Þingvellir

Lagt var af stað frá Hakinu þar sem horft var yfir Þingvelli og Almannagjá. Leiðin lá niður gjána með viðkomu að Lögbergi, tóftum þingmannabúða, Drekkingarhyl, Öxarárfossi og Langastíg.

Þingvellir

Þingvallabærinn.

Ætlunin var að nota tækifærið í góða veðrinu og rifja upp umhverfislýsingar frá fyrri tíð á þessum helgasta stað íslensku þjóðarinnar. Saga Íslands og íslensku þjóðarinnar kemur hvergi betur fram á einum stað en á Þingvöllum. Þar var Alþingi stofnað um árið 930 sem kom saman á Þingvöllum allt fram til ársins 1798. Meginviðburðir Íslandssögunnar hafa gerst þar og því skipa Þingvellir sérstakan sess í hugum allra Íslendinga.

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum árið 1930. Í lögunum segir að Þingvellir við Öxará skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga, hið friðlýsta land skuli ævinlega vera eign íslensku þjóðarinnar undir vernd Alþingis og landið megi aldrei selja eða veðsetja.

Þingvellir

Þingvellir.

Hér á landi var bent á að mikilvægt væri að vernda einstaka náttúru- og sögustaði svo að komandi kynslóðir gætu notið þeirra óraskaðra. Fljótlega beindist umræðan að Þingvöllum sérstaklega og þeirri hugmynd að þar yrði stofnaður þjóðgarður. Þessi fyrrum krafa hljómar nú um heim allan. Hvarvetna er umræða um mikilvægi náttúru- og söguminja og eru þær taldar ein helstu verðmæti framtíðarinnar. Mikið er t.d. rætt um það meðal ráðherra Evrópusambandsins um þessar mundir að mörkuð verði heilstæð stefna í þessum málum og er eftirlit og gæsla þessara mikilvægu minja hvers lands hluti af þeirri umræðu. Mýmörg og sorgleg dæmi eru um glataðar fornminjar í gegnum aldir er hefðu getað upplýst um sögu og þróun lífs á Jörðinni. Upplýst samfélag vitiborinna manna telur að nú sé nóg komið af eyðileggingunni.

Þingvellir

Almannagjá.

Víkingaöld er talinn hefjast um árið 800 og ljúka um 1050. Einkennandi fyrir þennan tíma er að þá tók norrænt fólk sér bólfestu allt frá Volgubökkum til austurstranda Norður-Ameríku og frá Miðjarðarhafi til Norður-Íshafs.-
Landnám Íslands var einn þáttur í þessum miklu og víðtæku þjóðflutningum. Landþrengsli og innanlandsátök í Noregi voru þættir sem leiddu til að margir tóku sig upp og lögðu út á hafið til Íslands. Í Íslendingabók Ara fróða segir að Ingólfur Arnarson hafi fyrstur numið land í Reykjavík sem mun hafa verið um árið 870. Hið rétta er að Ingólfur nam hér land á þeim tíma, en án efa hafa aðrir landnemar verið hér fyrir þótt minna hafi farið fyrir þeim og heimildir um þá ekki verið skráðar sérstaklega.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Margir fylgdu hins vegar í kjölfar Ingólfs og sáu þeir Ísland fyrir sér sem land nýrra tækifæra. Íbúum fjölgaði jafnt og þétt og að sama skapi jókst þörf á lögum og þar með einhverjum tilteknum stað þar sem menn gætu komið saman, sett niður deilur og sammælst um tilteknar reglur sem hafa bæri í heiðri. Nokkru eftir landnám voru tvö héraðsþing stofnuð á Íslandi, annað kennt við Þórsnes við Stykkishólm, hitt við Kjalarnes. Seinna voru fleiri héraðsþing stofnuð víðsvegar um landið.

Þingvellir

Frá Þingvöllum fyrrum.

Skömmu eftir árið 900 var farið að huga að þeim möguleika að stofna eitt allsherjarþing – Alþingi – á Íslandi. Nokkru fyrir árið 930 komu höfðingjar sér saman um að senda mann, Úlfljót að nafni, til Noregs. Erindi hans var að kynna sér lög og venjur sem hafa mætti að fyrirmynd í hinu nýja þjóðfélagi. Hann sneri aftur til Íslands og við hann eru kennd fyrstu lögin sem sögð voru upp á Alþingi – Úlfljótslög. Fóstbróðir Úlfljóts, Grímur geitskör, fór um Ísland til að afla fylgis við stofnun Alþingis sem og að finna hentugan þingstað. Niðurstaðan varð sú að þingið yrði í Bláskógum og sumarið 930 komu menn saman, þar sem nú heita Þingvellir, til að taka þátt í fyrsta Alþingi Íslendinga sem markar upphaf þjóðríkis á Íslandi. Nokkrar ástæður eru taldar líklegastar fyrir vali þingstaðarins á Þingvöllum.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Í landnámi Ingólfs Arnarsonar hafði verið stofnað þing á Kjalarnesi. Ættingjar hans voru valdamiklir og talið er að áhrifa þeirra hafi gætt við staðarval Alþingis. Á þjóðveldisöld lágu Þingvellir vel við helstu leiðum og þéttbýlustu svæðum á Íslandi og því auðvelt fyrir flesta að sækja þingið.
Aðstæður á Þingvöllum þóttu einnig heppilegar fyrir þing; góðir hagar, eldiviður og vatn. Þá þótti staðurinn henta vel fyrir sjálft þinghaldið sem slíkt þar sem brekka og sléttur völlur lágu upp að hamravegg. Einnig er nefnd frásögn í Íslendingabók Ara fróða af Þóri kroppinskegg sem átti land í Bláskógum. Hann myrti þræl sinn en í refsingarskyni var allt land hans gert að allsherjareign til afnota fyrir þingið.

Þingvellir

Þingvallabærinn 1900.

Alþingi á Þingvelli fór með æðsta löggjafar- og dómsvald á Íslandi frá stofnun þess um 930 til 1262-64. Þjóðveldisöld nær frá árinu 930 fram til áranna 1262-64. Þá var Lögberg miðdepill þinghaldsins. Á Lögbergi hafði lögsögumaður sitt rými en hann sagði upp gildandi lög þjóðveldisins í heyranda hljóði. Hann geymdi lögin í minni sér og hafði þrjú ár til að segja upp öll lögin en á hverju sumri sagði hann upp þingsköp.
Lögsögumaðurinn var kosinn af Lögréttu til þriggja ára og var eini launaði starfsmaður þjóðveldisins. Á Alþingi var lögsögumaðurinn valdamesti maður landsins en þess á milli var hann formlega valdalaus en naut að sjálfsögðu virðingar samferðamanna sinna til samræmis við mikilvægt hlutverk sitt.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Á Lögbergi máttu allir stíga fram, þar voru fluttar ræður er vörðuðu mikilvæg mál og fréttir sagðar af markverðum atburðum. Þinghelgun og þinglausnir fóru fram á Lögbergi og þar voru úrskurðir Lögréttu tilkynntir, tímatal rétt, stefnur birtar og þau tíðindi önnur sett fram er vörðuðu þjóðina alla. Lögberg var opið öllum þingheimi, þar gat hver maður flutt mál sitt í mikilvægum málum. Atburðir á Lögbergi verða lifandi í lýsingum í mörgum Íslendingasögum. Aðdraganda kristnitökunnar er vel lýst í Njáls sögu en þar segir:
“Um daginn eftir gengu hvorirtveggju til Lögbergs og nefndu hvorir votta, kristnir menn og heiðnir, og sögðust hvorir úr lögum annarra og varð þá svo mikið óhljóð að Lögbergi að engi nam annars mál. “

Þingvellir

Þingvellir – Lögberg (sjá má Arnarklett á brún Almanngjár v.m. við miðju.

Hlutverk Lögbergs hvarf snemma úr sögu Alþingis er Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd á árunum 1262-64 með Gamla sáttmála. Af þeim sökum hefur nákvæm staðsetning Lögbergs gefið tilefni til umræðna en rök hafa verið færð fyrir tveimur staðsetningum. Annars vegar að Lögberg hafi verið á flötum bergstalli efst á Hallinum norðan Hamraskarðs þar sem fánastöngin er nú og hins vegar að Lögberg hafi verið inni í Almannagjá uppi við hamravegginn. Einungis fornleifarannsóknir í framtíðarinni geta gefið vísbendingar um staðsetningu Lögbergs en líklega verður nákvæm staðsetning Lögbergs aldrei ákveðin með óyggjandi hætti.

Þingvellir

Þingvellir – Öxarárfoss.

Lögrétta var æðsta stofnun Alþingis á þjóðveldisöld og fór með löggjafarvald. Starfsvið Lögréttu var margþætt en hún skar úr lagaþrætum, setti ný lög og veitti undanþágur frá lögum. Á þjóðveldisöld var Lögrétta staðsett austan við Öxará.
Lögsögumaður stýrði fundum Lögréttu en í henni sátu 48 goðar á miðpalli.
Hver goði hafði tvo ráðgjafa sem sátu fyrir framan og aftan hann.
Eftir að biskupsstólar á Hólum og í Skálholti voru stofnaðir áttu biskupar einnig sæti í Lögréttu. Fjöldi þeirra sem sátu í Lögréttu var því 146 manns eða 147 ef lögsögumaður var ekki goði. Lögrétta kom saman báða þá sunnudagana sem þingið stóð og þinglausnardag en einnig oftar ef lögsögumaður óskaði. Öllum var frjálst að fylgjast með störfum Lögréttu en enginn mátti standa innan við pallana.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Eftir því sem leið á 13.öldina jókst ófriður milli höfðingjaætta sem lauk með því að Íslendingar gengust undir yfirráð Noregskonungs árin 1262-1264 með Gamla sáttmála. Við það hvarf hlutverk Lögbergs úr sögunni og Lögrétta varð megin stofnun Alþingis sem varð dómstóll með takmörkuðu löggjafarvaldi.
Árið 1662 samþykktu lögréttumenn, á samkomu í Kópavogi, að viðurkenna einveldi Danakonunga. Við það fór vegur og vald Alþingis minnkandi allt til síðasta þings á Þingvöllum árið 1798. Fram á 16.öld var Lögrétta staðsett austan megin Öxarár. Vegna breytinga á Öxará einangraðist Lögrétta á litlum hólma og var hún því flutt vestur yfir Öxará árið 1594 þar sem byggt var lítið hús fyrir Lögréttu. Í því húsi fór allt starf þingsins fram til ársins 1798.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Um tveggja vikna skeið á sumri hverju reis lítið samfélag á Þingvöllum. Þangað streymdi fólk allsstaðar að, fólk sem vildi taka þátt í samkomu sem átti engan sinn líka á Íslandi. Orðatiltækið “nú er þröng á þingi” má líklega rekja til þingsins þar sem fjölmennt var þegar hæst stóð. Samkvæmt talningu Gissurar biskups Ísleifssonar voru þingfararkaupsbændur um 4000 talsins við lok 11.aldar. Þar sem goði gat krafið níunda hvern bónda þingreiðar voru allt að 500 þingfarakaups-bændur skyldugir að fara með með goða sínum til þings við lok elleftu aldar. Goði átti að styðja þá þingmenn sem sögðu sig í goðorð með honum en á móti studdu þingmenn goða sinn á þingum og í deilum. Goðar áttu að sjá þingmönnum sínum fyrir rými í búð sinni en aðrir sem komu reistu skýli og tjöld til að dvelja í á meðan þingi stóð.

Þingvellir

Þingvellir – Langistígur.

Á þjóðveldisöld voru ekki eingöngu þeir sem áttu lögskipað erindi til Alþingis sem þangað lögðu leið sína. Í hinni fornu lögbók Grágás eru nefndar búðir sútara og sverðskriða og í mörgum Íslendingasögum er getið búða ölbruggara og veitingamanna á Alþingi. Þann tíma sem Alþingi stóð yfir var það miðstöð þjóðlífs og einskonar höfuðstaður landsins þangað sem almenningur sótti. Þangað komu iðnaðarmenn og kaupmenn innlendir sem erlendir, fulltrúar erlendra þjóðhöfðingja, fólk í atvinnuleit og betlarar í leit að ölmusu. Kauphéðnar, sverðskriðar og sútarar buðu fram varning sinn og ölgerðarmenn sáu um að þingheimur gæti vætt kverkarnar. Fréttir voru sagðar úr fjarlægum heimshlutum, kappleikir háðir og veislur haldnar. Æskufólk réð ráðum sínum ekki síður en þjóðskörungar og lögvitringar.
Þeir sem sóttu þing þurftu að leggja á sig erfið ferðalög til að komast til Þingvalla hvert sumar. Sumir áttu einungis um 1-2 daga reið meðan aðrir voru um 14-17 daga á leiðinni yfir fjöll og eyðisanda á hálendi Íslands. Þingvellir lágu vel við fornum leiðum, mitt á milli helstu héraða sunnanlands og vestan, vart nema dagleið ríðandi mönnum. Úr fjölmennustu byggðum norðanlands, Húnaþingi, Skagafirði og Eyjafirði lágu torfærulitlir vegir á þing. Norðlendingar eystri og jafnvel Austfirðingar völdu fjallvegi þvert yfir landið en lengsta þingsókn áttu menn úr sunnanverðu Múlaþingi.
Í dag eru grasivaxnar búðarústir víðsvegar um þinghelgina einu leifarnar eftir tæplega 900 ára sögu þingsins. Almennt er talið að búðir á þjóðveldisöld hafi verið stærri en þær sem voru reistar á síðari öldum Veggir voru gerðir úr torfi og grjóti og yfir búðina var reist trégrind þar sem var tjaldað yfir með vaðmáli eða öðru efni. Búðir voru iðulega reistar á grunni eldri búða og því eru flestar búðarústir sem sjást í þinghelginni frá seinustu tveimur öldum þingsins.
Frábært veður – gangan tók 2 klst og 22 mín.

http://www.thingvellir.is/saga/

Þingvellir

Skötutjörn á Þingvöllum.