Sængurkonuhellir

Haldið var í Selvog.

Nesborgir

Nesborgir í Selvogi.

Á leiðinni var komið við í Sængurkonuhelli í Klifshæð, skammt frá Herdísarvíkurvegi, austan sýslumarka Árnessýslu og Gullbringusýslu. Að þessu sinni var hellirinn skoðaður betur en áður. Segja má að hann hafi komið mjög skemmtilega á óvart. Gamalt botnlaust emelerað vaskafat var við op hans, en þegar betur var að gáð kom í ljós að hellirinn nær langt undir hraunið. Farið var u.þ.b. 40 metra inn í hellinn og það látið duga að þessu sinni. Var ákveðið að hafa samband við fulltrúa Hellarannsóknarfélagsins með það fyrir augum að skoða hann gaumgæfilegar.

Þorkelsgerði

Þorkelsgerði.

Þá var haldið að Þorkelsgerðis og rætt við húsráðanda. Hann vísaði á einn Stokkasundssteinana, sem hann hafði dregið upp á tún. Um er að ræða gataðan stein, sem augsýnilega hefur verið notaður sem rekankeri. Stokkasundið var fallegt yfir að líta og auðvelt að sjá hvernig það hefur verið nýtt. Bátum hefur verið siglt inn sundið og þeir bundnir við sléttar háar hraunhelluvelli beggja vegna. Við leit fannst einn stjórinn njörvaður fastur í klettaskoru. Hafði verið höggvið gat á stjórann og bátar bundnir þar við. Þessi steinn getur þess vegna verið mjög gamall. Hraunhellurnar voru notaðar sem skiptivellir.

Stokkavík

Stokkavíkursteinninn í fjörunni.

Skammt vestan við Stokkasundið sést enn móta fyrir Torfustaðafjárborginni og Þorkelsgerðisfjárborginni inn undir kampinum. Þá má vel sjá móta fyrir Nesborginni (-borgunum) skammt austar. Skv. heimildum áttu borgirnar að hafa eyðst í fárviðrinu 1925 og horfið með öllu, en svo virðist þó ekki hafa verið raunin.

Nesborg

Nesborgin fyrrum. Nes fjær.

Til er falleg mynd af Nesborginni í bók Daniel Brunn – Íslenskt þjóðlíf… Þá var hún vel upp á landi, en er nú í fjörukambinum, sjórinn búinn að taka hana að hálfu – og rúmlega það.

Breiðabólstaðasel

Breiðabólsstaðasel.

Í bakaleiðinni var skoðaður fallega hlaðinn brunnur niður undan gömlu húsunum að Þorkelsgerði.

Þá var haldið í Ölfusið og tekið hús á fróðum manni. Framvísaði hann og ánafnaði FERLIR örnefnakortum af svæðinu, með öllum örnöfnum sem og fornum leiðum. Benti hann m.a. á Breiðabólstaðasel, sem er í vestanverðum Krossfjöllum, og Hraunssel, sem er vestan undir Lönguhlíð.
Eftir kortunum var haldið að Draugshelli á landamerkjum Litlalands og Breiðabólstaðar. Þar gerðist fyrir alllöngu saga, sem flestir þekkja.

Ingjaldsborg

Ingjaldsborg.

Frá honum var haldið á Ranann upp að Ingjaldsborg. Um er að ræða mikið hlaðið mannvirki, tvær fjárborgir og 100 rollu fjárhús ofan við brúnirnar, skammt vestan við Brúsavörðu. Frá Ingjaldsborg var gengið að Bræðraborg, sem einnig er hlaðin fjárborg undir Ólafsvörðum ofan Ólafsdals. Þar undir er Skrínuhellir. Frá honum var gengið að gömlu hlöðnu Hákarlsbyrgi austar á brúninni, neðan við Rjúpnavörðunnar.
Ferðin tók um 5 klst með viðtölum við fróðleiksfólk og leit að framangreindum mannvirkjum – en hver mínúta var fullkomlega þess virði.
Frábært veður – logn, sól og hiti.

Sængurkonuhellir

Í Sængukonuhelli.