Seltún

Hverasvæðið við Seltún í Krýsuvík er einn fjölsóttasti ferðamannastaðurinn hér á landi – og ekki af ástæðulausu.
Óvíða á landinu er litadýrðin meiri á háhitasvæðum en einmitt þarna; margir hverir, Til Seltúnsbæði leir- og gufuhverir. Upplýsingaskilti er (árið 2009) við bílastæðið, en það er lítið meira en lýti á einstakri náttúrperlu. Upplýsingarnar segja í rauninni ekkert um hverasvæðið og nágrenni þess, myndun jarðhitans, tilurð hans og birtingarform. Með hóflegri gagnrýni má þó segja að upplýsingamiðlun á Seltúnssvæðinu sé stórlega vanrækt. Á staðnum kemur fram að hverasvæðið er á einum háhitasveimi af fimm á Reykjanesskaganum (but who cares). Margvísleg brennisteinssambönd eru í hverunum og gufunni, en allt hjálpast það að því að gera jarðveginn ófrjóan. Töluverð brennisteinsútfelling er frá hverunum á svæðinu, en þrýstingsmyndunun hefur gefið því einstaka litadýrð (og það er það sem skiptir máli, þ.e. það sem stendur auganu næst).
LeifarJarðhitarannsóknir fóru fram á Seltúnssvæðinu á fimmta ártatug síðustu aldar. Í Sögu Hafnarfjarðar kemur fram að “enginn vafli leikur á því að langverðmætustu hlunnindin í Krýsuvík er hitinn, sem þar er í jörðu. Á árunum 1935 og 1936 athugaði svissneskur prófessor, sem hét Sonder, stóra gufuhverinn [Austurengjahver/Stórahver] í Krýsuvík, og reyndist hann vera 116° heitur á yfirborðinu. Prófessorinn taldi, að í hvernum væri ekki yfirborðsvatn, heldur gufa úr iðrum jarðar, þannig að unnt ætti að vera að auka vatnsmagnið og hitastigið með borunum. Hann lagði til, að hitastigið yrði aukið upp í 150-160°heita gufu og vatnið í Kleifarvatni hitað upp með henni og það síðan leitt þaðan 13-140° heitt til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Ekki varð úr þessum framkvæmdum.

Í Seltúni

Nú beindust augu ráðamanna Hafnarfjarðar að þeim möguleika að hagnýta jarðhitann í Krýsuvík til raforkuframleiðlsu. Tilraunaboranir í því skyni hófust árið 1941 og í árslok 1951 lauk þessum þætti í sögu Krýsuvíkur án þess að bera tilætlaðan árangur. Eftir standa borholustæðin, utan eins, sem sprakk í loft upp.
Fimmtudaginn 25. október 1999 varð mikil gufusprenging á hverasvæðinu við Seltún. Svartur gufubólstur steig til himins og stór gígur myndaðist þar sem sprengingin hafði orðið. Grjót og drulla dreifðust fleiri hundruð metra frá gígnum. Kaffiskúr sem stóð í um 100 metra fjarlægð frá gígnum eyðilagðist í sprengingunni, rúður brotnuðu og stór steinn féll niður í gegnum þakið á skúrnum. Gígurinn mældist um 43 metrar í þvermáli en drullan dreifðist 700 metra til norðurs frá holunni.

Leifar

Ástæðu sprengingarinnar má rekja til rannsóknarholunnar sem Rafveita Hafnarfjarðar lét bora árið 1949. Þegar borað hafði verið niður á 229 metra dýpi þeyttist bormeitillinn og borvírinn upp úr holunni. Þá var lokað fyrir holuna en haldið var áfram að mæla afl og afköst holunnar. Gufan úr rannsóknarholunni var talin nægja til 3 MW raforkuframleiðslu en raforkuvinnslan varð aldrei að veruleika. Holan hefur blásið líkt og hver upp í gegnum steypta pallinn í kringum holuna síðustu 20 árin. Í október 1999 var talið að holan hefði sofnað en líklegra er að hún hafi stíflast af útfellingum. Töluverður þrýstingur hefur þá byggst upp og er talið að þrýstingurinn hafi náð 10-20 bör. Eftir sprenginguna hætti öll gufuvirkni í gígnum en ekki er ólíklegt að virknin komi upp á nýjan leik seinna meir.

Á Seltúnssvæðinu

Barth (1950) segir að einn hveranna þar hafi gosið 3-4 metra háum gosum af leirkenndu vatni árið 1936. Hann segir flesta hverina vera súra með pH gildi um 4.  Þó séu þar einhverjir basískir hverir sem streyma út í lækinn sem rennur út í Kleifarvatn.
Austurengjahver, áður nefndur Nýihver, er syðstur svokallaðra Austurengjahvera. Sonder (1941) mældi 118°C í hvernum sem fyrr sagði, sem á þeim tíma var gufuhver en telst í dag vatnshver (Barth 1950). Austurengjahver er talin hafa myndast í jarðskjálftum árið 1924. Rennsli er ekki mikið frá hvernum og mest gufa sem stígur upp frá honum. Aðrir þekktir hverir við Seltún er Pínir og Svunta. Pínir var öflugur gufuhver þar til fyrir nokkrum árum síðan að hann breyttist í hitaskellu. Hann var hægra megin þar sem fyrst er gengið inn á hverasvæðið frá bílastæðinu. Svunta er ofar í gilinu, skammt norðan við tréhringpall.

Leifar

J. Wright, einn leiðangursmanna í Íslandsleiðangri Stanleys árið 1789, segir þetta um hverina í Krýsuvík: “Við komum að hverunum kl. 7. Í fimm eða sex þeirra var dökkblár grautur mismunandi þykkur, og spýttu þeir honum upp í verulega hæð. Hinn stærsti þeirra er ein hin ljótasta og ægilegasta sjón, sem maður fær augum litið. Þetta er stór, ef til vill botnlaus ketill meira en 30 feta langur og 20 feta breiður, bókstaflega barmafullur af sjóðandi brennisteini, sem kastast upp í 10-12 feta hæð við suðuna. Auk þess hávaða, sem suðan veldur, heyrðist annað hljóð, sem virtist koma neðan úr jörðinni, líkast þungum fossnið. Það eykur á óhugnað þessa staðar, að geysilegir hvítir gufumekkir streyma sífellt fram og líkt og veltast yfir klettana sem liggja að baki og allir eru tættir í sundur. Eins og við hverina, sem við skoðuðum í gær, er hér gnótt af hreinum, kristölluðum brennisteini.”

Seltúnshverasvæðið

Trépallar og -stígar hafa verið lagðir um Seltúnshverasvæði fyrir ferðamenn. Þar sem svæðið er í raun miklu mun stærra en gefið er í skyn þyrfti að lengja stígana, bæði upp fyrir hæðirnar, inn fyrir Seltúnshöfða og niður með hverasvæðinu norðan við Hnakk þar sem hægt væri að tengja það Svuntuhverasvæðinu. Með því yrði ferðamönnum sköpuð ný sýn á hverasvæðið í heild sinni og nýting þess sem slík myndi margfaldast því fallegasti og tilkomumesti hluti þess er einmitt norðan við Hnakk (nú utan seilingar). (Sjá meira um ofanvert Seltúnssvæðið HÉR).
Sjá einnig efni um brennisteinsvinnslu í Krýsuvík HÉR. Og fleiri myndir af Seltúnssvæðinu HÉR.
Sjá MYNDIR.

Heimildir m.a.:
-Barth, Tom. F. W., 1950: Volcanic Geology: Hot Springs and Geysers of Iceland. Washington, Carnegie Institution of Washington, 174 bls.
-Björn Hróarsson og Sigurður Sveinn Jónsson, 1991: Hverir á Íslandi. Reykjavík, Mál og menning, 160 bls.
-Íslandsleiðangur Stanleys 1789: Ferðabók, 1979. Steindór Steindórsson frá Hlöðum íslenskaði, Örn og Örlygur, 352 bls.
-Vefur orkustofnunar: www.os.is/krysuvik/
-Saga Hafnarfjarðar II, bls. 35 -54

Seltún

Hverasvæðið við Seltún.