóð ekki á svari: “Vélin sem fór niður á austanverði Vatnsendahæð var bandarísk orrustuvél, Curtis P-40C Warhawk 30. júní 1943 (fann staðinn sjálfur löngu áður en byggt var á svæðinu og þar var enn smá brak þá) en ekki Hudson 16. júlí 1944. Hann fór niður þar sem er Maríulaut, nú er þar Klaustrið í Garðabæ.”
P-40Skv. upplýsingum Eggerts Norðdahls mun P-40C flugvélin í Vatnsendahæð að öllum líkindum hafa komið niður talsvert sunnar og vestar, í kartöflugarð, sem þar var. Hann hafi talað við eiganda kartöflugarðsins og skoðað vettvang árið 1977, en ekkert fleira hefði komið í ljós við það.
Þegar skothylkin voru borin undir hann var svarið: “Ef þessi skothylki eru .303 og .50 Cal þá var P-40C Warhawk með 2 x 2 byssur af þessum stærðum. Hudson var einungis með 4 x .303 (7,62 mm) byssur, hafði því ekki .50 cal eins og mér sýnist stærri gerðin vera.”
Hér var sem sagt um ameríska orrustuvél að ræða afgerðinni Warhawk 40C. Í skýrslu ameríska hersins (Record of Events) segir um atvikið 30. júní 1943: “A P-40, flown by Major Theodore J. Lemke, 33d Fighter Sq. crashed athet north end of Vatnsendi Ridge at 1122 hours. The plane, out of control in a flat spin, crashed from approximately 6000 feet and was competely destryed. Major Lemke was killed instantly”.
WarhawkÞá var ætlunin að skyggnast eftir flugvél, sem hrapað hafði átt í hraunið suðaustur af Hafnarfirði, sbr. “11. júní 1944: Íslenskur fjárhirðir tilkynnti um hrap flugvélar í hraunið u.þ.b. 8 mílur suðvestur af Hafnarfirði. Um var að ræða breska flugvél, C-47, er saknað var síðan 7. mars sama sama ár.” Sennilega er þetta sama vélin og sögð er hafa farist efst í Kerlingargili. Sú vél átti að hafa verið Douglasvél, en leifar hennar má m.a. sjá í Óbrinnishólabruna norðvestan Lönguhlíða.
Frábært veður. 

Heimild m.a.:
-Eggert Norðahl.
-Sævar Jóhannsson.
-HH.
-Lögregluskýrslur lögreglunnar í Gullbringu- og Kjósarsýslu.
-Dagbókafærslur ameríska hersins hér á landi 1944 og 1945.

Vatnsendi

Svæðið.