Járngerðarstaðir

Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Hér er gengið um miðhverfið (seinni hluti).

Járngerðarstaðir

Blóðþyrnir.

Járngerðarstaðir eru ekki síst minnistæðir vegna Tyrkjaránsins 1627, en þá var rúmlega tug hverfisbúa rænt af alsírskum sjóræningjum ofan við Fornuvör, auk nokkurra Dana. Bærinn kom einnig við sögu í Grindavikurstríðinu 1532 þá er heimamenn ásamt liðisinni börðust við enska ofan við Stórubót þar skammt suðvestar (sjá aðrar FELRIRslýsingar).
Árið 1847 voru Járngerðarstaðir eign Skálholtsstaðar líkt og flestir betri útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans. “Selstöðu hefur jörðin og brúkar þar sem heitir Baðsvellir. Hjáleigur eru; Vallarhús, Lambús, Kvíhús, Hrafnshús, Akurhús, Gjáhús, Krosshús, Garðhús og Hlaðhús. Búðir til forna voru; Gullekra (tómthús), Krubba (tómthús) og Litlu-Gjáhús, skv. Jarðabók Árna Magnússonar 1703. Þá var “heimræði árið um kring og lending í betra lagi. Engvar öngvar. Jörðin nær frá sjó upp til fjalls eins og önnur býli hér.”
Árið 1803 var Nyrðra-Garðshorn orðin hjáleiga frá Járngerðarstöðum.

Járngerðarstaðir

Tómas Þorvaldsson við Járngerðardys.

Í Landnámi Ingólfs III, segir m.a. að 1840 er “eigi fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt. Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. Bæði í túninu og utanhúss eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka og rækt við höfð. Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóptir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóptum.”

Túnakort

Járngerðastaðahverfi – túnakort 1918.

Árið 1847 voru hjáleigurnar; Kvíhús, Rafnshús, Akurhús, Krosshús, Hóll, Lángi, Gjáhús, Garðhús og Vallhús. Stundum er þá talað um Járngerðarstaðahverfi.
Árið 1840 var skv. sóknarlýsingu tvíbýli á heimajörðinni og fylgdu hverjum parti 5 hjáleigur. Elsta úttekt bæjarins er af Vesturbænum frá 1882. Þar voru þá baðstofa, göng, bæjardyr, skáli, eldahús, búr í norðurenda baðstofu, fjós með 3 básum, hesthús fyrir 3 hesta, heyhús, smiðja, sjómannabúð, fiskhjallur, húsagarður með bæjarrönd, túngarður 160 fðm, traðargarður 85 fðm og kálgarður. Fyrir sumu þessu mótar fyrir enn í dag.

Járngerðarstaðir

Virkið.

Íbúðarhúsið, sem nú stendur á Járngerðarstöðum (Vesturbær) var byggt á síðasta áratug 19. aldar. Húsið er nýlega uppgert og byggt hefur verið við það. Um er að ræða járnbáruklætt timburhús með hlöðnum kjallara. Að sögn eiganda er húsið elsta hús Grindavíkur, sem enn er búið í.
Skjalda var eyðikot 1840. Í sóknarlýsingu segir að það hafi legið í útnorður út við túngarðinn. Líklegast er að Skjalda hafi verið skammt þar frá sem seinna var byggt steinhlaðið útihús við túngarð. Bærinn var sambyggur við túngarðinn vestan við bæinn, norðvestan við heimreiðina. Enn má greina hvar húsið hafði staðið þó að sléttað hafi verið yfir það. Tómas Þorvaldsson, sem fæddur er á Járngerðarstöðum sagði Skjöldu hafa verið eitt fyrsta fátækraskjólið í Grindavík og til merkis um velvild Járngerðisstaðabænda sem og samfélagsins, sem þá var.

Skjalda

Skjalda.

Hlaðhús voru hjáleiga árið 1703. Hennar er ekki getið í tali Johnsens 1847. Ekki er vitað hvar Hlaðhús stóðu og örnefnið er nú týnt. Helst er að giska á að húsið hafi verið í námunda við hlað Járngerðarstaða þar sem nú er malbikaður vegur.
Lambhús voru hjáleiga 1703, “byggð við xx ár.” Ekki er heldur vitað hvar Lambús stóðu.
Gullreka var tómthús eða sjóbúð. Árið 1703 segir að “til forna hafa hjer verið þessar búðir; Gullreka hefur verið tómthús, búðarleiga var xx álnir.” Staðsetning Gullreku er nú óþekkt.
Krabba var einnig sjóbúð. “Til forna hafa hjer verið þessar búðir;…Krubba. Og svo tómt hús, búðarleiga xx álnir. Staðsetningin er einnig óþekkt.
Litlu Gjáhús munu hafa verið sjóbúð. “Til forna hafa hjer verið þessar búðir; … Litlu Giahus, hafði grasnyt. Landskyld var 1 álnir.” Litlu Gjáhús hafa verið í námunda við bæinn Gamla-Gjákot.

Járngerðarstaðir

Tómas Þorvaldsson við Virkið.

Þarna voru tvö býli, einnig nefnd Syðra- og Nyrðra-Gjákot. Bæirnir voru rúmum 20 m austan og (eilítið sunnar) en Vík. Um 20 m norðan við Verbraut, þar sem nú standa útihús. Engin ummerki sjást nú um húsið, en á svipuðum slóðum og það stóð eru nú nokkur útihús.
Nyrðra Garðshorn var eyðihjáleiga 1803 “Nyrðra Garðshorn, hverrar nú eigi er getið.” Engar sagnir eru uppi um hvar Nyrðra Garðshorn stóð.
Akrahóll og Akrakot voru komin fyrir aldamótin 1900, “hvorutveggja þurrabúð, grasnyt fylgdi ekki,” segir í athugasemdum við örnefnaskrá. Akrakot var þar sem nú Kirkjustígur 1 og 3, en litlu austar. Leifar garðlaga er þar sem eru bakgarður íbúðarhúsanna.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – Hólsgarður neðst t.v.

Hólsgarður er kálgarður/kartöflugarður með grjóthlöðnum vegg í kring syðst í svokölluðu Hólstúni, suðaustan við Tjörnina. Í einu horni hans er útihús (kofi). Þetta er ferhyrnd rúst, sem að sögn Guðjóns Þorlákssonar frá Vík, er gamall hrútakofi frá Járngerðarstöðum. Fast upp við þennan kálgarð (austan við) er annar kálgarður, sem virðist eldri. Hann er svipaður að stærð og sá fyrri, hlaðinn úr torfi og grjóti. Guðjón sagði að svæðið allt, kálgarðanir tveir, hrútakofinn og staðurinn þar sem hann heyrði að kotið hafi legið, hefðu ekkert breyst frá því að hann man eftir sér. Hólsgarður var enn notaður sem kartöflugarður þegar hann var ungur.

Annar kálgarður er merkt inn á túnakort 1918 beint neðan (sunnan við) vesturbæ Járngerðarstaða. Garðurinn sést enn fast sunnan við Vesturbraut, sem liggur framhjá Járngerðarstöðum og áfram til vesturs. Sunnan við garðinn er Dalur (vatnið), en annars eru sléttuð tún umhverfis.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og nágrenni.

Kálgarður er einnig frá Vallarhúsum, um 20 m vestan við vegarslóða, sem liggur að sjávarsíðunni þvert á Vesturbraut.
Leifar að garði eru greinilega 100 m norðan við Járngerðarstaði. Garðurinn liggur um sléttuð tún. Hugsanlegt er að hann hafi verið hluti af merkjum milli Járngerðastaða og Garðshúsa eða jafnvel hluti af túngarði við Járngerðarstaði. Annars var víða hlaðið um kálgarða í hverfinu og sjást þeir margir enn, t.d. við Rafnshús.
Traðirnar lágu frá bænum og til suðvesturs. Nú liggur vegur (Vesturbraut) á þessum slóðum og ummerki um traðirnar því horfin. Traðirnar lágu þar sem nú er malarvegur, umhverfis eru sléttuð tún.

Grindavík

Gengið um Grindavík.

Túnhliðið á túngirðingunni að vestan hét Tíðahlið, en þá var grjótgarður í kringum túnið allt. Túngarður sést víða umhverfis tún Járngerðarstaða. Sunnan við tún sést garðurinn austan við Tjörnina og að Vesturbraut.
Athyglisverð þúst er um 30 m suðvestan við girðingu, sem liggur umhverfis Garðshús. Hún er í rennisléttu túninu, um 8 x 5 m að stærð og 0.4 m á hæð. Ekki sjást dokkir ofan í rústina. Þetta er ein þeirra rústa, sem forvitnilegt er að grafa í á svæðinu. Um er að ræða haug þar sem Einar í Garðhúsum dysjaði gæðinga sína með öllum reiðtygjum.
Áður fyrr var svonefnt Hólsbyrgi á grösugri hæð utan túns, í hádegisstað frá Járngerðarstöðum. “Það var austan við Litlubót,” segir í örnefnaskrá. Á hólnum átti að vera lítil tóft, en hóllinn er nú horfinn vegna vegagerðar.

Járngerðardys

Dys Járngerðar – áður en malbikað var hana.

“Eitt örnefnið var við sjávargötu, þegar gengið var (til skips, sem kallað var) austur að lendingum. Á þá leið gengu sjómenn frá Járngerðarstöðum, Garðshúsum, Vallarhúsum, Velli og Gjáhúsum, nú Vík. Það var lítil mishæð, svo sem 30 fet á lengd og 10 fet á breidd og svo sem 4 fet á hæð, grasi vaxin. Þetta var kallað Járngerður,” segir í lýsingu. “Þar átti að vera grafin sú merkiskona, sem eitt sinn bjó á Járngerðarstöðum og mátti ekki við leiðinu hreyfa. En nú er það samt komið undir veg. Eitt hornið á leiðinu stendur undan beygjunni á veginum. Brynjúlfur Jónsson skrifar 1902 að hann hafi látið grafa í aflangan bala í túninu á Hrafnshúsum í Járngerðarstaðahverfi. “Reyndist hann gamall öskuhaugur”. Balinn var þar sem Verbraut beygir í átt að Vík. Sagnir eru um að piltar, sem gengu frá Járngerðarstöðum til sjávar, hafi ávallt farið fram hjá leiðinu þar sem það var talið boða lukku. Leiða má að því líkum að Tyrkirnir er hlupu adrinialínsfullir í júnímánuði 1627 upp að Járngerðarstöðum frá Fornuvör með brandinn brugðinn hafi farið sjávargötuna og væntanlega framhjá Járngerðardysinni.

Þyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær.

Austan Sjólistar, sem síðar er nefnd, eru á bletti sagður vaxa blóðþyrnir þar sem blandaðist blóð heiðinna manna og kristinna. Þyrnirinn er greinilegur milli þess að hann er ekki traðkaður niður af hrossum, sem þar eru höfð í girðingu, fast við veginn norðan við Flagghúsið, sem nú er í endurgerð.
Vallarhúsahola var lind í Dalnum, nokkurs konar uppspretta undir bökkunum. Úr henni, sem og öðrum holum, var tekið allt vatn í bæinn til notkunar fyrir fólkið á Járngerðarstöðum og Vallarhúsum, sem var rétt þar við. Á Járngerðarstöðum voru fyrir og fram að 1900 oft á vertíðum yfir eitt hundrað manns. “Vatn þetta var nú samt salt, sögðu sveitarmennirnir, aðeins jafnsíaður sjór.”

Gerðavellir

Gerðavellir – Junkaragerði. Uppdráttur ÓSÁ.

Hólshola var önnur lind í Dalnum Í Dalsvatni, um 50 m norðan við túngarð var brunnur Hólskots. Lítill tangi út í vatnið. Í dag eru ekki greinanleg ummerki þess hvar vatnið var tekið úr Dalsvatni.
Heimrihola var Brunnur Járngerðarstaða, ýmist nefndur Járngerðarstaðabrunnur eða Hemrihola. Hann var austan við Dalsvatn, nálega þar sem girðing afmarkar nú land Vallarhúsa (norðan við girðingu). Þarna er vík í vatnsbakkann. Umhverfis er grasi vaxið.
Við Stekkjarhóll er heimild um stekk. “Vesturmerki Járngerðarstaða eru frá Markhól, sem er við sjó (grasi vaxinn, ekki hár). Vestan við Markhól er Hvalvík, sem er í Húsatóptarlandi. Austan við Hvalvík er Katrínarvík. Austan við hana er Sandvík. Austan við það eru Hásteinar, sem eru hraunstandar upp úr kambinum. Austan við Hásteina er flöt hella, sem er upp úr um flóð og heitir Hella. Austan við Hellu heitir Malarendi.

Skyggnisrétt

Skyggnisrétt.

Næst Malarenda er Skyggnir, sem er hóll. Litli-Skyggnir var þar skammt vestar, lítill hóll lengra frá sjónum norður frá Stekkjarhól,” segir í örnefnaslýsingu. Stekkjarhólar/Stekkjarhóll er nokkru vestan við Hásteina og um 130 m austan við Markhól. Hólarnir eru að mestu grasi grónir, en steinar frá sjávarkambinum liggja þó á víð og dreif í hólnum. Stekkurinn var lengi vel greinilegur, en er nú einungis greinilegu “velsjáandi” augum. Hann er suðvestan í hólnum, gróinn.
Gerðavellir liggja ofan við Skyggni. Ofan þeirra eru Gerðavallabrunnar, en Grindvíkingar kölluðu ferskvatnstjarnirnar ofan strandar jafnan brunna, sbr. Tóftarbrunna og Stakabrunn í Tóptarlandi. “Sagt er að Junkarar hafi lagt upp í Stórubót við Gerðavelli, upp af Skyggnir, vestan við Rásina (affallið). Þar voru á Gerðavöllum allmiklar hlaðnar girðingar gamlar. Á Gerðavöllum er allt fullt af görðum. Þeir eru hlaðnir á tvo vegu við vellina og eiga að vera eftir Junkarana, en þei reru til skiptis eftir veðri úr Grindavík og Höfnum (Njarðvíkum), eftir því sem sögurnar segja. Fóru þeir með skipin á milli, og hét þar Skipastígur,” segir í örnefnaskrá.

Junkaragerði

Garður við Junkaragerði.

Í Sögu Grindavíkur segir að “munnmæli um útgerð Þjóðverja í Grindavík herma að þeir hafi haft aðsetur á Gerðisvöllum, skammt norðvestur af Stórubót í Járngerðarstaðalandi.” Þar segir einnig að “á þessum slóðum voru aðstæður að ýmsu leyti hentugar aðkomumönnum, sem stunda vildu útgerð og kaupskap, en þurftu jafnframt að hafa var á sér. Þeir voru utan meginbyggðarinnar í Járngerðarstaðahverfi, og á Stórubót var bærileg höfn kaupskipum og þokkalegur útróðrastaður, a.m.k. yfir sumartímann. Aðstaða til fiskverkunar á Hellunum var góð og vestan Stóru bótar rís hóll sá, sem Skyggnir heitir og er með hæstu hólum í nágrenninu. Frá honum mátti, eins og nafnið bendir til, hafa gát á mannaferðum.”
Sumir telja að á Gerðavöllum kunni að leynast minjar allt frá landnámsöld – ef vel væri að gáð.

Grindavík

Grindavík.

Í örnefnaskrá er getið um “heimildir um “Tyrkjaránið” 1627. Þær herma að þá hafi danska kaupskipið legið í Járngerðarstaðasundi, og af heimildum um ránið verður ekki annað ráðið en að á þessum tíma hafi búðir kaupmanns staðið í landi Járngerðarstaða. Þar mun verslunin hafa haft bækistöðvar sínar til ársins 1639, en þá hættu kaupmenn að sigla á Grindavík.” Þegar verslun hófst á ný í Grindavík 1664 var hún færð til Arfadalsvíkur.
Í örnefnaskránni segir að “frá Stórubót liggur Rásin inn í Gerðavallabrunna, sem eru upp af Gerðavöllum. En sjórinn víkkaði hana og brauzt inn á lægra svæði. Sjórinn gengur gegnum Rásina um flóð.”

Norðnorðvestan við Skyggnisrétt, grjóthlaðna hestarétt, má sjá garðlag á Gerðavöllum, sem liggur í tæpra 60 m til vestnorðvesturs, en það beygir til norðurs. Garðslagið liggur um 140 m til norðurs, en beygir þá til austurs í um 90 m áður en það fjarar út um 100 m suðvestan við Rásina. Garðurinn liggur um grasi gróið sléttlendi. garðurinn sést enn tæplega 300 m langur, en er vísðar um 1,5 m breiður. Hann er siginn og aðeins um 0,3 m á hæð.

Jángerðarstaðir

Engelska lág.

Við Engelsku lág er heimild um vígi. Árið 1532 “gerði Jóhann Breiði sér þá vígi eður virkisgarð frá búðum á Járngerðarstöðum, sem enn sér merki og gerði orð með spotti þeim Hamborgurum að sækja til sín skreiðina. Tóku sig til hinir þýsku menn og Bessasta fógeti, og komu óvart um nótt upp í Grindavík, komust upp í virki Jóhanns og slógu hann til dauðs og alla hans menn, en tóku skip og allt það þeir áttu. Þar sést kuml þeirra eða dysjar hjá virkisgarði,” segir í Skarðsannál.

Gerðavellir

Leifar virkis Jóhanns Breiða við Gerðisvelli í Grindavík.

Í Sögu Grindavíkur segir að “upp af Stórubót, áHellum, sem kallaðar eru, má enn sjá ógrenilegar leifar af virki Englendingsins Jóhanns Breiða. Aðsetur enskra kaupmanna á fyrri hluta 16 aldar var nokkuð fyrir vestan Járngerðarstaðabæinn. Er líklegt að þar hafi útræði þeirra og verslunarhöfn staðið. Á þessum slóðum hefur mikið land brotið á síðustu áratugum, og vafalaust einnig fyrr á öldum. Er því erfitt að gera sér grein fyrir því, hvernig aðstæður hafa verið fyrir nærri hálfu árþúsundi. Þar sem nú er urð og grjót, voru grænir grasbalar fyrir u.þ.b. hálfri öld. Enn má þó greina þarna nokkur ummerki mannvistar, og er t.d. töluvert eftir af hól, þar sem munnmæli herma, að virki Jóhanns Breiða hafi staðið.” Örnefnið Engelska lág (eða laut) og munnmæli herma, aðþar hafi Englendingarnir, sem féllu í átökunum aðfaranótt 11. júli 1532, verið dysjaðir (sjá umfjöllun um Grindavíkurstríðið undir Fróðleikur). Um það bil 5-600 metrum vestar heitir Gerðavellir. Þar er líklegt, að búðir kaupmannanna frá Lynn hafi staðið.
Hraunsstekkirnir voru suður af Einidalshrauni, sem er vestan við túnið á Járngerðarstöðum. Einidalur er falleg gróin hraundæld með vatnstjörn. Í honum norðanverðum er skúti. Tæpum 100 m austan við Rásina sjást leifar af öðrum Hraunsstekknum, en hinn er alveg horfinn í lón, sem er á þessum slóðum og hafa stækkað á síðustu árum. Stekkurinn er á grasi vöxnu svæði milli hraunbrúnar og lónsins.

Skyggnisrétt

Skyggnisrétt.

Tóft er fast vestan við enda lónsins. Hún er í dæld suðvestan við vesturenda lónsins. Tóftin er mynduð úr sérkennilegri blöndu af mjög stórum hnullungum og smásteinum.
Tóft, lítil og einföld, er á Sölvhól, sem er grasi gróin klettahæð vestan við Dal (vatnið).
Fornavör er austan við Eystri-Þanghól. Það segir ókunnugum svo sem ekkert, en í vörunum tveim, sem þarna eru utan varnargarða, Fornuvör og Stokkavör, mun hafa staðið útvegur fyrr á öldum. Fornavör er fast austan við fjárhús sunnan við veg, sem liggur með sjávarsíðunni og tengist götunni Seljabót norðvestar. Ofan við hana stórgrýtt fjara og sjávarkambur. Í fornleifaskráningu 2002 er sagt að “ekki sjást merki um hvar lendingin hefur verið”, en hana má glögglega sjá neðan og austan við fyrrnefnd fjárhús. Upp frá henni lá sjávargatan að Járngerðarstöðum, framhjá Járngerðardys. Gatan sjálf er nú í sléttuðu túni, en vísbendingin er glögg.
Draugalón er í kvos milli Eystri-Þanghóls og Sjálfskvíarklappar. Þar er fúll pyttur, 3-4 m á dýpt, sem þang safnaðist í og fúlnaði. Pytturinn er enn greinilegur í sjávarmálinu.
Sjálfskvíar eru “fram af Þanghólum. Milli þeirra eru berar klappir; Sjálfskíar eða Sjálfskvíarklöpp, og Sjálfskvíarlón er þar fram af”, segir í örnefnaskrá. Saga Grindavíkur segir að “við klöppina, sem nefnd er Sjálfskvíarklöpp, hafa bændur vafalítið haft fé í kvíum, á meðan enn var fært frá, og er ekki ósennilegt, að nafnið sé þannig til komið, að kletturinn hafi verið notaður sem kvíarveggur og þarna hafi þótt hentugt að króa fé af. Líklegastir til að notfæra sér klöppina með þessum hætti voru bændur á hjáleigunni Kvíhúsum, sem stóð þarna niðurundir kampinum, og við hana er Kvíahúsakampur vitaskuld kenndur.”

Grindavík

Grindavík.

Sjálfskvíarklöpp er klöpp í fjöruborðinu við Draugapytt. Á þessum stað er hamar í fjöruborðið, og grýtt fjara upp af, þar norðan við er raskað svæði. Engar kvíar eru lengur á þessum stað.
Stokkavör var næst Akurhúsanefi. Í Sögu Grindavíkur segir að “austan við Akurhúsanef er komið að gömlu lendingunum. Þar var kallaður Gamlisjór. Næst nefinu var Stokkavör. Í vörunum tveim; Fornuvör og Stokkavör, mun hafa staðið útvegur fyrr á öldum.” Stokkavör var næst austan við Suðurvör, þar sem sjógarður er nú. Ofar er smágrýtt fjara og enn ofar (eða norðvestar) er sjávarkamburinn og vegur. Engin merki sjást nú um Stokkavörina.
Suðurvör var þar sem “ferðamenn komu með ströndinni að vestan og yfir Akurhúsanef. Komu þeir fyrst í varnirnar í Járngerðarstaðahverfi eru hétu Norðurvör og Suðurvör. Þá var tekið að landa afla við bryggjuna, en síðan voru bátarnir settir upp í vörnum sem fyrr. Hélst svo allt til þess, er hafnargerð hófst í Hópinu 1939. Á milli varanna var sker, sem Suðruvararsker hét, og við leiðina inn í varirnar var annað, sem Brúnkolla nefndist. Þar lentu bátar stundum uppi, og þótti ekki sérlega mikil sjómennska.
Skip Járngerðisstaðabænda reru jafnann úr vörunum tveim,” segir í Sögu Grindavíkur. Þar segir jafnframt að “skip Járngerðarstaðabænda reru úr Norðurvör og Surðurvör, en fyrir innan þær var þriðja vörin og hét Staðarvör. Þaðan réru skip Skálholtsstóls á meðan enn var úttræði á vegum stólsins í Grindavík. Dró vörin nafn af Skálholtsstað.”

Grindavík

Grindavík – Norðurvör.

Árið 1703 “gánga skip stólsins hjer bvenjulega iii eða iiii, og hafa þeir verbúðir fyrir sig, sem stóllinn uppbyggir, En soðningu kaupa skipverjar. Hafa þessi skip stólsins verið so um lángar stundir, en alt þar til í tíð Mag. Brynjólfs var gefin til heimabóndans undirgift undir þau skip, sem fleiri voru en tvö af stólsins hendi. Og hýsti heimabóndi þá skipshöfn. En í tíð Magn. Brynjólfs var uppbyggð önnur staðarins verbúð, sem síðan hefur viðhaldist, og engin undirgift verið frá stólnum lögð til bóndans (þeirra tíma íslenska). Átroðning líður jörðin mikinn af hestum þeirra manna, er róa stólsins skipum.”

Í Sögu Grindavíkur segir að “innan við Staðarvör tók við malarkambur, sem Staðarhúsakampur nefndist. Þar munu verbúðir Skálholtsstaðar hafa staðið á fyrri tíð. Þar fyrir innan var Svartiklettur.” Engin ummerki um lendinguna eru nú greinanleg. Skálholtsbyggingarnar voru upp af fjörunni þar sem síðar stóð löng bygging, Kreppa. Undir austurenda hennar voru tóftirnar frá Skálholti.

Grindavík

Grindavík – Í Norðurvör.

“Svartiklettur var austan við Staðarvör. Hann stóð upp úr sjó á fjörunni. Þar upp af heitir Svíri. Á Svíra var hlaðin varða, Svíravarða, en áður bar Svartiklettur þetta nafn,” segir í örnefnaskrá. Svíravarðan var áður við suðausturhorn fiskvinnsluhúss, þar sem sjóvarnagarður gengur til austurs. Hún var um 70 m austan við Járngerðarstaði. Þar sem varðan stóð eru nú tankar og fiskvinnsluhús. Nafnið hefur í seinni tíð verið notað um neðri innsiglingavörðuna neðan við Hóp (sjá fyrri hluta).
Suðurvör var þar sem nú er nýr sjógarður að baki handverkshúsi og beitningarskúrum. Nú hefur svæðinu verið umturnað og ekki sér lengur hvar lendingin var.
Norðurvör var fast austan við Suðurvör, þar sem núr er sjávargarðurinn og steypuleifar hanar, sem byrjað var að byggja, en komst aldrei í notkun. Sjóvarnargarður, sem byggður er úr miklum grjóthnullungum, er á þessum stað, en engar minjar sjást nú hvar lendingin var.

GrindavíkÞegar ekki var lendandi í vörunum áður fyrr, var farið inn í Hóp og lent í Kvíaviki, en það hefur nú verið fyllt upp og byggðir tankar á því. Kvíavikið var suðvestan við Álfsfit, innan við Svíra. “Þar munu hafa verið kvíar frá Rafnsstöðum eða Krosshúsum,” segir í Sögur Grindavíkur. Kvíavik var þar sem austurendi beinaverksmiðju er nú og vegarslóði liggur meðfram henni að norðaustan. Bygging og vegur eru þar nú, en öll ummerki eftir kvíar eru löngu horfin. Fyllt var upp í svæðið á árunum 1956-57.

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið 1939.

“Á 17. öld herma sagnir, að maður nokkur hafi verið við þangskurð á Rifinu (eiðinu). Hann fór út, á meðan lágsjávað var, hafði með sér tvö börn, en gætti sín ekki, er sjór tók að falla að, og fór svo, að maðurinn gat bjargað sér í land, en börnin drukknuðu. Var ósinn, sem þau lentu í, nefndur Barnaós eftir það. Eftir þennan sorglega atburð herma sögur,a ð bændur hafi hlaðið fyrir ósinn, sem áður hafði verið grafinn inn í Hópið, og mátti ganga þar þuruum fótum, er lágsjávað var. Kom þessi hleðsla í ljós. þegar Rifið var grafið út á árunum 1938-1939, og var u.þ.b. fimm metra breið og hnéhá,” sgeir í Sögur Grindavíkur. Barnaós var þar sem nú er innsigling inn í Grindavíkurhöfn. Að ósnum liggur höfnin vestanmegin, en sjávargarðurinn að austan.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðavör.

Ekki er annað vitað um staðsetningu Álfsfitar en að hún hafi verið norðaustan við Kvíavik, líklega þar sem bryggjan er nú. Staðurinn var sunnan við þar sem nú standa olíutankar.
Í vikinu með fjörunni til vestsuðvesturs vottaði fyrir troðningi um síðustu aldamót (1900), sem kallaðir voru Eyrargata. Í örnefnaskrá segir að “það væri kirkjugata frá Þórkötlustöðum að Stað, en þá átti Hóp að hafa verið grasi gróið valllendi. Sagnir voru einnig um, að Staður hafi verið í miðri sókn áður fyrr,” sbr. fornar sagnir um byggð vestan við Staðarhverfi (sjá lýsingu um Staðarhverfi II). Eyrargata lá eftir eyrinni til en beygði svo til austurs og var nálægt því að liggja samsíða Hafnargötu núverandi, suðaustan hennar. Gatan lá svo um Hópsbæina og áfram til austurs að Þórkötlustöðum (sjá fyrri hluta). Hún er nú horfin á þessum hluta, en sést enn austan við Hóp.
Ofan við bæinn er Vatnsstæðið. “Niður af Vatnsstæðinu, vestan við gamla heimabæinn, er Bóndastekkstún,” segir í örnefnaskrá. Ekki er lengur hægt að sjá leifar stekks á þessum stað, en í túninu, sem hefur verið sléttað, er hryggur, sem liggur austur-vestur í boga. Hugsanlega eru þetta leifar af garðlagi tengdu stekknum í Bóndastekkstúni.

Silfra

Silfra.

Silfra er skammat norðan við Vatnsstæðið, “þegar haldið er til heiðarinnar”. Er sagt að í henni sé fólgin kista full af silfurpeningum. Silfra er mjótt og aflangt vatnsstæði, umhverfis hana er grasivaxið sléttlendi.
“Nautagjá er í útjaðri á túninu Drumbar og kemur þar í stað girðingar á svo sem 20 faðma lengd.” Allt vatn í þvotta og handa kúm var tekið úr Nautagjá og þar voru líka þvottar þvegnir. Kýr voru fjarska oft reknar til vatns í Nautagjá á vetrum, ef gott var, og þannig látnar bera vatnið sjálfar. Þessi vegarlengd mun hafa verið nær eitt hundrað faðmar eftir túninu Drumbar og gæti hugsast, að nafn gjárinnar væri frá þessu komið í fyrstunni, að nautpeningur var þar oft við drykk. Nautagjá liggur frá vatnsstæðinu við norðurjaðar túns, um 100 m norðnorðvestan við Járngerðarstaði. Tún liggur upp að gjáni að norðan, sunnan og austan. Vestan er Vatnsstæðið.
“Magnúsargjá var í raun og veru sama sprungarn og Nautagjá. Hún var í sömu stefnu og svo sem 15 faðmar á milli endanna.” Í Nautagjá voru líka þvottar þvegnir, en ull í Magnúsargjá. Grjót er á víð og dref við austurenda gjárinnar.

Títublaðavarða

Títublaðavarða.

“Fast við Vatnsstæðið er varða við veginn til Keflavíkur (Skipsstíg) og heitir hún Títublaðavarða.” Varðan er nú að mestu hrunin. Leifar hennar sjást þó enn við gömlu götuna þar sem hún liðast upp frá Járngerðarstöðum, að girðingunni umhverfis fjarskiptastöðina er markar yfiráðasvæði hersins. Títublaðavarða er um 120 m norðan við þjóðveginn, á hæð í mosavöxnu hrauninu. Tómas Þorvaldsson sagði Járngerðarstaðabændur jafnan hafa haldið þessari vörðu við því svo hafi verið sagt að á meðan hún stæði væri ferðalöngum um veginn óhætt. Neðan við Títublaðavörðu er önnur varða við sömu götu, um 60 m norðan við þjóðveginn.
Ofanlands eru t.a.m. Skipsstígur. Í sóknarlýsingu árið 1840 segir að “miðvegurinn, sem ýmist kallast Járngerðarstaðastígur eða Skipstígsvegur, liggur í útnorður fyrir sunnan Þorbjarnarfell, og er þá Þórðarfell, Súlur og Stapafell allt að vestan og sunnanverðu. Sagt er að Junkarar hafi lagt upp í Stórubót við Gerðavelli, upp af Skyggnir. Reru Junkarar til skiptis eftir veðri úr Grindavík og Höfnum (fyrirgefið endurtekninguna) og fóru þeir með skipin á milli, og hét þar Skipstígur.”

Gengið um Járngerðarstaðahverfið

Járngerðarstaðir hafði slestöðu á Baðsvöllum. Í Jarðabókinni 1703 segir að “selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu hagar ofurlitlir og þröngvir. Item sje þar stórt mein að vatnsleysi, þá þerrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarsstaðar. Þessa brúkar bóndinn aleinn.” Sagt er að Baðsvellir dragi nafn sitt af því, að þar hafi ræningjar baðað sig. Alveg niður við hraun er hallandi graslendi. Þar er slétt laut, Kvíalág. Þar með hrauninu eru tvennar seltættur og hóll. “Þar austan við heitir Stekkjarhóll,” segir í örnefnaskrá. Rústirnar er undir Þorbirni norðanverðum, í hraunjaðri, vestan við skógarrjóður. Syðst er þyrping, 5 hólf og klettur í miðjunni, sem hólfin raðast utan um. Þar norðan af er önnur tóft, tvö hólf. Norðan við þessa tóft eru tvær tóftir til viðbótar.

Grindavík

Grindavík – Stekkhóll.

Við Stekkjarhól eru greinilegar og mjög grónar tóftir. Þær eru norðaustan í skógarjaðrinum. Norðaustan við aðra tóftina er 2 m djúp hola. Hún er nær hringlaga. Sunnan við vegarslóða þar við er önnur hola, 1 m djúp, e.t.v. brunnur. Í skógarjarðrinum, sunnan brunnsins, er önnur tóft.

Þjófagjá

Í Þjófagjá.

Þjófagjá er “stór sprunga er klýfur topp Þorbjarnarfells. Þar herma munnmæli, að flokkur útilgeuþjófa hafi haldið sig og rænt og ruplað í Grindavík. Að lokum tóku byggðamenn sig til, fóru að þjófunum, gripu þá og hengdu í Gálgaklettum. Engar öruggar heimildir eru um það, að útileguþjófar hafi nokkru sinni hafst við í Þjófagjá og engar mannvistarleifar hafa fundist þar,” segir í Sögu Grindavíkur. Klettasprungan er með grasi grónum botni. Hún er um 10 m breið, en allt að 80 m djúp. Skúti er í sprungunni vestarlega. Einstigi er niður Þjófagjá og leiðin greið, ef rétt er að farið. Frá suðurenda hennar er fallegt útsýni yfir Járngerðarstaðahverfið.

Gíghæð

Vegavinnubúðir á Gíghæð.

Við Grindavíkurveginn má víða sjá hlaðin byrgi eftir vegavinnumenn er lögðu veginn til Grindavíkur frá Stapa á árunum 1913-1918. Sum þeirra eru alveg heil, t.d. á Gíghæðinni.
Við op Hesthellis, norðan Gíghæðar, er falleg hleðsla, mannhæðarhá.

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

Gamla kirkjan í Járngerðarstaðahverfi var vígð 26. september 1909. Hún stendur enn, en hýsir nú leikskóla. Hér og þar má sjá bungur í garðinum, en ekki var grafið í kirkjugarðinum. Þangað var kirkjan flutt frá Stað. Suðvestan við kirkjuna má sjá leifar útihúsa. Þar eru og hús og húsleifar, s.s. Gimli (Víkurbraut 9), Vík, suðaustan við Garðhús, Hlið, austan við Vík, Sjólist, norðaustan við kirkjuna nálægt gatnamótum Víkurbrautar og Vetrarbrautar (engin ummerki lengur), Grund (Víkurbraut 8), Vesthús (stóð í bakgarði Víkurbrautar 10), Bjarg, norðvestan við Vesthús, Efri-Grund, norðaustan við kirkjuna, Hæðarendi (Víkurbraut 18), Byggðarendi (malarblettur 30 m austan við Hæðarenda) og Hraungerði (malarblettur norðaustan við kirkjuna).

Heimildir m.a.:
-Fornleifaskráning FÍ – 2002.
-Saga Grindavíkur.
-Örnefnalýsing.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – sögusvið “Tyrkjaránsins” – uppdráttur ÓSÁ.