Í Bálkahelli

Gengið var niður Klofninga í Krýsuvíkurhrauni með það fyrir augum að skoða Bálkahelli og Arngrímshelli (Gvendarhelli). Þá var gengið upp vestanvert hraunið áleiðis að Stóru-Eldborg, upp í Kerlingadal og staldrað við um stund hjá dysjum þeirra Herdísar og Krýsu.

Gvendarhellir

Við Gvendarhelli.

Arngrímshellis er getið í gamalli lýsingu. Þar segir að Arngrímur á Læk í Krýsuvík hafi hafi fé í helli í Klofningum undir aldamótin 1700. Þar hafi hann haft 99 ær og að auki eina frá systur sinni. Sú, þ.e. ærin, nefndist Grákolla. Fénu beitti hann m.a. í fjöruna neðan við bergið. Um veturinn gerði aftakaveður og fannfergi. Varð það svo slæmt að féð hraktist fram af berginu og drapst. Grákolla lifði hins vegar af hrakningarnar og er talið að allt fé Krýsuvíkurbænda sé frá henni komið.
Arngrímur var við annan mann við sölvatekju undir bjarginu skömmu eftir aldamótin 1700 og féll þá sylla á hann með þeim afleiðingum að hann lést.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

Um 130 árum síðar mun Krýsuvíkur-Gvendur hafa haft fé í fjárhellinum. Nefndist hann þá Gvendarhellir. Tóft er við munnann. Er sagt að þar hafi verið hús úr timbri og hafi það talist til frásagnar að gler hafi verið þar í gluggum. Við og inni í hellinum eru hleðslur.
Bálkahellir er skammt austar. Þegar komið er niður úr efsta opi hans má sjá hraunbálka beggja vegna. Annars er hellirinn um 450 metra langur.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg vestast undir Geitahlíð.

Neðan við Deildarháls ofan Stóru-Eldborgar, er dregur nafn sitt af deilum Herdísar Í Herdísarvík og Krýsu í Krýsuvík, er Kerlingadalur. Neðst í honum eru dysjar kerlinganna, auk smala Herdísar. Þjóðsagan segir að Krýs og Herdís hafi verið grannkonur og “var nábúakritur megn á milli þeirra; því hvor öfundaði aðra af landgæðum þeim er hin þóttist ekki hafa, Krýs Herdísi af beitilandinu, en Herdís Krýs aftur af enginu. Svo hafði lengi gengið að hvor veitti annari þungar búsifjar; rak Krýs sauðfénað sinn í land Herdísar, en Herdís vildi aftur ná í engið, og beittust svo þessu á víxl með því landamerki virðast annaðhvort hafa verið óglögg eða engin í það mund.

Bálkahellir

Við Bálkahelli.

Þegar þær grannkonurnar eltust meir fóru þær síður að hafa fylgi á framkvæmdum til að ásælast hvor aðra, en ekki var skap þeirra að minna eða vægara fyrir það. Bar þá svo við einhverju sinni að Herdís hafði gengið út í hraun og síðan út með Geitahlíð svo sem leið liggur út í Krýsuvík. En utarlega undir hlíðinni ganga úr henni hæðir nokkrar fram að hrauninu og eru þær kallaðar Eldborgir. Yfir þessar hæðir liggur vegurinn. Þann sama dag er Herdís tókst þessa göngu á hendur fór og Krýs að heiman.

Krýsuvík

Breiðivegur vestan Stóru-Eldborgar.

Í suður frá Krýsuvík er slétt melgata (Breiðivegur); er hún nokkuð langur skeiðsprettur suður undir hornið á Geitahlíð, en þegar komið er fyrir það horn blasa Eldborgir við sunnar með hlíðinni og er allskammt þangað undan hlíðarhorninu. Gamla þjóðleiðin lá hins vegar upp á hálsinn milli Geitahlíðar og Stóru-Eldborgar og síðan um Kerlingadal.
Nú segir ekki af ferðum þeirra grannkvennanna fyrr en Krýs kemur þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á.

Dysjar

Dysjar Herdísar, Krýsu og smalans í Kerlingadal.

Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar. Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

Meðan þær voru að mæla hvor um fyrir annari kom að þeim smalinn úr Krýsuvík, en svo brá honum við heitingar þeirra að hann féll þegar dauður niður og er hann dysjaður hægra megin við götuna þar upp undan sem þeirra dys er niður undan svo ekki skilur nema gatan ein. Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.”
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=200

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu.