Reykjanes

Fyrsti vitinn við Íslandsstrendur var byggður á Valahnúk á Reykjanesi árið 1878.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Við Bæjarfell má sjá tóftir frá þeim tíma sem og fallega hlaðinn brunn, sem gerður var um leið og vitinn sem og vitavarðahúsið. Flóraður stígur er frá því að vitagötunni uppá hnúkinn. Norðan Valahnúka er einnig hlaðin gata þangað sem grjót í vitann var sótt. Þá má sjá grunn af sjóhúsi, sem var notað sem birgðaskemma, ofan við Kistu norðan við Kistuberg u.þ.b. 2 km frá vitanum. Gamli Reykjanesvitinn, var endurnýjaður árið 1897 en hann hafði orðið fyrir skemmdum í jarðskjálftum. Vitinn stóð fram við sjávarbrún, þar sem bjargið stendur þverhnípt. „Nýi“ Reykjanesvitinn var byggður á árunum 1907-1908 á Bæjarfelli. Hann er mun stærri en sá gamli var og er 73 m. yfir sjávarmáli.
Í huga margra er starf vitavarðarins helgað ákveðnum ljóma og dulúð. Margir þjóðkunnir menn hafa gegnt slíku starfi um lengri eða skemmri tíma. Tækifærin á því að gegna starfi vitavarðar með fasta búsetu við vita í þjóðfélagi nútímans eru hverfandi. Sjálfvirkni vitabúnaðar og hagræðing í rekstri hefur séð til þess. Nú hefur verið lagt niður fast starf vitavarðar við Reykjanesvita, elsta vitastað landsins, en þar var byggður viti árið 1878. Þá lét af starfi Pétur Kúld Ingólfsson fyrir aldurs sakir. Í framtíðinni verður vitavarslan með öðrum hætti.

Reykjanesviti

Reykjanesviti fyrrum.

Af 105 ljósvitum sem Siglingastofnun rekur hringinn í kringum landið er nú aðeins einn vitavörður starfandi með fasta búsetu við vita sem hefur það jafnframt að aðalstarfi. Það er Óskar Sigurðsson á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Engin áform eru uppi um að leggja það starf niður enda sinnir Óskar mikilvægum veðurathugunum og rannsóknum auk vitavörslunnar.
Eftirliti með vitum hefur að sjálfsögðu ekki verið hætt. Því er sinnt af bæði laus- og fastráðnu starfsfólki stofnunarinnar um allt land. Auk þess eru farnar viðhalds- og eftirlitsferðir frá Siglingastofnun. Á tveggja ára fresti er leigt út skip til þess að sinna viðhaldi á baujum og skerjavitum. Alls eru um 20-30 vitar sem ekki er hægt að nálgast frá landi.
Þann annan desember árið 2003 var þess minnst að 125 ár eru liðin frá því að fyrst var tendrað vitaljós á Íslandsströndum þegar nýreistur Reykjanesviti var formlega tekinn í notkun þann 1. desember 1878.

Heimildir:

-skip.sigling.is/frettir_utgafa/til_sjavar1998_1/Reykjanesviti
-www.ntsearch.com/search.php?q=html&v=56″>html

Reykjanesviti

Vitavarðastígur að Valahnúk.