Þegar skoðaðar voru örnefnaskrár fyrir allar Grafningsjarðirnar kom ýmislegt í ljós, t.a.m. nákæmari staðsetning á Grímkellsleiði við Ölfusvatn, ártalssteinn (1736) þar í nálægð sem og enn einn hlautsteinninn – minni (skálalaga).
Útsýni úr TvídyraÞegar fyrirliggjandi upplýsingar um selstöður voru skoðaðar varð niðurstaðan einkum sú að einhvern tíma mun taka að pússla saman fyrirliggjandi upplýsingum um Grafningsselin, þ.e. aldur þeirra. Svo virðist sem “Nýjasel” hljóti að vera mun eldra en af er látið. Því ættu nýrri seltóftir að vera þarna einhvers staðar. Í lýsingunum er ekkert sagt um aldur Nýjasels, einungis að tóftir sjáist þar enn. Í öðrum heimildum er sagt að þar hafi “síðast verið haft í seli 1849”. Grunur er um að selstaðan hafi verið flutt úr “Nýjaseli” í Gamlasel undir Selhól því “Nýjaselið” virðist enn eldra. Þaðan hafi selstaðan síðan verið flutt niður í Hagavík, enda var tilhneiging að færa selstöðurnar nær bæjunum í seinni tíð, einkum vegna fólksfæðar, auk þess sem ekki var lengur þörf á að nýta upplandið líkt og var áður fyrr. Upp úr selinu í Hagavík hafi síðan byggst bær, likt og á Nesjavöllum, og líklega um tíma í Kleifarseli. Þörf er á að gaumgæfa Hagavíkina við tækifæri.
Þá var farið frá Sogsvirkjuninni upp með Björgunum og m.a. litið á Bríkarhelli og Haugahelli, fjárskjól austar með affallinu, og síðan á Tvídyra og gengið allt að Skinnhúfuhelli. Áræðin og nauðsynin voru ekki nægilegar til að feta einstigið að hellinum þjóðsagnakennda að þessu sinni, enda mjög tæpt orðið. Áhugavert væri þó að komast í hellinn og mynda. Bætt var við fyrri lýsingu á vefsíðunni, sjá
Skinnhúfuhellir.
Eitt af næstu verkefnum FERLIRs verður m.a. að skoða Króksel, en skv. örnefnalýsingu mun það vera austan Kaldár, “mjög fornar rústir; í Selmýri og Stardal”. Þá þarf að skoða Ingveldarsel því í örnefnalýsingu segir að “þar hafi síðast verið haft í seli í Grafningi”. Nokkur vinna er því framundan svo fyrirliggjandi upplýsingar megi koma heim og saman við vettvangsstaðreyndir.

Skinnhúfuhellir

Skinnhúfuhellir.