Rjúpa

Gengið var um Heykrika, Svartakrika, Grenikrika, Miðkrika, Vatnsendakrika, Réttarkrika, Kolhólskrika, Einihlíð/ar, Löngubrekkur og Tungu niður á Garðaflatir. Á leiðinni var ætlunin að gefa gaum mannvistarleifum, sem Heykrikiku leynast á svæðinu. Réttarkriki tekur t.d. nafn af búsetuminjum og á Garðaflötum mótar enn fyrir húsum, sem þjóðsaga segir að hafi verið hinir fornu Garðar. Hinn ægilegi Húsfellsbruni liggur um göngusvæðið ofanvert. Elsti- og miðhluti þess rann um árið 950.
Í Áföngum, ferðahandbók hestamannsins segir m.a. um upphafssvæðið: “
Riðið er um Heykrika og áfram að Kolhól. Þegar komið er að reiðhliði á Heiðmerkurgirðingunni verður fyrir við hliðið lítil hlaðin rétt eða aðhald í hraunbrúninni. Það gerði Guðmundur Magnússon í Engjabæ í Laugardal í Reykjavík árið 1949. Í réttinni má auðveldlega byrgja tíu hesta með því að loka með vír og grindum í girðinguna til norðurs. [Væri vel við hæfi að nefna stað þennan Réttarkrika.]
Við Kolhól er Kolhólskriki. Nöfnin benda óneitanlega til þess að þar hafi verið stunduð kolagerð. VarðaHeimildir eru um mikla kolagerð í löndum Vatnsenda og Elliðavatns fyrr á öldum og jafnframt að nærri hafi verið gengið landinu.
Hinn mikilfenglegi gígur Búrfells blasir við. Við sneiðum því næst niður Búrfellsháls og niður á Garðaflatir. Flatir þessar eru allstórar og ná nokkuð norður með hraunbrún, sem liggur að Búrfellsgjá að austanverðu.”
Þjóðsagan segir eftirfarandi um Garðaflatir: “
Sagt er, að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður.”

Vatnsból Kópavogsbúa

Einnig segir sagan að “maður nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði. Ein þúfan var stærst, og hugsar hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varizt svefni. Hann dreymir, að maður tígulegur kemur til hans og segir: “Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, þá hét sá Þórður og var prestur hér. Síðsta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur.”
Sú tillgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýmis merki þess ma sjá, enn þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sézt til skamms tíma.”
Eflaust hefur áður fyrr verið heyjað í fyrrnefndum krikum. Réttarkriki er nú innan við vatnsverndarsvæði Tóft í HeiðmörkKópavogs í Heiðmörk. Há og ókleif girðing umlykur svæðið á þrjá vegu. Að austanverðu er gamla Heiðmerkurgirðingin, fallin að hluta, enda til einskis nýt nú orðið. Haldið var inn á vatnsverndarsvæðið um Heiðmerkurgirðinguna og hraunkantur Húsfellsbruna gaumgæfður. Svæðinu við hraunkantinn hefur verið talsvert raskað, svo mikið að líklegt verður að telja að umræddri rétt hafi verið eytt. Hafi einhver vitneskju um annað væru upplýsingar um slíkt vel þegnar.
Í Umhverfisskýrslu Kópavogsbæjar vegna fyrirhugaðrar vatnstöku í Vatnsendakrika er ekkert um fornleifaleit, sem verður að teljast til vankanta. Í l
ögum um náttúruvernd segir og að “Eldhraun falla undir sérstaka vernd skv. 37. gr. laga um náttúruvernd og ber að forðast að raska þeim”. Brunnsvæðið í Vatnsendakrikum nær að hluta til yfir slíkar jarðmyndanir. Eldhraun frá nútíma njóta því sérstakrar verndar skv. 37. gr. laga um náttúruvernd. “Brunnsvæðið í Vatnsendakrikum nær að hluta til yfir slíkar jarðmyndanir. Það er talið hafa óveruleg áhrif að leggja vatnsvernd yfir svæði sem njóta einnig verndar skv. lögum um náttúruvernd.” Samt sem áður virðist sem lögin hafi verið hunsuð að hluta.

Vatnsverndarsvæði

Til frekari upplýsinga má geta þess að Vatnsendakrikar eru um 3 km sunnan við Elliðavatn, “við jaðar hrauns sem kallað hefur verið Húsfellsbruni og er talið hafa runnið skömmu eftir landnám eða í kringum árið 950. Umhverfi Vatnsendakrika einkennist af mosagrónum hraunum frá nútíma. Fyrirhuguð vatnstaka er við hraunjaðar sem er nokkuð sléttur en er úfnari er austar og norðar dregur. Víða um kring má finna lautir og hraunbolla með trjágróðri og blómlendi. Í Heiðmörk er fjölskrúðugt dýralíf. Þar lifa refir, minkar og hagamýs og þar er kjörlendi fyrir margskonar fuglalíf.
Gengið var um gróninga Einihlíða og ofan Löngubrekkna, framhjá Hnífhól og niður á nefndar Garðaflatir. Leið þessi er bæði greið og tiltölulega slétt. Á Hnífhól er markavarða á línunni upp í Kolhól (170 m.y.s.).
Á Garðaflötum mótar vel fyrir grónum tóftum. Hús er suðvestast á svæðinu, en norðan þess mótar fyrir gerði, eins og sjá má á myndinni hér neðst.

Hnífhóll

Neðar er hin tilkomumikla Búrfellsgjá. Búrfell og Búrfellsgjá eru þarna í einungis örskotsfæri frá höfuðborgarsvæðinu; við suðausturenda Vífilsstaðahlíðar. Þetta er ein af mörgum perlum í Heiðmörk, einu vinsælasta útivistarsvæði landsins. Þegar gengið er um svæðið norðan Búrfellsgjáar er Búrfellið jafnan mest áberandi kennileitið. Fellið er í raun eldgígur í um 7 km fjarlægð suðaustur af Hafnarfirði og Garðabæ. Fellið er nánast hringlaga og hæsti gígbarmurinn er í um 179 m.y.s. en dýptin á sjálfum gígnum er 58 m miðað við hæsta barm, en 26 m þar sem hann er lægstur. Ummál gígsins er 140 m þar sem hann er breiðastur. Búrfell og nærliggjandi hraunsvæði eru á misgengisbroti sem hefur sigið talsvert eftir gos. Þegar horft er af gígbrún Búrfells blasir Helgadals sigdældinni við í vestri en Hjallamisgengið í norðri.

Markavarða

Búrfellshraun varð til í einu flæðigosi fyrir um 7200 árum, samkvæmt aldursgreiningu á mó sem fannst undir hrauninu við Bala í Garðahverfi. Stórbrotið apalhraunið hefur myndað mikið landflæmi þegar það rann fram í tveimur megin hraunstraumum eftir dalkvosum og fyllti voga og víkur. Vestari hraunrásin nefnist Lambagjá en nyrðri rásin Búrfellsgjá. Líklega hefur vestasti hlutinn horfið undir yngri hraun og mikið landbrot hefur átt sér stað við strandlengjuna á sjö öldum. Erfitt er að reikna nákvæmlega út hvert heildarflatarmál hraunsins hefur verið en núverandi flatarmál Búrfellshrauns er um 18 ferkílómetrar. Það myndar stóran hluta þess landsvæðis sem byggðirnar í Hafnarfirði og Garðabæ standa á.

Búrfellsdalir

Nafnið Búrfellshraun er tiltölulega nýtt og nær yfir heildarfláka þess hrauns sem kom frá gígnum. Áður en jarðfræðingar fóru að kanna svæðið skiptist hraunið í marga mismunandi hluta sem báru margbreytileg nöfn. Suður, vestur og norður af gígnum eru t.d. Kringljóttagjá, Helgadalshraun, Smyrlabúðarhraun, Gjárhraunin og Sléttuhlíðarhraun. Nær Hafnarfirði eru Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjahraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og Hafnarfjarðarhraun, sem nefnist Balahraun norðvestast. Garðabæjarmegin eru Garðaflatir, Búrfellsgjá og Selgjá. Næst eru Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Urriðakotshraun, Flatahraun, Hraunholtshraun, Engidalshraun, Klettahraun (Klettar) og Gálgahraun.
Búrfellsgjá er rómuð fyrir fegurð og þar er vinsælt útivistarsvæði. Gjáin sjálf er 3,5 km löng og þrengst rétt neðan við gíginn þar sem hún er ekki Gjáarrétt - Selvogsdilkurnema 20-30 m breið. Gjáin breikkar eftir því sem fjær Búrfelli dregur og er um 300 m breið þar sem Gjáarrétt og Réttargerðið eru. Framhald Búrfellsgjár er Selgjá sem stendur miklu hærra í landinu vegna misgengisins sem liggur þvert á hrauntröðina. Víða slúta gjárveggirnir bogadregnir inn yfir gjána og mynda skúta. Hlaðið hefur verið fyrir flesta skútana sem voru nýttir sem fjárskjól þegar vetrarbeit var enn stunduð í upplandinu. Stærsti skútinn er í Réttargerðinu og þar skammt frá er fallega hlaðin fjárrétt á sléttum traðarbotninum sem nefnist Gjárétt, en líka nefnd Gjáarrétt og var fjallskilarétt Álftaneshrepps hins forna. Vatnsgjá er þar skammt undan í missgengissprungu. Allar mannvistarminjar s.s. réttin, gerðið og hleðslur við skúta eru friðlýstar.
Þegar komið var niður að réttinni var m.a. kíkt á dilk Grindvíkinga og Selvogsbúa, austast í henni.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Áfangar – ferðahandbók hestamannsins, 1986 – Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson.
-Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi.
-Jónatan Garðason.

Garðafaltir