Arnarseturshraun
Vísbending hafði borist um helli austan Arnarseturs í Arnarseturshrauni. FERLIR þangað.
Byrjað var á því að ganga eftir stígum til suðausturs í átt að Stóra-Skógfelli, en enginn hellir fannst á eða við þær leiðir.

Hnappur

Hnappur – opið.

Þá var gengið í boga til norðurs austan við Arnarsetursgíg. Gígurinn sjálfur austan við Arnarsetrið er stórbrotinn. Einnig annar stærri skammt austar. Hellirinn fannst norðan við gíginn. Frá honum liggur stígur til vesturs norðan við Arnarsetrið.

Op hellisins er stórt. Botninn er sléttur og gott rými inni í honum. Hann er opinn til beggja enda, kannski um 30 metra langur. Í heildina er hann sennilega um 100 metra langur, ef jarðföll og rásir sunnan við hann eru taldar með. Þetta er hið ágætasta afdrep. Um 5 mínútur tekur að ganga stíginn frá hellinum yfir á Arnarsetursveginn.
Bent skal á að þegar staðið er norðvestan við sjálft Arnarsetrið og horft til suðausturs er stór klettur utan í setrinu eins og mannsandlit.

Arnarsetur

Arnarsetursrásir.

Norðar og vestar í Arnarseturshrauni eru nokkrir fallegir hellar þótt þeir geti hvorki talist langir né stórir. Vestast er Kubburinn (falleg hraunsrás á tveimur hæðum), en nyrstur er Hestshellir (með fyrirhleðslu skammt austan við Grindavíkurveginn).

Arnarsetur

Hellir í Arnarsetri.

Milli hans og Arnarseturshellis er Hnappurinn (Geirdalur – ber nafn af þeim er fyrstur kíkti niður í hann). Fara þarf niður þröngt uppstreymisop, fylgja lágri brúnleitri fallegri rás, halda niður í víðan og háan geymi (lítið loftop efst) og út úr honum liggja nokkrir angar. Hægt er að komast upp úr a.m.k. tveimur þeirra.
Gangan milli hellanna tekur u.þ.b. 1 og 1/2 klst.

Gíghæð

Gíghæð vestan Arnarseturs.