Prestastígur

Gengið var þvert yfir vestanverðan Reykjanesskagann um Prestastíg frá Húsatóftum (Húsatóttum/Húsatóptum) á sunnanverðum skaganum yfir í Hundadal ofan við Kalmannstjörn á honum norðanverðum með viðkomu í fiskgeymslubyrgjum í Sundvörðuhrauni og öðrum sambærilegum í Eldvörpum, auk þess sem skyggnst var inn í útilegumannabælu í hraununum. Þessi kafli Prestastígsins er að jafnaði u.þ.b. 16 km, en að þessu sinni var ætlunin að nýta nálægt 20 km í þágu göngunnar.

Eitt af nýfundnum byrgjum í Eldvörpum

Prestastígsnafngiftin er tiltölulega nýlegt heiti á þessari annars fornu þjóðleið, sem um aldir hefur verið nokkuð fjölfarin milli Staðahverfis og Hafna. Sú skýring á nafninu er þó líkleg að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fyrrum fornu leið. Presthóll á hæstu hæð Hafnamegin undirstrikar nafngiftina. Annars er leiðin ágætt dæmi um seinni tíma prestaleið því gatan er bæði vel og þétt vörðuð, auk þess sem hún er unnin víðast hvar, bæði með brúargerð í gjám og úrkasti í móum og melum. Yfirvaldið hafði í hendi sér að nýta þegnskylduánauðina og hvernig gat verið nýtanlega en við vörðu- og vegagerð? Þegar horft er á vörðurnar má sjá mismunandi handbragð, auk þess þær geta verið ólíkar að stærð og lögun. Efnið í þeir er einnig mismunandi því það tók óneitanlega mið af aðstæðum á hverjum stað. Handbragðið og útlitið gæti hafa breyst frá því að vörðurnar voru fyrst hlaðnar því búið er að endurhlaða margar þeirra á leiðinni. Meginlínan hefur þó haldið sér, þ.e. að vörðurnar eru vestan stígsins. Þó má sjá stakar vörður á leiðinni, sem virðast ekki vera í röðinni. Ein þeirra er t.a.m. landamerkjavarða á mörkum Hafna og Grindavíkur vestan götunnar og önnur var hlaðin austan hans eftir að maður varð úti eða bráðkvaddur á leiðinni. Sumar varðanna eru nú fallnar og hafa ekki verið endurhlaðnar, einkum á miðkafla leiðarinnar, vestan Sandfellshæðar.
Í seinni tíð hefur þessi fornu þjóðleið verið nefnd Prestastíg en hvergi finnast þess merki í gömlum heimildum. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin (Árnastíg, Skipsstíg og Skógfellastíg) en segir svo: “Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast, liggur upp frá Húsatóftum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá eini sem héðan farinn verður þangað”. Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.
Annað nýfundið byrgi í EldvörpumGengið var upp frá Húsatóftum. Nú er gatan vörðuð upp af brún Hjálmagjáar norðan við Harðhaus og Dansinn, en hún lá áður upp frá Nónvörðu suðvestan við Húsatóftir. Þar voru gatnamótin að Stað og Húsatóftum/Járngerðarstaðahverfi til austurs. Við þann kafla leiðarinnar má enn sjá fallnar vörður að Gerðisvöllum ofan við Stóru-Bót. En þar sem engin varða er á leiðarkaflanum frá Nónvörðu að gatnamótum þessarra hlöðnu varða upp frá Hjálmagjá má ætla að gatan hafi fyrrum ekki verið jafn vel vörðuð og nú má augum líta.
Þjóðsögur eru tengdar bæði Harðhaus og Hjálmagjá, en þær má sjá annars staðar á vefsíðunni þar sem umhverfi Húsatófta er lýst.
Ofan við Hjálmagjá er Byrgishæð. Á henni má sjá leifar nokkurra fiskbyrgja frá Húsatóftum. Móar eru ofan gjárinar. Þegar komið er upp fyrir gatnamót “Staðarvegar” skýrist gatan verulega. Ofar, örlítið til vinstri, er Skothóll (með fuglaþúfu á) og til hægri handar eru 
Tóftarkrókar inn í apalhraunbrúnir, sem þar eru. Hraunið er hluti af einu Eldvarpahraunanna. Gengið var yfir Miðgjá og síðan Hrafnagjá. Í hana hefur verið hlaðin myndarleg hraunbrú.
Leifar útilegumanna?Þegar tilteknu miði var náð var stefnan tekin til austurs, að fiskigeymslubyrgjunum undir jaðri Sundvörðuhrauns. Byrgi þessu féllu í gleymsku, en fundust aftur á seinni hluta 19. aldar. Vildu menn meina að þarna hefði verið tilbúnir felustaðir Grindvíkinga ef Tyrkirnir kæmu aftur (þeir komu til Grindavíkur í júnímánuði 1627 og tóku 12 íbúa og 3 Dani herfangi) eða að þarna hefðu útilegumenn leynst um tíma. Fjallað er um Tyrkjaránið I og Tyrkjaránið II sem og “Tyrkjabyrgin” á annarri vefsíðu FERLIRs].
Þá var stefnan tekin á sambærileg byrgi, ósnert í Eldvörpum. FERLIR fann þau fyrir stuttu. Byrgin er sambærileg hinum fyrri og bíða rannsóknar áhugasamra fornleifafræðinga. Sú rannsókn gæti upplýst tilurð og notkun byrgjanna á báðum stöðunum.
Eldvarpagígaröðinni var fylgt yfir á Prestastíg og stefnan tekin á Hundadal. Rauðhóll var á vinstri hönd og síðan Sandfellshæð á þá hægri.
EGatvarða við Prestastígldvarpahraunið er yngsta hraunið á svæðinu, rann árið 1226. Þá gaus á u,þ.b. 10 km langri sprungurein. Meðal jarðfræðinga er hraunið nefnt einu nafni Eldvarpahraun en í tali heimamanna hétu einstök svæði þess ýmsum nöfnum, m.a. Sundvörðuhraun. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir og er gígaröðin ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur verið hlíft við efnistöku. Eldsumbrotin á þrettándu öld yst á Reykjanesskaganum stóðu með hléum frá um 1210 til 1240. Mest gekk á árið 1226. Þessi hrina er nefnd Reykjaneseldar af fræðimönnum.
Rauðhóll er hluti af eldri gígaröð sem Eldvarpahraunið hefur hulið að allnokkrum hluta. Rauðhólshraunið er talið 2000-3000 ára. Vestan við Sandfellshæð ævagamall hóll, Einiberjahóll. Hann er stakur gígur sem Rauðhólshraunið hefur umlukið.
Í Sandfellshæð er stór gígskál, Sandfellsdalur, og þar á hið mikla hraunflæmi dyngjunnar upptök sín. Hraunið er talið hafa runnið fyrir um 12 þúsund árum. Þegar norrænir menn komu til Íslands, síðla á níundu öld, var svæði þetta allt vel gróið en eftir mikil eldsumbrot og öskufall á Reykjanesi á öðrum fjórðungi þrettándu aldar hófst uppblástur á svæðinu. Ef grafið er niður í sandbollana í hrauninu þá er komið niður í jarðveg. Önnur gatvarða við Prestastíg
Norðvestan við Sandfellshæðina breyttist landlagið. Nú tóku við móar og síðan, þegar komið var yfir sigdæld milli dyngjunnar og Haugsvörðugjár, varð fínn basaltsandur ráðandi. Sandurinn er upprunninn í Stóru-Sandvík, en eftir að fok hans var heft um miðja 20. öld, snarminnkaði ángurinn á heiðina. Áður hafði honum þó tekist að leggja alla bæina vestan Kalmanstungu og Junkaragerðis í eyði. Gjáin dregur nafn sitt af hól vestast við gjána, Haug. Í kringum hólana er þunnt gjallkennt hraun og er það eldra en 8000 ára. Norðan þeirra taka við Stampahraunin með sínum fjórum sprungureinagígaröðum. Syðsta röðin nefnast Hörsl.
Prestastígur liggur um flekaskilin milli Evrópu- og Norðurameríkuflekanna. Í rauninni eru flekaskilin á öllu miðsvæði landsins frá SV til NA, allt frá norðvestanverðu Reykjanesi austur að Heklu. En ef menn vilja hafa einhver tiltekin mörk þar sem skilin eru nákvæmlega er ekkert verra að hafa þau við Haugsvörðugjá en einhvers annars staðar.
Þá tók við Kinnin og Presthóll sást framundan. Handan hans sást heim að Merkinesi og yfir til Hafna. Tvær gatavörður eru á þessum kafla er stinga í stúf við annars hefðbundnari vörðugerð á leiðinni. Hugsanlega hefur sá, sem falið var vörðugerðin á þessum kafla, viljað annað hvort breyta til eða tjá hug sinn til verksins með þessu framtaki. Og eflaust hefur handverkið fengið mikla umfjöllun í sveitinni og hverjum sýnst sitthvað um framtakið. Þessar vörður eru reyndar táknrænar fyrir það hvað allt öðruvísi getur verið eftirminnilegt.
Þá sást heim að Kalmannstjörn. Heiðin er tekin að gróa upp með staðbundum plöntum, sem er ánægjuleg þróun á vistkerfinu.
Þegar komið var niður í Hundadal var látið staðar numið, en stígurinn liggur áfram til austurs norðan Hafnavegar. Nokkrar vörður við hana standa enn, en aðrar eru fallnar.
Ánægður hópur að leiðarlokumÖll þessi leið er, sem fyrr segir, vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir. Víða sést hvar umferðin hefur markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefur verið tínt úr götunni og lagt til hliðar. Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi, sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi og þar hafa skreiðarlestir verið á ferð. Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þarna um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda og öfugt, því Hafnamenn þurftu áður að sækja verslun til Grindavíkur um aldir.
Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils Ketilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip á árunum 1870 – 1880 og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna. Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma. Hann byggði steinkirkju þá sem enn stendur á Hvalsnesi, en Ketill átti m.a. alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík.
Frábært veður. Gangan tók 7 klst og 7 mín.

Heimildir m.a.:
-Kristján Sæmundsson

Prestastígur

Prestastígur