Sól og skuggar

Kynningarfundur var haldinn á bæjarskrifstofunum í Grindavík fimmtudaginn 20. nóvember 2008.
Á fundinum kynntu fulltrúar Hitaveitu Suðurnesja (HS) hugmyndir sýnar um boranir og jarðvarmaorkuver í SvartsengiEldvörpum. Júlíus Jón Jónsson, forstjóri, Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri og Guðmundur Ómar Friðleifsson, jarðfræðingur HS, kynntu áfromin. Þá kynnti fulltrúi VSÓ ferli og formsatriði slíkrar mannvirkjagerðar, bæði hvað varðar undirbúning, framkvæmd einstakra liða, öflun nauðsynlegra leyfa (sem eru 19 talsins) og gerð deili- og aðalskipulags fyrir svæðið. Hér á eftir er meginefni fundarins rifjað upp, auk þess sem getið er nokkurra mótvægisábendinga því hafa ber í huga, kannski af eðlilegum ástæðum, að málflutningur fulltrúa HS snýst einungis um möguleika á nýtingu Eldvarpasvæðisins til jarðhitanýtingar en ekkert annað þrátt fyrir að aðrir nýtingamöguleikar þess eru bæði margvíslegir og gætu gefið af sér margföld verðmæti umfram þau, sem reifuð voru á fundinum.
HS hefur nýtingarrétt á umræddu svæði næstu 70 árin (ca.), en ríkið á landið þótt það sé innan lögsagnarumdæmis Grindavíkur. Fyrirtækið hefur hins vegar ekki nýtingarleyfi. Fram kom þó að HS telji sig hafa rannsóknarleyfi bæði í Svartsengi og Eldvörpum, en skv. upplýsingum viðkomandi ráðuneytis virðist ekki vera um gilt leyfi í Eldvörpum að ræða.
Þar var boruð ein hola fyrir u.þ.b. 28 árum (vegurinn þangað var lagður fyrir u.þ.b. 30 árum), en hún hefur ekki verið nýtt þótt hún gefi ágætlega af sér. SprungusveimarÁ óvart hefði komið að holan reyndist vera á sama jarðhitasveim og Svartsengi, þ.e. að glögg vökvatengsl eru á milli vinnslusvæðisins í Svartsengi og geymisins í Eldvörpum (órofa jarðhitageymur). Nýting í Eldvörpum kemur því til með að bæta tiltölulega litlu við núverandi möguleika Svartsengissvæðisins.
Hafa ber í huga að Stefán Árnason, jarðfræðiprófessor við HÍ, telur nýtingarhlutfall Reykjanesvirkjunnar allt of mikla. Þar er verið að ganga stórlega á vatnsforða, sem safnast hefur upp á síðustu 10.000 árum. Hlutfallið ætti að vera um 130 wmw en er nú um 1000 wmw, sem mun að öllu óbreyttu þurrka upp forðann á skömmum tíma. Vegna ofnotkunnar og lítillar niðurdælingar hefur land á vikrjunarsvæðunum sigið. Hingað til hefur ekki verið skilgreint hversu mikið vatn og/eða gufu má nýta á hverjus væði, líkt og nú er t.d. gert á Nýja-Sjálandi. Viðbótarvirkjun á Svartsengissveiminn, þ.e. í Eldvörpum, mun stuðla að hinu sama. Tillögur eru og uppi að skábora holur norðan við Svartsengisfjall og í Arnarsetri. Þær holur eru þó fyrst og fremst hugsaðar til að skoða áhrif frekari orkuvinnslu á jaðar svæðisins. Hafa ber í huga að skáborun getur dregið u.þ.b. einn km út frá borstæðinu sjálfu, þ.e. ef lengd holunnar er nálægt 3 km.
Í Eldvörpum er fyrirhugað athafnasvæði HS Svæðiðgeysistórt, umfram það sem nú er í Svartsengi, eða um 750 hektarar. Til samanburðar má geta þess að Reykjanesvirkjunarsvæðið er um 150 he og Svartsengissvæðið er svipað að stærð. Svæðið, sem um ræðir, nær frá suðvestanverðum Þorbirni og vestur fyrir Eldvörp að sunnanverðu, upp í Sandfellshæð að norðvestanverðu, áleiðis upp í Sandfell að norðvestanverðu og austur fyrir Rauðhól að norðaustanverðu (í Illahrauni), þ.e. nánast að mörkum Svartsengissvæðisins (sjá gula svæðið á myndinni. Rauði reiturinn er tillaga að iðanaðarsvæði, m.a. í tengslum við orkuiðnaðinn). Í heildina er svæðið margfalt stærra en allt núverandi þéttbýlissvæði Grindavíkur. Innan þess er gert ráð fyrir fjórum borteigum, hverjum um 3500m2. Hver teigur á að bera fjórar borholur. Þær verða því sextán alls, skv. þessum fyrstu hugmyndum. Áætlað er að þær gefi af sér um 50 mw. Fróðir menn telja þó að svæðið í heild geti gefið allt að 200 mw, ef vel er leitað. Það myndi þýða 48 borholur til viðbótar á Eldvarpasvæðinu á 12 borteigum. Vel má ímynda sér hvernig svæðið muni líta út eftir þær framkvæmdir allar ef tekið er mið af fenginni reynslu annars staðar á virkjunarsvæðum! Virkjunin sjálf er hugsuð í sléttu Blettahrauni, vestan við Lágar og austan við Sundvörðuhraunið norðaustanvert. Þar er Árnastígur markaður í hraunhelluna, forn þjóðleið milli Húsatófta og Njarðvíkur, sem fulltrúi HS kallaði “göngustíg”.
Áður en lengra er haldið er rétt að geta þess að á þessum fundi var einungis fjallað og rætt um eina auðlind svæðisins, jarðvarmann. Ekkert var t.d. minnst á aðrar auðlindir, s.s. ósnerta náttúru og nýtingu hennar fyrir sívaxandi atvinnugrein, ferðamennskuna. Sá, sem sat fundinn, og hafði útsýni umfram “kassann”, gerði sér vel grein fyrir tvennu; þarna sat fólk, sem hugsaði einungis um eitt, en ljóst mátti vera sæmilega upplýstu fólki að möguleikar þessa einstaka náttúruminjasvæðis (er á náttúruminjaskrá) eru miklu mun meiri ósnortið til lengri tíma litið. Hafa ber í huga að líftími jarðvarmaorkuvers er takmarkaður við einn eða tvo mannsaldra.

Gígur

Ósnortið umhverfi, líkt og er í Eldvörpum, hefur ótakmarkaða nýtingu fyrir þær komandi kynslóðir, sem munu hafa vit á að nýta þær skynsamlegar en nú er áætlað. Hitt er svo annað mál að hófsöm nýting á núverandi jarðvarmaorku getur vel gengið, og er reyndar mikilvæg nútíma fólki, ef þess er sérstaklega gætt að raska alls ekki meiru en nauðsynlegt er á hverjum stað.
Ljóst mátti vera, að fulltrúar HS, gáfu þau svör, sem þeir töldu að viðstaddir vildu heyra. Við spurningunni um hina gífurlegu stærð vinnslusvæðisins var því svarað til að varlega væri farið af stað, ekki yrði neitt gert nema með samþykki bæjaryfirvalda og að sérhver framkvæmd þyrfti að fara í gegnum “nálaraugað” áður en hafist yrði handa. Ekki var minnst á að að jarðýtur HS fóru um ósnortin mosahraun neðan við Sogaselsgíg fyrir örfáum misserum án vitneskju þeirra er samþykkja áttu slíkt og borvinnsla hófst þar án þess að tilskilin leyfi lágu fyrir frá hlutaðeigandi sveitarfélagsstjórn. Nú stendur þar eftir ónýtt borstæði með varanlegu sári í einu litskrúðugasta umhverfi Reykjanesskagans, Sogin.
Í máli Guðmundar Ómars kom það helst fram sem þegar er vitað um jarðfræði Reykjanesskagans; mörg nútímahraun, jarðvarmasveimir á rekbeltum og að grunnvatnsrennsli taki mið af legu berglaga og kælingu grunnvatns m.v. nýtingu, annars vegar án niðurdælingar upptökuvatns og hins vegar með niðurdælingu.
Nýjar upplýsingar fólust þó í tíðni eldgosatímabila (2000 ár) og færslu þeirra um Skagann. KynningGoshrinurnar hafa í gegnum árþúsundin færst vestar og óvíst hvar þær kunni að bera niður næst, þ.e. eftir eða innan ca. 100 ára. Ef sæmilega skynsamur maður skoðar annars vegar kort af goshrinunum og hins vegar staðsetningu þeirra má telja mjög líklegt að næsta samfellda goshrina á Reykjanesskaganum verði vestast eða vestan við Reykjanesið og, ef um myndarlega hrinu verður að ræða, stækka það á haf út.
Albert sagðist myndi verða stuttorður, en kunnugir vita að það orð þekkir sá ekki, enda varð raunin allt önnur á svo stuttum fundi, sem ætlunin var að halda. Orðum sínum fylgdi hann þó eftir með skriflegum drögum að “Undirbúningi virkjunar í Eldvörpum”.
Þá fjallaði Albert um “Auðlindagarða á Reykjanesskaga” er eiga að snúast um heitt vatn og rafmagn. Albert virðist hafa fest höfuðið í einni borholunni því hann virtist hvorki sjá aðrar auðlindir á svæðinu eða hvernig mætti nýta þær til framtíðar.

Jarðmyndun

Ljóst er að deyjandi Svartsengisvirkjun sárvantar vara- og neyðarafl fyrir þjónustusvæði sitt, einkum Reykjanesbæ. Fyrirhuguð er bygging nýrrar dælustöðvar í Svartsengi til að mæta því. Um bráðaframkvæmd er að ræða. Þrátt fyrir að virkjunarmenn telji sig jafnan þurfa að horfa áratug fram í tímann hvað úrræði og kosti varðar, virðist einhverjir þeirra hafa sofið á verðinum, a.m.k. hvað varðar næstu framtíð.
Möguleikar jarðvamaorkuvers í Eldvörpum felst m.a. í framleiðslu metanols. Tiltölulega litla jarðvarmaorku þarft til slíkrar framleiðslu, sem líklega verður einn af orkumgjöfum framtíðarinnar. Nálægð slíkrar framleiðslu við hugsanlegt iðnaðarsvæði vestan Grindavíkur gæti gefið mikla möguleika á ýmsum orkutengdum iðnaði. Hafa ber í huga, að þetta lag hefur áður verið kyrjað, bara með öðrum texta á öðrum tíma.
Spurt var svolítið óþægilegar spurninga, s.s. um loftmengunarlag virkjunarsvæðisins? Svarið var stutt: “Ekki komið svo langt”. Spurt var; “Hvað um sjónmengun af gufunni frá borholum líkt og í Svartsengi?” Svar: “Hún verður engin.” Eldri Grindvíkingar vita þó að gufa sást einungis í Svarsengi þegar kaldast var, en í dag sést hún jafnvel á heitasta degi ársins – og það mikil. Ekki er óeðlilegt að bæjarbúar vilji vita hver ásýndin muni verða frá bænum. Spurt var: “Munu mannvirkin sjást frá bænum?” Svar: “Nei, hæðardrag ber á milli”. Hvaða hæðardrag?
ÁrnastígurBorteigarnir verða vestan við Eldvörp, allt frá því móts við núverandi borholu til norðausturs að Lat, eða u.þ.b. 1.5-2.0 km leið. Það svæði er tiltölulega sléttlent, en ægifagurt í samhengi sprungureinarinnar og gígraðarinnar, sem þar er. Eina raskaða svæðið í Eldvörpum er í kringum núverandi borholu. Til gamans má geta þess að helstu rök virkjunarsinna fyrir ákvörðunum sínum eru jafnan þau að benda á að afsakanlegt sé að fara inn á slík svæði vegna þess að þeim hafi þegar verið raskað. Spurningin er hvort röskunin fyrir 30 árum hafi verið gerð vegna fyrirhugaðra framkvæmda síðar – og þá með hvaða heimild í upphafi? Minna má að hraun er runnið hafa á sögulegum tíma njóta sérstakrar verndar.
Fram kom að fyrirhugað virkjunarsvæði sé á vatnsverndarsvæði skv. gildandi skipulagi. Slíkt mun fela í sér mjög miklar takmarkanir til athafna. Sumir munu vilja minnka verndarsvæðið í þeim tilgangi að auka möguleika á virkjun. Þetta atriði, eitt sér, mun eflaust kost bæði orðsins átök og efnisleg, þ.e. í framkvæmd.
Í máli fulltrúa VSÓ kom m.a. fram lýsing á málsmeðferð rannsóknarborana á jarðvarmasvæðum. Beyta þarf deiliskipulagi í Grindavík, ef nýta á svæðið skv. óskum HS, ákveða og afgreiða þarf framkvæmdarleyfi og breyta þar aðalskipulagi. Líklegt má telja, m.v. undanfarna vakningu í umhverfismálum, að bæjaryfirvöldum muni verða það mjög torsótt. Allt þetta, og meira til, þarf að gera áður en byrjað verður að bora í Eldvörpum. Beiðni um þetta ferli frá HS hefur þegar borist bæjaryfirvöldum í Grindavík.
FornminjarÁ fundinum var verið að hluta til verið að fjalla um ómetanlega náttúruauðlind Eldvarpanna. Framsetning fulltrúa HS á umleitan þeirra verður því að taka með mikilli varúð.
Þess má geta í lokin að vitað er um marga fornminjastaði við eldvörpin og ljóst má vera að enn fleiri mannvistarleifar kunna að leynast í og við Eldörpin. Ekki eru t.d. liðin nema 3 ár síðan FERLIR fann áður óþekkt byrgi á svæðinu. Þau bíða rannsóknar. Að fenginni reynslu er líklegt að enn fleiri minjar séu þarna. Fornleifaskráning mun ekki upplýsa um þær allar, hversu kostnaðarsöm sem hún verður. Sem dæmi má nefna Suðurstrandarveginn svonefnda. Eftir að fornleifaskráningarskýrslu um svæði hans var skilað, bentu kunnugir á að um þriðja tug minja (sögu- og náttúruminja) vantaði í skrána. Ef ekki hefði orðið fyrir þeirra glöggskyggni má ætla að ýmis ómetanleg verðmæti gætu þar hafa farið forgörðum. Vonandi munu bæjarfulltrúar, skipulagsfulltrúi, byggingarfulltrúi og aðrir embættismenn Grindavíkurbæjar bera gæfu til að meta heilstætt öll þau verðmæti og auðlindir, sem svæðiið býr yfir, ekki einungis til næstu framtíðar heldur og til enn legri framtíðar.
HÉR má sjá nákvæma fornleifaskráningu fyrir Eldvörp.

Eldvörp

Í Eldvörpum.