Njarðvíkurkirkja

FERLIR barst eftirfarandi ábending frá áhugasömum athugulum lesanda:
Letursteinn“Takk fyrir frábæran vef, þvílík fjársjóðskista sem hann er af fróðleik um Reykjanesskagann. Ég var að skoða gamla Njarðvíkurbæinn, sem nú er orðinn hluti af Byggðasafni Reykjanesbæjar og stendur við Innri Njarðvíkurkirkju. Utan  við húsið er steinn með ártalinu 1918. Neðan við ártalið er óljós áletrun. Einar G. Ólafsson, sem er einskonar staðarhaldari þarna í sumar, segir mér að ekki sé vitað hvaðan þessi steinn er kominn. Mér datt í hug hvort það gæti verið möguleiki að þarna væri kominn steininn frá Brekku undir Stapanum og auglýst var eftir á ferlir.is. Gaman væri að heyra hvort þið Ferlismenn búið yfir einhverri vitneskju um steininn í Njarðvík.”
FERLIR hafði skoðað steininn árið 2004. Þá var talið að lausnin lægi í undirletrinu “OKTU”?? Á milli ártalsins og bókstafanna er grópað  band. Bókstafirnir undir munu líklega hafa verið upphafsstafir eða tilefni. Steinninn gæti verið kominn úr kirkjugarðinum. Eða verið hornsteinn úr húsvegg. Fróðlegt var þá talið að bera þetta undir kunnuga í Innri-Njarðvík því steinninn er að öllum líkindum þaðan.
Eftir að hafa rætt við aldna Njarðvíkinga varð niðurstaðan þessi: Um er að ræða legstein, væntanlega úr kirkjugarðinum í Innri-Njarðvík eða jafnvel skammt utan hans. Ártalið á þessum litla sjávarbarða steini er 1918.

Innri-Njarvíkurkirkja

Eflaust hefur steinninn átt að vera táknrænn fyrir viðkomandi; tekinn af vettvangi þeim er fólkið þá var lifandi. Undir ártalinu er lárétt skraut (táknrænn lárviðarsveigur). Undir því vinstra megin eru upphafsstafirnir OK. Þá kemur kross. Hægra megin hans eru upphafsstafir, ógreinilegri, en gætu verið JJ. Legsteinninn virðist hafa verið á gröf tveggja einstaklinga er dáið hafa þetta árið. Hann er fátæklegur, en segir ákveðna sögu. Afkomandi einstaklinganna; sonur, dóttir, móðir, faðir, afi eða jafnvel amma, gæti hafa ákveðið að letra á steininn upphafsstafi ástvina sinna og leggja á gröfina í minningu þeirra. Líklega hefur verið um fátækt fólk að ræða er nýtt hefur sér nálægan stein og eigið afl svo minning hinna látnu mætti enn lifa um ókomin ár.
Ef um legstein er að ræða lýsir hann miklum tilfinningum í garð hinna látnu einstaklinga. Erfitt er að grópa með einföldum járnum í lábarið grágrýtið, auk þess sem sérhverju höggi hefur fylgt sár tilfinning þess er misst hefur ástvin sinn.
Lausnarinnar að áletruninni gæti verið að finna í kirkjubókum Innri-Njarðvíkurkirkju frá árinu 1918, frostavetrinum mikla. Í stað þess að hafa legssteininn við fótskör minjasafnsgesta utan garðs væri rétt að koma honum fyrir inni í kirkjugarðinum við Innri-Njarðvíkurkirkju, t.d. innan við sálnahliðið.

Njarðvík

Njarðvík 1945.