Hlíðarhús

“Búskapur “Reykjavíkurbænda” setti svip á höfuðstaðinn alveg fram á sjöunda áratuginn. Enda þótt sárafáir Reykvíkingar hefðu viðurværi sitt af landbúnaði eftir síðari heimsstyrjöldina og bændurnir væru ekki margir í hlutfalli við aðra íbúa hafði búsýsla þeirra áhrif á þróun bæjarins og dreifingu byggðarinnar. Þeir sem stunduðu einhvers konar búskap réðu yfir stórum og smáum túnum, yfirleitt svokölluðum erfðafestulöndum, sem voru fyrirferðarmikil í bæjarlandinu.
ReykjavíkurjarðirFraman af 19. öld höfðu einstaklingar yfirleitt leigt nytjatún bæjarins en þar sem færri komust að en vildu leið fljótt að því að þörfin rak menn til þess að rækta nálæga móa, en bærinn þurfti að hafa þar hönd í bagga, enda eigandi landsins. Upp úr miðri 19. öld lögðu bæjaryfirvöld grunninn að erfðafestuskilmálum síðari tíma. Blettirnir voru afhentir gegn árlegri leigu en leigutakar voru hins vegar skyldaðir til þess að láta af hendi byggingarlóðir gegn niðurfærslu á árgjaldinu að mati óvilhallra manna. Á síðasta aldarfjórðungi 19. aldar varð erfðafestan eina fyrirkomulagið á úthlutun lands sem var stærra en lóðir. Undir lok aldarinnar var síðan dregin skýr markalína milli lóða og erfðafestulanda.
Kringlumýri Framan af 20. öld var reglum um erfðafestulöndin breytt á ýmsa vegu, m.a. tryggði bæjarstjórn eign sína á bæjarlandinu með nýjum skilmálum árið 1909, lög um rétt kaupstaða og kauptúna gagnvart þeim sem áttu stórar óbyggðar lóðir tryggðu ennfremur rétt bæjarins og rannsókn sem gerð var árið 1928 leiddi í ljós að bærinn væri hinn eiginlegi eigandi eldri landa og að réttur erfðafestu hafa væri einungis ræktunarréttur. Eftir að þessi niðurstaða fékkst átti enginn að velkjast í vafa um hver ætti erfðafestulöndin.
Lögsagnarumdæmi Reykjavíkur á þeim tíma var talið um 100 km² en landið vestan við Elliðaár aðeins um fimmtungur þess. Á nærri þriðjungi svæðisins voru erfðafestulönd.
VesturbærUm miðja 20. öld einkenndist bæjarland Reykjavíkur því fremur af víðum grasvöllum og óræktuðu landi en húsum og götum og öðru því sem talið er dæmigert fyrir borgir.
Náttúran setti því enn sterkan svip á umhverfi bæjarbúa, ekki aðeins melar og móar, urð og grjót, grasvellir og óræktarland heldur var fjallahringurinn víður og enn sást haf nánast hvaðanæva úr bænum. Að þessu leyti tók Reykjavík vel á móti fólki sem þangað fluttist og hafði búið í sveit. Og líklega hefur fjöldi býlanna í bænum ekki spillt fyrir.

Klambrar

Býlin vestan Elliðaánna stóðu mörg á því svæði sem nýju hverfin í bænum röðuðu sér utan um. Í Laugardalnum var hvert býlið af öðru með grænum túnum. Á milli Rauðarárholts og Laugardals var einnig rekinn þróttmikill búskapur. Í Kringlumýrinni voru Kringlumýrarblettir þar sem fjöldi ábúenda stundaði dálítinn búskap. Við Suðurlandsbrautina, ekki langt frá þeim stað þar sem Hótel Esja reis síðar, stóð býlið Lækjarhvammur.
Ný byggð þrengdi víðar að erfðafestuhöfum. Í Langholti, Laugarási og Laugarnesi var talsvert um slíkt. Ný íbúðarhús sóttu einnig að býlum í jaðri Öskjuhlíðar.
Við Háteigsveg stóð Sunnuhvoll og skammt þar frá var bærinn Klömbur, sem Klambratún var kennt við en því var síðar gefið nafnið Miklatún. [Daninn Cristiian Christensen keypti býlíð Klömbrur 1934 og rak þar fyrst búskap en síðar svínasláturhús og reykhús. Húsið á Klömbrum var rifið 1965.]

Skólavörðuholt 1968

Vestur í bæ voru jafnframt erfðafestulönd og býli, einnig í Skerjafirði. Alifuglabú bakarameistara var í Háaleiti og í Sogamýri voru nokkur nýbýli. Mýrin hafði verið þurrkuð upp og breytt í tún og þar var fjöldi erfðafestulanda, Sogamýrar- og Sogablettir. Í nágrenninu voru Bústaðir, þar var búið þar til í upphafi áttunda áratugarins. En á sjötta áratugnum voru á bænum tólf kýr mjólkandi og áttatíu ær. Bóndinn á Bústöðum, Ragnar Þ. Jónsson, réð yfir talsverðum túnum en “hafði glatað í greipar bæjaryfirvalda úthaga og engjum og þótti sárt við að sættast.” Sumum gömlum sveitamönnum, sem komu í fjárhúsin á Bústöðum um miðja öldina og sáu sauðfé á garða, þótti sómi að því fé. Fleiri býli og erfðafestulönd voru í bæjarlandinu og í nágrenni bæjarins, í Kópavogi og á Seltjarnarnesi, var blómlegur búskapur.”
Til að gera langt mál stutt má segja að eftir þetta hafi Reykjavík breyst úr sveit í bæ. En í stað stekkjar varð bærinn að þeirri borg, sem við nú þekkjum.

Heimild:
-Eggert Þór Bernharðsson – ÞÆTTIR ÚR SÖGU REYKJAVÍKUR FRÁ 1940 – Sveit, bær, borg.

Skólavörðuholtið í dag