Sandgerðisvegur

Lagt var síðdegis af stað frá Bjarmalandi 5 í Sandgerði. Íbúandi eru Reynir Sveinsson og Día, konan hans. Ætlunin var að fylgja hinni gömlu Sandgerðisgötu frá Sandgerði til Keflavíkur. Gatan var sögð vera víða vel greinanleg og vörðuð þótt sumar vörðurnar væru fallnar og sums staðar hafi verið rótað í henni með stórvirkum tækjum. Í raun verður gatan ekki rakin nema af leiðsögumönnum eða öðrum kunnugum nú til dags svo vel sé.

Digravarða

Digravarða.

Stefnan var tekin upp heiðina, um malargryfjur og slóða þar við sem vængbrotinn veiðibjölluungi kúrði í háu grasi, en fá dauðleg merki, hvorki vörður né vörðubrot, gáfu gamla þjóðleið til kynna þarna upp Miðnesheiðina. Digravarða er áberandi kennileiti í heiðinni, en hún var endurhlaðin fyrir skömmu. Þó má enn sjá leifar gömlu hleðslunnar. Á henni sést vel umfang þessa forna siglingamerkis og viðmiðs. Sumir hafa viljað skipta á Digruvörðu og rostungnum í skjaldarmerki kaupstaðarins, en það sýnir vel hversu mikilvægu hlutverki varðan hefur gegnt í gegnum tíðina.
Ofar í heiðinni fannst stakt vörðubrot, en svo virtist sem þar væri á ferð hluti leiðar yfir í Garð. Sá hluti hennar sást vel þegar skoðað var bæjarstæði Skálareykja á dögunum, en þá bar gamla leið í landið til suðurs upp heiðina, áleiðis að Sjónarhól, og áfram til suðurs vestan við Þrívörður.
Bæjarmerki Rockville var barið augum sem og vörðuminnismerkið norðan þess. Það er dæmigert fyrir einstakt þarfaverk nútíma hugdettu, en tengist ekki þörfinni á gerð leiðarmerkja fyrri tíma.

Gotuvarða

Gotuvarða.

Reynar er orðið áberandi hversu duglegt nútímafólk er að hlaða vörður til minningar um veru sína á tilteknum stöðum þá stundina, en gleymir að vörður voru fyrrum hlaðnar í nauðsynlegum tilgangi, þ.e. að auðvelda fólki að rata milli staða. Í slæmum veðrum eða lélegu skyggni gátu vel hlaðnar vörður með stuttu millibili skipt sköpum um líf eða dauða. Gamlar vörður höfðu tilgang og gefa nútímafólki til kynna að þar við sé eitthvað sem vert er að gefa nánari gaum.
Ákveðið var að ganga yfir að Gotvörðunni gegnt gatnamótum Miðnesheiðarvegar og vegar áleiðis að Grófinni í Keflavík. Gotvarðan er tiltölulega nýlega endurhlaðin af Sigurði Eiríkssyni frá Norðurkoti og Guðmundi Sigurbergssyni. Í vörðunni er skilti með nafni vörðunnar. Sandgerðisvegurinn gamli liggur beggja vegna vörðunnar. Skammt vestan hennar er varða norðan vegarins, Einmenningsvarða á Einmenningshól.
Milli varðanna eru gatnamót Sandgerðisgötu og Fuglavíkurleiðar. Hún kvíslast niður heiðina, fyrst til norðveturs og síðan til vesturs niður að Norðurkoti og Fuglavík. Bæði austast og vestast er erfitt að greina leiðina vegna jarðvegseyðingar á heiðinni, en ef vel er gaumgæft er tiltölulega auðvelt að rekja sig eftir henni Sigurður þekkir leiðina vel. Hann hafði sett í hana hæla til að auðvelda eftirfylgnina, en nýlega tók hann þá upp svo nú er öllu erfiðara ókunnugum að rata þessa gömlu þjóðleið um annars kennilausalitla heiðina.

Dauðsmannsvarða

Efri-Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg.

Sandgerðisleiðinni var fylgt til noðrvesturs. Hún fer undir Miðnesheiðaveginn nálægt bæjarmörkum Sandgerðis (skilti norðan vegarins), og fylgir síðan veginum framhjá Grímsvörðum. Þar eru nú á lágu klapparholti “sýnishorn” af vörðunum tveimur, sem þar voru fyrrum, en voru fjarlægðar og notaðar til vegagerðar. Skammt vestan vegar að að einni “hlustunarstöð varnarliðsins” fer gamla þjóðleiðin undir núverandi þjóðveg. Vestan vegar að “hlustunarstöð varnarliðsins” sunnan þjóðvegarins fer gamla þjóðleiðin aftur undir þjóðveginn og inn í beitarhólfið, sem þar er. Þarna vantar tröppu. Innan beitarhólfsins er auðvelt að fylga leiðinni því vörðubrot gefa auk þess legu henar til kynna. Skammt sunnar á holti eru hlaðin byrgi verndaranna þar sem þeir hafa verið við æfingar.
Þjóðleiðini var fylgt niður með Draugaskörðum. Á þeim er endurhlaðin varða; Dauðsmannsvarðan efri. Vestan hennar liggur Sandgerðisvegurinn enn undir núverandi Miðnesheiðarveg, að Vegamótahól. Þarna vantar tröppu.
Vegmótahóll er nefndur eftir vegamótum Bæjarskersgötu og Sandgerðisgötu, sem þar eru sunnan hans. Sandgerðisgata er greinileg með sunnanverðum Vegamótahól og þar sem hún liggur vestur með hólnum, yfir slóða og í gegnum lúpínubreiðu. Handan hennar er hann vel greinilegur og víða hefur verið kastað upp úr veginum. Norðar sét vel til Digruvörðu í heiðinni.
Skammt vestar og sunnan við Sandgerðisveginn gamla er vörðubrot; Dauðsmannsvarðan neðri. Þar segir sagan að maður hafi orðið úti, líkt og svo margir aðrir á Miðsnesheiði í gegnum tíðina. Auk hins hefðbundna segir sagan að þar eigi að vera áletrun á steini. Sú áletrun hefur enn ekki fundist þrátt fyrir ítrekaða leit.

Sandgerðisgata

Sandgerðisgata.

Til fróðleiks er rétt að geta þess að auk Dauðsmannsvarðanna efri og neðri, er til Dauðsmannsvarða í heiðinni við Fuglavíkurleiðina. Henni er gerð nánari skil í annarri FERLIRslýsingu.
Gamla Sangerðisleiðin var rakin niður heiðina, áleiðis að Sandgerði. Tiltölulega auðvelt er að fylga henni þrátt fyrir jarðrask ofan við byggðina. Gatan gefur sjálfa sig tiltölulega vel til kynna. Hún liggur svo til beint að svæði milli 3-4 húss efst í byggðinni, 20-30 metrum ofan hennar. Þar þyrfti, öðrum til göggvunar, að hlaða vörðu.
Sandgerðisgata ætti að liggja nokkuð ljóst fyrir þeim, sem auðvelt eiga með að lesa landið. Fróðlegt er að ganga þessa leið milli Sandgerðis og Keflavíkur, ekki síst í ljósi þeirrar miklu umferðar fólks, sem var um heiðina fyrrum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Sjá MYNDIR.

Sandgerðisgata

Sandgerðisgata.