Gjásel

Í umföllun um selin á Reykjanesskaga vestan Esju verður lýst tilheyrandi mannvirkjum, staðsetningu, notkun, aldri, umfangi og hvernig umhorfs var í sumum þeirra um síðustu aldamót (2000). Bornar eru saman upplýsingar úr NesselJarðabók Páls Vídalíns og Árna Magnússonar árið 1703 við sel, sem þekkt eru á Skaganum og reynt að lýsa hvernig sel á svæðinu voru frábrugðin seljum annars staðar á landinu með hliðsjón af skrifum Egons Hitzlers. Einnig voru skoðuð skrif Guðrúnar Sveinbjarnardóttur um sel. Meðfylgjandi eru síðan skrif fólks um sel á afmörkuðum hlutum Reykjanessins er birt hafa verið, s.s. Guðrúnar Ólafsdóttur um Grindavíkurselin og Sesselju Guðmundsdóttur um Vatnsleysustrandarselin. Loks fylgja með lýsingar höfundar á mörgum seljanna er skoðuð voru árið 2000, tafla um fjölda þeirra og staðsetningu sem og ljósmyndir (153) og uppdrættir (27) af seljum og seljasvæðum.

Þá er fjallað um fornleifar, gildandi lög og reglugerðir um þær og mikilvægi þess að varðveita minjar, sem geta haft sögulegt gildi eða tengjast lífsháttum fólks og atvinnuháttum í gegnum aldir.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

Samkvæmt rituðum heimildum, frásögnum staðkunnugra manna og eftir nákvæma leit á svæðum, sem líklegar selstöður gætu verið að finna á Reykjanesi, liggur fyrir að selin hafi a.m.k. verið 139 talsins á 102 stöðum . Þau hafa öll nema eitt verið skoðuð og staðsett. Þórusel, sem vera á skammt ofan við Reykjanesbraut á Vatnsleysuströnd, hefur ekki verið staðsett af nákvæmni því að a.m.k. tveir staðir í og við hraunhóla koma til greina, en óverulegar minjar eru á báðum stöðunum. Einnig segir í heimild að jörðin hafi átt selstöðu “þar sem kallaðar eru Fornuselshæðir” [Sýrholt], en verið aflögð. Þá eru þrjú sel horfin með öllu, þ.e. Reykjavíkurselið í Ánanaustum, Hraunsholtsselið við Flatahraun og sel frá Kalmannstjörn undir Stömpum. Fyrrnefndu selin voru eyðilögð af mannavöldum en hið síðastnefnda “eyddist að mestu fyrir sandi” .

Þorkelsgerðisból

Þorkelsgerðisból.

Þrátt fyrir að miklu hafi verið safnað um fornminjar og mannvirki á Reykjanesi og margt skráð og skrifað um búskaparhætti hefur seljunum lítill gaumur verið gefinn. Brynjúlfur Jónsson fór t.a.m. um Reykjanesið skömmu eftri aldarmótin 1900 og leitaði og skráði minjar, en ekkert um sel. Í söfnun Magnúsar Grímssonar um fornminjar á Reykjanesi tókst honum að fara um allt Nesið og safna miklu efni án þess að minnast á eitt einasta sel.

Nessel - tóftir

Í verðlaunaritgerð Skúla Magnússonar, landfógeta, um Lýsingu Gullbringusýslu og Kjósarsýslu er getið þess merkasta í hverri sókn. Einungis í tveimur þeirra er minnst á sel. Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 segir að “nú brúkar enginn hér selstöður og séu Garðar undanteknir, sem höfðu pening í seli til 1832. Hafa ei selstöður héðan verið brúkaðar í næstliðin 50-60 ár”. Geir Bachmann segir og í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41 að “Staður eigi selstöð á Selsvöllum sem og allir bæir í sókninni, nema Hraun, sem hefur í seli litlu vestar..… Vanalegt er að hafa í seli 8du viku sumars og aftur í 16 eða síðast í 17 viku af sumri, nema óþurrkar hafi hamlað fólki að ná töðum af túnum sínum”.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar tófta seljanna var leitað og þær skoðaðar árið 2000 var hægt að ganga að sumum þeirra á vísum stöðum, en að öðrum þurfti að leita oftar en einu sinni. Tóftir fundust á fjórum stöðum þar sem líklegt má telja að haft hafi verið í seli, a.m.k. um tíma, þrátt fyrir að staðanna sé hvergi getið. Einn þeirra er í Hnúkunum og annar vestast í landi Lónakots, svo til alveg niður við sjó, sem reyndar er óvenjuleg staðsetning á seli miðað við staðsetningu annarra selja á Reykjanesi. Hafa ber þó í huga að hið eiginlega Lónakotssel neðan við Krossstapana var talið lélegt og þaðan hafi þurft frá að hverfa vegna vatnsskorts í þurrkum.

Seltóftir

Minjarnar vestan Lónakots gætu bent til þess að selið hafi verið fært þangað niður eftir vegna þessa, en það er, ef marka má mannvirki, sem þar eru, mun yngra. Þau bera þó öll merki seljabúskapar, s.s. tvískiptur stekkur, kví, tóftir með selshúsalagi, fjárskjóli og gerði og jafnvel nátthagi og rétt. Ekki er útilokað að þaðan hafi einnig verið gert út með einhverju lagi vegna nálægðarinnar við sjóinn. Sjóbúðin í Lónakoti var þó á sjávarkambinum svo til neðan við bæinn. Tóftir í Hnúkunum virðast hins vegar miklu mun eldri. Við þær er holur hraunhóll. Í honum og við eru manngerðar hleðslur. Skammt norðan við tóftirnar er gott vatnsstæði í gróinni dalkvos. Hvorugar þessara minja hafa verið skráðar svo vitað sé þar til nú. Þá er minja, sem fundust við leit á Garðaflötum, ekki getið annars staðar en í þjóðsögu af leifum bæjar, sem átti að vera þar “áður en hraunið rann”.

Garðaflatir

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.

Í sögunni áttu Garðar að hafa verið þar áður en fólkið flúði undan hrauninu með lampa. Átti það, skv. sögunni, að reisa sér bæ að nýju þar sem ljósið slokknaði. Það mun hafa verið þar sem Garðar og Garðakirkja eru í dag. Í gróinni brekku við norðaustanverða vellina eru nokkrar tóftir, garður, hringlaga gerði og mannvirki er gæti hafa verið kví eða stekkur. Fornar kirkjulýsingar frá Görðum benda til þess að staðurinn hafi nýtt Selgjá, Búrfellsgjá og jafnvel Garðavelli sem selstöðu. Loks má telja líklegt að Rauðshellir norðan Helgadals hafi verið notaður fyrir selstöðu því við hann er að finna gamlan, næstum jarðlægan, stekk. Í grunnu grónu jarðfallinu gætu verið leifar húss og við op hellisins eru hleðslur líkt og í öðrum fjárskjólum við sel á Reykjanesi. Einnig eru sambærilegar hleðslur inni í hellinum að vestanverðu. Nefndur stekkur hefur ekki fyrr verið skráður. Tóftir og fjárskól á tveimur stöðum Selvogsheiði, vestan Hellholts, hafa heldur ekki verið skráð, en þar eru hús á tveimur stöðum, stekkir sem og fjárskjól með hleðslum.

Hvassahraunssel

Þjóðsögur hafa tengst seljum, s.s. um samskipti huldumanna og selráðskvenna, dráp (nykur varð selráðskonu að bana við Hvaleyrarsel um 1880 ), hróp í Kirkjuvogsseli o.fl., en þær sögur verða ekki raktar hér.

Í ritgerðinni er fjallað um mannvirkin í og við selin, s.s. fjárskjól, stekki, kvíar, brunna, nátthaga, réttir, vatnsstæði, garða og gerði. Einnig leiðir (stíga og götur) að sumum þeirra.

Getið er um og vitnað til fyrri skrifa og heimilda um sel og selsbúskap hér á landi, s.s. skrifa Daniel Bruun um selbúskap, Jónasar Jónassonar, Ólafs Þ. Kristjánssonar og Sigurlínar Sigryggsdóttur um lífið í seljum. Þá hefur verið farið yfir margt, sem ekki var talið ástæða til að tiltaka að þessu sinni, bæði vegna þess að meginefnið kemur fram annars staðar eða vegna þess að umfangið var þegar orðið of yfirgripsmikið. Það bíður því annars tilefnis og betri tíma.

Sjá meira um einkenni seljanna á Reykjanesskaga HÉR.

Sel

Sel vestan Esju – ÓSÁ.