Þingvellir

Það var grenjandi lárétt rigning í bænum þegar lagt var af stað. Þegar komið var á Þingvelli skein sólin á Þingvallahraunið og nálæg fjöll. Frábært veður. Ætlunin var að ganga í Hrauntún og Skógarkot frá þjónustumiðstöðinni að Skógarkoti og rifja upp búsetusögu og mannlíf á svæðinu fyrr á öldum sem og náttúrufarið. Í Skógarkoti eru ríkulegar minjar í fallegu umhverfi. Um tímamóta FERLIRsferð er að ræða því ekki hefur fyrr verið farið svo langt út fyrir kjörlendið. Svo gæti farið að þetta yrði upphafið að “útrás” FERLIRs um aðra merkisstaði utan skagans og þar með formleg “útskrift” af æfingasvæðinu.

Hrauntún

Í Hrauntúni.

Í tilefni af ferðinni var sett inn ný krækja á vefsíðuna, www.thingvellir.is. Á honum er bæði kort og ýmiss fróðleikur um Þingvelli, einn helgasta stað þjóðarinnar frá árinu 930.

Þingvallahraun er 9000 ára um þessar mundir, en Sandey út í Þingvallavatni er einungis um 2000 ára gömul svo ýmislegt hefur gengið þarna á um langan tíma. Fyrir um 9000 árum, þegar hraunin runnu frá Skjalbreið og gígunum ofan við Hrafnabjörg er mynduðu Þingvallahraunið hefur svæðið verið nokkurn veginn sléttlent með hraunhólum og –hæðum. Síðan hefur landið sigið að hluta á misgengissprungu, sem liggur um landið frá SV til NA. Mið-Atlantshafshryggurinn liggur um Þingvallasvæðið og Þingvallasigdældin er líkust því sem sjá má á Atlantshafshryggnum neðansjávar. Landið hefur gliðnað í sigdældinni, en reikna má með að um hálf milljón ár séu liðin frá því að Almannagjá að vestanverðu og Hrafnagjá að austanverðu lágu hlið við hlið. Þegar litið er glögglega á umhverfið má vel sjá þau frumöfl, sem skópu Ísland í upphafi, þ.e. sprungukerfið, jarðeldarnir og jökulrofið. Áhrif ísaldarjökulsins má t.d. sjá á Henglinum, Hrafnabjörgum, Ármannsfelli og Súlunum.

Hrauntún

Hrauntúnsgatan.

Götur, vegir og slóðar liggja svo til um allt hraunið, bæði þvert yfir það og á milli bæja og vatnsins. Þarna er kirkjugata, veiðigata og konungsvegur. Orðið stígur á “Þingvallamáli” er einungis ruðningur eða brú yfir gjá. Skógarkotsgatan og Gjábakkavegur annars vegar voru fyrstu akvegirnir í gegnu hraunið til austurs og Nýja Hrauntúnsgatan og Réttargata hins vegar voru leiðin noður á land um Uxahryggi. Þannig lágu “allir vegir um Skógarkot” hér á landi líkt og allir vegir lágu til Rómar enn fyrrum.

Hrauntún

Í Hrauntúni.

Þingvellir hétu áður Bláskógar. Sennilega hafa þeir dregið nafn sitt af blágresinu, sem enn er víða áberandi innan um kjarr og lyng í hrauninu. Þingvallavatn hét þá Ölfusvatn (Ölfisvatn), sbr. Ölfusá, en eftir að þinghald varð á Völlunum breyttist nafnið og nú eru þau gömlu að mestu gleymd, líkt og flest gömlu örnefnin á svæðinu. Reyndar eru til miklar örnefnalýsingar, en fáir vita nú hvar þau örnefni eru. Örnefnin höfðu annan tilgang hér áður fyrr en fólk ímyndar sér nú á dögum. En samt er hann ekki svo frábrugðin þegar grannt er skoðað. Maður, sem talar við annan í farsíma, getur þurft að staðsetja sig til að gefa til kynna hvar hann er staddur. Á sama hátt þurfti bóndinn t.d. að geta staðsett kýr eða kindur við eða nálægt tilteknum stað þegar á þurfi að halda, öðrum til glöggvunar.
Utan þingstaðarins forna tengjast þær flestar gömlu eyðibýlunum, Hrauntúni, Skógarkoti og Vatnskoti þar sem enn má sjá ummerki mannvistar fyrir tíma vélvæðingar.

Konungsvegur

Konungsvegur að Skógarkoti um Þingvallahraun.

Byrjað var á því að ganga frá þjónustumiðstöðinni (sem nú er ekki nema tóftirnar) að Leiragötu (1.5 km) um Leiragjá. Gjáin er bæði breið og falleg á kafla, en annars er hún eins og aðrar gjár á Þingvöllum, djúpar. Leiragata liggur frá Leirum sunnan við miðstöðina og liðast í gegnum hraunið. Smjörgras var áberandi við götuna. Hún er vel greinileg og hefur verið gerð greinilegri á síðustu árum eftir að byrjað var á því að greina aftur gömlu göturnar og vegina í hrauninu. Sumar göturnar eru ekki varðaðar, enda einungis farnar í ákveðnum tilgangi, s.s. með fé eða til að sækja vatn. Aðrar eru greinilegri og hafa jafnvel verið lagfærðar. Þær eru varðaðar, enda oft um þjóðleiðir að ræða. Þannig var Prestastígur með austanverðu og ofanverðu hrauninu notaður þegar Skálholtssbiskupar voru á leið vestur á land og Skógarkotsgata og Gjábakkavegur voru sýsluvegir, sem notaðir voru til að greiða t.d. götu vermanna á leið þeirra yfir hraunið.

Skógarkot

Í Skógarkoti.

Gengið var í gegnum Þrívarðaskóg og yfir á Nýju Hrauntúnsgötu, sem hefur verið endurgerð sem reiðvegur. Hún liggur bæði til norðurs og til suðurs vestan við Skógarkot. Frá gatnamótunum er stutt eftir að Hrauntúni. Þegar stutt er eftir að bænum sést fallega hlaðin varða á hraunhól á vinstri hönd, Litlavarða. Einfaldir háir garðar umlykja túnin. Blæs vel í gegnum þá sumsstaðar. Hrauntún er sunnan Sleðaáss. Halldór Jónsson reisti þar bú 1830 á rústum kots, sem talið er hafa farið í eyði í fyrri plágunni. Þarna bjuggu þrjár kynslóðir til 1934. Óglöggt sést til rústa Litla-Hrauntúns austur af Víðivöllum og Stóragili í Ármannsfelli.

Skógarkot

Skógarkot 1913.

Sagt er að Halldór bóndi í Hrauntúni, sem hlóð garðana, hafi verið ættaður norðan af landi og taki hleðslulagið mið af því, sem hann var vanur og þekkti. Hann er m.a. þekktur fyrir að hafa varðað hinn gamla Kjalveg. Garðarnir umhverfis Skógarkotið eru hins vegar mun breiðari og taka mið af lagi sveitarinnar. Hrauntúnsgata liggur þarna sunnan garða. Réttargatan er norðan við bæinn. Fallega hlaðin heimtröðin liggur að henni frá bæjarstæðinu. Austan bæjarins eru tóftir útihúsa. Sunnan bæjarins er hlaðin hlaða og brunnurinn er greinilegur í kvos vestan hennar. Ofan og norðan við hann er flórað gólf undan timburhúsi. Fallegri fjallasýn frá bæ er vandfundin, nema ef vera skyldi frá Skógarkoti.

Hrauntún

Hrauntún – loftmynd.                               

Þá bættist Páll Kolka í hópinn. Hann er starfsmaður Þjóðgarðsins, en garðurinn gengst fyrir gönguferðum með leiðsögn um Þingvallasvæðið á laugardögum í sumar. Ætlunin er m.a. að fara síðar í slíka ferð að Þórhallsstöðum skv. auglýstri dagskrá.

Hrauntún

Í Hrauntúni.

Gengið var áleiðis í Skógarkot um Sandhólaveg og Sandhólastíg yfir Sandhólagjá. Ljósberi var áberandi við götuna. Sandhólavegur er ekki varðaður og er líkt farið með honum og Leiragötu. Á leiðinni upplýsti Páll að árið 1789 hafi hækkað í vatninu og Vatnskot, á norðurbaka Þingvallavatns, hafi þá að hluta farið undir vatn, en enn má sjá garð í vatninu á um 2 metra dýpi. Vatnskot stóð utan við Vellankötlu á vatnsbakkanum í landþrengslum. Ábúendur lifðu aðallega af veiði í vatninu. Símon D. Pétursson, smiður, og Jónína Sveinsdóttir settust þar að 1912 og bjuggu lengst allra í þjóðgarðinu, til 1966. Símon þótt mikill hagleiksmaður.
Árið 1930 hafi Þingvellir verið gerðir að þjóðgarði og þar með hafi búskapur og flestir bæir skömmu síðar þar lagst af. Bóndinn í Skógarkoti hafi reyndar flutt sig niður að Hallsvík, reist þar hús og ætlað að lifa af vatnabúskap, en það hafi orðið skammlíft. Reyndar hafi Þingvallavatn lítið verið nýtt á öldum áður. þrátt fyrir nægan fisk.
Blágresi var víða með götunni. Páll sagði að túnin við bæina hefðu verið ræktuð með því að mokað var út úr útihúsum og skítnum dreift um mosavaxna hraunhóla og –lægðir. Þannig hefðu þau verið stækkuð smám saman. Reyndar væru þau hvergi mjög stór, en skógurinn hefði bætt upp beitina. Þarna hafi jafnan verið snjólétt og féð geta gengið í skóginn. Fjármargt hafi verið í kotunum. Um 1703 hafi t.d. verið um150 ær í Skógarkoti, en undir það síðasta hefur fjöldinn eflaust verið mun meiri, líkt og á öðrum bæjum í Þingvallasveit. Í Skógarkoti hafi verið strjál búseta og oft á tíðum hafi það verið sel frá Þingavallabænum.
Þegar komið var í Krókhóla var staðnæmst og Páll útskýrði örnefnið; krókóttir hraunhólar að ofanverðu. Lyng og kjarr var í hraunhólunum á móti suðri, en við norðrinu gapti mosinn.
Beygt var til hægri þegar komið var inn á Nýju Hrauntúnsgötu og síðan austur Skógarkotsveg. Af honum var gengið inn á heimtröðina í Skógarkoti. Veggirnir voru veglegir og hafa staðið nokkuð vel því þeir hafa ekki verið endurhlaðnir eftir að búskap lauk þar. Heimtröðin liggur í beygju upp að bæjarhólnum. Margt er líkt með heimtröðinni að Skógarkoti og Stóra-Gerði í Staðarhverfi í Grindavík, báðar tilkomumiklar og fallega formaðar.

Hrauntún

Garður í Hrauntúni.

Í Skógarkoti eru greinilegar rústir þessa býlis, undir Sjónarhóli. Vatn þraut oft í brunninum í túninu. Þarna var búið til 1936.
Páll dró upp teikningu af útliti bæjarins, eins og hann leit út undir það síðasta, og sýndi þátttakendum. Með því var auðveldara að glöggva sig á hvernig umhorfs hafi verið í Skógarkoti á þeim tíma miðað við aðstæður. Blágrsi hafði náð að “fótfesta” sig í túninu við heimtröðina. Suðvestan við heimtröðina að Skógarkoti liggur Vatnskotsgata og Veiðistígur til suðurs, að vatninu, annars vegar að Vatnskoti og hins vegar að Öfugsnáða, en þaðan náði veiðiréttur Skógarkots að Hallvík í austri.
Bæjarhúsin hafa staðið uppi á grónum hól. Suðvestan við þau sést enn verklega hlaðin hlaða. Tóftir útihúss eru ofar. Vel hlaðnir garðar eru allt í kringum heimatúnin. Austan við túngarðana eru Þórhallastaðir við Ölkofrahól og enn ofar í norðraustur er Hellishæð. Þar er fjárhellir.
Áhrifamikil saga tengist einum ábúandanum á Þórhallsstöðum og brugggerð hans. Á Þórhallastöðum eru rústir bæjar eru undir Ölkofrahóli. Þar er brunnur og smátún. Ölkofradalur er djúp hraunkvos vestan hólsins. Þar er vatnsstæði, sem þornar í þurrkum. Ölkofri, sem seldi þingheimi bjór á sínum tíma og brenndi Goðaskóg, bjó þar. Talið er, að stóraplága hafi lagt Þórhallastaði í eyði og Skógarkot hafi byggst eftir hana. Að sögn Páls hafa margar minjar á þessu svæði verið upgötvaðar á liðnum árum, en eflaust eru margar enn ófundnar, sem þar kunna að leynast…

Þingvellir

Fjallfífill.

Gengið var til baka um Skógarkotsstíg, greiðfæra götu, enda einu sinni fyrsti bílvegur þá leiðina yfir hraunið, og að Flosagjá. Þar var staðnæmst við brú yfir gjána. Skammt sunnan hennar má sjá enn eldri brú fyrir fótgangandi. Páll sagði að Flosagjá hafi einnig verið nefnd Peningagjá. Á því væru tvær skýringar. Annars vegar sú að í henni hafi verið komið fyrir sjóði falsaðra peninga, en hinsvegar að konungur Dana, sem hafi átt leið um “Konungsveginn” hafi fyrstur staðnæmst þar og kastað í hana pening honum og öðrum til heilla.

Götunni var fylgt upp að gatamótum Langastígs og Þingmannastígs við Vallagjá. Langistígur liggur upp um haft, sem sprengt var niður í Stekkjargjá og mun m.a. vera gömul póstleið. Þingmannastígur liggur norður með Fögrubrekkum, en það var leið Norðlendinga af þingi fyrr á öldum. Þeirri götu var fylgt áleiðis að þjónustumiðstöðinni þar sem gangan endaði. Við götuna mátti bæði berja augum brönugras og fjalldalafífil.
Til frekari upplýsinga má geta þess að Arnarfell var hjáleiga frá Þingvöllum, sem hafði afnot af fellinu og spildu norðan þess við vatnið og var góð veiðijörð. Enn þá sést móta fyrir grjótgarði, sem var hlaðinn til að girða fellið af. Líklega hefur Fornasel verið sel frá Þingvallabænum. Hjáleigan var ekki stöðugt í ábúð. Árið 1934 fékk Matthías Einarsson, læknir, erfðafestuábúð þar og flutti til sín hreindýr frá Austurlandi en þau drápust öll.
Hér á eftir eru tiltekin prestssetur á Þingvöllum með því sem þeim fylgir, með framsettum fyrirvara, sem þjóðkirkjan hefur ekki afsalað sér eða ekki hafa verið seld með lögmætum hætti: Þingvöllur með hjáleigunum í umsjá f.r.: Svartagili, Vatnskoti og Arnarfelli. Hjáleigurnar Skógarkot og Hrauntún hafa verið lögð til Þingvalla.
Frábært veður – bjart og hlýtt. Gangan tók 5 klst og 5 mín.
Sjá vefsjá Þingvalla  HÉR.

Skógarkot - loftmynd

Skógarkot-loftmynd.