Fornagata

Upphafið
Götur mynduðust hér á landi allt frá fyrstu fótatíð manna og búfénaðar. Enn í dag er stundum erfitt að greina á milli hvaða götur voru notaðar af Ganga við Straumhverjum, hvenær og í hvaða tilgangi.  Sumar götur, sem áður voru gengnar, eru nú horfnar, margar má enn greina og enn aðrar hafa verið endurheimtar. Á löngu tímabili hefur gróður náð að hylja slóðirnar, gróðureyðing náð að afmá þær, jarðvegur færst til, skriður og snjóflóð hlaupið yfir þær, ár og lækir breytt um farvegi, vatn runnið í þeim og breytt, eldgosaaska hulið og hraun runnið yfir þær á köflum. Þá hafa sumar leiðir lagst af vegna þess að tilgangur þeirra breyttist og aðrar orðið til af sama tilefni. Þá hafa gamlar leiðir færst til og verið farnar af mismikilli nákvæmni áður en þær voru varðaðar. Ókunnugir hafa eflaust fylgt þeim nokkuð vel og gætt að kennileitum á meðan kunnugir hafa getað stytt sér leiðir eða einfaldlega farið beint af augum ef veður leyfði og aðstæður voru hagstæðar.
Í lok 19. aldar var unnið óskipulega að lagningu vagnvega víðs vegar um landið, einkum nálægt þéttbýli, og í byrjun 20. aldar var megináherslan lögð á gerð bílvega af gefnu tilefni.

Leiðir
Lengri aðalleiðirnar lágu milli bæja og byggðakjarna, verstöðva, verslunarmiðstöðva, þingstaða eða kirkna, hvort sem var með ströndum landsins, yfir fjallgarða, heiðar, ása og úfin eða slétt hraun. Leiðirnar voru mislangar, allt frá og til fjarlægustu landshluta eða bara út frá bæ í fjárskjólið og stekkinn. Segja má t.d. að allar leiðir hafi um tíma legið til og frá Þingvöllum.
Við þessar leiðir má víða finna misgamlar minjar, s.s. hlaðin skjól, sæluhús, bæli í hellum, vörður, bæði sem leiðarmerki og til minningar um fólk, sem varð úti á ferðum sínum. Ástæður þess gátu verið margvíslegar, bæði af eðlilegum ástæðum og óeðlilegum. Fatnaður var ekki eins góður og hann er í dag, hvort sem var til fóta og höfuðs. Veðurspár voru byggðar á öðrum kennimerkjum en nú tíðkast og ekki alltaf áreiðanlegar. Og þá var líka til fólk, líkt og í dag, sem t
aldi sig geta storkað veðuröflunum – stundum með uggvænlegum afleiðingum. Dæmi eru og um að fólki hafi verið úthýst frá bæjum í slæmum veðrum. Dauðsmannsvörðurnar eru margar við og hjá þessum götum, einkum á heiðum, en stundum slapp fólk lifandi þrátt fyrir miklar raunir, sbr. Prestsvörðuna ofan við Leiru.

Landið
Vörðuð leiðUm allt land má finna mikilvægar þjóðleiðir frá liðnum öldum. Sumum hefur verið haldið við af áhugasömu fólki eða ferðaþjónustuaðilum. Þá 
hafa verið búnar til nýjar gögnuleiðir um fallega náttúrustaði. Nokkrar slíkar má finna á Reykjanesskaganum. Hafa ber í huga að mikilvægustu leiðirnar hér áður fyrr eru ekki endilega vinsælustu gönguleiðirnar í dag. Sumar gönguleiðirnar eru nýlegar, s.s. Reykjavegurinn svonefndi milli Reykjaness og Nesjavalla. Á köflum liggur hann samhliða eða nálægt fornum götum.
Greina má götur eftir fólk frá götum eftir búfénað, s.s. kindur. Þær leita gjarnan að tvennu; bithaga og skjóli. Kindagötur (fjárgötur) liggja því oft utan í hlíðum, hæðum og hólum eða í lægðum. Þar sem féð hefur unað hag sínum vel er jafnan vel gróið. Fólk hafði það að leiðarljósi að fara sem greiðfærustu leiðina og þá jafnan með það í huga að “halda hæð”. Ekki var farið upp og niður hæðir og dali að óþörfu. Spara þurfti orku og kraftar þurftu að endast um langan veg.
Ef vel er að gáð má víða sjá ryðgaðar skeifur og skeifubrot, leðurpjötlur eða bein. Ekkert af því má fjarlægja heldur láta kyrrt liggja.

Landnám Ingólfs

Hvalsnesvegur

Greinileg ummerki eru á fjölmörgum götum eftir umferð fólks hér á landi frá upphafi landnáms, ekki síst í landnámi Ingólfs. Víða eru gömlu þjóðleiðirnar klappaðar í misharða hraunhelluna, s.s. sjá má á Sandakra- og Skógfellaveginum eða á Hellunni (Fornugötu) vestan Hlíðarvatns. Þar hefur yngra hraun runnið yfir eldra hraun, sem gatan er í. Gatan er ágætt dæmi um hversu mikil umferð hefur verið hér allt frá fyrstu tíð, sem reyndar gæti þess vegna hafa verið eldri en norrænt landnám segir til um.
Á Reykjanesskaganum eru þessar gömlu leiðir miklu mun fleiri en fólk gerir sér grein fyrir. Sumar eru reyndar áfangaleiðir og tengjast öðrum eða greinast út frá þeim til ýmissa staða. Sjá t.d. skrif um Grindavíkurvegi HÉR og um Reykjavíkurvegi HÉR.

Tegundir

Skógfellavegur

Reyna má að flokka leiðirnar miðað við notagildi. Þannig lágu þjóðleiðir milli byggðalaga. Má þar nefna Alfaraleiðina (Almenningsleiðina) milli Innnesja (Hafnarfjarðar) og Útnesja (Keflavíkur). Hún sést að mestu enn þann dag í dag frá jaðri Brunans (Kapelluhrauns) til Innri-Njarðvíkur. Selvogsvegur (Suðurfararvegur) lá milli Hafnarfjarðar og Selvogs. Hann sést vel frá Lækjarbotnum í Hafnarfirði að Strönd í Selvogi. Þessar leiðir voru mikið farnar allt til þess tíma að vegir voru gerðir fyrir sjálfrennireiðina er kom hingað til lands í byrjun 20. aldar.
Verleiðir má sjá við verin, bæði á norðan- og sunnanverðum Reykjanesskaganum. Leiðirnar Ofan við Selatanga, verstöð, sem notuð var allt til byrjun 20. aldar (síðustu áratugi frá Ísólfsskála) eru t.a.m. þrjár, hvort sem var heim til bæja (Skála og Krýsuvíkur) eða inn á þjóðleiðirnar, sem sumar hverjar voru mikilvægar skreiðarleiðir. Byggðakjarnar á landssvæðinu, s.s. Grindavík, Garður, Hafnir og Vatnsleysuströndin voru t.d. mikilvægar verstöðvar fyrir bæði vermenn alls staðar frá á landinu og fiskflutninga, ekki síst til Skálholtsstóls, um aldir.
Leiðir á milli bæja eru jafn margar og bæirnir voru margir – og þeir voru miklu mun fleiri en fólk gerir sér í hugarlund. T.d. voru 28 bæir í Staðarhverfi, vestast Grindarvíkurhverfanna, fyrrum, en nú standa þeir þar sem tóftir, minnisvarðar um fólkið sem þar bjó, líf þess og atvinnuhætti. Frá Staðarhverfi lágu samskiptagötur til Hafna, Njarðvíkna og hinna byggðarkjarnanna í Grindavík. Þær sjást enn vel.
Selstígar lágu upp í selstöðurnar, sem voru fjölmargar í landnámi Ingólfs. Inn má t.a.m. sjá leifar af u.þ.b. 250 slíkum á landssvæðinu, ef vel er að gáð.

Horfin gata

Einungis örfáar hafa verið eyðilagðar af mönnum eða forgengst af skriðum.
Kirkjugötur voru mikilvægar menningarleiðir og varla er til sú sveit eða hérað að ekki var þar kirkjustígur eða -gata. Hvalsnesleiðin milli Ytri-Njarðvíkur og Hvalsness er ágætt dæmi um slíka götu, en hún var jafnframt notuð sem þjóðleið milli byggðakjarna og sem verslunarleið. Líklega er hluti leiðarinnar sá best varðveitti hér á landi því varnargirðing Varnarliðsins hefur umlukið hann síðustu áratugina. Reyndar er kominn tími til að opna hana á ný fyrir áhugasömu göngufólk því leiðin liggur um landssvæði, sem er utan varnargirðingar flugvallarsvæðisins.

Þróun
Bæði hefur leiðarkerfið þróast frá fyrstu tíð og götur verið færðar til eða lagfærðar. Þegar ferðast var á fótum, hvort sem var eigin eða annarra (hestbaki) mótuðust göturnar af sjálfu sér. Á fjölfarnari leiðum var kastað úr hluta gatnanna og leiðarmerki reist. Um tíma varð það hluti af þegnskylduvinnu eða atvinnubótavinnu. Með tilkomu vagnsins fóru fram vegbætur á mikilvægustu leiðunum. Sjá má slíkar umbætur í Reiðskarði á Stapanum og á Skipsstíg ofan Grindavíkur, undir Lágafelli. Með tilkomu bílsins bæði mótuðust nýjar leiðir (yfir holt og mela) og eldri voru lagfærðar. Þegar t.d. leiðin milli Grindavíkur og Krýsuvíkur var gerð akfær (1932) varð hin forna þjóðleið yfir Ögmundarhraun (Ögmundarstígur) bæði breikkuð og lögð ofaníburði. Áður mátti sjá í henni djúpt far í klöppinni (sem reyndar er þar enn undir jarðveginum).
Varanlegri vegagerð kallaði á Varðakanthleðslur, ræsi og brúargerð (t.d. Hellisbrúin undir Ingólfsfjalli), en aðstæður og landslag látið ráða för. Í dag er gjarnan farið beint að augum, ekki yfir fjöll og hálsa, heldur í gegnum hvorutveggja. Af því má sjá hversu breytingin hefur orðið mikil á tiltölulega stuttum tíma. Og án efa á margt eftir að breytast mikið á næstu áratugum. Þá má ekki gleyma fótaleiðunum gömlu.

Varðveisla
Mikilvægt er að varðveita þessar gömlu leiðir. Varðveislan felst ekki síst í notkuninni. Með því að ganga þessar götur haldast þær sýnilegar og líkur minnka á að þær falli í gleymsku. Helstu óvinir þessara tegundir minja eru sveitarstjórnarfólk, skipulagsaðilar og verktakar. Við nýtt hverfi í Sandgerði var t.d. ekkert tillit tekið til þess að Sandgerðisvegurinn gamli liggur um svæðið og enn mjög greinileg. Grindvíkingar ákváðu hins vegar að hafa göngustíg í gegnum Hópshverfið nýja þegar þeir skipulögðu svæðið og leyfðu Skógfellaleiðinni þannig að halda sér í bæinn. Dæmi eru um, t.d. í Reykjavík, að hús hafi verið byggð á gamlar þjóðleiðir, en fólki ekki orðið svefnsamt í þeim vegna mikillar umferðar fólks að næturlagi.

Gamlar götur njóta verndar skv. 3. gr. minjalaga (Lög um menningarminjar) 80/2012:

Fornminjar.
SkógfellavegurFornminjar samkvæmt lögum þessum eru annars vegar forngripir og hins vegar fornleifar.
Forngripir eru lausamunir 100 ára og eldri sem menn hafa notað eða mannaverk eru á og fundist hafa í eða á jörðu eða jökli, í vatni eða sjó. Skip og bátar frá því fyrir 1950 teljast til forngripa. Til forngripa teljast einnig leifar af líkömum manna og hræjum dýra sem finnast í fornleifum, svo sem fornum haugum, dysjum og leiðum.
Fornleifar teljast hvers kyns mannvistarleifar, á landi, í jörðu, í jökli, sjó eða vatni, sem menn hafa gert eða mannaverk eru á og eru 100 ára og eldri, svo sem:
-búsetulandslag, skrúðgarðar og kirkjugarðar, byggðaleifar, bæjarstæði og bæjarleifar ásamt tilheyrandi leifum mannvirkja og öskuhauga, húsaleifar hvers kyns, svo sem leifar kirkna, bænhúsa, klaustra, þingstaða og búða, leifar af verbúðum, naustum og verslunarstöðum og byggðaleifar í hellum og skútum,
-vinnustaðir þar sem aflað var fanga, svo sem leifar af seljum, verstöðvum, bólum, mógröfum, kolagröfum og rauðablæstri,
-tún- og akurgerði, leifar rétta, áveitumannvirki og aðrar ræktunarminjar, svo og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita,
-vegir og götur, leifar af stíflum, leifar af brúm og öðrum samgöngumannvirkjum, vöð, varir, leifar hafnarmannvirkja og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum þeirra,
-virki og skansar og leifar af öðrum varnarmannvirkjum,
-þingstaðir, meintir hörgar, hof og vé, brunnar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð,
-áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum, á klettum, klöppum eða jarðföstum steinum og minningarmörk í kirkjugörðum,
-haugar, dysjar og aðrir greftrunarstaðir úr heiðnum eða kristnum sið,
-skipsflök eða hlutar þeirra.

Hættur
Versti óvinur hinna gömlu leiða, auk þess fyrst er minnst á, er virðingarleysi núlifandi. Utanvegaakstur hefur víða spillt hluta leiðanna, nýrri vegir hafa af misgáningi verið lagðir yfir þær (t.d. hinn nýi GangaSuðurstrandavegur um Siglubergsháls (sjá mynd), stórvirkum vinnutækjum hefur verið ekið eftir og yfir leiðirnar, rusli hefur verið hent á þær, námur settar þvert á leiðirnar og trjám plantað í þær. Með svolítilli hugsun mætti koma í veg fyrir þessa eyðileggingu, auk þess sem þeir aðilar, sem vernda eiga þessar fornu minjar, hluta af menningararfleifð okkar, mættu að taka hlutverk sig alvarlegar.

Á Reykjanesskaganum býr yfir helmingur þjóðarinnar, auk þess sem langflestir útlendir ferðamenn, sem koma hingað til lands, fara um svæðið.  Landssvæðið býður upp á ótrúlega útivistarmöguleika, hvort sem er að ganga hinar gömlu leiðir, langar eða stuttar, skoða landmótun á flekaskilum, jarðmótunina frá upphafi með a.m.k. 15 hraun frá sögulegum tíma, ganga um hina fjölmörgu hraunhella, berja litskrúð hverasvæðanna augum, leita og skoða minjar er lýsa búsetu- og atvinnusögu landsins frá upphafi mannsins hér á landi eða bara virða fyrir sér alla þá ómótstæðilegu náttúru- og blómafegurð, sem boðið er upp á. Gjaldið er ekkert, en sú skylda hvílir á hverjum og einum að sýna landinu virðingu. (Reyndar hefur reynsla síðustu ára sýnt að það sem er ókeypis virðist lítt áhugavert. Hlutirnir virðast því hafa þurft að kosta sitt til þess glæða áhugann. Svona er nú mannskepnan margslungin – og mótsagnakennd. Hún virðist taka hoppukastala sérsdagsins, ef hann er í boði, fram yfir hin raunverulegu menningarverðmæti hverdagsins og framtíðarinnar).
Þið hin hugsandi: Hvers vegna ekki að aka í 15 mín. og nýta 1-5 tíma til göngu í stað þess að aka í 1-5 klst og hafa síðan einungis tíma til að ganga í 15 mín. Og það á svo mikilvægum tímum aðhalds og ráðdeildar hér á landi.
Að sjálfsögðu er hér ekki um að ræða tæmandi fróðleik eða lýsingu á þessu viðfangsefni, einungs það sem fyrst kemur upp í hugann í stuttu spjalli. Áhugasömu fólki er boðið vel að njóta. 

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.