Ólafsvarða

Eftirfarandi brot úr frásögn birtist í Menningarblaði Lesbókar Morgunblaðsins laugardaginn 3. febrúar 2001. Höfundurinn, Hanna María Kristjánsdóttir, var nemi í þjóð- og fjölmiðlafræði við HÍ.
Rafn Símonarson með líkamsleifar Ólafs Þorleifssonar 1931Hinn 21. desember árið 1900, eða fyrir rétt rúmum 100 árum, fór Ólafur Þorleifsson, bóndi í Miðhúsum á Vatnsleysuströnd að leita að kindum uppi á Strandarheiðinni. Hann kom aldrei til baka. Árið 1931 fann Rafn Símonarson, bóndi í Austurkoti, líkamsleifar Ólafs ofan í djúpri og dimmri gjá. Gjáin er örskammt ofan við brún Stóru-Aragjár, um 2.5 km ofan við núverandi Reykjanesbraut.
“Vatnsleysuströndin er ekki þekktust fyrir landbúnað fyrr á árum heldur hina geysimiklu útgerð sem þaðan var stunduð. En á flestum bæjum, þar sem grasnytjar voru, stunduðu ábúendur nokkurn búskap með útgerðinni. Flestir áttu sauðfé og voru sumarhagar þess á Strandarheiði en þar þóttu nokkuð góðir bithagar. Eftir heiðinni endilangri liggja sprungubelti sem einkennast af opnum sprungum og gjám og oftast er grunnur sigdalur á milli. Þessar gjár eru margar mjög tilkomumiklar þar sem annar gjárveggurinn er miklu hærri heldur en hinn svo munar mörgum metrum. Því er heiðin torfarin og víða hættuleg eftir að snjó festir á jörðu… Daginn sem Ólafur fór frá konu sinni, Valgerði Björnsdóttur fæddri 3. júní 1857, og tveimur dætrum sínum, þeim Jórunni 11 ára og Þóreyju 6 ára, var mikill snjór en veðrið annars ágætt. Þegar leið á daginn tók hins vegar að þykkna upp og með kvöldinu gerði svartasta byl sem stóð þó ekki mjög lengi. Þennan sama dag voru Vogamenn að leita kinda á heiðinni og sáu þeir Ólafsgjámann nálægt Dalselsenda skömmu áður en bylurinn skall á. Töldu þeir síðar víst að maðurinn hafi verið Ólafur. Miðað við fótspor sem fundust og talin voru vera Ólafs hefur hann verið á réttri leið þegar veðrið skall á en vegna blindhríðar og myrkurs fallið ofan í eina af hinum mörgu sprungum sem leynast á þessari leið á Strandarheiðinni. Daginn eftir var leitað að Ólafi og einnig á aðfangadag en án árangurs. Leitinni var hætt í bili en hélt svo áfram um áramótin. Þá var snjórinn farinn sem hulið hafði jörðina og gert leitarmönnum erfitt fyrir. Leitað var í marga daga, bæði í gjám og sprungum en allt kom fyrir ekki. Ólafur var horfinn og fannst ekki hvernig sem leitað var. Í langan tíma eftir slysið höfðu menn, sem gengu þarna um, það fyrir vana að svipast um í gjánum um leið og þeir gengu yfir þær en aldrei sást neitt sem bent gat til hvar maðurinn væri niðurkominn.
Næsta vor var maður að nafni Kristján Jónsson úr Grindavík á ferð um heiðina. Hann gekk frá Vatnsleysu og yfir til Grindavíkur. Á leiðinni þóttist hann hafa séð staf og fataræfla liggjandi á stalli í gjá einni. Hann gaf þessu ekki nánar gætur en hafði þó orð á því þegar hann kom heim. Þetta fréttist fljótlega niður á Vatnsleysuströnd og fóru þá Teitur Þorleifsson, bróðir Ólafs, sem bjó á Hlöðversnesi, og Benedikt Pétursson, bóndi á Suðurkoti í Vogum, til fundar við Kristján. Hann hafði hins vegar ekki lagt staðinn á minnið og treysti sér ekki til að finna hann aftur. Það var því ekki hægt að leita af neinu viti eftir þessum vísbendingum og allri leit hætt upp frá því.

Ólafsvarða

Árið 1930, rétt um 30 árum síðar, voru menn úr hreppnum að leita kinda uppi á heiðinni. Mikill snjór var sem gerði mönnunum erfitt fyrir. Þeir urðu oft að stoppa til að hreinsa snjó úr ull kindanna sem gerði þeim erfitt um gang og svo urðu þeir að fara varlega því snjórinn huldi margar hættur. Rekstrarmenn sáu að kindur féllu ofan í gjá eina og engin leið að bjarga þeim nema að síga niður, bæði vegna myrkurs og fátt sem hægt var að festa hendur eða fætur á. Þegar mennirnir komu til byggða báðu þeir Rafn Símonarson um að síga niður í gjána. Rafn hafði alltaf verið hræddur við þessar sprungur en í þetta sinn fannst honum hann verða að síga niður af einhverri ástæðu. Snemma næsta morgun var lagt af stað og þeir fóru fimm saman útbúnir nauðsynlegustu áhöldum. Þegar að gjánni kom voru fest bönd utan um Rafn og hann látinn síga niður eftir hlið gjárinnar. Hann seig niður í djúp svartnættis, myrkurs og kulda og fannst það ekki mjög aðlaðandi. Þó fannst honum svolítið ævintýralegt að vera kominn tólf til fjórtán metra ofan í jörðina, lifandi og í fullu fjöri. Þegar hann var kominn ofan í gjána þar sem kindurnar voru verður honum litið upp fyrir sig og sér þá, sér til mikillar undrunar, staf sem stungið hafði verið í bergið. Honum brá í fyrstu við þessa sýn og hann hugsaði um alla þá menn sem gengið höfðu um heiði þessa og aldrei komið til baka. Þegar hann ætlaði að skoða stafinn betur fannst honum sem hvíslað væri að þetta væri stafur Ólafs Þorleifssonar sem mikið var leitað en aldrei fannst og hér hlytu því leifar hans að liggja.

Kvöldsetur í Vogaheiði

Rafn kallaði til félaga sinna að hann hefði fundið göngustaf sem hann héldi að væri stafur Ólafs. Þeir svöruðu að það gæti tæplega verið því það væri svo langt síðan það slys átti sér stað. Rafn hugsaði með sér að þeir hefðu sjálfsagt svarað honum svona til að honum myndi ekki bregða og missa jafnvægið og traðka þá kannski á beinunum sem leynst gætu þarna niðri. Rafn bjargaði kindunum eins og hann átti að gera en aðgætti um leið hvort hann fyndi einhverjar vísbendingar en það var töluverður snjór þarna niðri og því ekkert að sjá. Rafn og félagar hans tóku stafinn með sér heim og ákváðu að fara aftur á þennan stað og rannsaka hann betur um leið og snjórinn færi.
OlafsgjaUm vorið, hinn 21. júní 1931, fóru þeir svo af stað. Þegar þeir komu að gjánni leist þeim betur á þetta því allur snjór var horfinn og mun auðveldara að leita. Vorsólin skein og lýsti upp dimmar og drungalegar sprungur heiðarinnar. Þar sem áður var nístingskuldi og myrkur var nú kominn vorylur og birta. Þeir hófust handa, bönd voru fest á Rafn og hann látinn síga niður í gjána til að leita Ólafs sem fór að heiman frá konu og dætrum glaður og heill heilsu en kom aldrei til baka. Þegar Rafn var kominn um það bil tíu metra ofan í gjána leit hann niður fyrir sig og sá þá hvar beinin lágu á litlum stalli sem stóð út úr berginu. Stallurinn var svo lítill ummáls að ekki var hægt að standa á honum á meðan verið var að tína beinin upp. Hann þurfti því að hanga í böndunum á meðan hann gerði það. Þegar Rafn hafði tekið allt sem á stallinum var sá hann að fótleggi og fótabein vantaði. Þau höfðu dottið fram af stallinum og lágu á jörðinni nokkru neðar. Rafn gaf því félögum sínum merki um að láta sig síga neðar. Rafn sagði að pallurinn þar sem beinagrindin var hafi verið svo lítill að ekki hafi verið unnt að sitja þar nema að láta fæturna hanga fram af. Lærleggirnir lágu líka þannig að endar þeirra stóðu út af pallbrúninni. Annar lærleggurinn var brotinn en lá þó þannig að brotin féllu saman og sennilega hefur Ólafur lærbrotnað um leið og hann féll ofan í gjána. Að öðru leyti voru beinin mjög lítið fúin, næstum allar tennurnar voru til dæmis fastar í kjálkunum.

Ólafsvarða-3

Á stallinum voru einnig leifar af fötum. Þetta sýnir vel hvað hlutir geta varðveist ótrúlega vel niðri í jörðinni þar sem hæfilegur kuldi og loft fær að leika um þá, en víða niðri í þessum gjám er snjór stóran hluta ársins.
Á meðan Rafn var að tína upp beinin velti hann því mikið fyrir sér hvað Ólafur hefur þurft að ganga í gegnum áður en hann lést. Hann hefur fallið ofan í gjána og líklega lærbrotnað við það að lenda á syllunni. Þegar stafurinn hans fannst stóð hluti hans út úr berginu. Ólafur hefur sennilega stungið honum í glufu í berginu og reynt að hífa sig upp en stafurinn brotnað við það. Þá hefur ekkert annað verið að gera en að bíða, bíða eftir því að deyja… Kvalirnar sem Ólafur þurfti að þola af meiðslum sínum voru eflaust litlar miðað við þær hugsanir sem kvöldu sálu hans. Það má þó ætla að Ólafur hafi látist fljótlega eftir að hann féll í gjána þar sem hann svaraði ekki köllum leitarmanna daginn eftir
Ólafur Þorleifsson var fæddur í Austurkoti hinn 10. júlí 1861 og var því aðeins 39 ára gamall þegar hann lést í desember árið 1900. Leifar hans voru bornar að Austurkoti í Brunnastaðahverfi og síðan fluttar að Kálfatjörn þar sem Ólafur var jarðaður að viðstöddu fjölmenni hinn 30. júní 1931… Gjáin, sem Ólafur féll í og týndi lífi sínu, er nokkuð fyrir austan Arahnjúk og kallast nú Ólafsgjá og þar hjá er einnig Ólafsvarða…”
Heimildir:
Guðmundur B. Jónsson (1987). Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Vogar: Guðmundur B. Jónsson.
Kirkjubók, Kálfatjörn 1894-1920.
Kristján Hannesson (munnleg heimild, 21. janúar 2001, handrit í fórum höfundar). Keflavík.
Rafn Símonarson (1936, 16. febrúar). Þrjátíu ár í gjáarsprungu. Vitinn, tímarit Ungmennafélagsins Þróttar, Vatnsleysustrandarhreppi.
Höfundurinn [Hanna María Kristjánsdóttir] er nemi í þjóðfræði og fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands.
Vogaheiðin í síðdegisvetrarsólinni