Dollan

Farið var í Dolluna, sem er rétt við gamla Grindavíkurveginn, við bílastæðið á Gíghæð. Dollan opnaðist er þakið féll niður undan vörubíl þegar verið var að vinna við nýja veginn, en þá var svæðið þarna notað sem athafnasvæði verktakans. Opið er vestan til í svæðinu. Dýptin á fast er um tvær mannhæðir og hallar síðan undir á alla vegu. Þarna hefur Grindavíkurbær komið fyrir góðum stiga fyrir ferðafólk enda var ástæða til að gera hellinn aðgengilegan svona ofurnálægt vegi. Fyrst þurfti þó að hreinsa upp drasl, sem safnast hafði neðan við opið.

Dollan

Dollan.

Þegar haldið er inn í hellinn til vesturs opnast undrið. Hellirinn er kannski ekki með víðustu, hæstu eða lengstu hellum landsins, en í heild uppfyllir hann hins vegar öll skilyrði til að geta flokkast góður hellir.
Dollan er í heildina um 130 metra hraunhellir – rás, er myndaðist er hraunskelin hrundi undan vegavinnutækinu. Hellirinn er í raun dæmigerður fyrir fjöldann af slíkum hraunhellum á Reykjanesskaganum. Stærstir eru þeir í Klofningum, neðan Grindarskarða, ofan Stakkavíkurfjalls, í Bláfjöllum og í Kistufelli í Brennisteinsfjöllum. Nokkrir fleiri hellar eru við Gíghæð, s.s. Kubburinn, Hnappurinn, Hestshellir og Arnarseturshellir. Dátahellir er skammt norðan búðanna í Gíghæð. Þar fannst beinagrind að dáta á sjöunda áratugnum að talið var, er orðið hafði úti allmörgum árum fyrr.

Dollan

Í Dollunni.

Vesturhluti Dollunnar er um 80 metra lönd rás sem stækkar í stóra og myndarlega hvelfingu eftir að innar er komið. Rásin er lægst og síðan þrengst fremst, en hækkar og víkkar snarlega. Þá lækkar loftið á ný, en hækkar síðan er opnast inn í allstóra hvelfingu. Botninn er hrjúfur, en í neðri hutanum sést vel hvernig síðusta deig hraunárinnar hefur staðnæmst og storknað. Í lofti má sjá sepa er myndast í hitanum, gljáa á veggjum og lítil hraunstrá, ef vel er að gáð.
Hellirinn er opinn öllu áhugasömu fólki með góð ljós. Næg bílastæði eru til staðar. Nú standa yfir úrbætur á bílastæðinu og mun það verða orðið “formlegt” og afsaltlagt innan skamms tíma. Leiðin að hellinum er greið og hentar öllum aldurshópum.

Gíghæð

Vegavinnubyrgi á Gíghæð.

Á Gíghæð, gegnt Dollunni (handan vegarins), má sjá nokkur hús vegavinnumanna frá því að Grindavíkurvegurinn var lagður á árunum 1913 – 1918. Vegavinnubúðirnar hafa verið með ca. 500 m millibili frá Stapanum til Grindavíkur, einkum í gegnum hraunin. Hestshellir, sem er þar í leiðinni, hefur verið nýttur. Þá má enn sjá nokkur heilleg hús og húsaþyrpingar. Arnarseturshraunið rann árið 1226 (-1240). Mörg hraun, stór og smá, eru ofan og utan við byggðina í Grindavík. Annars eru hraunin ofan við Grindavík og við Svartsengi ca. 2400 ára. (Kunnugir eru fljótir að koma auga á aldur hrauna ef þurfa þykir).

Vegavinnubúðirnar á Gíghæð eru sennilega frá því um 1916, en byrjað var á Grindavíkurveginum 1913 og þá á Stapa. Sjá má ummerki eftir vegavinnumennina á u.þ.b. 500 metra millibili frá gatnamótunum. Líklegt má telja að þeir hafi reist nýjar búðir að jafnaði ár hvert. Njarðvíkursel við Seltjörn (Selvatn) hefur að öllum líkindum verið nýtt, sjá má götu og búðir skammt sunnar, skammt vestan við Hestshelli má sjá hús sem og á Gíghæð.

Grindavíkurvegur

Hús við Grindavíkurveginn.

Sunnan hæðarinnar er stígur og hús nálægt honum. Síðustu búðirnar 1918 voru við Hesthúsbrekkuna skammt fyrir ofan Grindavík. Um er að ræða skemmtileg og heilleg mannvirki um ákveðið verklag og mikilvægan þátt í samgöngusögunni, sem ástæða er til að varðveita. Fjarlægja þarf girðingu, sem hindrar aðgang að svæðinu, en jafnframt að ganga þannif grá því að gestir feti tiltekna slóð að svæðinu til að minnka líkur á skemmdum. Til marks um nauðsyn þessa má benda á að þegar FERLIR kom fyrst að búðunum fyrir u.þ.b. sex árum var mosinn í “þorpsgötunni” algerlega ósnortinn. Nú er hann vel troðinn. Fólk hefur almennt gengið vel um svæðið, en þó hefur mátt sjá þar umbúðir utan af ýmsu góðgæti er gestir hafa fleygt frá sér – um leið og þeir hafa notið innihaldsins. Hver er jú sjálfum sér næstur í þessum efnum, eins og konan á virkjanasvæðinu sagði fyrir stuttu. Reynt hefur verið að fjarlægja það jafnóðum, en best væri að fólk, sem skoðar svæðið, láti ógert að fleygja þarna rusli frá sér (jafnvel þótt enginn sjái til), enda sýnir það með því þessum merkilegu minjum áanna ákveðna óvirðingu. Og það viljum við ekki – eða er það?
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson (1990).

Dollan

Í Dollunni.