Selvogur

Gengið var frá Nesi í fylgd fjölfróðs uppalings í Selvogi. Stóð á endum þegar ekið var af Strandarheiði að Selvogi að birti til og ekki laust við að birtugeislanir vildu nota tækifærið við komu FERLIRsfara og leika við nýkomna farfuglana því þarna mátti snemma vors bæði sjá og heyra í tjaldi, steindepli og einstaka lóu.

Nesborgir

Nesborgir í Selvogi.

Skoðaður var gamli kirkjugarðurinn í Nesi, brunnhýsið, tóttir fjárhúsanna á sjávarabakkanum og “hinar týndu fjárborgir” á milli Ness og Bjarnastaða. Sagt var að borgirnar, sem sjá má teikningu af í bók Daniels Bruun, hefðu horfið í harótinu mikla árið 1925, en svo er nú ekki. Að vísu eru borginar hrundar sjávarmegin, en landmegin eru þær nokkuð heillegar. Vestan við borgirnar er tótt í varnargarðinu.

Þorkelsgerði

Þorkelsgerði í Selvogi 1985 – b.jóns.

Skoðað var í Bjarnastaðabrunn, sem er hlaðinn og nokkuð djúpur. Gengið var með gömlu Bjarnastaðahúsunum, yfir kambinn og niður að Stokkasundi. Þar mátti vel sjá hversu sundið var náttúrulega hentugt til löndunar. Í klapparskoru mátti sjá einn festasteinanna, sem bátarnir voru bundnir við. Á hann hefur verið klappað gat og band þrætt þar í.

Ofar og vestan við sundið eru leifar af enn einni “týndu borginni”; Þorkelsgerðisborg.

Sveinagerði

Sveinagerði utan Strandar.

Gengið var upp að Torfabæjarbrunni og síðan skoðað í kjallara Torfabæjar þar sem skóli Selvogsbúa var um skeið. Uppalingurinn dró hópinn með sér í átt að Þorkelsgerði þar sem íbúarnir opnuðu og buðu FERLIRsförum innfyrir. Var þar boðið upp á kaffi og meðlæti. Kom fram að ferðir FERLIRs hefðu spurst út um bæi og grundir og væru þátttakendur hvarvetna auðfúsugestir.

Eftir að spurt hafði verið almæltra tíðinda og spáð í veðrið var haldið áfram til vesturs fram hjá Miðvogsréttinni og að Strandarkirkju. Þar var stefnan tekin á gömlu vörðuðu þjóðleiðina að ósum Hlíðarvatns.

Eftir stutta göngu var vent til norðurs og þá komið í Sveinagerði þar sem sveinar sýslumanns voru við leika á öldum áður.

Vogsósar

Kirjugatan milli Vogsósa og Strandar.

Sveinagerði fór í eyði 1696, en þarna má sjá gamla garða og gerðið sjálft. Skammt austan við það liggur Kirkjustígurinn á milli Strandarkirkju og Vogsósa. Þaðan mátti sjá í hæðina norðan Strandarkirkju þar sem Þórarinn á Vogsósum sagði að fólk á leið í kirkju hafi venjulega skipt um skó. Heitir þar skósteinn. Stígnum var fylgt í átt að Vogsósum. Farið var yfir þvergarða á nokkrum stöðum og sjá mátti í Strandargarð (Fornagarð) ofar í heiðinni.

Herdísarvík

Þórarinn Snorrason frá Vogsósum leiðbeinir FERLIRsfélögum.

Á Vogsósum var hús tekið á Þórarni og Snorra, sem voru við rúninga. Var Snorra sagt frá hvar nafni hans uppi í Hvannahrauni hefði að geyma og að þar væru þá stundina fulltrúar HERFÍs og FERLIRs við undirheimarannsóknir.
Eins og fyrr segir var veðrið sérstaklega hentugt til gönguferðar. Ofar var bleyta og þoka með fjöllunum, en Selvogurinn skartaði því besta sem gerist á þessum árstíma.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.