Gálgaklettar

Gálgaklettar eru á yfir 100 stöðum á landinu. Flest örnefnin tengjast aftökum eða aftökustöðum, hvort sem slíkar hafi farið þar fram eða ekki. Ofan við Stafnes er einn slíkur; Gálgar; tvær klettaborgir með u.þ.b. 6 metra bili á millum þeirra. Á skilti við klettaborgirnar má lesa eftirfarandi: “Við erum stödd við Gálgakletta (sem einnig [eru] nefndir Gálgar í landi Stafness, en örnefnið og munnmæli í sveitinni benda til að hér hafi menn verið hengdir til forna. Hér upp af heitir Gálgahraun.
SkiltiÁ Stafnesi er þekkt örnefnið Lögrétta, þar er hugsanlegt að sakamenn hafi verið dæmdir. En sögnin hermir að tré hafi verið lagt á milli klettanna og þeir hengdir þar á, sem Básendamenn greindi á við, en Básendar eru rösklega stundarfjórðungs gang héðan í austur [á að vera vestur]. Líkum hinna hengdu á að hafa verið kastað í gjótu undir öðrum klettinum og grjót borið að. [Ekki er líklegt að gjóta hafi verið þar á sandvindsorfnum hraunmelnum, en holu hefði auðvellega mátt grafa við klettinn].
Hvorki eru þekktar skjalfestar heimildir um að menn hafi verið réttaðir á þessum stað né mannabein eða annað sem styður sögnina, en bilið milli klettanna sýnist og breitt til þess að unnt sé að leggja gálgatré á milli þeirra. Einhver hinna þröngu sprungna getur þó komið til álita í þessu sambandi. [Hér gleymist að gálgar hafi ekki endilega þurft að vera úr þvertrjám milli kletta.

Gálgaklettar

Gálgaklettar ofan Stafness.

Líkams- og dauðarefsingar voru í lög leiddar á Íslandi á 13. öld. Líflátsaðferðirnar voru henging, hálshögg, drekking og brenna. Líkamlegar hegningar aðrar voru umfram allt hýðingar, en einnig brennimerking, og stundum voru menn handhöggnir, klipnir með glóandi töngum eða útlimir þeirra marðir áður en þeir voru teknir af lífi.
Dauðarefsing var afnumin úr lögum árið 1928 og heimild til hýðingar 1940 – en þá hafði þessum viðurlögum ekki verið beitt lengi. Síðasta aftakan fór fram 1830.
Stjórnarskrá Íslands bannar að dauðarefsing verði aftur tekin upp.”
Á vestari klettinum er grasi gróinn hóll. Ætla mætti að þarna hafi annað hvort verið dys, sem gróið hefur yfir, eða stór varða; kennileiti af sjó. Ekki er vitað til þess að rannsókn hafi farið fram á “mannvirkinu”.
Gálgar