Grjóthleðsla
Var munur á vegghleðsluverki fyrrum á milli landshluta? Gæti það hafa verið ólíkt vegna veðurfars, t.d. rigninga, snjóþyngsla o.fl.?
Mikilvægt er að hafa svolitla innsýn í handverkið – og hugsunina, auk þess sem frásagnir og skrif frá fyrri tíð hjálpa svolítið til við að varpa ljósi á sumt sem ekki hefur unnist tími til að viðhalda í handverkinu.
Svo virðist sem að bæði hafi hleðslulag verið mismunandi milli landshluta (og jafnvel sveita innan landshuta) og efnistök mismunandi. Mestu hefur það verið að þremur ástæðum; efninu, aðstæðum og hleðslumanninum, sem stýrði verkinu. Þar sem nóg var af sléttum hellum voru veggir og hús hlaðin úr slíku efni. Væri skortur af hellum, Vegghleðsla á Reykjanesskagaen nóg af torfi, voru hellurnar nýttar milli banda, einkum í neðstu lögum veggjanna. Þar sem nóg var af óreglulegu grjóti voru hús og veggir hlaðnir úr slíku efni o.s.frv. Þannig má sjá geysilega fallegar vegghleðslur víða á Vestfjörðum þar sem mannvirkin voru gerð undir og utan í skriðbrekkum með flögubergi. Á Suðurlandi, þar sem lítið er um skriður voru mannvirkin hins vegar frekar úr torfi en grjóti. Þar réðu snidda og önnur þekkt torfskurðarafbrigði ferðinni.
Hleðslumaðurinn réð miklu um hvernig hleðslan varð. Stundum má jafnvel sjá á hleðslu hver hlóð mannvirkið. Lárétt jöfn hleðsla frá grunni og upp úr var einkenni sumra á meðan gróf undirhleðsla og fínni púslkennd ofanhleðsla var einkenni annarra. Þegar einn hleðslumaðurinn lét “holufylla” af nákvæmni lét annar það ógert. Á meðan einn krafðist góðrar undirstöðu hlóð annar ofan á jarðveginn eins og hann var á hleðslustaðnum. Á meðan einn létt vegg halla að ofanverðu að innan lét annar hann halla inn að utan. Mismunandi skoðanir voru á því hvort hleðsla nyti þess að láta ætti vindinn blása um sig eður ei. Stundum fór það eftir notkunargildi mannvirkisins og jafnan skiptust menn á skoðunum um mikilvægi þurrks eða skjóls. Þétt hleðsla, t.d. með torfi, gaf gott skjól, en hélt inni raka. Hleðsla, sem loftaði um gaf minna skjól, en þess betra andrými og angan. Finna má þessu stað í dag. Sumir vilja sofa við opinn glugga og finna ferkst loftið leika um rýmið á meðan aðrir vilja algert skjól.
Loftslag í landshlutum, héruðum og sveitum, fæddu af sér þörfina fyrir aðbúnað við hæfi. Vætusemi krafðist þéttari veggja og þaka á meðan þurrviðri gaf tilfefni til meiri opnunar á hvorutveggja. Því má segja að þörf, aðstæður og nærtæk efnistök hafi ráðið miklu um hleðslulag og gerð mannvirkja í einstökum landshlutum fyrr á öldum – og þá mismunandi eftir öldum innan þeirra frá einum tíma til annars. Þar, á hverjum tíma, hafði svo sérhver hleðslumaður áhrif er þekking og reynsla sagði til um.
Hér er um að ræða fag sem eflaust einhver gæti látið sér detta í hug að krefjast þyrfti háskólamenntunnar svo viðurkennd gæti öðlast – en ætla  má, að fenginni reynslu, að það nám yrði bara hálfkák ef ekki væri bæði fyrir hendi áhuginn og brjóstvitið.
Leifar