Eggert Kristmundsson

Eggert Kristmundsson er fæddur í Stakkavík 17. febrúar 1919.
Þann 28. febrúar 2004
s.l. var farið í fylgd hans í Herdísarvík og í Stakkavík með viðkomu í Breiðabás. Eggert var þá nýorðinn Gálgaklettar við Stakkavík85 ára, en ótrúlega hress eftir aldri. Í ferðinni lýsti Eggert staðháttum og sagði sögur af fólki og atburðum. Tækifærið var notað og Stakkavíkursvæðið rissað upp eftir lýsingu Eggerts. Þar lýsti hann m.a. Gálgaklettum, Álfakirkjunni, smalabyrgjum, hlöðnum kálgarðsveggjum, íbúarhúsinu, staðsetningu gamla bæjarins, sem nú er á hólma út í Hlíðarvatni, sýn á huldufólk og fleiru, sem fyrir augu bar. Eftirfarandi frásögn var skráð eftir honum í ferðinni:

Eggert fæddist í Stakkavík og er því manna fróðastur núlifandi manna um svæðið. Hann fluttist þaðan árið 1943 að Efri-Brunnastöðum í Vatnsleysustrandahreppi.
Á leiðinni gat Eggert þess í innskoti að hann hafði heyrt að sá sem hlóð Staðarborgina ofan við Kálfatjörn hafi fengið einn tóbaksbita fyrir verkið. Bitinn kostaði þá 2 krónur.
Eggert lærði að lesa hjá Önnu, dóttur Ólafs Þorvaldssonar í gamla bænum í Herdísarvík. Hann sagði Ólaf hafa verið mjög skemmtilegan mann, sem sagði mjög vel frá og las afburða vel upp úr bókum. Eggert var í skóla í Selvogi í einn vetur en svo kom kennari annað slagið heim í Stakkavík. Hann var fermdur í Strandakirkju.

 Eggert Kristmundsson heima á Brunnastöðum

Eggert var um 10 ára þegar hann villtist í Breiðabáshelli, en þangað var förinni m.a. heitið. FERLIR hefur um nokkurt skeið leitað opsins, en sjávarkamburinn hefur nú hulið með öllu.
Eggerts minntist ummæla útgerðarmanns í Selvogi varðandi föður þeirra: “Þótt ég þyrfti að bera Kristmund út í bátinn þá verður hann minn háseti”. Kristmundur þótti mjög fiskinn. Hann var líka var mikill söngmaður. Það var Guðni í Þorkelsgerði einnig.
Eggert minntist þess að Gísli Scheving, móðurbróðir Eggerts, hafi komið um Stakkavíkurveg með grammafón á bakinu frá Hafnarfirði árið 1925 ásamt 30 sauðum. Grammófónninn þótti mikið undur.
Á leiðinni austur sagði Eggert frá för hans og Gísla bróður hans ásamt 12 ára strák úr Hafnarfirði og föður þeirra með fé frá Krýsuvík áleiðis til Hafnarfjarðar. Þetta var sennilega árið 1935. Þeir hefðu farið frá Stóra-Nýjabæ í góðu veðri, en þegar þeir fóru um Ketilsstíg á Hálsinum versnaði veðrið til muna. Þeir komu þó fénu yfir, en urðu að berjast með það, 35 sauði og 15 lömb í veðrin og villtust. Þeir römbuðu á för sín aftur yfir Ketilstíginn og röktu hann til baka. Þá náði snjórinn í kvið á hestunum. Þeir hörfðu verið 17 tíma í förinni, kaldir og hraktir. Þeir gistu í Stóra-Nýjabæ á leiðinni til baka, voru þar um nóttina. Morguninn eftir þurftu þeir að fara í blautu fötin aftur því þau höfðu ekki náð að þorna um nóttina. Daginn eftir fóru þeir svo með féð til Hafnarfjarðar.
Guðmundur í Stóra-Nýjabæ, sem þótti skemmtilegur í tilsvörum, var eitt sinn spurður um Guðmund nafna hans Guðmundsson á Hrauni, síðar Skála. Hann svaraði: “Hann hefur það gott, hann sofnaði í 40 ár og leitaði gæfunnar, en nú er hann búinn að finna hana, blessaður”. Guðmundur var þá að dunda við að brugga landa.

Íbúðarhúsið í Stakkavík

Guðmundur fór í útgerð og komst hún fyrir í einni tunnu (net og annað). Fór þá Guðmundur í Nýjabæ heim og náði í 1200 krónur, sem hann lánaði til útgerðarinnar.
Fylgdist með þegar verið var á byggja húsið í Herdísarvík. Það var hvítt á litinn.
Einar Ben. var glæsilegur maður þegar hann kom að Herdísarvík, en hann var eins og vofa undir það síðasta. Margir kunningar hans komu í heimsókn og helltu hann fullan. Reyndar hafði Hlín leyfi til að brugga á þeim tíma.
Krakkarnir voru spenntir fyrir að sjá þjóðskáldið fyrsta sinni og fóru því með nýrekna grásleppu sem tilefni heim í Herdísarvík. Hlín tók á móti þeim og sagði við Einar: Þetta eru börnin hans Kristmundar í Stakkavík. “O, ætli ég þekki ekki hann Kristmund, hann var skrifari hjá mér í Ameríku”, svaraði Einar þá. Einu sinni mætti Einar þeim með hvítan vasaklút og sagði: “Þetta er það eina sem ég á”. Í annað sinn, þegar Hlín hafði látið elta Einar að Fálkageiraskarði þar sem hann var á leið í “sorann í Reykjavík” og færa til baka, varð Einari að orði: “Hér er ég fangi milli tveggja svartra fjallla og sé aðeins upp í himininn”.

Herdísarvíkurbærinn

Um drápið á Surtlu sagði Eggert: “Það var nýðingsverk að fella Surtlu. Það var ekkert að henni eins og sést hvernig hún komst ítrekað undan. Ég elti hana, ásamt fleirum, frá Seljabótarnefi og upp fyrir bæinn í Herdísarvík. Lambið, sem var með henni, sprakk á hlaupunum og við náðum því, en Surtla slapp. Surtla var tvílembingur og ég átti hitt lambið”.
“Hlín var einstaklega dugleg og krafðist þess sama af öðrum. Hún var hetja, fögur kona, há og þétt á velli og lagði sig fram við að styðja Einar. Það sem Hlín gerði fyrir Einar hefur verið óþakklátt og henni hefur ekki verið nægilegur sómi sýndur fyrir allt sem hún gerði fyrir hann”.
Bruggið var í tunnu (tunnum) fyrir utan húsið.
Stundum skiptust þau Hlín og Kristmundur á olíu eftir því hvort átti.
Fólk kom í Herdísarvík, bara til að forvitnast, stundum á rútum. Einu sinni var Hlín sofandi en Eggert í heyskap þegar fjöldi manns kom og óð yfir slægjunna og skoðaði inn í öll hús. Þegar Hlín vaknaði spurði hún fólkið hver hefði boðið því þangað.
Stakkavík - uppdrátturHlín fór í fjósið í buxum úr strigapokum. Hún hafði tvo hesta, leirljósan og brúnan. Brúni hesturinn var gamall vagnhestur. Sá leirljósi var mikill reiðhestur. Jón Eldon, sonur hennar, átti hann. Hlín vildi ekki eta hestanna og því var farið með þá að Grænuflöt undir Herdísarvíkurfjalli þar sem þeir Jón, Eggert og fleiri grófu niður tvær mannhæðarháar grafir, þar sem hægt var að ganga inn í, og þar skutu þeir hestanna, Jón þann leirljósa, en Eggert þann brúna. Eggert tók nærri sér að þurfa að gera þetta því hann hafði unnið mikið með þessum hestum, en hann sagðist alltaf hafa hlýtt Hlín. Hún hefði beðið hann um að annast þetta.
Hlín fékk fé sitt frá Sigurði á Hlíðarenda en það var ættað úr Borgarfirðinum.
Sementið í Stakkavíkurbæinn var flutt með Hermóði frá Eyrabakka út í Selvog og þaðan á hestum heim. Náð var í sand í poka út á Víðisand og möl norður fyrir Hlíðarvatn. Víðisandur (Viðarsandur) var stundum nefndur Púkasandur og þá eftir sögum af galdraprestinum [Eiríki Magnússyni á Vogsósum]. Allt borið á bakinu upp á bæjarhólinn og voru 17 menn við verkið.
Eggert og fleiri náðu í borðviðinn í Stakkavíkurbæinn til Hafnarfjarðar. “Þetta var djöfullegur flutningur”. Borðin stóðu langt upp af makka hestanna og þetta var alltaf að slitna niður. Borðin styttust um 1. fet við að dragast eftir klöppunum.
Í StakkavíkurseliGanga frá Stakkavík að Hrauni í Grindavík tók 7 tíma, 6 tímar yfir fjallið til Hafnarfjarðar, en 10 tíma ef Krýsuvíkurleiðin var farin. Níu tímar voru til Grindavíkur. Þessa leið þurfti Hlín að fara í fyrstu ef hana vantaði mjólk. Stakkavíkurvegur var alltaf notaður nema þegar snjór var kominn á fjallið, þá var farið um Krýsuvík og Ketilsstíg. Notað var orðatiltækið “að fara Skörðin” þegar farinn var Stakkavíkurvegur og Grindarskörð. Þegar fjölskyldan flutti frá Stakkavík á Höfuðdaginn árið 1943 var t.d. farið Skörðin á fjórum hestum með restina af búslóðinni. Hitt hafði verið flutt á undan.
Á vetrum fór þeir bræður upp Nátthagaskarð með stefnu á Eldborg, fóru sunnan við hana og síðan niður Fagradalsmúla. Þetta var stysta leið til Hafnarfjarðar með rjúpur. Veiddu yfirleitt um 400 rjúpur að hausti og seldu þær til Hafnarfjarðar á 45 aura stykkið.

Uppdráttur af brúnum Stakkavíkurfjalls

Þegar farið var upp Selstíg var fyrst komið að Grænubrekkum og Selbrekkum, Seltúninu, (austar). Ofan við þær er gamla Stakkavíkurselið, “en það var farið í eyði löngu áður en ég man eftir”. Dýjabrekkur liggja fjærst brúninni, ca. miðja vegu að Ásunum. Þær eru augljósar því í þeim er lítill dalur fullur af dýi.
Hættulegt gat verið að fara yfir ósinn (Vogsósinn). Í útfalli, þegar sjór gekk inn í vatnið, var mikill straumur út úr því.
Var einu sinni að fara yfir ósinn á hesti á vaði (Ingjaldsvaði). Þar er malarbotn, en sandbleyta ef farið er út af vaðinu. Hesturinn lenti í sandbleytunni og lagðist á hliðina. Þessu átti Eggert ekki von á. Hesturinn synti á hliðinni og Eggert hélt sér á honum og þannig bárust þeir niður ósinn. Það verður honum til lífs að ná taki í þaraþöngli og gat hann þannig kraflað sig í land. Hesturinn kom að landi annars staðar.
Silungurinn úr Herdísarvíkurtjörninni var allt að fimm pund að þyngd og sá besti sem Eggert hefur smakkað.
Man ekki eftir að hafa séð drauga, en eina sýn sá hann 10 ára, sem hann gleymir aldrei. Í hvammi norðvestan við húsið, skammt austan við hrútakofann (sjá uppdrátt) sá hann einu sinni tvo stráka. Gísli var þá með honum.
Ekki vissi Stekkur við Stakkavíkhann til að aðrir strákar ættu að vera þarna. Þeir voru klæddir í stuttar hnébuxur, með grænar húfur með tíglamynstri og háa reimaða skó. Spjald var aftan á peysunum. Hann kallaði í Gísla og horfði augnablik af þeim, en þegar hann leit til þeirra aftur voru þeir horfnir. Hann hafi alltaf verið sannfærður um að þar hafi huldufólksstrákar verið á ferð. Sá þá aldrei aftur. Betur klæddir en allt sem hann hafði áður séð.
Eggert sló eitt sinn álagahól við Suðurkot í Vogum. Hafði verið bannað að slá hólinn. Hafði líka slegið of ofarlega þegar honum var varnað að halda áfram. Í framhaldi af því blindaðist önnur kvígan á Efri-Brunnastöðum og drapst síðan. Vildu menn meina að það hafi orðið vegna þessa atburðar.
Var einu sinni í níu klukkutíma aftur á vörubílspalli á tveggja manna Fordbíl frá Hveragerði að Kolviðarhól. Hann hélt á sér hita með því að moka snjó frá bílnum ásamt bílstjóranum. Þrír aðrir sem voru með á bílnum fóru af og voru þremur tímum á undan að Kolviðarhóli.
Bátaskjól neðan við bæinnKristmundur keypti bát til að nota á Hlíðarvatni og var hann fluttur með vörubifreið frá Reykjavík og til Vogsósa. Eggert var þá unglingur og var hafður aftur á palli ásamt saltfiski og öðru. Báturinn var með fjórum árum, langur og mjór. Þeir settu í hann “GOJA” vél 1.5. hestöfl. Hann gekk lengi mjög vel. Engar grynningar voru í vatninu, nema þar sem tjarnirnar eru. Yfirleitt um þriggja faðma dýpi í vatninu.
Vörðurnar, beggja vegna vegarins skammt vestan Herdísarvíkur, eru þar sem vegavinnumenn með jarðýturnar mættust með vegina að austan og vestan. Í Herdísarvíkurtjörn var besti silungur, sem hann hefur borðað. Hann kom upphaflega úr Hlíðarvatni. Man eftir gamla bænum í Herdísavík. Drakk þar kaffi hjá Ólafi Þorvaldssyni. Skemmtilegasti maður sem hann hafi hitt. Fór mikið á rjúpur og í annan veiðiskap. Ólafur fór nauðugur frá Herdísavík. Garðanir austan bæjar Herdísarvíkur, voru hlaðnir af vermönnum. Þórarinn Árnason, sonur Árna í Krýsuvík, lét vermenn hlaða þá í landlegum. Þeir græddu einnig upp hraunið með slori. Þannig er Gerðið meira og minna grætt upp – með slóginu.

Hlaðan í Stakkavík

“Gerðið er illa farið af sjávargangi. Gísli móðurbróðir minn nýtti sér næst austustu sjóbúðina um tíma. 70 hestar heys fengust af Gerðinu. Þórarinn lét líklegast hlaða fjárhúsin; Langsum og Þversum, semþar eru. Húsin tóku um 400 fjár. Þá var fé haldið í Breiðabáshelli (300-400 fjár). Alltaf var ákveðin hræðsla um að sjórinn flæddi inn í hellinn. Skiparéttin var í krikanum þar sem fjárréttin varð síðar (sjá uppdrátt).
Fálkageiraskarð er skammt austan Lyngskjaldar. Einar Júlíusson, vinnumaður, náði nafna sínum, Einari Ben. í skarðinu er hann var á leið í sorann fyrir sunnan. Einar hélt þá fram að hann væri “fangi á milli tveggja svartra fjalla”.
Benti á Hulduþúfuhól sunnan vegar austan Herdísarvíkur, hægra megin við gömlu götuna. Saga er tengd honum. Gísli hafði einhverju sinni heyrt söng innan úr hólnum. Eftir það var hann nefndur Hulduhóll.

Þegar ekið er niður í Stakkavík eru fiskgarðar á hægri hönd sem og tveir hlaðnir kálgarðsveggir. Klettur, klofinn er hægra megin við veginn, neðan eystri kálgarðsins. Þar er sem heitir Gálgaklettar. Eggert sagði sögn segja að þar hafi menn verið hengdir fyrrum. Sjá má tóftir gamla bæjarins í austasta hólnum út í vatninu neðan við núverandi bæjarstæði. Eftir að hækkaði í vatninu þurfti að færa bæinn upp á hólinn, sem rústir hans eru nú.

Álfakirkjan - sú rétta

Vestan við hann er jarðhús, sem Guðni í Þorkelsgerði byggði, og við hlið þess gamalt fjárhús, sem var notað til að baða fé. Hrútakofi er ofan og utan garðs. Í Austurnesi eru tvö beitarhús. þau tóku 170 og 200 fjár. Eystra húsið var stærra. Rétt er á Réttarnesi og þar, ofan við Botnavík, eru smalabyrgi.
Eggert sagði að fyrrum hafi verið farið með hesta upp Selskarð. Þegar komið var niður með þá þurfti að setja rófubönd undir stertina og tók þá jafnan í.
Mjög varasamt var að fara norður fyrir vatnið þar sem þar voru miklar skriður. Hægt var að fara með fé og á hestum með því að vera upp í fjallinu, upp undir klettabeltinu.
Kleifarvallaskarð er austan Selstígs, austar er Urðarskarð og þá Hlíðarskarð.
Hlíðareyja fylgdi Stakkavík, austarlega á Hlíðarvatni. Hún var dagslátta.
Eggert keypti fyrst byssu 13 ára í Veiðivöruversluninni í Reykjavík, haglabyssu. Kostaði þá 75 kr. Dró 80 faðma. Mesti kostagripur. Hann hafði farið ásamt bróður sínum í Veiðivöruverslun Reykjavíkur, en fékk ekki afgreiðslu. Gistu þeir hjá Þórði Eyjólfssyni, fyrrum bónda á Vogsósum, sem þá var fullorðinn. Gekk hann við fallegan staf með glerhandfangi. Eftir fýluferðina í búðina og mikil vonbrigði fór Þórður með þeim og keypti byssuna.

Fjárhús í Stakkavík

Á heimleiðinni stillti Þórður göngustafnum upp á veggi og garða og sýndi drengjunum hvernig ætti að fara að og þeir öpuðu eftir með byssunni. Vegfarendur urðu undrandi og gerðu athugasemdir. Þá sagði Þórður: “Þeir fara sér ekki að voða ef þeir kunna með hana að fara”. Skeptið, sem var mjög fallegt, tapaðist af byssunni þegar Jón Eldon, reyndi að kraka önd að landi sem hann hafði skotið við Herdísarvíkina. Seinna var svo smíðað nýtt skepti.
Sveinn Halldórsson í Bjargi í Selvogi var þúsundþjalasmiður. Hann gerði við m.a. útvarpstæki. Gísli fór með útvarpstæki til viðgerðar hjá Sveini. Þegar hann gekk til baka til Stakkavíkur og var að fara um Víðisand heyrði hann að honum var veitt eftirför. Hann byrjaði að hlaupa og það sem var á eftir honum fylgdi á eftir og skrjáfaði í því eins og skeljum. Hann var alveg skelfingu lostinn og hljóp eins hratt og hann gat. Hann komst undan en allir lamparnir voru brotnir í tækinu eftir öll hlaupin.
StakkavíkurborgMikill draugagangur var jafnan í Nesi í Selvogi. Bóndi, sem bjó á undan Guðmundi í Nesi, Þorbjörn Guðmundsson, tók alltaf steina úr gamla kirkjugarðinum þegar hann vantaði byggingarefni. Þetta hefndist honum fyrir, eins og dæmin sanna og sagnir geta um.
Guðmundur í Nesi var best gefni bóndi sem hann þekkti. Hann reisti girðingu sem náði frá Selvogsvita, upp á Geitarfell og niður á Þrívörður. Skildi eftir 2. fet af landinu utan girðingar og setti 200 sauði á beit utan girðingarinnar við lítinn fögnuð annarra bænda.
Magnús í Krýsuvík hélt fé í fjárhúsinu á Krýsuvíkurheiði. Hann hélt einnig fé í Litlahrauni. Þegar Magnús hafði drepið fé sitt og flust til Hafnarfjarðar gekk hann á hverjum degi upp á Jófríðastaðahól, settist á hann og horfði síðan daglangt í áttina til Krýsuvíkur. Sonur Magnúsar í Krýsuvík gaf honum nokkur lömb (kindur) þegar hann sá söknuðinn hjá föðurnum. Magnús flutti þá aftur til Krýsuvíkur með lömbin, en fjölskyldan varð eftir í Hafnarfirði.
Fjárhús frá StakkavíkLandamerki Krýsuvíkur og Herdísarvíkur er milli dysja Herdísar og Krýsu. Hann hafi alldrei heyrt annað nefnt. Sýslumörkin eru hins vegar við Sýslustein með stefnu í Seljabót.
Beitarhúsin í Stakkavík voru í Höfðanum. Þaðan var féð rekið til beitar á vetrum niður í fjöru í landi Vogsósa (Löngusker) og setið yfir þeim í tvo tíma. Ferðin fram og aftur í Löngusker tók fjórar klst, ferðin alls um sex klst. Skipt var á fjörubeitinni og venjulegri beit við Vogsósabóndann.
Smalar sváfu stundum í hellinum undir Hellunni við Kleifarvatn.
Stakkavíkurfjárborgin er við Borgarhóla. Hún gat hýst 70 kindur. Eggert vissi ekki hver byggði borgina, en hún er nokkuð gömul og óvenju heilleg. Álfakirkja sú, sem jafnan er nefnd svo í ritum og er sögð vera austan við borgina, er í rauninni mun austar, svolítið austan fjárhússtóftanna neðan Selstígs.
Í ferðinni var Eggert greinilega á heimaslóðum. Hann þekkti sérhvern stað með nafni, tiltók örnefni og sagði sögur af liðnum atburðum. Honum er þökkuð samfylgdin þennan fagra dag febrúarmánaðar.
Eggert lést þann 12. jan. 2010.
(Frásögn og lýsing Eggerts á aðstæðum og mannlífi í Stakkavík og Herdísarvík samrýmist vel öðrum lýsingum, sem fram koma hér á vefsíðunni).

Hér má sjá og heyra viðtal Jóhanns Davíðssonar við Eggert.

Ómar Smári Ármannsson, Jóhann Davíðsson og Sesselja Guðmundsdóttir skráðu.

Stakkavík

Hlíðarvatn – Stakkavík – örnefni.