Brennisteinsnám

Í útvarpsþættinum “Tímakorn” ræddi Ragnheiður Gyða Jónsdóttir þáttastjórnandi við Jóhönnu Þ. Guðmundsdóttur (Jógu) frá Vatnsleysuströnd um brennisteinsvinnslu. Jóhanna hefur verið í námi í sagnfræði við Háskóla Íslands og skrifaði m.a. ritgerð um brennisteinsvinnslu hér á landi í tíð Innréttinganna, auk þess sem hún hefur kynnt sér sérstaklega eiginleika, vinnslu og notkun brennisteins hér á landi. Hún hélt erindi um efnið á ráðstefnu “Félags um 18. aldar fræði”. Heyra má viðtalið HÉR.
BúðirHér er aðallega lögð áhersla á þann hluta í erindi (ritgerð) Jóhönnu er lýtur að Reykjanesskaganum, þ.e. Krýsuvík og Brennisteinsfjöllum.
“Ísland hefur sjaldan borið á góma þegar rætt hefur verið um hergagnaframleiðslu. Þó má færa rök fyrir því að Ísland hafi tekið þátt í framleiðslu hergagna en töluvert magn af brennisteini var flutt út frá Íslandi til púðurframleiðslu út í Danmörku, einkum á 16. öld. Einnig var brennisteinn fluttur út á 18-19. öld, þó í eitthvað minna mæli en á þeirri sextándu. Í þessari ritgerð er ætlunin að fjalla um þær tilraunir og nýjungar sem voru gerðar á vinnslu brennisteins í tíð Innréttinganna, þ.e. á tímabilinu frá 1752-1806. Leitast verður við að skýra út vinnubrögð og aðferðina við hreinsun brennisteinsins eftir því sem hægt er. Fjallað verður um hvernig vinnubrögð breyttust og þróuðust á umræddu tímabili. Margt bendir til þess að púðurframleiðendur úti í Danmörku hafi verið óánægðir með þann brennistein sem kom frá Íslandi upp úr miðri 18. öld. Árið 1775 var danskur námufræðingur Ole Henchel að nafni, sendur til Íslands til að taka út og yfirfara brennisteinsverkið. Hann samdi mjög nákvæma skýrslu um brennisteinsnám og hreinsun brennisteins í kjölfar heimsóknarinnar. Þar kemur fram hvernig vinnslu brennisteins var háttað á síðari hluta 18. aldar. Ole Henchel lagði til ýmsar umbætur til að auka gæði framleiðslunnar. Þessum hugmyndum hans verða gerð skil hér og í framhaldi er svo athugað hvort þær hafi skilað tilætluðum árangri.
BrennisteinnBrennisteinsnám og brennisteinsvinnsla á Íslandi er lítið rannsakaður þáttur í sögu landsins. Af þeim sem það hafa gert mætti nefna fyrstan til sögunnar Hannes Finnsson biskup en hann skrifaði grein um brennisteinsnám og verslun á Íslandi í tíð Friðriks II Danakonungs í Rit hins íslenzka Lærdómslistafélags árið 1783. Þar fjallar hann mjög ítarlega og skemmtilega um verslun með brennistein frá 1560 til um 1600. Jón J. Aðils hefur lítilsháttar skrifað um brennistein í tengslum við rannsóknir sínar um Skúla fógeta og einokunarverslun Dana á Íslandi. Af síðari tíma mönnum sem eitthvað hafa fengist við skrif um bennistein verður að geta Ólafs Jónssonar en hann skrifaði nokkuð ítarlega yfirlitsgrein um brennisteinsnám í Þingeyjarsýslu í bókinni Ódáðahraun sem kom út árið 1945. Sæmundur Rögnvaldsson skrifaði lokaritgerð við Háskóla Íslands árið 1974 um brennistein í Þingeyjarsýslu frá því fyrstu sögur fara af brennisteini hér á landi og allt til endaloka vinnslunnar á 20. öld. Þá hefur nokkuð verið skrifað um brennistein í tengslum við rannsóknir á starfsemi Innréttinganna en þar hefur mest kveðið að Lýði Björnssyni. Í lokin verður að geta stutts yfirlitskafla Sveins Þórðarsonar um brennisteinsnám sem birtist í Iðnsögu Íslendinga XII árið 1998. Með þessari ritgerð er reynt að bæta aðeins við þá umfjöllun sem hefur átt sér stað um brennisteinsnám á Íslandi. Áhersla verður lögð á tímabil Innréttinganna og hreinsun brennisteinsins.
Tæki Innréttingarnar voru stofnaðar árið 1752 og voru fyrsta hlutafélag í sögu landsins. Stofnendur voru Skúli Magnússon landfógeti og fleiri íslenskir embættismenn, einkum sýslumenn. Atvinnurekstur fyrirtækisins var fjölbreyttur og nýstárlegur, mest kvað að vefnaði og úrvinnslu ullarafurða. Einnig voru gerðar tilraunir til umbóta í landbúnaði og fiskveiðum. Starfsemin var tilraun til umbreytinga á atvinnuháttum landsmanna og var brennisteinsnám og hreinsun brennisteins einn liður í því.
Þar sem brennisteinshreinsun er gamalt handverk og líklega engir sem kunna það enn í dag þótti ekki annað tilhlýðilegt en að gera nokkrar tilraunir með hreinsun áður en hafist var handa við samningu þessarar ritgerðar. Náð var í smávegis af brennisteini suður í Krýsuvík. Við tilraunirnar var stuðst við lýsingu Ole Henchels á hreinsun brennisteins. Brennisteinn er mjölkennt efni sem bráðnar við um 115°C og verður að vökva. Hreinsun brennisteinsins fór þannig fram í grundvallaratriðum að brennisteininn var bræddur í potti, í þessu tilfelli á gashellu úti í bílskúr.
Þegar brenniLeifar ofns í Brennisteinsfjöllumsteininn var bráðinn var dálitlu af lýsi hellt út í og hrært vandlega saman við. Leirinn og óhreinindin sem eru í brennisteininum eiga þá að sameinast lýsinu og fljóta ofan á. Óhreinindunum var síðan fleytt ofan af með spaða og brennisteininum hellt í mót. Í þessu tilfelli gleymdist reyndar að sía brennisteininn áður en honum var hellt í mótið og var útkoman í það heila líka frekar léleg, óhreinn brennisteinn með mikilli lýsisfýlu. Í annarri tilraun kviknaði svo í brennisteininum en það gat einmitt komið fyrir ef menn pössuðu að ofhita hann ekki. Við svo komið var ákveðið að hætta öllum frekari tilraunum í bili og kanna betur verkhætti 18. aldarinnar.
Einungis tvö landsvæði koma við sögu þar sem brennistein var að fá og mögulegt var að flytja út sökum vegalengdar til nálægra hafna, það eru Mývatnssveit og Krýsuvík. Í Mývatnssveit eru brennisteinsnámur á fjórum stöðum: á Þeistareykjum, við Hlíðarfjall, við Kröflu og loks Fremri námur upp við Ketildyngju en hreinsistöðin var á Húsavík. Þar var sá háttur hafður á flutningi brennisteinsins að bændurnir í nágrenninu sáu um að grafa brennisteininn og flytja til Húsavíkur og fengu þeir greitt visst pr. pund sem þeir komu með. Í Krýsuvík var þetta gert á dálítið annan hátt. Hreinsistöðin var staðsett í Krýsuvík og sáu kaupamenn yfir sumartímann um að flytja brennisteininn úr námum ofan úr fjallinu og niður að hreinsistöðinni sem stóð skammt frá. Dæmi er þó um að Krýsuvíkurbóndinn hafi sótt lengra, þ.e. upp í Brennisteinsfjöll en þau liggja um 13 km NA frá Krýsuvík.9 Brennisteinninn var síðan fluttur á hestum til Reykjavíkur þar sem honum var skipað út. Þetta á við þann tíma sem Innréttingarnar ráku vinnsluna sem var í Krýsuvík á árunum 1752-1763 og á Húsavík 1762-1806.
NámaBrennisteinn var notaður til púðurframleiðslu en púður var fundið upp í Kína á 10. öld, þróað af Aröbum í byssupúður á 13-14. öld og barst svo áfram til Evrópu fljótlega upp úr því. Brennisteinsnám á Íslandi mun vera þekkt allavega allt frá 13. öld en frá því segir í sögu Árna biskups Þorlákssonar að erkibiskup í Niðarósi hafi keypt brennistein héðan. Erkibiskupinn hefur þó varla verið að framleiða púður þar sem þekkingin til þess var ekki til staðar í Evrópu svo snemma. Eiginlega er ómögulegt að vita hvað hann gerði við brennisteininn nema ef til vil hefur hann notað hann til að gera svokallaðan herbrest en herbresti er lýst í sögu Lárentíusar biskups sem ógurlegum hávaða sem gerður var til að hræða óvini. Þá kemur brennisteinn við sögu í dómi einum frá 1340 en þá eru Íslandsfarar dæmdir til þess að greiða tíund af skreið, lýsi og brennisteini. Þessi dómur sýnir fram á að brennisteinn var mjög mikilvæg útflutningsvara á þessum tíma þar sem hans er getið í sömu mund og skreiðar og lýsis, en útflutningur á skreið og lýsi var einmitt að færast í aukanna á þessum tíma. Fáum sögum fer síðan af brennisteinsnámi hér á landi fyrr en á 16. öld en sú öld var blómaskeið íslenskrar brennisteinssölu og högnuðust þá margir vel. Konungur tók sér svo einkarétt á sölu brennisteins um 1560 og keypti hluta af námunum stuttu síðar. Kaupmenn frá Hamborg keyptu mikið af brennisteini á Íslandi á árunum fyrir 1560 og seldu hann svo til Danakonungs afar dýru verði eftir því sem Hannes Finnsson segir. Hvers vegna konungur tók sér þennan einkarétt er ekki vel ljóst en vel má hugsa sér að hann hafi haft hagsmuni ríkisins að leiðarljósi þar sem um hergagnaframleiðslu var að ræða og ekki heppilegt að mikið magn af brennisteini lenti hjá óvinaríki á ófriðartímum þegar danska ríkið hefur mest þurft á honum að halda.
Hvernig brennisteinn var hreinsaður á þessum tíma er ekki vel ljóst og hvíldi jafnan mikil leynd yfir því þar sem Námusvæðið í Brennisteinsfjöllumum hergagnaframleiðslu var að ræða. Sú aðferð að hreinsa brennistein með lýsi mun þó vera þekkt allavega frá 16. öld því árið 1562 tók konungur sér einkarétt til kaupa á öllu lýsi á Norðurlandi og Suðurlandi og ennfremur í Bergenhús- og Varðhúslénum í Noregi og kom sér upp hreinsistöð í Kaupmannahöfn. Mjög dró svo úr útflutningi á brennisteini frá Íslandi í lok 16. aldar og er skýringin á því líklegast sú að þá var búið að tæma námurnar og ekki meiri brennistein að fá.
Nokkrar tilraunir voru gerðar til að flytja út brennistein á 17. öld og í byrjun þeirrar átjándu. Var þar fremstur í flokki Gísli Magnússon sýslumaður í Rangárvallasýslu, oft nefndur Vísi-Gísli. Þær tilraunir munu ekki hafa skilað miklu. Friðrik Holtzmann o.fl. fengu konungsleyfi til brennisteinsnáms 1724. Lítið var þó úr framkvæmdum hjá þeim og á árunum 1733-1742 er einungis getið um útflutning á brennisteini árið 1740, 392 pund. Holtzmann og félagar stofnuðu hreinsistöð í Kaupmannahöfn og ráku um nokkurra ára skeið.
Ljóst er að danska ríkið keypti eitthvað af brennisteini frá Hollandi og öðrum ríkjum á fyrri hluta 18. aldar og ef til vill áður fyrr líka. Sá brennisteinn hefur væntanlega komið frá Ítalíu. Faðir Holtzmanns sem var með brennisteinsleyfið á Íslandi í byrjun 18. aldar og hafði stofnað Brennisteinshreinsun í Kaupmannahöfn virðist þá hafa komist yfir framleiðsluleyndarmál frá Hollandi.17 Skúli fógeti getur þess í greinagerð sinni til Landsnefndarinnar fyrri 1771 að hann hafi fengið þær upplýsingar hjá Holtzmann í samkvæmi einu að allt sem þyrfti til hreinsunar á brennisteini væri til staðar á Íslandi. Skúli minnist ekkert á hvaða samkvæmi þetta var eða hvenær það var haldið en út frá því hefur Skúli ályktaði að það hlyti að vera hagkvæmara að hafa hreinsunina heima á Íslandi, það myndi spara flutninga og vinnulaun sem voru lægri á Íslandi en í Danmörku. Fyrsta hreinsistöðin á Íslandi var svo reist í Krýsuvík af Innréttingunum með Skúla Magnússon landfógeta í fararbroddi árið 1752. Brennisteinsvinnsla á vegum Innréttinganna hófst í Krýsuvík strax árið 1752. Hreinsunin fór illa af stað og ekki er getið um neinn útflutning á brennisteini fyrr en árið 1755 en þá voru flutt út 58 centner eða um 3,2 tonn samkvæmt ódagsettri skýrslu Skúla fógeta.

Námusvæðið

Til eru nokkrar heimildir frá síðari hluta 18. aldar þar sem fram kemur að púðurframleiðendur úti í Danmörku og Noregi hafi ekki verið ánægðir með þann brennistein sem kom frá Íslandi. Í skjalasafni Rentukammers er bréf dagsett þann 10. apríl 1755 þar sem danska her- og flotamálaráðuneytið tilkynnir að íslenski brennisteinninn sé ekki nógu góður. Ekki kemur skýrt fram hvað var að brennisteininum nema að hann var yrjóttur eða mislitur (meleret) og ekki vel fallinn til púðurframleiðslu. Á þessum tíma var framleiðslan í Krýsuvík ekki komin í fullan gang og líklegt er að um prufusendingu hafi verið að ræða. Það var algengt að Innréttingarnar sendu sýnishorn af framleiðslu sinni til Kaupmannahafnar áður en vinnsla fór í gang af fullum krafti.
Samkvæmt skjölum í Rentukammeri hefur Skúli fógeti sent fleiri sýnishorn af hreinsuðum brennisteini til Kaupmannahafnar. Her- og flotastjórninni hefur borist sýnishorn í desember 1755 sem reyna átti til púðurgerðar og í janúar 1756 kom það svar frá henni að eitt sýnishornið hafi verið nothæft. Síðasta bréfið sem fannst frá flotastjórninni varðandi gæði íslenska brennisteinsins er dagsett 28. júní 1759 en í því tilkynnir hún að íslenski brennisteinninn hafi verið prófaður og reynst hæfur til púðurgerðar.
Í Ferðabók Eggert Ólafssonar og Bjarna Pálssonar segir frá tilraunum sem þeir félagar gerðu með hreinsun á brennisteini í Mývatnssveit árið 1752. Þar segir: “Við gerðum hér fyrstu tilraunina, sem heppnaðist vel, og var Vísindafélaginu sent sýnishorn. Brennisteinsmylsnan er brædd í járnpotti og hrært ákaft í honum, einkum um leið og hún bráðnar. Olía er látin saman við hann, og safnast þá óhreinindin ofan á í froðuna, en hreini brennisteinninn sekkur til botnsins. Nú hefir mönnum lærzt að nota lýsi í þessu skyni.”
NámusvæðiðVeturinn eftir að þeir félagar gerðu þessar tilraunir dvaldi Bjarni út í Viðey hjá Skúla fógeta. Vafalaust hafa þeir Skúli og Bjarni rædd þessar tilraunir mikið sín á milli og á næstu árum gerðu þeir nokkrar tilraunir með brennisteinshreinsun út í Krýsuvík. En hvernig var brennisteininn hreinsaður í þar?
Hreinsistöðin í Krýsuvík var sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og lítil sem engin þekking virðist hafa verið til staðar um hvernig vinnslunni skuli háttað. Það starf sem þá fór í gang var því mikið frumkvöðla- og tilraunastarf. Lars Olsen Hurtigfeld, klukkusteypumaður að iðn, var fenginn til landsins að kenna starfsmönnum rétt vinnubrögð en hann hafði áður unnið við hreinsun Holtzmanns í Kaupmannahöfn. Hann starfaði við brennisteinsverkið í Krýsuvík árin 1752-1757 samkvæmt reikningum Innréttinganna.
Til er skjal dagsett 25. apríl 1757 ritað með hendi Skúla, væntanlega eftir tilraunir sem hann gerði ásamt Bjarna Pálssyni með brennisteinshreinsun í Krýsuvík. Í bréfinu leggur hann starfsmönnum vinnslunnar í Krýsuvík reglurnar. Þetta er eina heimildin um hreinsunina í Krýsuvík á þessum fyrstu árum hennar þar sem vinnunni er beinlínis lýst. Í bréfinu sem hefur fyrirsögnina „Til minnes og Effterbreitingar fyrer Simon og Sigurd vid Krisevikur Brennesteinsverk“ leggur Skúli áherslu á að þeir leggi til hliðar allan þann brennistein sem ekki hafi tekist fullkomlega að hreinsa og svo sé í lagi með einn og einn pott, meira sé um vert að blanda ekki saman lélegum og góðum brennisteini. Þeir áttu að geta hreinsað 6-8 potta af brennisteini á hverjum virkum degi og ef þeir næðu að hreinsa meira skyldu þeir njóta þess í launum.

Brennisteinn

Skúli leggur áherslu á að þeir sinni þurrkun brennisteinsins vel, snúi honum á þurrkbekkjunum og færi hann inn í hús strax og hann sé orðinn þurr, „og vera vander ad þvi ad hann sie velþurr orden.“ Einnig að láta bekkina aldrei í þurru veðri auða vera. Fjórir menn unnu við verkið, auk þriggja kaupamanna yfir sumartímann sem sáu um að flytja brennisteininn heim að húsinu og vinna við móinn en mór var aðal eldsneytið sem var notað við vinnsluna.
Samkvæmt skoðunargerð frá 1759 voru fjögur hús tilheyrandi brennisteinsverkinu, öll byggð úr torfi og grjóti á árunum 1755-56. Hreinsunarhús með múruðum skorsteini sem var nefnt verkstæðið, íbúðarhús verkamanna og tvö geymsluhús, annað fyrir brennistein og hitt fyrir eldivið og áhöld. Af áhöldum sem getið er í skoðunargerðinni má helst nefna; 3 járnpönnur til að bræða brennisteininn á, kassa til að geyma brennistein í, form fyrir brennistein og kassa til að bleyta formin í, 6 lýsistunnur og fleira sem ekki þykir ástæða til að telja upp hér.
Kostnaðinum við framleiðsluna má skipta í fjóra meginþætti, launakostnað, flutningskostnað, eldsneytiskostnað og „Den til Raffinaidenet forbrugte Liqveur.“ Svo ritað öll árin í reikningum Innréttinganna. Hér hlýtur að vera um lýsi að ræða þó það sé ekki sagt beinum orðum. Í framhaldi að því má velta fyrir sér hvort lýsið hafi verið framleiðsluleyndarmál Íslendinga og Dana?
LeifarÚt frá ofangreindum heimildum má ætla að sú aðferð að hreinsa brennistein með lýsi hafi verið þróuð í Krýsuvík. Um sömu aðferð sé að ræða og Henchel lýsti svo vel þegar hann skoðaði verkið á Húsavík haustið 1775, þ.e. brennisteinninn bræddur og hreinsaður með lýsi.29 Brennisteinshreinsun með lýsi var þó þekkt frá 16. öld eins og kom fram hér að framan. Að sumu leyti virðist vera að sú aðferð hafi verið gleymd í danska ríkinu þegar kom fram á 18. öld en mjög lítið var verslað með brennistein frá Íslandi á 17. öld eins og fram hefur komið.
Mjög var gengið á námurnar í Krýsuvík upp úr 1760 og var starfsemin þá flutt norður á Húsavík. Vinnsla á vegum Innréttinganna hófst þar 1762 en stuttu síðar voru þær sameinaðar Almenna verslunarfélaginu.
Um áratug eftir að starfsemin hófst á Húsavík var kvartað yfir brennisteini frá Íslandi. Jón Eiríksson í Rentukammeri og síðar konferensráð segir frá bréfaskiptum sem fóru fram milli Tollkammersins og púðurverksmiðja árin 1773-1774 vegna þess hve brennisteininn frá Íslandi var talinn lélegur. Þar kemur fram að: “… sumar þeirra hafa kvartað undan fitunni í íslenzka brennisteininum. Meira að segja hefur Rosen púðurgerðarmeistari, sem gert hefur nákvæmar tilraunir í þessu efni umfram aðra, bent á, að lýsið, sem notað er við hreinsun brennisteinsins, tálmi því, að skyndilega kvikni í púðrinu, og hefur hann því látið þá ósk í ljós, að tekin yrði upp önnur hreinsunaraðferð.”
SeltúnÖnnur kvörtun frá ónefndri púðurverksmiðju hljóðaði svo: … „að þegar stangirnar eru brotnar sundur, koma alls konar steinagnir og tinnuflísar fram í brotsárinu, og þó að fyllstu varúðar sé gætt við mulningu og sáldun brennisteinsins, þá geti eitthvað af aðkomuefnum þessum lent í hinum mældu brennisteinsskömmtum og síðan valdið óbætanlegu tjóni, þegar hann færi gegnum púðurgerðarvélarnar.“ Jón Eiríksson bætir við: … og sýnir það, að sá, sem hreinsað hefur brennisteininn, hefur annaðhvort notað mjög óhreinan brennistein eða ekki gætt nauðsynlegrar nákvæmni, annaðhvort við sjálfa hreinsunina eða flokkun á stöngunum, svo að gölluð vara hefur lent með góðri, og er það að vísu ófyrirgefanlegt hirðuleysi. … Frá sjóliðinu liggur einnig fyrir sú staðhæfing, að eftir að feitin hefði verið hreinsuð úr brennisteininum, hefði hann reynzt jafngóður til púðurgerðar og brennisteinn hreinsaður í Hollandi, en síðan hefði sjóliðið einnig fengið brennistein frá Íslandi, sem engrar endurhreinsunar þurfti við.

Tóft

Eins og fram kemur hjá Jóni og fram hefur komið áður þá var einnig fluttur inn brennisteinn frá Hollandi á þessum tíma og var hann greinilega talinn betri en sá íslenski. Undanfari þessara bréfaskrifta var að stjórn Íslandsverslunarinnar hafði sent “kammerinu kvörtun um það, að brennisteinninn seldist ekki nema til nokkurra af púðurverksmiðjunum í báðum ríkjunum“ segir Jón Eiríksson og hann bætir við „Kammerið taldi sjálfsagt að rannsaka þetta mál, þar sem brennisteinninn var seldur jafnlágu verði og erlendur brennisteinn, og bannað er í tollalögum að flytja hann inn.“ Þessar kvartanir voru tilefnið af könnunarleiðangri Ole Henchels til Íslands til að rannsaka brennisteinsnám og hreinsun á Íslandi. Henchel var danskur námufræðingur sem hafði stundað nám við námuskólann í Kóngsbergi í Noregi.
Henchel ferðaðist um Ísland sumarið 1775. Fyrst skoðaði hann námurnar og ásigkomulag húsanna í Krýsuvík með tilliti til þess að þar yrði aftur tekin upp brennisteinsvinnsla. Þar var þá „… allt gersamlega ónýtt og húsin fallin, svo að allt verður að gera að nýju, eins og þar hefði aldrei farið fram brennisteinsvinnsla…“
Henchel skoðaði brennisteinsverkið á Húsavík um haustið 1775 og tók út aðferðina við hreinsunina og lýsti henni nákvæmlega í skýrslu árið eftir. Er það ein hin besta og nákvæmasta lýsing á hreinsun brennisteins sem til er. Hún er í grundvallaratriðum á þessa leið: Brennisteinninn var bræddur í potti við hægan hita og lýsi hellt í pottinn þegar brennisteinninn var að því kominn að bráðna og lýsinu hrært vandlega saman við. En leirinn og óhreinindin í brennisteininum sameinuðust þá lýsinu og flutu ofan á.

Ummerki

Þetta var gert í nokkrum áföngum þannig að brennisteini og lýsi var bætt stöðugt út í pottinn þar til hann var orðinn fullur. Þegar potturinn var orðinn fullur og brennisteinninn þunnbráðinn var eldinum mokað undan og hætt að hræra í pottinum. Þá var lýsinu ásamt óhreinindunum fleytt ofan af með gataðri járnreku. Síðan var brennisteininum ausið í trémót í gegnum sáld (síu, sigti). Mótin þurftu að vera gegnsósa af vatni svo brennisteinninn festist ekki í þeim. Eldsneyti til að kynda undir pottinum var aðallega mór sem nóg var af í nágrenninu en eitthvað af beyki var einnig flutt inn í sama tilgangi. Gæta þurfti hitans undir pottinum vandlega því ef hann ofhitnaði var hætt við að kviknaði í brennisteininum. Þetta var hin einfaldasta og kostnaðarminnsta aðferð við hreinsun brennisteins sem unnt var að nota hér á landi að sögn Henchels.
Það sem Henchel fann einna helst athugavert við aðferðina voru öll þau ókjör af lýsi sem eytt var við hreinsunina. Hann vildi draga úr notkun lýsisins og spara með því útgjöld sem jafnframt myndi auka gæði brennisteinsins. Mestur hluti brennisteinsins var notaður til púðurgerðar og þar sem hann var löðrandi í lýsi kviknaði ekki jafn auðveldlega í honum, sem þó var bráðnauðsynlegt.
KöldunámurHenchel taldi að besta ráðið til að bæta úr ágöllum vinnslunnar væri að þvo brennisteinninn áður en hann væri bræddur. Það myndi spara lýsisnotkun mjög mikið. Henchel reiknast það svo að til þess að hreinsa 352 vættir af brennisteini hefðu verið notaðir 1.195 pottar af lýsi og úr því fengist 208 vættir af hreinum brennisteini sem var meðalframleiðslan árin á undan. Eða með öðrum orðum: Til þess að hreinsa 14 tonn voru notaðir u.þ.b. 1.160 lítrar af lýsi og úr því fengust rúmlega 8 tonn af hreinum brennisteini. Henchel taldi að með því að þvo brennisteinninn fyrst mætti spara lýsisnotkun um 2/3 og fá fituminni og hreinni brennistein fyrir vikið.
Thorlacius, forstöðumaður brennisteinsverksins á Húsavík, kvaðst reyndar einu sinni hafa reynt að þvo brennistein en enginn hagnaður orðið af því vegna þess hve mikið af honum tapaðist við þvottinn og því horfið frá því fljótlega. Henchel taldi að aðferð sú sem Thorlacius notaði við þvottinn hefði verið mjög ófullkomin og lagði til nýja og betri aðferð við þvott, líka þeirri sem notuð var við námugröft til þess að skola málmsand. Gróflega sagt frá skyldi þvotturinn fara þannig fram að brennisteininum var mokað í trékassa með hægu en jöfnu vatnsrennsli og byggðist aðferðin á því að brennisteinn er eðlisþyngri en leirinn sem í honum var og átti leirinn þá að fljóta burt en brennisteinninn sitja eftir.
Annað sem Henchel fann að, var að brennisteinninn var ekki þurrkaður áður en hann væri bræddur. Það kvaðst forstöðumaðurinn ekki gera nema ef brennisteinninn væri nýkominn úr námunum. Henchel taldi það auðvelda bræðsluna ef brennisteinninn væri vel þurr og þar með minnka hættuna á að allt brynni, auk þess að spara eldsneyti. Hann lagði til að brennisteinninn yrði þurrkaður við eld á flatri pönnu inni í brennisteinshúsinu. Fjórir menn unnu við brennisteinsverkið á Húsavík og taldi Henchel að svo væri nóg áfram þótt hinar nýju aðferðir yrðu teknar upp. Eftirtektarvert er hve Skúli lagði mikla áherslu á þurrkun brennisteinsins á meðan vinnsla var í gangi í Krýsuvík en á Húsavík virðist sá siður hafa lagst af eða aldrei verið tekinn upp.
LeynihverHenchel gerði einnig athugasemdir við umgengni um námurnar. Hann finnur að því að bændurnir traðki námurnar niður þegar þeir eru að moka í þeim en það geti hindrað frekari myndun brennisteins. Einnig gæti bændurnir þess ekki nógu vel að moka efsta leirlaginu og óhreinindunum frá áður en þeir hefjist handa og að þeim óhreinindum sem þeir moki frá setji þeir gjarnan ofan í næstu námu við hliðina. En voru einhverjar breytingar gerðar í kjölfar heimsóknar Henchels hingað til lands? Var farið eftir þeim reglum og tillögum sem hann lagði til?
Árið eftir að Henchel var á Íslandi setti Tollkammerið reglur varðandi uppgröft og meðferð á brennisteinsnámum til að koma í veg fyrir að þær yrðu eyðilagðar. Samkvæmt þeim var bændunum gert skylt að moka óhreinindunum til hliðar og út fyrir námuna áður en þeir hófust handa. Það átti ekki að tæma námuna alla í einu heldur skilja eftir hryggi, slíkt átti að auðvelda frekari myndun brennisteinsins og bændurnir áttu að hafa með sér bretti eða fjöl til að standa á, á meðan þeir mokuðu.
Þórður Thoroddi, íslenskur námsmaður sem dvaldist við búnaðarnám út í Svíþjóð var sendur hingað til lands af dönsku stjórninni til að kanna árangurinn af aðgerðum hennar á ýmsum sviðum, þ.á.m. brennisteinsvinnslu. Hann kom hingað 1779 og skoðaði bæði námurnar á Húsavík og í Krýsuvík. Þórður taldi umbætur Henchels af hinu góða.
Hverinn einiGreinargerð Jónasar er hin nákvæmasta og ætti að geta varpað nokkru ljósi á það hvernig vinnsluaðferðin þróaðist í lok 18. aldar og í byrjun þeirrar nítjándu. Þvottur á brennisteini var þá enn við lýði og bræðslan fór fram eins og Henchel lýsti henni 1776. Jónas getur þess að þvottur á brennisteini hafi líklegast verið tekinn upp í kjölfar heimsóknar og samkvæmt tillögum Henchels. Jónas mat það svo í skýrslu sinni að þvotturinn væri mjög af hinu góða og gæði brennisteinsins væru nú miklu meiri en áður. Eitthvað tapast þó af brennisteininum við þvottinn. Þvottaaðferðin sem Jónas lýsir er þó nokkuð frábrugðin þeirri aðferð sem Henchel lýsti 65 árum fyrr. Henchel talaði um einn trékassa sem brennisteinninn var þveginn í en hjá Jónasi eru kassarnir orðnir þrír. Í fyrsta kassanum voru stærstu leir- og gifsmolarnir tíndir úr og brennisteinninn mulinn, í kassa tvö var brennisteinninn hrærður upp í vatni og í þeim þriðja settist hann til botns. Jónas getur þess að umgengni um námurnar sé slæm og að ekki sé farið eftir reglunum sem settar voru í tíð Henchels. Jónas telur þær reglur reyndar úreltar og óheppilegar. Uppgröftur í námunum fór þannig fram að bændurnir fengu graftrar- og flutningsleyfi hjá forstöðumanni fyrir ákveðið marga hestburði af brennisteini. Síðan fóru þeir einn og einn eða margir saman til brennisteinsnámsins eftir ástæðum. Hver og einn gróf án þess að fylgja nokkrum reglum. Meiru máli skipti að vera fljótur því ekki var nærri alltaf að fá vatn og gras handa hestunum í nágrenni við námurnar. Bændurnir fengu greidda ákveðna upphæð pr. pund sem þeir komu með…
Á árunum 1755-1763 voru flutt út samtals 1.329 centner af brennisteini frá Krýsuvík eða um 73,8 tonn. Reksturinn gekk illa í fyrstu en var kominn á gott skrið 1756. Langmest var flutt út árið 1759 eða 484 centner en úr því dró úr framleiðslunni, væntanlega vegna þess að lítið var orðið að fá af brennisteini en hætta varð starfseminni í Krýsuvík 1763 vegna þess að námurnar voru orðnar tómar.
Umtalsvert meira af brennisteini var flutt út frá Húsavík en Krýsuvík og starfsemin þar varð langlífari. Á fyrstu árunum, 1764-1770 voru flutt út 4.486 centner eða 249,2 tonn. Á árunum 1770-1786 er áætlað að ársframleiðslan hafi verið um 24 tonn.
SkeifaHeildarútgjöld brennisteinssuðunnar í Krýsuvík á árunum 1752-1759 voru um 3.480 rd. en tekjurnar námu um 3.243 rd. Litlu hefur því munað að söluverð brennisteinsins nægði til að greiða allan stofn- og rekstrarkostnað við hreinsunina á tímabilinu 1753-1764 eins og Lýður Björnsson hefur bent á. Hagnaður var af starfseminni á Húsavík langflest árin. Á árunum 1774 -1784 nam ábati um 462 rd. Á þessu ellefu ára tímabili var hagnaður í átta ár en tap í þrjú ár og nam tapið þá umtalsvert hærri upphæð árlega en hagnaðurinn hin árin.53 Brennisteinsvinnsla var einn af fáum þáttum í starfsemi Innréttinganna sem skiluðu einhverjum hagnaði. En skipti brennisteinn máli fyrir fólkið í landinu?
Ekki hafa nundist neinar heimildir um greiðslur til bændanna sem sáu um gröft og flutning brennisteinsins úr námunum til Húsavíkur á tímum Innréttinganna. En samkvæmt konunglegri tilskipun frá 1720 áttu bændurnir að fá 1 sk. fyrir hvert pund af óhreinsuðum brennisteini sem þeir seldu á Húsavík en kaupmaðurinn fékk svo 3 sk. fyrir pundið út í Kaupmannahöfn. Eins og áður hefur verið nefnt og kemur fram hjá Jónasi Hallgrímssyni, þá fengu bændurnir meira greitt fyrir þann brennistein sem lengst var að sækja. Óvíst er hvort svo hafi einnig verið þegar Innréttingarnar sáu um rekstur brennisteinsverksins. Ekki nefnir Jónas neitt um það hvort verðið hafi verið mishátt eftir því hversu hreinn eða óhreinn brennisteinninn var.

Jóhanna

Í skjalasafni Rentukammers er bréf frá stjórn konungsverslunarinnar, dagsett 23. apríl 1783. Í bréfinu kemur fram að stjórnin er enn ekki alls kostar ánægð með brennisteinninn frá Íslandi og telur hún besta ráðið til að bæta rekstur námanna við Húsavík sé að bjóða þeim hærra verð sem koma með hreinni brennistein. Þetta er eina tillagan sem fundist hefur varðandi beina hvatningu til handa íslenskum bændum að koma með hreinni brennistein. En svo er aftur á móti ekkert sem bendir til þess að neitt hafi orðið úr þessum tillögum.
Hér hefur verið reynt að gefa dálitla innsýn í lítið rannsakaðan þátt í sögu landsins sem er brennisteinsnám og hreinsun. Áherslan var lögð á tímabil Innréttinganna og þá breyttu verkmenningu sem var tekin upp með stofnun þeirra. Markverðasta nýjungin í vinnslu brennisteins í tíð Innréttinganna er að sjálfsögðu sú að nú var tekið að hreinsa brennisteinninn hér á landi í stað erlendis áður. Hvatamaðurinn að starfseminni var Skúli Magnússon fógeti. Verkþekkingin barst frá Danmörku en þar hafði brennisteinn verið hreinsaður áður. Hreinsunin hér á landi gekk ekki mjög vel til að byrja með en eftir nokkrar tilraunir og prufusendingar til Danmerkur sem Skúli fógeti stóð fyrir sjálfur virðist allt hafa gengið vel um nokkurt skeið. Allt bendir til þess að sú aðferð að hreinsa brennistein með lýsi hafi verið þróuð upp á nýtt í Krýsuvík á fyrstu starfsárum brennisteinsvinnslunar þar upp úr 1750. Þá hafði hreinsun brennisteins með lýsi legið niðri á Íslandi um langan tíma eða í a.m.k 150 ár.

Brennisteinn

Brennisteinn í Seltúni.

Heimildir sýna að nokkuð var kvartað yfir lélegum brennisteini frá Íslandi á 8. áratug 18. aldar. Verslunarmenn í Danmörku vissu að betri brennistein var að fá út í Hollandi og keyptu hann þar athugasemdalaust þrátt fyrir innflutningsbann. Í kjölfar þess var danskur maður að nafni Ole Henchel sendur til landsins til að athuga hvað væri að. Hann kom með þær tillögur til úrbóta að þvo brennisteininn áður en hann væri bræddur. Hann taldi að með því mætti bæði spara útgjöld og fá betri brennistein. Ekki er að sjá að vel hafi tekist til hér á landi í framhaldi af tillögum Henchels. Ekki er heldur að sjá neina beina hvatningu eða ávinning fyrir þá sem unnu við vinnsluna og námið að bæta úr. Fáir höfðu atvinnu af þessari nýjung, 4-5 föst störf og aukavinna fyrir nokkra bændur í Mývatnssveit. Ekki er að sjá að vilji til úrbóta hafi verið mikill á Íslandi og bændurnir hirtu lítt um að fara eftir reglum um umgengni í námunum. Þvotturinn var markverðasta nýjungin sem Henchel kom með en þó misheppnuð eftir því sem Jón Hjaltalín segir. Brennisteinsverkið var þó rekið með hagnaði flest árin og óhætt er að segja að umtalsvert magn hafi verið flutt út. Framleiðslan hefur væntanlega mest öll verið notuð í stríðsrekstur út í Evrópu.
Enn er margt órannsakað um brennisteinsnám og hreinsun í sögu landsins sem áhugavert væri að skoða síðar s.s. þýðingu þess fyrir bændurna sem grófu eftir brennisteininum en hér er numið staðar í bili.”

Heimild:
www.bok.hi.is/vefnir

Jóhanna