Kershellir

Í sjálfsævisögunni “Himnest að lifa”, fyrsta bindi, lýsir höfundurinn, Sigurbjörn Þorkelsson, ferð hans og þriggja félaga í göngufélaginu Hvatur úr Reykjavík í Hvatshelli í lok ágúst 1906. Þann 6. sept. fór hann með Friðriki Friðrikssyni í hellinn með það fyrir augum að rannsaka hann og mæla. Í ljós kom 100 m langur hellir með tveimur sölum, sá innri líkastur kapellu.
HvatshellirDeilur spruttu um fund hellisins og rugluðu gagnrýnendur honum saman við annan þekktan helli, Kershelli, sem var og er fremri hluti Hvatshellis. Margir fóru í hellinn fyrst eftir fundinn, en síðustu 100 árin hefur svo lítið verið farið í hann að telja má að tilvist hans væri að mestu leyti gleymd ef ekki hefði verið fyrir skrif séra Friðriks í Fjallkonuna 7. sept. 1906. Björn Hróarsson o.fl. skrifuðu svo um endurfund Hvatshelli í Surt 1992. Þá lýstu Ólafur Þorvaldsson og Gísli Sigurðsson staðsetningunni í leiðarlýsingum sínum um Selvogsgötuna/Grindaskarðaveg.
Þegar Hvatshelli ber á góma í dag verða jafnan skiptar skoðanir um hvar hann sé að finna. FERLIR hefur áður lýst staðsetningu hans, en líkt og svo margir aðrir, fengið skammir fyrir. Hér á eftir er lýsing þeirra er að öllum líkindum komu fyrstir í Hvatshelli og gáfu honum nafnið. Hún staðfestir seinni tíma lýsingar FERLIRs á hellinum.
Sigurbjörn Þorkelsson lýsir fundi hellisins og ferð hans með séra Friðriki svona: “Við byrjuðum fljótlega að vorinu, þegar gróður var kominn í jörð, að fá okkur gönguferðir kringum Reykjavík, og seinna fórum við að fara í lengri ferðir, að Vífilsstöðum og í hlíðina þar fyrir sunnan, Setbergshlíð, suður fyrir Hafnarfjörð, að Hvaleyrarvatni, Grísavatni og í hraunin þar í kring, og í Kaldársel, gengum á Helgafell og Búrfell.

Op Kershellis

Í einni af þessum ferðum okkar fundum við Hvatshelli, en sá fundur olli miklum blaðadeilum. Séra Friðrik, sem fór og rannsakaði hellana, skrifaði langa grein um fund þennan í Fjallkonuna og lýsti hellunum, eftir að hann hafði mælt þá nákvæmlega.
Komu þá mótmælagreinar bæði í Reykjavík og Þjóðólfi um, að við þættumst hafa fundið hella, er áður hefðu verið alkunnir Hafnfirðingum og fleirum, og hefðu um margar aldir verið notaðir sem fjárhellar.
Við undruðumst allan þennan gauragang út af þessum skrifum, því að við höfðum ekki ætlazt til, að við yrðum viðurkenndir fyrir landafundi hér í nágrenninu. En eitt er víst, að marga furðaði sig á því, að vil skyldum nota hverja frístund til þess að fara gangandi um landið. Þá var eins og enginn þyrði að hreyfa sig. Og margir voru þeir innfæddir Reykvíkingar, sem höfðu ekki einu sinni komið inn að Elliðaám…
Við heyrðum það oft á fólki, að það skildi ekkert í þessu brölti okkar og að við skyldum ekki nota tímann, eftir að við höfðum afgreitt í búðinni, til að hvíla okkur. Í stað þess að leggja af stað undir nóttina, eins og fólkið kallaði það…
Við félagarnir voru á einni af ferðum okkar upp með Setbergshlíð og sjáum þá op á helli, rétt við veginn [Selvogsgötuna gömlu]. Þetta var nokkuð stór hellir og hátt undir loft, og sáum við strax, að þarna hefði verið geymt fé fyrir mörgum árum. Jata var þarna úr steinum eða hlaðinn stallur, þar sem hárað hefur verið fyrir fé. Sönnun fyrir því, að þessi hellir hafi fyrir löngu verið lagður niður sem sauðfjárgeymsla, var það, að taðið hafði breytzt í jarðveg.
Við sáum ekki mikið merkilegt við þennan helli, en héldum áfram að snuðra út til hliðar hans, sérstaklega í urð, sem lá hægra megin við innganginn. Sú eftirgrennslan bar þann árangur, að við hittum á ofurlitla smugu, sem við rétt aðeins gátum smokrað okkur með lagni inn um.

Í Kershelli

Þegar við komum inn úr þessum þröngu göngum, virtist vera stórt rúm þar fyrir innan.
Við þorðum ekki að hætta okkur ljóslausir lengra inn í myrkrið og héldum áfram för okkar til fjalla, eins og venjulega.
Svo var það næsta sunnudag, að við lögðum snemma úr Reykjavík og fórum þessa sömu leið, fram hjá Vífilsstöðum og beint í hellinn í Setbergshlíð. Höfðum við í þetta sinn með okkur eithvað af kertum, og skyldi nú hellirinn kannaður rækilega. Skriðum við inn um þrönga ganginn, og þegar inn fyrir var komið, voru tendruð ljós. Ég man, að ég var að reyna að kanna þennan háa, stórgrýtta helli, þegar ljósið slokknaði hjá mér. Leitaði ég eftir eldfærum, en uppgötvaði þá mér til mikillar skelfingar, að ég hef engar eldsýtur.
ÞórarinnHelgi og Skapti voru horfnir eitthvað langt í burtu inn í hið ókunna, en Matthías var einhvers staðar í klungrinu ásamt nmér, og var hann ljóslaus. Ég kalla nú til hans og bið hann að fara varlega, og heyri í því, að hann rennur eitthvað til í urðinni, en svarar mér engu. Verð ég nú verulega hræddur og hef aldrei kjarkmikill verið. Verður mér á að hugsa, að hann muni nú vera að hrapa, það kunni að vera þarna vatn, og muni nú vera e.t.v. að drukkna, án þess að ég getu neitt komið honum til hjálpar.
Í þessu heyri ég til þeirra Helga og Skapta og sé ljóstýru. Eru þeir þá að koma úr sinni könnunarför. Segjast þeira hafa fundið helli, forkunnar fagran. En þeir hafi ekki haft ljósmeti nægilegt til þess að kanna hann nánar og þar að auki verið hræddir um okkur, þegar við komum ekki á eftir þeim.
Mér létti fljótt við komu þeirra og fór ég að geta séð smávegis í kringum mig. Við komum nú auga á Matthías, þar sem hann húkti á stóru bjargi, langt fyrir neðan okkur. Hafði hann runnið þangað í myrkrinu og beið þar eftir að hinir kæmu. Hafðu hann ekkert látið frá sér heyra. Matthías var aldrei margmáll.

Fyrirhleðsla í Kershelli

Við skriðum sem fyrst aftur út úr hellinum, könnuðum eitthvað landslagið í suðurátt og fórum frekar snemma heim.”
Þeir félagar tilkynntu séra Friðriki Friðrikssyni um fundinn og fóru þess á leit við hann, að hann rannsakaði fyrir þá hellinn.
“Eins og hans var von og vísa, tók hann þessari málaleitan okkar vel og sagðist skyldi fara strax að morgni, mánudag, suðureftir, ef einhver okkar gæti komið með sér. Féll það í minn hlut að reyna að fá frí, og var þeirri málaleitan tekið vel af verzlunarstjóranum, vini okkar Hjalta.
Var næst snúið sér að því að útvega málband og rafmagnsblys og mikið af kertum. Lögðum við af stað suður á tíunda tímanum á mánudagsmorguninn.
Séra Friðrik, sem var annálaður göngugarpur, kvartaði unadn því við mig, að ég gengi nokkuð hart. “Ég hélt,” sagði hann, “að ég væri enginn skussi að ganga, en nú finn ég, hverju góð æfing getur komið til leiðar, og mikið þykir mér vænt um, að þið hafið tekið ykkur út úr fjöldanum og hafið þessar hollu gönguferðir út í ríki náttúrunnar. Þið getið aldrei haft annað en gott af því.”

Ker

Margt annað ræddum við þennan dag, og sá ég ekki eftir því, að ég hafði valizt til þessar ferðar. Og nú fór brátt að renna af mér allur kvíði. Þegar við svo fórum að kanna hellinn með ágætum ljóstækjum, því að við stilltum fjölda kerta víðs vegar um hellana, sá ég í fyrsta sinn innsta hellinn, sem er svo undrafagur, eins og kapella í lögun, lægstur innst, allur gerður úr smágerðum dropasteinum. Þannig kom hann mér að minnsta kostir fyrir sjónir.
Annars lýsir sér Friðrik þessu öllu nákvæmlega í grein sinni í Fjallkonunni, eins og áður er getið. En styrinn, sem sú grein olli, var á fullkomnum misskilningi byggður. Það voru alls ekki fjárhellarnir, innri og ytri, heldur afhellarnir, sem ég staðhæfim að enginn hafi gengið um áður, en hér var um að ræða.
Seinna fórum við oft með stórum hópum af fólki þarna suður eftir til þess að sýna því hellana, t.d. fóru einn sunnudag milli 4-50 Edinborgarar þangað, og þótti þeim öllum mikið til hellanna koma. Guðmundur vinur okkar Þórðarson hafði keypt og haft með sér gullbrons, sem hann notaði til þess að skrifa með sinni fallegu rithönd nafnið “Hvatshellir” innst í botni Kapelluhellisins.

Op Hvatshellis

Nú eru liðin mörg ár síðan þetta gerðist og hef ég ekki komið í hellinn lengi. Veit ég ekki, hvernig þar er nú útlits.”
Grein séra Friðriks um Hvatshelli í Fjallkonunni 7. sept 1906 var svona:
Að betra og heilnæmara loft sé utanbæjar en innan, að hollara og skemmtilegra sé að ganga út í sumarblómann en að reika eftir rykugum götunum, er viðurkennt af öllum, en furðu lítið farið eftir því. Þeir, sem gjöra það, fara þá langflestir á hestum eða hjólum.
Fjórir ungir vinir mínir hugðu þó að vel mætti komast út úr bænum sér til skemmtunar með öðru móti. Stofnuðu þeir með sér fótgöngufélg, er þeir nefndu “Hvat”.
Þeir hafa á sunnudögum og frídögum farið marga góða og skemmtilega ferðina, séð margt, lært margt og aflað sér ánægju og heilsusamlegrar hressingar. Nú þekkja þeir fallegustu brekkurnar, sléttustu balana og friðsælustu dalverpin í grenndinni. Þeir eru fróðari orðnir um rennsli lækjanna, bugður og kvíslir hraunanna, fell og fögur útsýni. Þeir hafa farið fótgangandi til Þingvalla, séð Almannagjá og Lögberg, kannað Hallshelli og ýms náttúrundur uppi í fjöllunum.

Lagt í Hvatshelli

Og nú fyrir skömmu hafa þeir að erfiðslaunum haft óvænta gleði og skemmtun af því að finna helli, sem þeim ber saman um að sé merkilegri en Hallshellir.
Einn sunnudag, er þeir voru að ganga um og skoða hraunið er liggur sunnan Setbergshlíðar veittu þeir eftirtekt hellismunna allvíðum og fóru niður í hann. Þótti þeim hann allmikill og könnuðu eftir föngum.
Þá fýsti að vitja hans aftur og tóku með sér meiri tæki, ljós og mælivað. Þá könnunarferð fóru þeir í gær (sunnud. 2. sept. 1906). Mældu þeir nú hellinn.
Hann er 152 fet á lengd, 40 fet á breidd, þar sem hún er mest, og á að gizka 6-7 álnir á hæð, þar sem hæst er. Alls staðar má ganga uppréttur. Grjótgarður er hlaðinn 59 fet inn af hellismunnanum. Sá garður liggur þvert yfir hellinn og á parti í boga fyrir mynnið á afhelli nokkrum vinstra megn. Er hann eins og bás, höggvinn út í bergið, og er 27 fet á lengd og garðurinn er 20 fet á lengd og 1 1/2 alin á hæð, þar sem hann er hæstur. Ekki var unnt að sjá, að fé hafi verið geymt þar inni.
Og innHinir ungu menn könnuðu nú vandlega hellisveggina, og urðu þeir þá varir við smugu mjóa, er lá inn í vegginn hægra megin, nálægt hellismunnanum. Er þeir lýstu inn íhana, þótti þeim sem rúm mundi vera þar fyrir innan, og skriðu því inn gegnum glufuna og komu þá inn í lítinn afhelli, vel mannhæðarháan, og var heldur stórgrýtt gólfið. Inn úr honum lá svo önnur glufa, og skríða þurfti í gegn á fjórum fótum. Fyrir innan hana varð fyrir þeim hellir, nær kringlóttur að lögun eða sporöskjulagaður. Hann er 10 fet á hæð, þar sem mest er, og breiddin 20 fet, en lengdin nokkru meiri. Eftir gólfinu er hraunbálkur allmikill og lægðir báðu megin.
Hægra megin varð enn fyrir þeim lítil glufa niður við gólfið, og fóru tveir þar inn og fundu þá, að þeir voru komnir í stóran helli og langan, en eigi gátu þeir vel glöggvað sig á honum, því ljósfæri þeirra brást. Leituðu þeir nú síðan til útgöngu og þótti þeim skemmtiferðin sín góð orðin.

Staldrað við

Eftir tilmælum þessara vina minna fór ég ásamt einum þeirra í dag til þess nákvæmar að skoða hellana. Höfðum við með okkur stórt ljósker og ágætt, stutt og digur 8 aura kerti frá Zimsen, mælivað og 60 faðma snæri. Mældum við  nákvæmlega innsta hellinn. Hann er 61 fet á lengd, og nokkuð jafnbreiður allur, en breiddin 8-10 fet og hæðin 4 fet minnst og liðug 5 fet mest. Innst inni er hann íhvolfur og er hvelfing yfir honum öllum, skreytt smágervu dropsteina-útflúri. Hellirinn er ekki ósvipaður hvelfdum gangi í kjallarakirkju. Gólfið er slétt og fast og lítið sem ekkert er þar lausagrjót inni. Svo er hann fallegur, að erfiðleikarnir við inngönguna í gegnum 3 glufurnar og stórgrýtið í framhellinum gleymdist, þegar inn var komið. Lengd alls hellisins frá botni þess innsta og aftast í þann fremsta er rétt að segja 300 fet. Í innri hellunum eru engin merki þess, að menn hafi þar fyrr inn komið.
Við vorum hálfan annan tíma að skoða hellana og var sá tími helzt of stuttur til þess að geta séð allt til hlítar. Hellirinn kallaði ég Hvatshelli eftir félaginu, er fann hann, og þykir mér félagið eiga þá sæmd skilið fyrir göngudugnað sinn og eftirtekt. Þessi eru nöfn félagsmanna: Sigurbjrön Þorkelsson, Helgi Jónason, Skapti Davíðsson og Matthías Þorsteinsson. Þrír af þeim eru verzlunarmenn og einn (Sk.D.) trésmiður.Austasti hraunhellirinn
Unglingarnir hér í bænum ættu að læra af þeim að nota frístundir sumarsins með líku móti og þeir hafa gert í sumar.
Hvatshellir liggur nálægt Selvogsvegi upp með Setbergshlíðinni skammt frá vörðu þeirri, er mælingamenn herforingjaráðsins hafa hlaðið og merkt tölunni 27. Sú varða er á vinstri hönd, er upp eftir veginum dregur, og spölkorn þar fyrir ofan er til hægri handar fallegur grasigróinn hvammur, í honum er hellismunninn.
Mjög falleg og greiðfær leið þangað er að ganga upp frá Kópavogi, og framhjá Vífilsstöðum, þar upp með hinni fögru hlíð, er meðfram hrauninu liggur, síðan yfir hraunið og Setbergsásinn, þar til komið er á Selvogsveg. Mundi það vera 3 tíma gangur frá Reykjavík. Um Hafnarfjörð má líka fara.
Taki nú ungir menn til fótanna og skoði Hvatshelli. En ljósfæri verða þeir að hafa með sér.”

Aðalhellirinn

Björn Hróarsson skrifaði grein; “Hvatshellir fundinn” í Surt 1992. Þar segir hann m.a.: “Týndir hellar eða hellar sem eitt sinn var vitað um og fjölmennt í samkvæmt rituðum heimildum, en vitneskja um staðsetningu þeirra síðan horfið yfir móðuna miklu, hafa ávallt vakið mikla athygli.” Í bók sinni; “Hraunhellar á Íslandi”, hafði hann getið um Hvatshelli og sagt að hellirinn hafi ekki fundist þrátt fyrir leit, en um sama helli og Kershelli geti verið að ræða enda staðsetningin nær lagi. Studdist hann við lýsingu Ólafs Þorvaldssonar í ÁHIF fyrir árin 1943-1948, en þar segir orðrétt: “Op þessa hellis er mjög lítið, en drjúgur spölur, þröngur og krókóttur, þar til í aðalhellinn kemur, og er ekki farandi ljóslaust. Aðalhellirinn er hvelfing, bogmynduð, nokkru meira en manngeng í miðju, en gólfið er slétt hellugólf”. Í bók sinni getur Björn reyndar um opið á Hvatshelli er hann segir: “Eftir að komið er niður í hellinn [Kershelli] sjást göng upp með niðurfallinu, þar er afhellir álíka langur og aðalhellirinn, en þrengri.”

Beinagrind í Lambahelli

Gísli Sigurðsson segir í lýsingu sinni um Selvogsgötu er birtist í fyrsta Ársriti Útivistar [1975]: “Ef við fylgjum götunum nokkru lengra upp brekkuna [ofan við Setbergssel og Setbergsstekk], komum við þar að öðrumhelli, er nefnist ýmsum nöfnum svo sem Ketshellir, Kjötshellir eða Kershellir. Það er ómaksins vert að koma við í helli þessum. Munni hans er eins og hringmyndað ker, en í suðvestur tekur við víður geimur nær 20 metra langur. Sé snúið til hægri handar strax og inn er komið, má með lagni komast fram hjá steinum, sem þar eru, og er þá komið í afhelli, er nefnist Hvatshellir”.
Í grein BÞ, HÞ og ÞB í Surti 1992 undir yfirskriftinni “Hvatshellir fundinn” segir m.a.: “Allt frá barnæsku hefur þessi hellir leitað á huga minn. Fyrst í frásögn afa míns, Sigurbjörns Þorkelssonar, en hann var einn fjögurra félaga í göngu- og útivistarfélaginu Hvati, sem fundu hellinn árið 1906. Síðar, vegna skáldsögu séra Friðriks Friðrikssonar, æskulýðsleiðtoga, um piltinn Sölva, sem átti sér ævintýralegt athvarf í helli, sem kemur heim og saman við lýsingu Hvatshellis…
Nokkrar blaðadeilur urðu á sínum tíma um hellinn, en hann væri að minnsta kosti Hafnfirðingum gamalþekktur og héti Kershellir. Á síðari tímum hefur verið talað um að hellirinn væri týndur, eða þekktur undir öðru nafni. Þetta virtist því veðugt rannsóknarefni og næsta auðvelt, því samkvæmt lýsingu var hellirinn nærri alfaravegi, og sæmilegar upplýsingar aðgengilegar.” Síðan eru skrif Sigurbjörns um hellinn rakin.
Horfið“Með afrit af þessari lýsingu, umreiknaðri í metramál, og nauðsynlegasta hellabúnað, héldum við félagar og bræður eitt vorkvöld eftir að snjóa leysti suður undir Sléttuhlíð, og gengum skamman veg að Kershelli, sem við þekktum frá fyrri tíð… Við reyndum að bera saman staðhætti í hellinum við frásögnina, og er skemmst frá því að segja, að lýsingin gamla virtist í flestu standast, nema hvað glæsileikinn fannst okkur nokkuð oflofaður! Rannsóknarmenn hinir eldri höfðu ekki áður séð annan helli en Hallshelli (Skógarkotshelli) í Þingvallasveit, og þótt lítið til hans koma.
Eitt var það þó sem ekki fannst, en það var áletrunin gullbronsaða, “Hvatshellir”, sem átti að vera á hellisbotni. Líklegasta skýring þykir mér sú, að áletrunin hafi verið á lausum steini eða hraunskorpu, sem einhver “safnarinn” hefur brotið og haft með sér, eins og við könnumst því miður allt of vel við.
Við félagarnir erum enn nokkuð sannfærðir um að þessi hálfhrunda hraunrás með heillegum botni inn úr Kershelli ofanverðum sé hinn eini sanni Hvatshellir.”
Þórarinn Björnsson, guðfræðingur og hellaáhugamaður, hafði skoðað hellarásir á a.m.k. 10 stöðum á svæðinu. Hann fylgdi FERLIR um svæðið. m.a. um Hvatshelli, sem hann hafði áður gaumgæft vandlega.
Þegar farið var um Kershelli og síðan um Hvatshelli féll lýsing séra Friðriks eins og flís fyrir r!!!!. Hún gat varla verið nákvæmari; fyrirhleðslur og afhellir í Kershelli sem og þröngt op bak við stein á tilteknum stað og salir í Ketshelli. Innst í Kershelli er fallegt hraunker. sem hellirinn gæti hafa dregið nafn sitt af.
Hafa ber í huga að framangreind lýsing var rituð árið 1906 þegar örfáir hraunhellar höfðu verið uppgötvaðir og kannaðir hér á landi. Sérhver slíkur, öðrum tilkomumeiri, hlaut eðlilega að hafa kallað fram veruleg hughrif hjá áhugafólki um slíkt og um leið lýsingarorð við hæfi. Þau lýsingarorð sem séra Friðrik hafði um Hvatshelli virtust vissulega enn vera í fullu gildi. Hvorki þurfti að klöngrast yfir hrun né torfærur á leið um rásina. Sitthvað tók við af öðru.
Erfitt reyndist að taka góðar myndir í Hvatshelli vegna gufumyndunar er fylgdi leiðangursmönnunum svo taka þarf viljann fyrir verkið. Ekki er vitað til þess að ljósmyndir úr Hvatshelli hafi áður birst á veraldarvefnum. (Hugsanlega og vonandi mun þetta kalla fram gagnrýnisskrif líkt og fyrir 102 árum síðan.) Þrátt fyrir leit fannst framangreind “gullbronsuð áletrun” ekki, hvorki á lofti, veggjum né gólfi – enda liðin meira en öld frá gjörningnum. Hvaða málning frá þeim tíma myndi endast svo lengi – og það í rakamynduðum dimmum hraunhelli!!!
Skoðaðir voru og hellar bæði austan, sunnan og vestan við fyrrnefnda hella. Í einum þeirra eru bein, sennilega eftir lamb, í öðrum eru selstöðuleifar og þeim þriðja fallegar bjúgmyndanir undir veggjum.
Frábært veður. Ferðin tók 3 klst og 3 mín.

-Heimildir:
-Sigurbjörn Þorkelsson – Himneskt er að lifa I – 1966, 328-342.
-Björn Hróarsson – Hvatshellir fundinn, Surtur 1992, 29-30.
-Björn Þorvaldsson, Hrafnkell Þorvaldsson og Þorvaldur Björnsson – Hvatshellir fundinn, Surtur 1992, 27-28.
-Friðrik Friðriksson – Sölvi, 1947.
-Friðrik Friðriksson – Fjallkonan, Hvatshellir, 7. sept. 1906.
-Gísli Sigurðsson – Selvogsgata, 1976.
-Ólafur Þorvaldsson, Grindaskarðavegur (Selvogsleið), Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1843-’48, 96-107.
-Björn Hróarsson – Hraunhellar á Íslandi, 1990.
-Gangleri – Reykjavík, 19. sept. 1906.
-Jón Þorkelsson – Þjóðólfur 28. sept. 1906.

Gögn metin