Brunnur

Forn garður í Selvogi, rúmlega 7 km langur, er jafnan nefndur Fornigarður. Hann hefur hins vegar ekki alltaf verið forn. Áður var hann nefndur Strandargarður eða Langigarður.

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

Þórarinn Snorrason á Vogsósum leiddi FERLIRsfólk að enda Fornagarðs (Strandargarðs) Hlíðarvatnsmegin, en þaðan liggur hann yfir að Nesi í Selvogi, 7 km. leið. Um var að ræða vörslugarð er umlukti Selvogsbæina, en hann hefur líklega verið hlaðinn um árið 1000, en heimildir eru um garðinn allt frá árinu 1275. Garðurinn liggur frá Hlíðarvatni að Impuhól og þaðan að Gíslhól. Við hólinn var gömul rétt, sem fyrir löngu hefur verið aflögð. Frá Gíslhól og upp fyrir fjárhúsin á Vogsósum, þar sem gamla Vogsósaborgin stóð til 1954, hefur garðurinn verið sléttaður út. Hægt er að fylgja honum suðaustur túnið austan fjárhúsanna og þegar túninu sleppir sést hann greinilega alveg austur fyrir Strandarkirkju. Skammt ofan við Vogsósatúnið má sjá ummerki eftir fjárborg og hús. Hefur hvorutveggja verið utan garðs, en umleikis þau hefur verið hlaðinn ferkantaður garður. Ekki er vitað til þess að þessar fornminjar hafi verið skráðar.

Vogsósaborgir

Vogsósaborgir – Borgirnar þrjár.

Var gengið sem leið lá með garðinum framhjá Stórhól og að kirkjunni. Á leiðinni má sjá aðra gamla þvergarða og garða, sem liggja yfir og í sveig á Fornagarð. Vestan garðsins liggur Kirkjugatan á milli Strandar og Vogsósa, vel vörðuð. Þegar skammt er til Strandar sést móta fyrir hleðslum Sveinagerðis, velli þar sem Erlendur lögmaður lét sveina sína æfa listir sínar.
Austan Strandarkirkju rakst hópurinn á sérstæðan gataðan hestastein, auk þess leitað var að gamla skósteininum við kirkjuna. Hann á að vera skammt norðan við hæð norðan kirkjunnar. Sjá má gömlu þjóðleiðina yfir Vogsósa liggja frá kirkjunni áleiðis að þeim, vel varðaða.

Strandarkirkja

Strandarkirkja.

Frá kirkjunni var gengið eftir garðinum á ská yfir veginn og áfram að gömlu Þorkelsgerðisréttinni (Út-Vogsrétt). Frá henni hefur elsti hluti garðsins varðveist mjög vel, allt að Þorkelsgerðishliði. Var garðinum fylgt suðaustur með tröðunum og síðan þvert til austurs að Bjarnastaðahliði og síðan áfram norðan við Nes og að vitanum austan þess. Þar má sjá garðinn koma niður að sjó sunnan við vitann. Skoðað var gamla vitastæðið úti á glöppunum. Fjaran vestan Nesvita er auðgengileg og þar getur verið margt að sjá fyrir þá sem ganga með opin augun. Bæði er lífríki fjörunnar fjölbreytilegt sem og steinategundir í og ofan við fjörukambinn.

Nes

Nes í Selvogi – sjóbúð.

Frá Nesvita var gengið að Nesi og m.a. skoðað gamla brunnhúsið, fjárborgirnar tvær og sjóbúðin vestan þess. Borgirnar eru sagðar hafa horfið í flóðinu 1925, en þær eru nú þarna samt sem áður, að vísu hálfhrundar sjávarmegin.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Skoðaður var gamli brunnurinn á Bjarnastöðum og einnig Guðnabæjarbrunnurinn áður en haldið var í Djúpudali þar sem skoðuð var fallega topphlaðna Djúpudalaborgin. Gerð var og leit að gömlu borginni við dalina, sem spurnir höfðu borist af frá eldri Hafnarbúa, sem kvaðst hafa séð hana fyrir allmörgum árum síðan. Vísaði hann FERLIR á svæði þar sem hana væri líklegast að finna, en þrátt fyrir leit fannst hún ekki að þessu sinni. Talsvert sandfok hefur verið þarna á síðari árum, auk þess sem gróðurlínan hefur færst talsvert ofar en áður var. Gerð verður ítrekuð leit að borginni síðar.
Í bakaleiðinni var komið við í Borgunum þremur austan Hlíðarvatns og þær skoðaðar í sólbirtunni.
Frábært veður.

Djúpudal

Djúpudalaborg.