Brennisel

Kolagrafir hafa verið til allt frá því er landið byggðist. Kolin voru nauðsynleg til upphitunar og járngerðar, en auk þeirra var ýmsu öðru til tjaldað er verma þurfti híbýli og óna.
SkiltiSkilgreiningin á kolum er þessi: “Fast eldsneyti úr ummynduðum plöntuleifum. Í náttúrunni verða kol til úr jurtaleifum sem setjast til í mýrum og fenjum og ná ekki að rotna nema að takmörkuðu leyti sökum úrefnisfirrðar. Jurtaleifarnar lenda smám saman undir fargi jarðlaga og umbreytast á löngum tíma í kol. Kol innihalda mikið af kolefni og eru fyrirtaks eldsneyti.
“Kol finnast ekki í jörðu á Íslandi. Mór er í raun fyrsta stig kolamyndunar með um 60% kolefnisinnihald og surtarbrandur kemst enn nær því að vera kol með um 70% kolefni. Á Íslandi var stunduð kolagerð, sumstaðar allt fram til upphafs 20. aldar. Kolin voru gerð úr kurluðu birki eða rekavið og nefndust viðarkol.”
KolagröfKolagerð er skilgreind svona: “Sú athöfn að búa til viðarkol. Venjulega var talað um að gera til kola. Viður, oftast birki en stundum fjalldrapi eða rekaviður, var höggvinn og kurlaður, síðan settur í þar til gerða kolagröf. Þá var eldur borinn að en gröfin síðan byrgð með torfi. Þannig hélst glóð í kurlinu og var látin krauma í þrjá til fjóra daga. Afurðin var viðarkol.”
Kolagröf er/var “gryfja sem gert er til kola í. Kolagrafir finnast gjarnan nokkrar saman, oft upp af rekafjörum, á skógi vöxnum svæðum eða þar sem skógur hefur verið. Oft eru það sporöskjulaga eða hringlaga dældir með grónum krögum úr torfi í kring.
Viðarkol eru kol unnin úr viði þannig að viður, oftast birki eða rekaviður en stundum fjalldrapi, er settur í kolagröf, kveikt í og byrgð með torfi þannig að loft komst ekki að. Þetta var látið krauma í þrjá til fjóra daga. Viðarkolin voru nauðsynlegt Kolhólleldsneyti í smiðjum og til rauðablásturs.”
Í Heiðmörkinni er spjald við eina gönguleiðina. Á því stendur: “Víða í Heiðmörk má finna kolagrafir sem sýna að á svæðinu hefur verið mikill skógur. Um miðja sextándu öld voru jarðirnar Elliðavatn, Hólmur og Vatnsendi í konungseign og ábúendir greiddu hluta leigugjaldsins í viðarkolum, samtals 36 tunnur á ári. Til svo mikillar kolagerðar hefur þurft mikinn við og að auki nýttu ábúendur skóginn til eigin þarfa.” Hvergi eru nefndar kolagrafir staðsettar.
Það er ekki á hverjum degi sem gert er til kola á Íslandi lengur. Samt eru ekki nema tæp 200 ár síðan þetta var árlegur viðburður og hver bær þurfti sín kol. Á Miðaldadögum sem haldnir verða á Gásum í Eyjafirði var gert til kola í sveitinni í fyrsta skipti í 200 ár.

Kolagrof-1

Við kolagerðina var stuðst við heimildarmynd Ósvaldar Knútsen um kolagerð í Skaftafelli frá miðri síðustu öld. Einnig voru notuð ný fornverkfæri sem kallast páll, reka og sniðill. Á laugardeginum var tekin gröf og kurlað og kveikt í. Hún var svo hulin í sólarhring. Seinnipart á sunnudag var svo gröfin verða opnuð og kolin hirt.
Kolagerð var bönnuð með lögum árið 1755 því að sú skógareyðing sem henni fylgdi fór fyrir brjóstið á þáverandi kóngi. Skógar í Skagafirði og Eyjafirði voru illa farnir eftir þessa iðju eftir því sem heimildir eru til um. Fyrstu friðunarlög til verndunar skóga hér á landi voru því sett 10. maí 1755 og að tilskipan danska konungsins.
Í skýrslu Umhverfisráðuneytisins, Vernd og endurheimt íslenskra birkiskóga, frá 2007 segir m.a.: “
Lýsingar frá 18. öld benda til þess að skógar hafi einkum verið nýttir til kolagerðar og hrísrif til eldiviðar auk þess sem búpeningi var beitt á skóga að vetrarlagi. Viðarkol voru sérstaklega mikilvæg til að smíða og dengja ljái en án þeirra varð ekki heyjað, búpeningur svalt og síðan fólkið. 

Kolanef-2

Árið 1755 var gefin út tilskipun um að skógarleifar skyldu verndaðar en ekki verður séð að hún hafi dugað enda var þjóðin háð nýtingu skóganna.”
Kolagrafir má sjá víða á Reykjanesskaganum, s.s. í Almenningi og í Strandarheiði. Á fyrrnefnda staðnum má finna leifar “Brennisels” sem og nálægra mannvirkja er benda til kolagerðar. A.m.k. tíu kolagrafir eru augljósar þar í nágrenninu. Á síðarnefnda staðnum má finna örnefni, s.s. Kolhól. Þar eru og minjar er benda til aðstöðu til kolagerðar fyrrum. Auk þess má sjá minjar slíkrar vinnslu í Kolgrafarholti nokkru neðar í heiðinni.
Eitt örnefni enn, hugsanlega tengt kolagerð, er þekkt á svæðinu; Kolanef. Í örnefnalýsingu fyrir Urriðakot segir Svanur Pálsson m.a. um Kolanef og nágrenni: “Suðaustur af einbúa eru rústir beitarhúss, sem byggt var fyrir minni heimildarmanns. Austur og suðaustur af beitarhúsrústunum er hraunið tiltölulega slétt og lægra en umhverfið og nefnist Flatahraun. 

Kolanef-1

Flatahraun nær norður á móts við Kolanef í Vífilsstaðahlíð. Í Flatahrauni hefur verið gróðursett töluvert [af] furu og greni. Í norðaustur frá rústum beitarhússins í norðausturbrún hraunsins gegnt Kolanefi í Vífilsstaðahlíð við Kolanefsflöt, sjá örnefnaskrá Vífilsstaða, er lítill hellir, sem nefnist Sauðahellir. Veit op hans að hlíðinni, og eru hlaðnir kampar báðum megin við innganginn. Við hann var sauðum frá Urriðakoti gefið á gadd (á jörðina) allt frá því, að heimildarmaður man fyrst eftir sér til 1933. Heyið var borið heiman frá Urriðakoti í poka á bakinu.”

 Í örnefnalýsingu SP fyrir Vílfilsstaði segir m.a.: “Ef 

Kolanef-3

Heiðmerkurvegurinn er farinn suðaustur með Vífilsstaðahlíð, er rúmlega einum kílómetra suðaustan Maríuhella komið að smábungu á hlíðinni, sem kallast Kolanef. Í því er nú bæði sitkagreni- og stafafuruskógur. Vestan við Kolanef er lítil flöt, nú mjög eydd, sem kallaðist Kolanefsflöt.”
Gísli Sigurðsson segir í sinni örnefnalýsingu um Vífilsstaði af Kolanefi: “síðan inn eftir lægð milli Vífilsstaðahlíðar og hraunsins. Er þá komið að hrygg sem liggur upp hlíðina er nefnist Kolanef og niður undan því er Kolanefsflöt. Hér fyrir innan er mikill slakki í hlíðinni, nefnist Ljóskollulág.”
Nefndur Sauðhellir gæti auðveldlega hafa verið afdrep fyrir kolagerðafólk við Kolanefsflöt neðan Kolanefns. Við hellinn má a.m.k. sjá móta fyrir kolagröfum.

Heimildir m.a.:
www.instarch.is/instarch/ordasafn/k/
www.wikipedia.org/wiki/Viðarkol
-http://www.pressan.is/ferdapressan/Lesa_ferdapressan/kolagerd-a-gasum–midaldahatid-i-eyjafirdi-naestu-helgi-
-Lovsamling for Island III, nr. 559, bls. 219.
-http://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/Birkiskogar.pdf
-Svanur Pálsson – örnefnalýsing fyrir Urriðakot.
-Svanur Pálsson – örnefnalýsing fyrir Vífilsstaði.
-Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing fyrir Vífilsstaði.

Skógur