Heiðarvegur

Gengið var frá Bláfjöllum í vesturátt. Eftir að hafa gengið tæpan kílómetra á helluhrauni og á jeppaslóð, var komið að hraunhól sem á var varða.

Heiðarvegur

Heiðarvegur.

Sprunga er í hólnum með gras í botni og líklega gott skjól í henni. Að vestan er líkt og dyraop og er hægtað ganga á jafnsléttu inn í sprunguna. Punktur tekinn. Áfram var gengið í vesturátt í stefnu á Grindaskörð, á helluhrauni nokkuð grónu, með leirsléttum. Á vinstri hönd er eldborg og gróft hraun í kring, á hægri hönd er Strompahraunið og er um 300 metrar á milli hraunanna. Að gengnum 1.655 metrum (í beina loftlínu) var komið að tveimur vörðum sín á hvorum hólnum og er slakki á milli hólanna. Greinileg gata var á milli hólanna. Þegar horft var til baka sást á áframhaldandi vörðu í austurátt. Á leiðinni eftir jeppaslóðinni, var varðaða leiðin á vinstri hönd suður). Varða er einnig sjáanleg héðan í vestur átt og voru tekin hnit á hana. Næsta varða þar á eftir er að mestu hrunin en sést þó enn.

Heiðarvegur

Heiðarvegur.

Komið var að hraunbrún. Framundan er úfnara hraun, en mjög stutt er yfir það að hlíðum (Stórkonufells?). Í suður í átt að Litla-Kóngsfelli og var stæðileg varða í þá áttina. Hún gæti verið við vegamót. Önnur leiðin liggur þá suður með hraunbrúninni og suður fyrir Stórkonugjá við Litla-Kóngsfell og hin leiðin liggur áfram í stefnu yfir hraunhaftið.

Gengið var áfram í sömu stefnu yfir hraunhaftið, nokkra tugi metra og kom á Reykjaveginn við hlíðar Stórkonufells og síðan yfir nyrðri enda Stórkonugjár og er greinileg gata þar og nokkuð breið. (Reykjavegurinn stefnir vestur yfir og suður með Stórkonugjá í stefnu á veg í Kerlingaskarð). Síðan var gengið norðvestur með hlíðunum í átt að skarðinu norðan við Stórabolla.
Þegar komið er að þar sem farið er upp í skarðið norðan við Stórabolla er myndarleg varða þar, niður undir jafnsléttu og hálfhruninn varða er rétt þar neðar í stefnu á hraunbrún á hrauninu sem er sunnan við bollana. Þegar horft er úr brekkunni undir Stórabolla og vörðurnar bera hver í aðra, má sjá góðan veg með hraunbrúninni.

Heiðarvegur

Heiðarvegur – varða.

Þegar komið var neðarlega í brekkurnar norðan skarðs og gengið eftir jeppaslóða, var fyrir varða í 336 m hæð. Punktur tekinn.
Neðst í brekkunum komu saman jeppaslóðinn og reiðvegur og eða fjárgata í 276 metra hæð. Þegar gengið var áfram með hlíðum undir Kristjánsdalahorni, sást greinileg gata upp og bak við smá hnjúk sem sker sig frá fjalllendinu. Þegar komið var norður fyrir hnjúkinn sást gatan greinilega þar sem hún skáskar brekkuna niður á jafnsléttu. Neðar eru vatnsstæði.
Aftur var farið upp að Bláfjöllum og gengið frá þeim í suður. Eftir að hafa gengið um 800 metra frá horninu, var komið að vörðu. Þaðan var gengið í norðvestur og eftir að hafa gengið um 500 metra sást hraunhóll og var steinn á toppi hans.

Heiðarvegur

Heiðarvegur – vörður.

Hóllinn er holur að innan og er þar sæmilegur skúti og geta nokkrir menn haft þar skjól. Svo virðist sem brotið hafi verið úr munanum niður við jörð og er hægt að ganga inn líkt og um dyraop. Punktur tekinn. Skúti þessi er í beinni línu við næstu vörðu sem komið var að. Um 500 metrar eru frá skútanum að henni. Vestan við vörðuna er grasivaxin dæld og þegar horft er í norðvestur á næstu vörðu blasir við greinileg gata í grasinu, nokkra tugi metra. Þessi gata er ekki fjárgata, einn og hálfur til tveir metrar á breidd þar sem hún er breiðust.

Heiðavegur

Varða á Heiðarveginum.

Síðan var gengið að næstu vörðu sem blasti við. Eru um 220 metrar að henni. Hæð y.s.m. eru 515 m. Þegar nær var komið sást að vörðurnar eru tvær. Sú sem fyrr er komið að, er hálf hruninn en nokkrum metrum frá er stæðileg varða. Vörðurnar eiga líklega að bera hvor í aðra til að fá stefnu á næstu vörðu. (Eða að vísa á sprungna hraunhólinn með vörðunni sem sást í fyrri ferð í um 20-30 metra fjarlægð).
Ekki sást til næstu vörðu í norðvestur eða vesturátt en í vestur er varða sem áður hafði verið komið að og er um 1.600 metrar í hana. Enn styttra er að aðra vörðuna.

Heiðarvegur

Heiðarvegur – Geitafell fjær.

Hér er ágætis útsýni yfir landið frammundan, það fer lækkandi í norðvestur og vestur og er vegur ágætur um helluhraun.
Í vestur er nokkuð stór nafnlaus eldborg sem áður er getið með grófu hrauni umhverfis en hraunið úr henni nær ekki langt norður fyrir hana. Heiðarvegurinn liggur því norðan við eldborgina, um nokkurskonar hlið á milli úfinna hrauna.
Því miður var ekki hægt að skoða meira í bili en klára þarf að staðsetja vörður á 1.600 metra kafla og athuga hvort gatan greinist austan við Stórkonugjá. Þá er eftir að staðsetja vörður austur um heiðina niður Hrossahryggi eða um Guðrúnarbotna að Ólafsskarðsvegi.
Frábært veður í frábæru landslagi.

Heiðarvegur

Varða á Heiðarveginum – Geitafell framundan.