Fagradalsfjall

Dalssel er eitt þeirra 400 selstöðva, sem hvað erfiðast er að staðsetja á Reykjanesskaganum, fyrrum landnámi Ingólfs. Minjarnar um þetta fyrrum sel eru þó enn vel sýnilegar á ystu mörkum Þórkötlustaðabæjanna í Grindavík (sem þó hafði verið ágreiningur um, bæði af hálfu Vogamanna og Járngerðarstaðabænda).
Vestan EsjuÍ BA-ritgerð ÓSÁ í fornleifafræði (birt með góðfúsleguleyfi höfundar), nefnir hann allar þekktar og óþekktar selstöður á Reykjanesskaganum vestan Esju. Þar kemur eftirfarandi fróðleikur um Dalssel. “Guðrún Ólafsdóttir segir um Sel og selstöður í Grindavíkurhreppi að Járngerðarstaðir brúkaði selstöðu á Baðsvöllum, en menn kvarta um að þar séu hagar of litlir og þröngir. Stórt mein var af vatnsleysi og þurfti fyrir þær sakir að kaupa selstöðu annars staðar. Járngerðarstaðamenn gerðu og tilkall til selstöðunnar í Fagradal norðan Fagradalsfjalls. Þetta kemur fram í lýsingu Jarðarbókarinnar á Stóru Vogum í Vatnsleysustrandarhreppi: …aðra [selstöðu] vill hún eigna sér þar sem heitir Fagridalur, er þar um eru misgreiningar, því Járngerðarstaðamenn í Grindavík vilja eigna sér þessa selstöðu, þó segja menn, að Fagridalur liggi fyrir norðan og vestan þann fjallahrygg, sem hæðst liggur millum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar. Um selstöður frá Stóru-Vogum segir í Jarðabókinni 1703: “Selstöðu vissa á jörðin eina nærri þar sem kallað er Vogaholt, aðra vill hún eigna sjer þar sem heitir Fagridalur, en þar um eru misgreiningar, því Járngerðarstaðarmenn í Grindavík vilja eigna sjer þessa selstöðu, þó segja menn, að Fagridalur liggi fyrir norðan og vestan þann fjallahrygg, sem hæðst liggur millum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar.‘‘
Í Dalsseli norðan Nauthólaflata - í FagradalÁrni Óla segir í bók sinni strönd og Vogar frá Dalsseli: „…auk þess eignuðust Stóru-Vogar sér selstöðu í Fagradal, þar sem heitir Dalssel, en um það var ágreiningur, því að Járngerðarstaðamenn í Grindavík eignuðu sér það líka.“
Höfundur skoðaði tóftir Dalssels í Fagradal árið 2003. Þær eru á sunnanverðum uppþornuðum lækjarbakka norðan við Nauthóla og Nautaflatir. Sjá má móta fyrir húsum og stekk eða kví ofar. Veggir sjást grónir, en ekki er að sjá hleðslur í þeim. Erfitt er að greina nákvæma rýmisskipan.”
Rétt er að geta þess að fyrrnefnd ritgerð er án efa það rit, sem finna má hvað viðarmestar upplýsingar um sel, staðsetningu þeirra og nýtingu á tilteknu svæði landsins, er um getur fyrr og síðar. Þá má vel koma fram að eftir að ritgerðin var skrifuð (vorið 2007) hefur höfundur bætt um betur og skráð allar selstöður norðan, vestan og austan Esju, þ.e. í öllu fyrrum landnámi Ingólfs, eða u.þ.b. 250 selstöður, rissað þær upp, staðsett þær með hnitum og lýst ástandi þeirra. Ekki er þó vitað til þess að sótt hafi verið um styrk til verksins, en slíks væri vel veitandi þótt ekki væri til annars en gefa mætti ritgerðina sem og viðbótina við hana út á prenti (með meðfylgjandi ljósmyndum og uppdráttum) – til varðveislu og fróðleiks upplýsinganna. Það er alltaf sárt til þess að vita að eintak slíks verks skuli að lokinni langri og mikilli vinnu vera lagt upp í hillu á safni, sem einungis örfáir hafa aðgang að.

Í DalsseliSkoðum Dalsselið svolítið nánar. Skógfellshraun er norðan Skógfellanna. Upp úr Skógfellshrauni rís allhátt fell sunnanvert, sem heitir Stóra-Skógfell. Litla-Skógfell er þar nokkru norðar, en er allmikið lægra og skiptir það löndum á milli Voga og Járngerðarstaða (að sumir telja). Stóra-Skógfell skiptir löndum á milli Járngerðarstaða og Þórkötlustaða (að aðrir telja) og eru merkin í næsta hnúk. Vogavegurinn liggur austan Stóra-Skógfells og var nefndur þar Skógfellsvegur (frá fyrri hluta 19. aldra var hann nefndur Sandakravegur) og tekur við af Sprengisandi. Mitt á milli Skógfella er svonefndur Hálfnunarhóll (í Járngerðarstaðalandi) og er þar talið hálfnað til Voga frá Þórkötlustöðum. Hraunið á milli Skógfella og Fagradalsfjalls heitir Dalahraun og nær það fram á móts við Kast. Það er lágt og víða sléttar klappir og mosaþembur. Úr Stóra-Skógfelli liggur markalínan í gjána í Kálffelli en það er lágt fell eða bunga sem er framarlega í Kálffellsheiði. Frá Kálffelli liggja landamerkin í vatnskatla í Fagradals-Hagafelli og þaðan í Innstuhæð á Vatnsheiði. Samkv. þessu er Sandhóll, sem er vestur af Kasti og Fagridalur, sem er kvos inn í Fagradalsfjall austan við Aura í landi Þórkötlustaða. Fagradals-Vatnsfell sem er norðvesturöxl Fagradalsfjalls er sömuleiðis í landi Þórkötlustaða.

Fagridalur - loftmynd

Aurar heita melar innan við og austan Dalahrauns og þar norður af eru grasflatir sem heita Nauthólaflatir. Þar var heyjað af bændum á Þórkötlustöðum. [Hér hefur jafnan gleymst að Þórkötlustaðir höfðu selstöðu í Dalseli í Fagradal, norðan Nauthólaflata]. Vesturhluti Beinavörðuhrauns nær vestur í land Þórkötlustaða. Slokahraun er á milli túnanna á Hrauni og Þórkötlustöða. Aðrar heimildir, sem fyrr er getið, kveða á um að Járngerðarstaðamenn hafi haft selstöðu í Fagradal. [Að öllum líkindum er um misskilning að ræða því engar skráðar heimildir eru til um að Járngerðarstaðabændur hafi haft selstöðu í Fagradal]. Bæði þeir og Hraunsmenn hafa hins vegar viljað eigna sér svæðið milli Vatnskatla, Kálffells og Litla-Skógfells. Það hafa einnig Vogamenn viljað gera sbr. framangreindu.
Í skrifum Guðrúnar Ólafsdóttur um sel og selstöður í Grindavík (Söguslóðir, afmælisriti helgað Ólafi Hannessyni sjötugum, 1979) segir hún m.a.: “Mönnum kemur eflaust margt fyrr í hug en græna selhaga og þriflegar selstúlkur, þegar minnst er á Grindavík, enda staðurinn frægari fyrir fisk undir hverjum steini en búkap. En Grindvíkingar hafa ekki lifað af fiski einum saman, og til skamms tíma þurftu þeir að sjá sér að mestu fyrir bújörðum sjálfir. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1703 er m.a. getið um selstöður frá Grindavíkurbæjunum. Í Krýsuvík voru 6 hjáleigur. Selsstöður voru tvær á jörðinni, önnur til fjalls en hin nálægt sjó, báðar merkilegar góðar.

Staðarhverfi - næsta "landnemaverkefni" FERLIRs

Á Ísólfsskála er ekki minnst á selsstöðu. Frá Hrauni er selstaða langt frá og þó sæmilega góð. Þórkötlustaðir brúkaði selstöðu lengi í Krýsuvíkurlandi þar sem heitir á Vigdísarvöllum (sjá meira undir lýsingar). Selstaðan var leigð frá Krýsuvík, en Krýsuvík fékk aftur skipsstöðu fyrir landi Þórkötlustaða. Selstaðan er góð, en langt og erfitt að sækja. [Hér segir af selstöðu Þórkötlustaðabænda á Vigdísarvöllum, sem er skammt sunnan við þann stað er samnefndur bær stóð síðar undir Bæjarhálsi.]
Krýsuvíkurbændur nutu þess að eiga skamma og greiðfæra leið í ríkulega selhaga, enda eru aðstæður þar að flestu leyti ólíkar. Við Krýsuvík eru allmiklir flákar af lausum jarðlögum suðvestur af Kleifarvatni og þar fyrir sunnan er jökulnúið grágrýti frá hlýskeiði fyrir síðustu ísöld. Þar hefur náðst að myndast meiri jarðvegur og gróður en annars staðar á Reykjanesskaga sunnanverðum. Þar er að finna bæði móa og mýrar, og meira að segja er þar einhvern mó að finna. [Hér er hinu týnda Kaldranaseli lýst í mýrinni austan Nýjalands].
Gísli Sigurðsson, varðstjóri í Hafnarfirði, hefur um áraraðir viðað að sér fróðleik um þetta efni og vissi manna best um það. Hann hefur farið um allan skagann og leitað seljarústa, mælt og teiknað upp grunnmyndir af þeim, sem hann hefur fundið. Hann fullyrti að leifar væru að finna eftir sel á öllum þeim stöðum, sem nefndir hafa verið hér að framan nema við Seltún, á Baðsvöllum og í Fagradal. Við Seltún hafa ummerki horfið vegna umsvifa í sambandi við brennisteinsnám á 18. og 19. öld. Á Baðsvöllum er nú skógræktarlundur Grindvíkinga. Dalssel hefur Gísli aldrei fundið, þrátt fyrir nokkra leit.
BaðsvallaselDalssel er að öllum líkindum millitíðaselsminjar, þ.e. leifar minja frá 17. og 18. öld. Áður voru selin óregluleg hús, þrískipt; annars vegar sambyggð baðstofa og búr og hins vegar eldhús, en en undir lokin, líkt og áður, tók húsaskipanin og -gerðin mið af þróun íslensla torfbæjarins – í fyrstu óregluleg, en er á leið með reglulegri rýmisskipan. Þannig má sjá nýjustu selstöðurnar með reglulegri formgerð og jafnvel svolítið stærri rýmum en áður var. Hafa ber í huga að hér er miðað við selstöður á Reykjanesskaganum, en sel í öðrum landshlutum gætu verið með öðrum kennimiðum en hér er greint frá.
Sel og selstöður hafa skipt miklu máli í hreppnum í eina tíð svo að þar má finna orðum Þorvalds Thoroddsens í Lýsingu Íslands staðfestingu: “Hve afar mikla þýðingu selin hafa haft á fyrri öldum, sést af hinum óteljandi seljarústum, sem eru dreifar um afdali og heiðar um allt Ísland. Selstöður og nýbýli hafa verið nátengd hvert öðru, og á halllendum og útskæklum hálendisins eru mjög víða dreifðar rústir eyðibæja og selja, hvað innan um annað, enda hefir notkun þessara fjallhúsa skifst á ýmislega, sel og beitarhús orðið að sjálfstæðum býlum o.s.frv.”.
Ekki hefur tekist að timasetja með óyggjandi hætti hvenær síðasta selförin var farin. En ljóst er, að í þessum hraunbrunna úgerðarhreppi hafa grænir selhagar freistað búsmala og þriflegar selstúlkur strokkað smör í seljunum, sem enn sér móta fyrir á eggsléttum völlum á bak við gróðurlaus fjöll.”
Nýjustu upplýsingar benda til þess að selstöður hafi tíðkast á landssvæðinu allt frá landnámi til loka 19. aldar. Selstöður einstakra bæja breyttust á tímabilinu – nýjar voru teknar upp og eldri lögðust af. Ástæður staðsetninga þeirra breyttust einnig. Elstu selstöðurnar voru hvorutveggja tákn um nýtingarþörf og landnámsvernd, þ.e. þær voru staðsettar á ystu mörkum líkt og til að sýna fram á eignarréttinn. Síðar endurspegluðu selstöður bæði ástand í búskaparmálum landssvæðisins og möguleikum ábúendanna. Harðræði og erfitt árferði fækkaði selstöðum og jafnvel sameinaði aðrar nálægar. Hafa ber í huga að að allt líf landsmanna snerist um að halda lífi í sauðkindinni svo hún mætti halda lífi í mannskepnunni. Undir lok 19. aldar urðu umtalsverðar breytingar – líkt og oft vilja verða – sauðfé fjölgaði margfalt með aukinni heimatúnræktun, fólki fækkaði að sama skapi, en kúm bænda fjölgaði að sama skapi. Þetta varð til þess að ekki varð lengur nauðsynlegt að nytja ær í seli heldur var kúamjólkin unnin heima á bæ til mótvægis. Fé, sem áður var nýtt til mjólkurnytja, var nú fyrst og fremst nýtt til kjötnytja – í því fólst ágóðinn. Hér verður, fyrrum líkt og eftirleiðis, að horfa til markaðslögmálanna tveggja – framboðs og eftirspurnar sem og breyttrar samfélagsmyndar.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall, Nauthólar og Dalssel.