Hraun

Tekið var hús á Sigurði Gíslasyni á Hrauni við Grindavík.

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun.

Gengið var með honum um svæðið. Þegar komið var að hleðslum á grónum hraunhól norðan þjóðvegarins skammt vestan heimkeyrslunnar að bænum sagði Siggi aðspurður að þar væri líklega um dys að ræða. Hann kvaðst ekki kunna frekari deili á dysinni, en sagði dr. Kristján Eldjárn hafa haft mikinn áhuga á að skoða hana. Þá hafi hann rætt við gamlan mann, fæddan á svæðinu. Sá sagði að dysin væri frá því í Tyrkjaráninu. Hennar væri getið í Þjóðsögum Jóns Árnasonar.

Hraun

Dysin við Hraun.

Sagan segir að bóndasonur á Hrauni (aðrir segja Ísólfsskála) hafi séð skip koma í Hraunsvíkina og ætlað að fagna komumönnum. Hafi hann lagt af stað á rauðri meri, en þegar hann sá hversu óvinveittir aðkomumenn voru, sneri hann þegar við hófum merinnar. Hún var hins vegar svo svifasein að Tyrkinn, sem fremstur fór, en svo munu þeir aðkomumenn hafa verið, hefði náð í taglið. En við það sama hafi merin sparkað aftur fyrir sig og kom höggið í Tyrkjann, sem drapst samstundis. Önnur saga segir að Tyrkirnir hafi verið tveir og merin sparkað þá báða til dauðs (Brynjúlfur Jónsson). Félagar Tyrkjans komu þá þar að, náðu bóndasyni og drápu. Hann var síðan dysjaður á hólnum. Brynjúlfur nefnir þó Dysina á Hraunssandi, sem staðinn þar sem þeim var komið fyrir, en við uppgröft þar á sjötta áratug 20. aldar kom í ljós kapellutóft.
Segja má að sagan sé alls staðar sýnileg – hvert sem litið er.

Hraun - kort

Hraun í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.