Arnesarhellir

Í Huld, safni alþýðlegra fræða íslenskra, er m.a. fjallað um Arnes Pálsson útilegumann. Er frásögnin “eptir handriti séra Jóns Yngvaldssonar á Húsavík (dáinn 1876) rituðu eftir sögn séra Arnórs Jónssonar í Vatnsfirði (dáinn 1853), en Arnes sagði honum sjálfur kringum 1790.
Arnesarhellir í AkrafjalliÍ handritinu er líst ástæðu fyrir útilegu Arnesar eftir að hann varð uppvís að þjófnaði, “ei fæ jeg sagt hvílíkum”, leitinni að honum á Akrafjalli og vist hans með Fjalla-Eyvindi. Í upphafi segir frá kænvísum viðbrögðum og góðum, en iðrunarfullum úrræðum Arnesar: “Vorið 1755 þegar Magnús amtmaður Gíslason sat á Leirá, en Arnór sýslumaður bjó í Bergsholti í Melasveit varð Arnes nokkur Pálsson á Akranesi eða í Garðasókn uppvís að þjófnaði, ei fæ jeg sagt hvílíkum. En áður hann yrði handsamaður og færður sýslumanni, sem þá var títt, hvarf Arnes úr byggðinni og fannst ekki, þó hans væri víða leitað og voru ýmsar getur um, hvað af honum hefði orðið. En er áleið sumar og nótt tók að dimma, fóru menn á Akranesi og í fleiri bæjum nálægt Akrafelli [í fyrri hluta lýsingarinnar er skrifað -fell] að verða varir hvarfa ýmsra muna úr útibúrum. Ei var heldur trútt um, að smalasveinar, er árla voru uppi, sæi mann bera fyrir sig uppi’ á Akrafelli, því hvarvetna umhverfis fjallið er byggð og bæir. Af þessu öllu saman kom upp kvittur sá og grunur, að Arnes mundi hafa byggistöð sína í Akrafelli og hugðu menn ekki gott til, er hausta og vetra tæki að eiga þar vogest slíkan yfir höfði sér. Hreppstjórar sveitanna báru nú þetta vandræði undir héraðshöfðingja sína, amtmann og sýslumann, er báðir voru hyggnir og hugkvæmir; stefndu þeir þá að sér hreppstjórum öllum og virtustu mönnum af Akranesi og úr Mela- og Leirársveitum og réðu ráðum sínum um, hve hægast mundi að handtaka Arnes; var það þá afráðið að hefja skyldi fangaleit um allt Akrafell einn ákveðinn dag um haustið,
ÁrtúnÍ hreinu og björtu veðri eða fyrsta bjartan dag þar næstan og skyldu hreppstjórar allir kveða upp menn í kringum sig af hverjum bæ og var ákveðinn viss tími, þá allir skyldu jafnsnemma hefja leitina allt í kring upp á fellið. En svo Arnes skyldi á engan veg á undan skotizt, þá var svo ráðkænlega um hnútana búið, að allir leitarmenn skyldu vera á hvítum hásokkum, er næðu upp á mið læri og allir bera alhvítar húfur, svo hvar sem nokkur sæi nokkurn mann á annan veg búinn, þá væri að honum auðgengið, af öllum, er sæju hann. En til enn meiri vissu að vara, að Arnes því síður ætti nokkurn kost að komast undan, voru margir menn hér og þar, á beztu hestum, settir til aðgæzlu skammt frá fjallsrótunum, til að henda Arnes á hlaupi, ef hann einhversstaðar leitaði ofan til undanflúnings og höfðu allir þessir reiðmenn langskeptar ólarsvipur í hendi, til að hringvefja um hlauparann, ef færi gæfist, en þar sem mýrlent var, svo ei varð vel hestum viðkomið, þar voru á víð og dreif valdir hinir knáustu og fráustu menn, skammt frá fjallsrótunum, til að elta og áhenda Arnes, ef ofan kynni að vilja hlaupa einhversstaðar, svo kalla mátti að honum væri hér á allan veg allar bjargir bannaðar til undankomu.
Leifar eftir setuliðið eru víðaNú er ei meir frá tíðindum að segja, fyr en kemur sá hinn ákveðni leitardagur og voru þá um 80 menn búnir til leitarinnar og höfðu alir þann viðbúning, sem hér var gert ráð fyrir gert. Þá var veður gott og bjart og hugðu menn gott til að fá handtakið Arnes, er ekkert vissi um allt þetta kænlega ráðabrugg.
Nú er að segja frá Arnesi, að þennan sama morgun fer hann árla á ferl og flakk úr fylgsnishreysi sínu, er var hæst á Akrafjalli [í hellisskúta undir Háahnúk], þar sem víðast mátti til sjá nálægt fjallinu; getur hann þá að líta, hvar sem auga rennir, að hvaðanæva drífa ríðandi menn að fjallinu. Einnig gætir hann þess, að allir mennirnir nema þeir, er fyrstir fóru, höfðu einkennisbúning til höfuðs og fóta; flýgur honum þá skjótt í hug, hvað nú  muni á seyði og þykir heldur óvænlega áhorfast fyrir sér.
Arnes sér nú leitarmennina drífa að á allar hliðar svo búna Tóft við Selfosssem áður segir.
Hvorki átti hann alhvíta sokka né alhvíta húfu og hvorugt varð gripið upp úr grjótinu. Ei hafði hann heldur krít né hvítan lit, en hér rak bráð nauðsyn eptir að vera bæði snar og snjallráður eða gefast upp og þess kvaðst Arnes lengst síðan iðrazt hafa, að þeð ei gert hefði, en hann varð þó ei með öllu úrræðalaus. Arnes átti skyrtutötur. Af hennir rífur hann ermina, ristir sundur og vefur um höfuð sér og bindur um utan. Hvíta sokka átti hann enga og þá var þar ei hægt að fá og hvað var þá til ráða. Sokka á hann enga nema sauðsvarta og eins lita brók og buxur. Arnes fer úr sokkunum eða flettir þeim í vindil fast ofan á ristar, síðan sprettir hann upp í nærskornar stuttbuxur og brýtur þær upp fyrir mitt læri. Þannig sýndist hann klæddur í uppháa, hvíta sokka. Þá var nú enn ein þraut óunnin, sem var sú, að fá laumazt og læðast saman við aðra leitarmenn, svo enginn yrði var við. Hverju bragði hann beitti til þess man jeg ógerla, en þó tólkst honum það að og þannig gekk hann og leitaði með þeim allra manna vandlegast, allan daginn, og áminnti alltaf þá, er næst honum gengu, að leita sem vandlegast.
En af því leitarmenn, sem voru úr 4 sveitum, voru margir svo ókunnugir innbyrðis, að eigi þekktu hvorir aðra, grunaði enginn Grágrýtisbjarg við hellisskútannArnes.
En er lokið var leitinni síð dags og menn fóru að flokkast saman neðan undir fjallinu, drógst Arnes lítið aptur úr, kvaðst hafa týnt vetlingi úr barmi sér, og vilja svipast að honum og bað þá, er næst honum voru að halda áfram; hann mundi skila sér og við það skildi með þeim, að engan grunaði neitt, þótt öllum þætti undarlegt, að Arness kyldi hvergi vart verða og þóttust ei vita, hverju gegndi. En það er af Arnesi að segja, að honum þótti happ að sleppa, þótt þetta væri upphaf rauna hans, því hvað var ein ráðningarrefsing, þótt nokkuð sár væri, hjá öllu hinu illa, er langvinn, ófrjáls útilega hafði í för með sér, og að hljóta ár frá ári að lifa á ránum og stuldi, ófriðhelgi, úti á öræfum, í vetrarhörkum, og aldrei verða ugglaus um fjör og frelsi.
Næstu nótt kúrði Arnes enn í fylgsni sínu í fjallinu, en þorir þó með engu móti að haldast þar við lengur og býr sig að morgni til burtfarar, en veit þó víst ekki, hvert halda skuli, þá án alls undir vetur sjálfan. Hann hafði þá heyrt getið Fjalla-Eyvindar útilegumanns og heldur vel af honum látið, og kemur helzt í hug, að leita hans upp á líf og dauða…”

Innan við syðra opið

Að lokum segir: “Sagt er að Arnes hafi borið Eyvindi bezta orð fyrir góðmennsku og guðrækni, en vart kvaðst hann [hafa verið] óhræddur um líf sitt fyrir Höllu og Abraham syni hennar (?) meðan hann lifði.
Tvö seinustu árin, sem Arnes lá úti, hafðist hann optast við í hellisskúta hjá Elliðaám, skammt frá Ártúni, unz ellibilun knúði hann að gefa sig alveg á vald byggðamanna kringum 1790 og var þá að nafninu settur í tugthúsið, en af því þá var verið að frumbyggja dómkirkju í Reykjavík, en Arnes var þjóðhagi, var hann hafður þar við smíðar og dó fjörgamall í Engey 7. september 1805 eins og segir í þjóðsögum Jóns Árnasonar II, bls. 247.” Arnes varð einnig um tíma eins konar dyravörður í fangelsinu í Reykjavík, en sú bygging hýsir nú Stjórnarráð Íslands. Til er kansellíbréf til Ólafs Stefánssonar stiftamtmanns um að láta Arnes Pálsson lausan úr fangahúsinu í Reykjvík, hinn 4. febrúar 1792. Hann lést sem niðursetningur í Engey við Reykjavík árið 1805, sem fyrr sagði, 86 ára gamall.
Og þá var bara að leita að þessu fyrrum fylgsni Arnesar við Elliðaárnar, í landi Ártúns. Framangreind lýsing gefur staðsetninguna til kynna; “…í hellisskúta hjá Elliðaám, skammt frá Ártúni”. Nyrðri hluta ánna hefur verið raskað varanlega, allt frá rafstöðvarhúsunum upp fyrir stíflu (sjá HÉR). Þá hafa árnar hlaupið fram og aftur um ársvæðin, brotið bakka og fært til.
Gos með hraunrennsli um Elliðaárdalinn hefur aðeins einu sinni orðið frá því að ísa leysti fyrir um 10 þúsund árum. Það er Leitarhraun sem er nefnt eftir gíg sem það kom úr austan Bláfjalla. Hraunið rann fyrir um 5000 árum og flæddi niður Sandskeið og um Lækjarbotna. Þaðan rann það í Elliðavatn, sem hefur verið mun stærra en það er í dag, og myndaði Rauðhóla.

Innan við nyrðra opið

Þaðan flæddi hraunið viðstöðulítið um Elliðaárdal í sjó fram við Elliðaárósa. Hraunið er mjög greinilegt í Elliðaárdalnum sérstaklega þar sem áin hefur skorið sig í gegnum hraunið t.d. kringum Elliðaárhólmann (sjá HÉR).
Þegar gengið var upp með og innan við árbakkana beggja vegna neðan frá var hvorki hella né skúta að sjá. Einu minjarnar voru eftir setuliðið, nokkur skeifulaga hlaðin skjól. Ólíklega hefur fylgsni Arnesar við vestan Ártúns því þar er bæði flatlent; flæðihætta, og þar var aðalþjóðleiðin austur um sveitir. Enn vottar fyrir grunni þóaramylluhússins, skammt frá aðalleiðinni yfir vaðið, en það kom einmitt við sögu þegar Arnes lenti í vandræðum og gafst næstum því yfirvöldum á vald.
Hólmahraunin hækka eftir því sem ofar dregur. Spurnir höfðu fengist af hraunsprungu í efsta hólmanum (Blásteinshólma) og innundir honum svolítið rými, varla þó nógu stórt til að hýsa manneskju. Dæmi var um í dagbókarfærslu lögreglunnar að þar hefðu þjófar falið þýfi fyrrum, lítilræði þó. Ferðin yfir í hólmann var ekki árennileg því ekki verður komist í hólmann nema í vöðlum.
Ljóst er að Arnes hefur ekki gert miklar kröfur til vistavera sinna ef marka má önnur nálæg skjól, sem við hann eru kennd, s.s. í Akrafjalli (-felli), við Hraunsholt í Garðabæ og Arnersarhelli við Hvalvatn (sjá HÉR). Hann hefur þó gjarnan búið svo um að munnarnir væru ekki við fjölfarnar sljóðir og ekki auðfundnir. Í Hvalvatni þarf t.d. að vaða spölkorn út í vatnið til að komast inn í skútann. Líklega hefur hann ekki með viðvarandi dvöl á hverjum stað.
Eftir að FERLIR hafði gengið fram og aftur um Elliðaáasvæðið kom einungis einn álitlegur staður til greina. Að vísu gæti áin hafa fært fyrrum hellisskútan í kaf og fyllt hann eða hann fallið saman. Hvorugt virtist þó sennilegt því líklegt mátti telja að Arnes hafi valið sér skjól á nokkuð öruggum stað, þar sem vel sást til mannaferða, en trauðla til hans. Auk þess hefur hann, eftir svo mörg ár á flótta, lært af refsins klækjum; fundið stað með fleiri en einum útgangi, ef á þyrfti að halda – að fenginni reynslu. Fangavist yfirvaldsins á Ströndum hafði ekki verið nein sæla þótt alþýðufólkið hafi sýnt honum nærgætni. Viðbrögðin voru því, er hér var komið, að forðast yfirvaldið og þess menn með sem bestum ráðum.

Nyrðra hellisopið

Ljóst má vera að Arnes hefur gengið beina hjá Ártúnsfólkinu, en svo hafði bærinn heitið allt frá 1584 (áður hét hann Árland neðra). En vegna gestaferða um fjölfarinn túngarðinn hefur Arnes þurft öryggt afdrep. Eflaust hefur hann notað það sem skjól því sagan segir að komið hafi verið að honum sofandi í þóaramyllunni fyrrnefndu og munaði litlu að þá tækist að koma honum undir manna hendur. Flúði hann í hraunin við Álftanes, en þar má enn sjá skjól það er hann hafðist þá í um tíma.
Staðurinn, sem líklegastur er til að geyma “Arnesarhelli” í Elliðaárdal sendur hátt, við Hólmstá, reyndar á besta stað. Tvö op er á hellisskútanum, sem er um 10 metra langur. Stærra opið, það nyrðra, horfir heim að Árbæ, en bærinn er þó ekki í sjónfæri. Utan við syðra opið er lausagrjót. Nokkra slíka steina má sjá innan við opið. Hellirinn er ekki auðfundinn, enda lágur. Ofar heitir Selfoss. Milli hans og hellisins eru leifar af tvískiptri tóft, hugsanlega tímabundinni selstöðu eða aðhaldi. Sunnar er Kermóafoss (Skorarhylsfoss/Indíánafoss). Við hann eru tveir grunnir skútar, en undir hraunveggnum þar er hið ágætasta skjól. Utan við hellismunnann er stórt grágrýtisbjarg, sem ísaldarjökullinn hefur skilið eftir. Við það má auðveldlega dyljast á alla vegu fyrir mannaferðum handan árbakkanna.
Hafa ber í huga að þarna gæti Arnes, hinn þrautreyndi útilegumaður á öræfum Íslands um mörg ár, hafa hafst við þau tvö ár er hann dvaldi við Ártún.
Frábært veður.

Heimild:
-Huld – safn alþýðlegra fræða íslenskra, 1890-1898, I, bls. 31-37.
-Örnefnastofnun Íslands.

Nyrði hluti hellisins