Kistufellsgígur

Ætlunin var að leita að hyldýpum þeim er fundust og týndust aftur norðvestan Kistufells í Brennisteinsfjöllum. Opin eru skammt suðaustan við sjálfstæð eldvörp. Þau eru a.m.k. tvö, lítil umleikis, en undir sléttri hraunhellunni virtist einungis vera svart myrkrið.

Kistufell (neðst t.h.) og hrauntraðir

Gengið var upp Kerlingargil á Lönguhlíð, haldið upp rofsléttu og inn í “eldvörp” norðvestan mikillar hrauntraðar frá Kistufellsgígnum. Þaðan reyndist vera hið ágætasta útsýni að Kistufelli og Kistufellshellunum.
Forsagan er sú að þegar FERLIRsfélagi var á gangi á þessum slóðum á óhefðbundinni leið inn að Kistufelli fyrir u.þ.b. hálfum áratug síðan kom hann að litlu opi, u.þ.b. 2 metrar í þvermál. Opið var á sléttri hraunhellu eldra hrauns milli Kistufellshraunanna, norðvestan gígsins, milli hrauntraðanna tveggja, heldur þó nær þeirri austari. Þegar hann lagðist á magann og horfði niður í myrkrið sá hann að hvorki sáust veggir né botn. Kalt loft kom upp um opið, enda snemmsumar. Skammt frá þessu opi var annað, svolítið minna, einnig á sléttu helluhrauni. Þar undir sást ekki heldur til botns. Og þar sem ferðalangurinn var einungis á leið inn að Kistufellsgígnum hafði hann þá engan sérstakan áhuga á götunum – hvorki merkti þau með vörðum né lagði staðsetninguna sérstaklega á minnið – og hélt því ferð sinni áfram. Það var ekki fyrr en seinna að ferðalagið rifjaðist upp og götin þóttu einkar athyglisverð. Sérstök ferð var síðar farin með Birni Hróarssyni, jarð- og hellafræðingi, sömu leið með það fyrir augum að endurfinna götin. Þau fundust ekki, en hins vegar fannst vænlegt op nokkru norðvestar, fullt af snjó.

Kerlingargil

Gangan upp um Kerlingargil tók um 50 mín. Um er að ræða auðvelda leið upp á Lönguhlíðar. Gengið er í urð lækjarfarvegs alveg upp í “fóðurkistuna” efra. Ljós rák leysingarvatnsins, sem nú var löngu uppþornað, á steinunum rekja leiðina. Í þeim farvegi er grjótið fast fyrir og traust undir fót. Ef hins vegar staldrað var við miðleiðis og lagt við hlustir mátti heyra steinvölur skoppa niður hlíðarnar áleiðis að gilbotninum. Þarna voru greinilega stöðugar umhverfisbreytingar í gangi, með góðri aðstoð veðra, vatns og vinda.

Þegar upp úr gilinu var komið tók við flatlend “vatnsfóður”skál. Myndarleg varða trjónir efst á brúninni. Ástæða er til að leggja hana á minnið. Hún verður einkar hjálpleg þegar ganga þarf til baka því þá verður hún eina virkilega kennileitið og getur sparað verulegan tíma.
Hrauntröð KistufellsgígsSkálinni var fylgt upp með hamrabrúnum og síðan haldið upp fyrir þær. Þá tók við berangurslegur klapparmói. Einkennisplanta efribrúna Lönguhlíða upp að Brennisteinsfjöllum er smjörvíðirinn. Aðgengilegast er að rekja fóðurskál gilsins áfram upp á brúnirnar ofan við Urðalágar, en það nafn á tveimur grunntjörnum undir klapparholti. Ofar tekur við urðarangur. Báðar tjarnirnar voru nú þurrskroppa með vatn og þurrtíglar byrjaðir að myndast í moldarbotnum þeirra.
Hér efra tók söngur lóunnar að vekja sérstaka athygli, en þögnin hafði einkennt neðrihlutann. Rjúpnavængur, eggjaskurn og fleira gáfu til kynna hver sökudólgurinn væri. Hann lét þó ekki á sér kræla að þessu sinni.
Hrauntröðsendi KistufellsgígsinsÞá var komið að góðgætinu; hraunleifum Kistufellshrauns. Þær birtust sem útvörður sem dagað hafði upp – þvert á leiðina. Þegar meðfylgjandi loftmynd var skoðuð mátti sjá hvar mikil hrauntröð hafði komið úr Kistufellsgígnum, runnið til norðurs, en síðan beygt til norðvesturs. Á leið hans hafði tröð myndast til vesturs, en meginstraumurinn eftir sem áður fylgt meginhrauntröðinni lengra til norðvesturs. Þar við endimörk klofnaði hraunstraumurinn. Suðaustari hrauntröðin endar í myndarlegri hraunskál, gróinni líkt og tröðin í heild. 

Í norðvestari hrauntröðinni má sjá hvar endi hennar hefur aðskilist með hraunbrú eins og umhverfis og líkist hann stakri gígskál. Þarna hefur fyrrum verið minni rás á milli, en lokast.
Um 30 metrum suðaustan við austari hrauntröðina er gat í hraunið, um 10 metra djúpt og um 5 metrar í þvermál. Ekki verður komist niður í gatið nema með aðstoð kaðalstiga, kaðals eða 6 m stiga. Hægt væri að láta stigann nema við brún neðra og forfæra hann síðan niður á við. Ómögulegt er að svo komnu máli að segja til um hvað þar kann að leynast.

KistufellsgatiðHaldið var áfram yfir þennan annars meginhraunstraum Kistufellsgígsins yfir á eldra og sléttara helluhraun. Gengið var um fyrrnefnda hraunhelluna, en segja verður eins og er að þar er saman að líkja nálinni og heystaknum. Í minni ferðalangsins “gekk hann fram á opinn, án þess að sjá þau úr fjarlægð”.
Þótt svæðið sé ekki yfirþyrmandi þarf að gefa sér góðan tíma til að skoða það allt. Það verður gert enn á ný í sumar.
Þegar haldið var til baka lagðist loka skyndilega yfir svæðið. Hún lagðist þó aldrei yfir gönguleiðina. Þéttur þokuveggurinn lá með henni, svo þykkur að þegar göngustaf var stungið inn í hann, hvarf endinn sjónum. Handan veggjarins réði birtan ríkjum og framundan mátti sjá vörðuna ofan Kerlingargils. Stefnan var tekin á hana og brúnum fylgt að gilinu.
Þegar holan var borin undir Björn kom í ljós að hann hafði þegar klifrað niður í hana. “En það þarf járnkarla og verkfæri til að færa til grjót neðst í holunni til að komast inn í rásina”, að hans sögn.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Kistufellsgígur

Kistufellsgígur.