Þríhnúkar

Áætlanir eru um að gera stærsta hraunhelli í heimi, Þríhnúkahelli, aðgengilegan ferðamönnum. Að þessu sinni var gengið um Þríhnúka og athyglinni séstaklega beint að gígaröð, gjám og misgengi suðaustan við þá. Við athugun á berglögum við Þríhnúka komu í ljós fjögur misgömul hraun. Grágrýtishraunin eldri eru 4000-4500 en þau yngri 2900-3400 ára. Síðarnefndu hraunin eru úr Þríhnúkagígunum, en þau eldri úr gígaröðinni fjær. Þar eru góðir gróninga, fallegir gígar og dulin op.
ThrihnukagígurHellirinn í Þríhnúkum er um 115 m djúpur niður á grjótbing, en um 200 m djúpur að meðtöldum rangala sem gengur til SV niður úr aðalhvelfingunni. Þríhnúkar eru gjarnan kallaðir Vesturhnúkur, Miðhnúkur og Þríhnúkagígur sá austasti. Á skilti við Þríhnúkagíg segir að gosið hafi í gígnum um landnám.
Í jarðfræðirannsókn Kristjáns Sæmundssonar jarðfræðings um Þríhnúkagíg og nágrenni kemur m.a. eftirfarandi fram:
“Berggrunnur kringum Þríhnúka er móberg (elst), grágrýti og hraun. Hraunin eru ber eða mosavaxin, en þó eru sums staðar á þeim jarðvegsflákar, jafnvel þýfðir, í raklendum flögum og eins í lægðum, lautum og jarðföllum. Norðvestan undir fjallinu eru þessi sömu hraun lynggróin í brekkum og lautun, en þykkar mosaþembur á milli. Þar er um að ræða aðallega Þríhnúkahraun I. Þótt bratt sé niður af fjallinu vestan megin eru fjallskriður óvíða nema niður undan móbergi í Vesturhnúknum. Innar er brekkan að mestu þakin hrauni og lausaskriðan á því þunn og ekki samfelld.
Þríhnúkagígur er á gosrein með nokkrum samsíða gígaröðum sem ná yfir um 500 m breitt bil og síðan eru 750 m austur að næstu gosrein sem byrjar við Kóngsfell. Á Þríhnúkareininni koma hér við sögu 4 hraun með gíg og gígröðum. Ef gera skal upp á milli gosmenja er þar merkast Þríhnúkahraunin og gígarnir í þeim með hellishvelfingunni miklu undir þeim yngri, en aflöng hrauntjörn í þeim eldri og hraunrás frá henni.
ÞríhnúkarÞrjár móbergseiningar koma fyrir í nánd við gígasvæðið, og tvær í viðbót allangt norðaustan þess. Bergið í þeim er mismunandi að gerð, en í öllum er það ferskt. Vestastur Þríhnúka er stuttur móbergshryggur með NA-SV-stefnu (Vesturhnúkur).
Frá Þríhnúkagíg eru 250 m að brekkufæti hans. Hann er úr móbergs-breksíu og túffi, nokkuð feldspatdílóttu, en bólstraberg kemur einnig fyrir, t.d. vestan í honum undir breksíunni. Breksían er fremur laus í sér þar sem mest er af basaltbrotum í henni (kjarninn í hnúknum), en fastari í sér þar sem hún er túffrík.

Gígaröðin

Gangar eru norðaustan í háhnúknum og kambinum norðaustur af honum. Grágrýti er efst utan í háhnúknum, en einnig á tveim stöðum þar sem lægra er, þ.e. sunnan í honum á smástalli, og austan í kambinum norðaustan hans, dílótt eins og móbergið. Móberg kemur fram neðarlega í vesturhlíð hnúksins undan lausaskriðu og myndar þar dálítinn stall. Þriðja móbergseiningin kemur fram miðhlíðis og ofarlega í vesturhlíð fjallsins norður frá Þríhnúkagíg. Líklega sér þarna í kaffærðan móbergshrygg. Móbergslag kemur fram í hlíðinni neðan undir suðvestasta gígnum í gígaröð H-147 nyrst á Spors-stapanum. Loks sést í móberg eða öllu heldur bólstraberg neðst í brekkunni austan við gígaröð H-147. Það myndar smáhól sem hraun frá gígunum hylur alveg nema á kafla austan megin.
Grágrýti kemur fram á nokkrum stöðum í nánd Þríhnúkagíg. Upptök þess eru í stórri gígskál sem Jón Jónsson (1978) nefndi Spor. Grágrýtið er ekki mjög rofið uppi á hásléttunni. Efsta frauðið er þó af, en víða eru varðveittir á því skafnir hraunhólar (push ups), annars er það uppbrotið af frostveðrun og lausagrjót og blokkir á yfirborðinu.

Þríhnúkar

Jökulrákir eru lítt sýnilegar, finnast þó sé eftir þeim leitað. Stórgrýtisbjörg úr móbergi og jökulbergi liggja ofan á grágrýtinu í brekkunni og ofan brúnar austan við H-147-gígana. Þau eru jökulborin, en ekki úrkast úr gígum. Frá Þríhnúkagíg er styst í grágrýtisopnur 600 m austar og sunnar, en fleiri eru fjær norðan og norðaustan hans. Frá grágrýtisfláka norðaustan við Spor teygir sig álma vestur í átt að Þríhnúkagíg svo einungis vantar 200 m að hugsanlegum gangamunna.
Suðvestan við Vesturhnúkinn er grágrýtið stöllótt. Skilin fara lækkandi þaðan vestur í Kristjánsdalahorn. Skil þessi marka stöðu vatnsborðs í jökullóni á þeim tíma sem grágrýtishraunið rann. Hæðin á skilum sem þessum getur verið nokkuð breytileg eftir því hversu bræðsluvatn rennur greiðlega burt.
Fullvíst má telja að grágrýtið sé yngra en móbergshryggirnir. Hvort tveggja er að lítið stendur af þeim upp fyrir grágrýtið, en þó fremur hitt að Þríhnúkagígurvik kemur í stapann þar sem Vesturhnúkurinn og kaffærði hryggurinn norðaustan hans stóðu fyrir rennslinu sunnan frá. Líklega er Spors-stapinn yngri en stóru staparnir vestar á Reykjanesskaga, þ.e. yngri en Fagradalsfjall og Lönguhlíðar-stapinn, líkast til frá síðasta jökulskeiði og myndaður við töluvert minni jökulþykkt en hinir tveir.
Elst hraunanna er það sem Jón Jónsson (1978) auðkennir H-143. Það er býsna gamalt, fáð af veðrun og uppbrotið. Það rann úr gígaröð sem byrjar um 500 m suðaustur af Þríhnúkagíg og liggur þaðan til suðvesturs yfir Sporsgíginn. Hraunbrúnin er mjög lág, 10-30 cm á grágrýtinu norðan og austan við. Hraunið er eftir því þunnt þarna nyrst þar sem það endar. Hraun þetta gæti hafa náð að Þríhnúkagíg og væri þá næst ofan á grágrýtinu. Næst að aldri er hraun sem Jón Jónsson (1978) auðkennir H-144. Það rann úr gígaröð sem er í tveim pörtum og byrjar 500 m suðvestan við Þríhnúkagíg, rétt suðvestan við hrauntjörnina í Þríhnúkum.

Þríhnúkar

Hraunið er uppbrotið af veðrun og mjög þunnt til jaðranna sem vel sést þar sem það hefur runnið út á H-143-hraunið og grágrýtið. Hraun þetta gæti náð til Þríhnúkagígsins. Þá er komið að Þríhnúkum sjálfum. Í þeim hafa komið upp tvö hraun sem Jón Jónsson (1978) auðkenndi H-145 og H-146. Upptök þess eldra, Þríhnúkahrauns I, eru í hrauntjörn sem er 400 m löng og sveigist lítið eitt til í meginstefnu NA-SV. Gígop hefur verið austan undir gjallhól, íhvolfum þeim megin sem snýr að hrauntjörninni. Gíghóllinn (Miðhnúkurinn) er úr ólivíndílóttu rauðagjalli og kleprum. Þótt mestallt hraunið sem nú sést hafi komið upp í gíghólnum (Miðhmúknum) hefur gosið hafist á sprungu með NA-SV-stefnu. Stubbur af henni sést norðan í móbergshryggnum M-2 með gjalldrílum og ganghlein sem stendur upp úr móberginu og sjást af henni um 50 m. Jón Harðarson o.fl. (1983) nefna þessa gíga.

Kristján

Austan í Miðhnúknum sést neðarlega hraunborð, jafnhátt barmi hrauntjarnarinar, greinilegt þó aðeins nyrst. Innveggir hennar eru annars úr 10-15 cm þykkum hraunskánum og bergið ólivínríkt, svo til án feldspatdíla eins og í gjallhólnum. Bunga hefur hlaðist upp kringum gígtjörnina og hraunrás, sem liggur austur frá henni. Hún hefur byggst upp er hraun vall yfir barmana og má telja víst að hún sé öll úr þess háttar hraunskánum, ella hefði hún ekki byggst upp, jafnbrött og hún er, úr þunnfljótandi hrauni. Fyrir utan hraunskvetturnar hefur nokkuð runnið úr hrauntjörninni til norðurs og fram af fjallinu þar, en meira þó eftir hraunrásinni til austurs og síðan áfram til NA uns hún þverbeygir til NV. Hraunrásin er efst í endilangri, ávalri og jafnhallandi hraunbungu sem hlaðist hefur upp út frá rásinni við skvettur líkt og bungan kringum hrauntjörnina sjálfa. Hraunrásin er mjó á NA-SV-kaflanum, þ.e. á bilinu 10-20 m yfir barma, og mesta dýpi hennar 15-20 m. Ofan til eru hraunskánirnar eða -beltin einnig þunn í veggjum rásarinnar, mældust algeng á bilinu 15-50 cm, en niðri í henni eru þau þykk, oft 1-2 m. Hraunrásin endar spölkorn norðvestan við þverbeygjuna. Þaðan hefur hraunið breiðst út og síðan vestur af fjallinu. Á þverbeygjunni og þar sem hraunrásin endar eru hraunbólur þar sem flætt hefur upp úr henni. Í fjallshlíðinni sem er um 120 m há er hraunið víða samfellt, jafnvel þar sem bratt er, annars sundurlaust, en lausahroðinn á því er hvergi þykkur nema þá neðst þar sem grjót hefur borist niður með leysingavatni og við hrun.

Merking

Talað hefur verið um hraunrásina sem hrauntraðir og þannig er hún sýnd á kortum. Það er þó ekki alveg rétt, því að hún hefur verið lokuð, alla vega á síðustu stigum. Þetta sést á því að víða eru heil höft yfir hana, en kaflarnir á milli fallnir niður. Það sem sést af eldstöðinni sjálfri er gjall- og klepragígur. Kleprabrynja utan á kambinum sem gengur norðaustur frá vesturhnúknum vitnar um strókavirkni. Dyngjulögun hefur hraunið ekki, en yfirborð þess er þó með eindregnum dyngjueinkennum, þ.e. helluhraun með klofnum hraunhólum þegar kemur niður undir Kristjánsdalahorn. Grafið var á hraun þetta á nokkrum stöðum, bæði uppi á fjallinu og neðan undir því þar sem jarðvegur er þykkri og lynggrónar lautir og brekkur. Þar þekktust neðst í
moldinni tvö Kötlulög (mynd 2) sem víða má finna á þessum slóðum. Aldur þeirra er allt að 2900 ár og 3400 ár (Bryndís G. Róbertsdóttir (1992).

Skilti

Þríhnúkagígur er fast austan við hrauntjörnina. Ekki er að sjá hraunborð utan í honum þar sem veit að henni. Hún hefur verið komin áður en gaus og gíghóllinn hefur byggst upp yfir barm hennar.
Ljóst er því að það hraun (H-146) tilheyrir sérstöku gosi. Í jarðvegssniði sunnan við Þríhnúkagíg fannst aðeins efra Kötlulagið, ofan á Þríhnúkahrauni II. Á eldra hrauninu er neðra og þykkara Kötlulagið einnig að finna (mynd 2) og undir því 5-7 cm þykkt moldarlag. Aldursmunur hraunanna gæti verið um eða yfir 1000 ár. Aldur Þríhnúkahrauns I má áætla um 4500-5000 ár, en Þríhnúkahrauns II amk. 3500 ár. Í skýrslu Helga og Magnúsar (2001) er “Þríhnúkahraun yngra” sem svo er kallað sýnt eldra en Heklulagið HA (um 2500 ára). Í athugasemd í hraunatöflu kemur fram að þeir grófu á það við Kristjánsdalahorn, en þar nokkru austar eru bæði Kötlulögin ofan á Þríhnúkahrauni I sem eitt nær vestur að Kristjánsdalahorni.

Í Þríhnúkagíg

Misgengi og gjár Misgengi og gjár í nánd við Þríhnúkagíg sjást aðeins í grágrýtinu og elsta hrauninu (H-143). Svo er að sjá sem sprunguhreyfingar hafi ekki orðið á þessum hluta Brennisteinsfjallakerfisins eftir að Þríhnúkahraun I og II runnu fyrir 3500-5000 árum. Gjár sjást hins vegar í Þríhnúkahrauni I vestan undir fjallinu í NA-framhaldi af brotunum í Kristjánsdalahorni. Eftirtekjan varðandi gjár og misgengi sem orðið gætu á gangaleiðum er rýr. Þar er fyrst að nefna misgengi/gjá í framhaldi af gígum og gjá í H-143 hrauninu, en hún stefnir nærri gangamunna eða öllu heldur skurði ef komið yrði austan frá (sjá meðfylgjandi kort). Brot gæti komið fram í NA-framhaldi af gígaröðunum í H-144 hrauninu. Hliðrun er á þeim suðvestan við Þríhnúkagíg og stefnir eystri greinin nánast beint á gíginn. Brot í framhaldi hinnar myndu verða fyrir á gangaleið vestan frá.

Þríhnúkagígur

Þríhnúkagígur er yngsta eldstöðin á ~500 m breiðri gosreinin sem framar greindi, en aldur hans er nokkuð yfir 3000 ár. Yngri hraun eru vestur við Brennisteinsfjöll og austur við Kóngsfell. Þau yngstu, þ.á.m. Kóngsfellshraun, runnu fyrir 1000-1100 árum (Jón Jónsson 1978). Eldvirkni á Reykjanesskaga kemur í lotum sem ganga yfir eldstöðvakerfin á um það bil 300 ára tímabili. Þar á milli er hlé á gosum en skjálftavirkni á plötuskilunum. Eina hléið sem er bærilega vel tímasett er það síðasta sem stóð í um það bil 800 ár (Kristján Sæmundsson og Haukur Jóhannesson 2006). Núverandi goshlé hefur staðið í ~750 ár. Í Brennisteinsfjallakerfinu hefur síðasta goshlé varað í um það bil 1000 ár. Aðrir kaflar í Brennisteinsfjallakerfinu en Þríhnúkareinin myndu teljast líklegri til að gjósa í næstu goslotu ef álykta mætti að gosin endurtækju sig á sömu reinum og í síðustu goslotu, og raunar þeirri næstsíðustu líka.
Það var nefnt hér að framan að gjár og misgengi koma ekki fram í yngstu hraununum í Þríhnúkareininni. Þar hafa brotahreyfingar af því tagi ekki átt sér stað í meira en 3000 ár. Hins vegar eru opnar gjár og misgengi í Þríhnúkahrauni I, á sprungurein sem liggur frá Brennisteinsfjöllum yfir Kristjánsdalahorn og hraunin norðan undir Þríhnúkum og Spors-stapanum. Fjarlægðin milli jaðarsins á henni og Þríhnúkagígs er um 1 km. 

Í Þríhnúkagíg

Ekki er vitað um norð-suðlægar sprungur, virkar á skjálftatímabilum, nær en norður frá Hvalhnúkum og austur við Rjúpnadalahnúka. Á þeirri fyrrnefndu varð skjálfti yfir 6 að stærð árið 1929. Hún stefnir um það bil 2 km vestan við Þríhnúkagíg. Hin er álíka langt austan við hann (austan í Kóngsfelli). Óefað verður hrun úr hellishvelfingunni í slíkum skjálftum. Líklegt er að grjótbingurinn á botninum sé fyrst og fremst þannig myndaður.
Athugum þá hvaða berglög myndu koma fram í hellinum undir Þríhnúkagíg. Hann er um 115 m djúpur niður á grjótbing, en um 200 m djúpur að meðtöldum rangala sem gengur til SV niður úr aðalhvelfingunni Árni B. Stefánsson (1992).
Í hellinum Í Þríhnúkagígættu skil á milli hrauna og grágrýtis að vera í rétt rúmlega 480 m h.y.s. eða 65-70 m neðan við topp gígsins (sjá jafnhæðarlínur á korti og teikningu Árna B. Stefánssonar (1992). Reikna má með að Þríhnúkahraun I nái niður í 510-515 m hæð, en þar taki við Þríhnúkahraun II niður í rúmlega 480 m hæð og síðan hugsanlega H-143-hraunið, etv um 1 m þykkt með þunnu moldarlagi ofan á. Hraunin eru líkast til þunnbeltótt næst gígnum og hrauntjörninni, en beltin líklega þykkari næst hraunrásinni. Þykkt grágrýtisins er ekki þekkt en skiptir efalaust nokkrum tugum metra. Skv. því sem séð verður í grágrýtinu vestur frá gígasvæðinu eru hraunbeltin í því nokkuð þykk, algeng rúmir 2 m. Árni B. Stefánsson (1992) sýnir þau hins vegar miklu þykkri í hellinum sjálfum. Neðst í honum að norðvestan er móberg sem nær frá 433 m hæð um það bil 10 m upp í vegginn og því hallar bratt til suðausturs (Árni B. Stefánsson 1992).

Í Þríhnúkagíg

Innveggir hellisins eru húðaðir hraunskel þar sem hann er mjóstur, og raunar töluvert þar niður fyrir. Neðst er hún 10-30 cm þykk (Árni B. Stefánsson 1992). Talað er um að illa sjáist út í veggina þar sem hvelfingin er víðust (50-60 m?), stundum amk. vegna þokuúða af vatni sem drýpur úr lofti hennar. Botninn er þakinn stórgrýti og grjót mylsnu sem myndar lága bungu í miðjum hellinum og skriðu sums staðar með veggjum, hallandi upp að þeim. Mest er það hrun úr slútandi hvelfingunni.
Nokkrar hugmyndir hafa komið upp um gangaleiðir að hellinum. Sú raunhæfasta gerir ráð fyrir aðkomuvegi og lögnum (rafmagn og vatn) frá Bláfjöllum. Hún verður skoðuð hér á eftir sem besti kostur, en einnig fjallað um aðkomu norðaustan og norðvestan frá. Stefnt er að því að göngin opnist inn í hellinn þar sem hraunskel er á innvegg hans og ekkert hefur hrunið frá síðan þarna gaus. Skelin er líkast til viðkvæm. Verði ákveðið að velja innkomu þar sem hún þekur þarf að standa þannig að verki að hún brotni ekki frá kringum opið. Innkoma í hellinn er hér við það miðuð að hafa sem mest af göngunum í hrauni (Þríhnúkahrauni I) sem að miklu leyti mætti líklega vinna án sprenginga. Síðasti spölurinn er hugsaður niðri við skilin milli grágrýtis og hrauns. Innkoma í hellinn yrði þá í kringum 480-485 m hæð y.s.”
Gangan tók 4 klst og 4 mín. Frábært veður.

Heimild:
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, Jarðfræðirannsókn á Þríhnúkagígum, 2006.

Þríhnúkur