Búrfellskot

Þegar gengið er um suðurhlíðar Búrfells má sjá stakar gróðurtorfur í Búrfellsbrekku, aðallega gras, millum gróðurvana melfláka. Tóftir eru í suðvesturhlíðum Búrfells austan við Seljadalsá. Þær kúra þarna á lágum hól út úr hlíðinni. Neðan við tóftirnar liggja þjóðvegir, hlið við hlið.

Búrfellskot

Búrfellskot.

Í svari Örnefnastofnuna (SS) við fyrirspurn um uppruna nafnsins Búrfells í ágúst 2002, kemur fram að “Búrfellin eru a.m.k. 47 talsins á landinu, nokkuð há stapafjöll mörg hver með klettum ofantil. Vel má vera að nafnið hafi upphaflega verið ósamsett, Búr, en síðari liðnum -fell, bætt við til skýringar. Búr er einmitt til sem nafn á þverhníptum klettum í sjó. Líklegt er að nafnið Búrfell sé dregið af orðinu búr í merk. ‘matargeymsla’, og þá helst sem stokkabúr, sem voru reist á lóðréttum bjálkum upp frá jörð svo að dýr kæmust ekki í þau, öðru nafni stafbúr”.
Þegar gengið er um suðurhlíðar Búrfells má sjá stakar gróðurtorfur í Búrfellsbrekku, aðallega gras, millum gróðurvana melfláka.
Búrfellskot er merkt í eyði suðvestan undir Búrfelli. Þar er Leirtjörn suðaustur af og Hafravatn vestan. Ekki er minnst á kotið í Jarðabókinni 1703, en þar er hins vegar fjallað um Búrfell. Það var önnur hjáleiga af tveimur frá Miðdal. hin var Borgarkot. Undir það síðasta var Búrfell nafn á húsi, sem var rifið í kringum 1980. Grunnurinn sést enn neðan og suðvestan við Búrfellskotið, sem hér er fjallað um.

Búrfellskot

Búrfellskot – loftmynd.

Um Búrfell, sem þá er sennilega sama og Búrfellskot, segir m.a.: “Nú í eyði og hefur í eyði legið hjer um 8 ár. Fóðrast kunnu ii kýr og ekki meira. Torfskurður til húsa og eldiviðar var nægur. Þessi hjáleiga var fyrst það menn vita uppbyggð fyrir vel 20 árum, þar sem menn meina að fyrir lángri æfi muni býli hafa verið, og veit þó enginn til þess annað, en hvað fornar girðingar og húsabrotaleifar, sem þar voru fyrr en nú að nýju var uppbyggt, sýna fornrar byggðar merki. Lagðist þetta kot mest í eyði fyrir óbærilegum átroðningi þjóðgötu, sem þar liggur í gegnum túnið, og er þetta kot ekki þess erfiðis vert, sem kosta vildi að gjöra þar bygð að nýju, sá ágángi ferðamann gæti af hrundið og þykir því ei aftur byggjandi.”
Samkvæmt framansögðu mun Búrfell eða Búrfellskot hafa byggst um 1680, upp úr fornum leifum.
Á einni torfunni, sem rís nokkuð hátt í neðri hlíðum fellsins, eru tóftirnar, nú grónar og orðnar nokkuð jarðlægar. Neðan við þær liggur grannur gróinn vegur til austurs upp skáhlíðina, áleiðis inn að Leirtjörn. Hann er víða horfinn beggja vegna. Neðan hans er önnur gömul gata, eldri, sennilega aflögð reiðleið. Efri vegurinn virðist geta hafa verið vagnvegur, a.m.k. manngerður.
Þegar tóftirnar eru gaumgæfðar má sjá móta fyrir þremur rýmum í megintóftinni. Erfitt er að greina fleiri hús, en svæðið allt um kring er mjög grasloðið og stórþúfótt. Vottar fyrir rými vestan við tóftina. Ofan við rústina er greinilegur lítill garður, einnig gróinn. Austur og norðurveggurinn sjást greinilega, en engar hleðslur. Ofan við norðausturhornið er hvylft inn í brekku. Sunnan við hana og austan við garðinn gæti mótað fyrir lítilli tóft.

Búrfellskot

Búrfellskot – uppdráttur ÓSÁ.

Megintóftin er með tveimur sæmilega góðum rýmum og þá virðist hafa verið rými framan við vestara rýmið, þar sem hafa verið dyr er vísað hafa til suðvesturs, niður hlíðina, að veginum.
Af koti að vera hefur það verið mjög lítið og einfalt að allri gerð, ólíkt kotum t.d. á Sléttunni og víða annars staðar, sem voru jafnan margflóknari. Hins vegar bera tóftirnar yfirbragð selshúsa, en garðurinn fyrir aftan þær tengir þær frekar kotbúskap. Slíkur garður, fast við hús, eru sjaldgæft í seljum á Reykjanesskaganum (landnámi Ingólfs). Þeir þekkjast þó, s.s. í Brunnastaðaseli og Helguseli, en þar er hann minni og er að öllum líkindum leifar af stekk. Ekki er með öllu útilokað að garðurinn hafi fyrrum verið hluti af stekk við selshús, en ýmislegt bendir til þess að þá hafi þau vaxið upp úr seli og garðurinn verið notaður til matjurtargerðar við lítið örreitiskot þarna í hlíðinni.
Fleiri mannvirki gætu verið falin þarna á þúfnablettum. Vatn er í Seljadalsánni, Leirtjörn og Hafravatni, en vatnsgangurinn hefur þá jafnan verið til drjúgur. (En hvað höfðu kotbændur s.s. með vatn að gera öðru jöfnu)? Sunnar eru nú tún (sennilega frá Miðdal)
Niðurstaðan gæti verið þessi: Þarna er um að ræða tóftir svonefnds Búrfellskots (vantar nánari upplýsingar um það), sem að öllum líkindum hefur orðið til upp úr fornu seli eða öðru eldra koti. Graslendi hefur verið þarna ágætt fyrrum þótt nú séu þar einungis stöku gróðurblettur, þar sem fyrrnefnd “tún” áttu að hafa verið.
Frá kotshólnum er ágætt útsýni yfir niðurdalinn og að Hafravatni.
En hvort þarna hafi fyrrum verið sel skal enn ósagt látið – þangað til annað kemur í ljós. Tóftir Búrfellskots (Búrfells) eru í skjóli undir suðvesturhlíð Búrfells, í skjóli fyrir rigningaráttinni – líkt og selja var jafnan háttur á þessu landssvæði.
Þjóðleiðin fyrrnefnda, er gerði kotbónda og fólki hans erfitt fyrir, hefur væntanlega legið meðfram Hafravatni og áfram áleiðis til Þingvalla. Mörg sambærileg dæmi eru til um áþján ábúenda af ferðafólki því ekki var það allt á ferð með fríðu föruneyti.

Búrfellskot

Búrfellskot.

Um göturnar fór einnig fólk, sem hafði það eitt að markmiði að njóta þess litla af þeim fáu er á vegi þess varð – og þá voru kotbændunum, af mörgum, enginn griði gefinn, og það þótt hann hafi dags daglega varla haft nóg fyrir sig og sína. Og ekki hafa húsakynnin verið rífleg, en skjólgóð hafa þau verið fólki á langri leið.
Skv. upplýsingum Sesselju Guðmundsdóttur, sem þekkir þetta svæði orðið býsna vel, konu með mikla reynslu, er “gamli vegurinn þarna elsta gatan til Þingvalla um Seljadal og liggur þétt með Leirtjörn, en sveigir svo til norðurs yfir mýrina (þar gömul torfbrú, var vel sjáanlega f. nokkrum árum) og liggur norður fyrir Silungatjörn að mig minnir. Þessi gata er mjög skýr í gegnum Kambsréttina og áfram inn á heiðina. Hef verið að skoða hana Mosfellsheiðarmegin (er að hnita hana). Ef þú leggur bílnum við gamla bílskúrinn f. ofan Miðdalshúsið og gengur þar beint upp á hæðina til NA þá kemur þú strax á þessa götu. Svo er nú ekki slæmt að hafa öll bláberin þarna á haustin, þ.e.a.s. áður en gæsin étur þau frá manni – sem gerist of oft”!
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Jarðabók ÁM og PV 1703.
-Örnefnastofnun – http://www.ornefni.is/d_skoda.php

Búrfellskot

Búrfellskot – gata.