Flagghúsið
Menningardagar voru haldnir í Grindavík fyrsta sinni með fjölbreyttri dagskrá.
Í Flagghúsinu voru m.a. haldin fræðsluerindi um eldfjöll og hraunhella. Ásta Þorleifsdóttir, jarðfræðingur, flutti erindi um Ástaeldfjallagarða og framtíðarsýn. Ómar Smári Ármannsson (FERLIR) lagði upp erindi um grindvíska hella og Kristján Sæmundsson jarðfræðingur fjallaði um jarðfræði Reykjaness.
Erindi Ástu verður hér gert að aðalumfjöllunarefni. Hinum erindunum verður gerð ítarlegri skil síðar.
Ásta sagði m.a. að á miðhluta Reykjanesskagans þyrfti áhersla að verð á að varðveita einstaklega fjölbreyttar jarðmyndanir og minjar um eldvirkni á úthafshryggnum sem hafa algera sérstöðu á Jörðinni. Þessi hluti Skagans verði gerður sem aðgengilegastur öllum almenningi og ferðamönnum með vegum, stígum, þjónustumannvirkjum og sögu- og upplifunarstöðum og þar verði höfuðgestastofa svæðisins.
ÓmarÁ svæðinu eru Reykjanesfólkvangur og Bláfjallafólkvangur auk a.m.k. 15 svæða sem færð hafa verið á náttúruminjaskrá sem staðfestir að þar er að finna mikil verðmæti. Svæðið frá Stóra-Kóngsfelli suður og vestur fyrir Brennisteinsfjöll eru ósnortin víðerni og enn einstakt tækifæri að halda þeim sem slíkum. Hvergi annars staðar á Jörðunni sést úthafshryggur ,,ganga á land” svo sýnilega og á jafn aðgengilegum stað sem á Reykjanesi. Reykjanesskagi er svo einstakur á heimsvísu að það skortir í reynd alþjóðleg viðmið til að staðfesta alþjóðlegt verndargildi hans.
Á Reykjanesskaga eru fimm háhitasvæði og umtalsverð nýting er þegar til staðar á tveimur þeirra sem eru austast og vestast á skaganum. Á þessum svæðum er skynsamlegt að þróa áfram nýtingu jarðvarmans með orkuverum, heilsumannvirkjum og upplýsingastöðum fyrir ferðamenn jafnframt sem kannaðir verða möguleikar djúpborana sem geta margfaldað nýtingu þeirra.
Kristján
Á Reykjanesskaga eru einstakir möguleikar til að byggja upp eftirsótta ferðamannastaði og nálægð hans við flugvöllinn gefur einstaka möguleika til að gera svæðið eftirsótt af ferðamönnum. Miklar menningarminjar eru á Reykjanesi öllu og má nefna Selvog, Herdísarvík, Krýsuvík, Húshólma og Selatanga. Staðir eins og Bláa lónið sýna þá miklu möguleika sem náttúra Reykjanesskagans býður uppá. Með því að nýta hin mörgu tækifæri á Reykjanesskaga til útivistar, afþreyingar og ferðamennsku á að vera unnt að skapa mikinn arð fyrir samfélagið sem yrði síst minni en möguleikar orkusölu til stóriðju.
HraunÍ allri mannvirkjagerð innan ,,Eldfjallagarðsins og fólkvagnsins” ber að hafa það að leiðarljósi að halda sjónrænum áhrifum í lágmarki. Ekki hefur verið gert heildstætt skipulag fyrir Reykjanesskaga og hafa ólíkir nýtingarmöguleikar því ekki verið skoðaðir og metnir. Nú er mikil eftirspurn eftir orkuvinnslu á svæðinu og því er brýnt að líta heildstætt á Reykjanesskaga með nýtingu allra auðlinda hans í huga.
Þá lagði Ásta fram nokkrar spurningar og svör um efnið, s.s. Hverjir eru möguleikar eldfjallagarðs á Reykjanesskaga? Hvað höfum við upp á að bjóða?  Er Eldfjallagarður einstakt tækifæri til arðbærrar atvinnusköpunar?
Til að nýta náttúruna þarf hágæða vísindaþjónustu, alþjóðlegt tengslanet, aðgengi að þekkingu heimamanna, rannsóknaaðstöðu þar sem kennslustofan er náttúran.
LitríkiReykjanesskagi sem eldfjallagarður hefur marga kosti; frábær staður fyrir eldfjallagarð, mitt á milli Ameríku og Evrópu, aðeins 30 mín frá flugvelli og borg, plötuskil – land verður til á Reykjanes, hægt að “ganga” milli heimsálfa, gríðarleg fjölbreytni, eldgos undir jökli: Móbergskeilur, -hryggir og –stapar: Aveg einstakt! Litlar og stórar dyngjur. Minni gígar og fleiri tegundir, setströnd – rofströnd: Sandvík – Reykjanestá/ Krísuvíkurbjarg-Selatangar. Flottari og fleiri hrauntraðir og hraunhellar, miklu fjölbreyttari jarðhitasvæði, bullandi leirhverir, litrík gasaugu, útfellingar sem eiga fáa sína líka, lifandi listaverk “audio-visual upplifun: Hver hver með sinn takt! Auðlindagarður;  samspil orku og umhverfis.
Hellir
Reykjanesskagi væri í raun “ótal lyklar að leyndardómum”. Fyrir jarðvísindamenn, stjarnvísindamenn og aðra! Nýtt land myndast: Gliðnun úthafshryggsins, misgengi, gjár og sprungur.  Fjölbreytt eldvirkni: Eldborgir, gjallgígar, stapar, keilur, dyngjur… Undir jökli, í sjó og á þurru. Móberg og bólstraberg. Stuðlar og straumflögun. Frumstætt berg: Lykill að uppruna vatnsins? Jarðhiti með ótrúlegum fjölbreytileika; gufa, vatn og leir. Brennisteinn og aðrar útfellingar: Lykill að uppruna lífsins? Jarðskjálftar, einstakt samspil innri og ytri afla.
Reykjanes væri gósenstaður fyrir ljósmyndara; litríki hverasvæðanna. Krýsuvík er oftar en ekki i í dagskrá slíkra ferða. Reykjanes, brim og klettamyndir
Ómar Smári lýsti og sýndi ljósmyndir af nokkrum af smærri og stærri hellum Grindvíkinga, sem eru nú um 300 talsins. Fyrir síðustu aldamót voru þeir einungis innan við 20. Merkilegastur fyrrum þótti Grindarvíkurhellir, en hann er nú kominn undir veg. Væri það dæmi um vanþekkingu og áhugaleysi þeirra, sem gæta eiga að vermætum þeim er felast í hraunhellunum. En sem betur fer væru til fleiri hellar. Meðal þeirra væru mestu dýrgripir sinnar tegundar í heiminum. Vonandi verða þeir ekki líka eyðilagðir af sömu ástæðum.
Hraunkarl
Kristján rakti myndun Reykjanesskagans frá vestri til austurs, byrjaði á Reykjanestá og endaði í Henglinum. Hann sagði frá misvísandi legu jarðskjálfta- og sprungubeltanna eftir aldri. Þau yngri liggja NA / SV en þau eldri N / S eins og glögglega má m.a. sjá á svæðinu sunnan Kleifarvatns. Þar eru sprengigígar. Glóandi kvikan undir niðri hefur nýtt sér jarðskjálftabeltið og þrengt sér upp með miklum látum. Kristján sagði frá gígskál undir Stóra-Lambafelli, sem erfitt væri að koma auga á, en væri augljós þegar betur væri að gáð. Hann taldi Hrútagjárdyngjuna eitt merkilegasta jarðfræðifyrirbæri hér á landi. Sambærilegt svæði hefði hann einungis séð á einum öðrum stað á landinu, víðsfjarri Grindavík. Um væri að ræða tvær goslotur; þá síðari um 5-7 þúsund ára. Gígurinn væri syðst og vestast í “dyngjunni”. Frá henni liggur hrauntröð til norðurs. Nyrst í “dyngunni” væri hringlaga hrauntjörn. Hún væri sennilega massívt berg, að öllum líkindum eldri gígtappinn. Í seinna gosinu hefði afmarkað svæði þar er myndaði “dyngjuna” lyft sér um 10-15 metra, líklega vegna innskots frá kvikuþrónni undir. Þess mætti nú sjá glögg merki allt umleikis “dyngjuna”.
Kristján kynnti gosbeltin og sýndi bæði dæmi um einkenni þeirra og myndanir. Þá rakti Kristján mismunandi jarðmyndanir, en þar er móbergsmyndunin hvað séríslenskust. Auk þess mætti sjá á Skaganum flestar ef ekki allar tegundir eldgosa. Aðspurður kvaðst Kristján um 50% líkur á eldgosi á Reykjanesskaga “innan tíðar”.

Reykjanesskagi

Eldgos í Fagradalsfjalli 2021.