Helgafell

Helgafell ofanvið Hafnarfjörð er 340 m hátt. Ein sjö samnefnd fell eru til í landinu; þetta suðaustur af Hafnarfirði, ofan Kaldárbotna, klettótt og bratt á flesta vegu, í Mosfellssveit, fjall og bær sem sama nafni, á Þórsnesi á Snæfellsnesi, ávalt að sunnan og vestan en mjög þverhnípt að norðan og austan (einnig samnefndur kirkjustaður), hátt fjall yst sunnan Dýrafjarðar, fell í Strandasýslu vestan Hrútafjarðar, í Þistilfjarðarfjallgarði norðaustan Öxarfjarðarheiðar og í Vestmannaeyjum.

Riddarinn á Helgafelli

Hugsanlega er nafnið tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi. Nú er og helgiblær á Helgafellinu ofan við Hafnarfjörð eftir að fólk frá KFUMogK í Kaldárseli reisti trékross á Kaldárhnúkum vestari.
“Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi. Nafnið Helgafell gæti vísað til helgi á fjallinu til forna. Þar uppi er varða. Vísir menn á borð við Þórarinn Þórarinsson arkitekt hafa tengt saman vörður á fjöllum í nágrenni Reykjavíkur á kort, t.d. á Helgafelli, Ásfelli og Sandfelli, og fundið líkindi til þessa að þær hafi markað tímatal eftir gangi sólar. Gæti því verið að fjall eins og Helgafell hafi notið sérstaks álits í heiðnum sið? Enn aðrir segja að á Helgafelli kunni að vera grafinn Hinn heilagi bikar.
MálverkiðÁ mynd af málverkinu Síðustu kvöldmáltíðinni eftir Leonardo da Vinci sést hvar Kristur 
bendir á borðið og virðist segja: “Hvar er bikarinn?”, og lærisveinar reyna að útskýra fyrir honum hvar honum hafi verið komið fyrir. Einn bendir t.d. upp og þar virðast vera vísbendingar um staðsetninguna.
Helgafell er ein af mörgum, smáum móbergsmyndunum Reykjanesskagans og myndað við gos undir jökli mjög seint á ísöld. Það stendur upp af hraunum Trölladyngjukerfisins, sem sum hver eru frá sögulegum tíma en melar liggja að því í norðri og ásar tengja það við Valahnúka sem eru mun lægri móbergshryggir. Fjallið er sérkennilega kúpt og minnir helst á risastóra, brúna þúfu.”

Veðrað móberg á Helgafelli

Reyndar er “varðan” efst á Helgafelli berggangur, sem grjóti hefur verið hróflað utan í á seinni árum. Auk þess hafa nýlega verið hlaðnar litlar vörður uppi á fjallinu, skammt frá, svona til minningar um fólkið, sem þær hlóð.
Eftirfarandi lýsing á gönguferð í kringum Helgafell er úr grein í Mbl frá árinu 1980: “
Helgafell er algengt örnefni á Íslandi. Margt bendir til að þessi nafngift hafi upphaflega verið í tengslum við heiðinn átrúnað, smbr. sögnina um Helgafell á Snæfellsnesi, sem sagt er frá í Landnámabók og margir kannast við. Í nágrenni Reykjavíkur veit ég um tvö Helgafell. Annað fyrir norðan Reykjalund í Mosfellsbæ, en hitt er fyrir austan Hafnarfjörð. Þangað er förinni heitið að þessu sinni.
Kaldársel er forn selstaða sem og fornt býli og var í ábúð fram til 1886. Nú er þar starfrækt barnaheimili á sumrin. Kaldársel skipar sess í bókmenntasögu okkar því þar Útsýni til Grindarskarðavar Sölvi látinn alast upp, en hann er aðalpersónan í samnefndri sögu eftir sr. Friðrik Friðriksson og margir hafa lesið. Framhjá íbúðarhúsinu rennur Kaldá, ein stysta á landsins, því hún hverfur í hraunið skammt fyrir vestan barnaheimilið. Segja sumir, að hún komi aftur upp í Straumsvík.
Helgafell er úr móbergi, hlaðið upp við gos undir ísaldarjöklinum og því með eldri jarðmyndunum hér um slóðir. Þegar við erum komin upp á hæðirnar fyrir austan Kaldársel, tekur við rennislétt helluhraun, sem liggur upp að fellinu að vestan. Hér er gott að ganga, því fast er undir fæti og ekki spillir það fyrir ánægjunni að víða verpa smáhellar og hraungjótur á vegi okkar, sem sjálfsagt er að kanna nánar og ekki síst, ef einhver af yngstu kynslóðinni er með í för.
Við höldum suður með fellinu og beygjum fyrir suðvesturhorn þess. Þar opnast nýtt útsýni, því nú blasir fjallgarðurinn við, sem er framhald Bláfjallanna til vesturs. Við greinum m.a. Grindaskörðin, en um þau lá aðalleiðin frá Hafnarfirði austur í Selvog og Ölfus fyrr á tímum þegar hesturinn var aðalfararskjóti þjóðarinnar.

Vatns- og vindrof á Helgafelli

Nú fara fáir um þessar gömlu götur, en þær eru fyllilega þess virði að kynnast þeim nánar. En gangan milli þessara staða fram og til baka er stíf dagleið.
Leiðin meðfram Helgafellinu að austanverðu er mjög greiðfær, gatan liggur þar milli hrauns og hlíðar og er fær bilum með drifi á öllum hjólum. Þegar komið er norður fyrir svonefndan Riddara (sjá kort), getur að líta gatklett einn mikinn hátt uppi í hlíðinni og er ekki úr vegi að skreppa þangað, ef tíminn er nægur.
Fyrir norðan Helgafell eru Valahnúkar, og er greiðfært skarð á milli þeirra og Helgafells. Við skulum lengja gönguna og skreppa norður fyrir hnúkana. Leiðin er eins greiðfær og fyrr. Við förum rólega og njótum augnabliksins. Innan skamms komum við að voldugri girðingu, sem gerð hefur verið um skjólgóðan hvamm norðan í hnúkunum. Þetta er Valaból, sem Farfuglar hafa helgað sér. Þar hafa þeir hlúð að gróðri, sáð grasfræi og og gróðursett tré. Enda eru þeir nú að taka við launum þessa erfiðis síns. En það er annað og meira að skoða hér. Innan girðingarinnar er Músarhellir, gamall næturstaður gangnamanna, rjúpnaskyttna og ferðamanna fyrr á tímum. Farfuglarnir hafa sett hurð fyrir hellinn og lagfært margt þar inni, enda hafa þeir oft gist þar í hópferðum sínum. Við komumst yfir girðinguna á göngustiga og sjálfsagt er að staldra þarna við og skoða staðinn nánar.
Frá Valabóli höldum við svo í áttina að Kaldárseli. Leiðin liggur meðfram girðingunni sem umlykur Helgadalinn, en þar eru miklar lindir, Kaldárbotnar, sem Hafnfirðingar taka úr sitt neysluvatn og þurfa að vernda. Og þar eru upptök Kaldár. Nokkru áður en við komum að bílnum verður garðhleðsla á vegi okkar. Liggur hún frá þessum vatnsbólum og í áttina að Hafnarfirði. Þetta eru undirstöðurnar af gömlu vatnsleiðslu Hafnfirðinga.
Í stað þess að leggja vatnið í lokuðum leiðslum til Veðrun á Helgafellibæjarins, eins og nú er gert var vatnið leitt í lokuðum stokk yfir hraunið og vestur undir Sléttuhlíð. Þar rann það ofan í hraunið en skilaði sér aftur í Lækinn, sem rennur um Hafnarfjörð, en þá höfðu bæjarbúar nýtt lækinn að fullu. Tilraunin heppnaðist fullkomlega og dugði þetta viðbótarvatn Hafnfirðingum í rúmlega 30 ár eða fram að1950. Þá var lögð fullkomin vatnslögn ofan frá Kaldárseli sem dugar enn.”
Gengið var upp á Helgafell að vestanverðu. Aðkoman liggur yfir slétt helluhraun. Gangan upp er greiðfær og tiltölulega auðveld. Á leiðinni er komið upp í bergsal og upp úr honum liggur leiðin upp hann innanverðan til suðausturs. Þegar upp var komið, eftir 15 mín göngu, voru skoðaðar veðraðar móbergsmyndanir með alls kyns stílbrögðum. Utan í fellinu að suðaustanverðu eru listaverkasalir vatns og vinda. Heilsað var upp á Riddarann syðst á ofanverðu fellinu, en hann átti sér tvo bræður (vörður, sem mið af sjó) á suðvestanverði Brunabrúninni skammt ofan við Straumsvík. Þær hafa nú verið eyðilagðar.
Víðsýnt er af Helgafelli, bæði yfir höfuðborgarsvæðið sem og til fjalla og fjallgarða allt umleikis.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-visindavefurinn.is
-Mbl. 10.júlí 1980.

Útsýni af Helgafelli yfir höfuðborgarsvæðið