Bjargarhellir

Farið var á ný í Bjargarhelli. Eins og fram kemur í öðrum lýsingum af Bjargarhelli hafði mikið og lengi verið reynt að finna hina þjóðsagnakenndu rás inn úr framhellinum. FERLIR tókst það þó að lokum og með dyggri aðstoð fulltrúa HERFÍs náðist að opna rásina og komast inn í hellinn.

Bjargarhellir

Í Bjargarhelli.

Eftir að hafa skoðað hina nýopnuðu rás inn og niður úr hellinum að þessu sinni var ljóst að gera þurfti ráðstafanir áður en farið væri niður. Fara þurfti í gegnum mikla mold og drullu áður en komið var í gegn. Því var haldið að Vogsósum og hús tekið á Þórarni Snorrasyni. Hjá honum var drukkið kaffi og eftir spjall var heyrúlluplast þegið í eftirrétt. Með því var opið í Bjargarhelli fóðrað áður en haldið var niður. Þegar inn var komið blasti dýrðin við.

Bjargarhellir

Í Bjargarhelli.

Um er að ræða stóran geimi og raða háir dropasteinar sér með veggjum, allt að 60 cm háir. Í innsta hlutanum er hraunstráabreiða niður úr hellisþakinu. Á miðju gólfi eru glæsileg hraundríli. Rósaflúr er á gólfi. Utast er þakið fallið niður. Skriðið var yfir hrunið og var þá komið í víða lokaða hliðarrás. Í henni voru hraunstrá og dropasteinar með veggjum. Rásin virðist lokið handan hrunsins, en hún stefnir í átt að Strandarhelli. Forvitnilegt væri við tækifæri að fara þangað og líta nánar á gólfið í hellinum. Ekki er ólíklegt að þar kunni annað op að leynast.
Ljóst er að Bjargarhellir er með fallegri hellum á Reykjanesskaganum.
Sjá MYNDIR.

Bjargarhellir

Bjargarhellir.