Litlibær

Skoðuð var gömul stórgripagirðing austan Litlabæjar. Gengin var Gamlivegur (kirkjuvegurinn) í áttina að Keilisnesi og litið á stöplana. Þeir liggja í um 1.340 m aflíðandi bogadregna línu frá vestri, túngarði Bakka og Litlabæjar, til austurs og austast til norðurs að sjó.

Borgarkot

Girðingarsteinn við Borgarkot.

Um 10 metrar eru á milli steinstöpla og er höggnar tvær holur í hvern stein, önnur ofan á og hin á suðurhliðina. Í þessar holur voru látnir stuttir tréstaurar og upp á þá væntanlega þrætt band á milli þeirra. Girðingin hefur verið til að varna stógripum göngu sunnar en bónda þótti við hæfi.
Steinar þessir eru fyrir margra hluta sakir merkilegir. Þeim er raðað í beina röð langa leið, í þá höggin tvö göt hvern og í götin reknir trétappar. Sennilega þekkjast fáir slíkir hér á landi, a.m.k. ekki á Reykjanesskaganum.
Girðingin er yngri en suðaustanverður túngarðurinn á Bakka og Litlabæ því ella hefði grjótið úr henni næst veggnum verið tekið í hann. Auðveldlega væri hægt að aldursgreina einn trétappann eða fleiri og komast á nálgunaraldri þeirra. En hvað sem öllum ágiskunum um aldur líður er hér um að ræða merkilegt mannvirki.

Þorvaldur Örn Árnason

Þorvaldur Örn Árnason við stórgripagirðinguna ofan Borgarkots.

Þorvaldur Örn Árnason, kennari við Stóru-Vogaskóla, sendi FERLIR eftirfarandi fróðleik:
“Ég las í nýútkominni bók um Jamestown-strandið í höfnum að bændur á Vatnsleysuströnd hefðu keypt þar vír og rakið upp í þætti og notað í girðingar.
Við Heiða skoðuðum og tókum myndir 2012 af fornri stórgripagirðingu við Kálfatjörn og Keilisnes. Nú legg ég saman 2 + 2 og fæ út að þarna hafi menn notað vír úr Jamestown – og það fyrir aldamótin 1900!
Á bls.37 í bók Halldórs Svavarssonar, Strand Jamestowns, segir frá vírum og köðlum sem mikið var af. Þar segir:
“Ólafur Ketilsson sagði að faðir sinn hefði keypt allan vírinn og megnið af tóginu sem hann seldi síðan að mestu. Útvegsbændur keyptu tógið og notuðu meðal annars í netateina, stjórafæri og landfestar. Vírinn seldi hann til bænda í Vatnsleysustrandarhreppi sem einkum nýttu hann í túgirðingar. Þetta voru fyrstu vírgirðingarnar í Gullbringusýslu og sennilega á öllu landinu. Þeir Vatnsleysustrandarmenn röktu vírana upp, líklegt að þeir hafi verið þriggja eða fjögurra þátta og hver þáttur snúinn saman af mörgum grennri vírum. Með upprakningunni fengu þeir mjög langan einþættan vír. Eftir þetta var talað um að öll tún á Vatnsleysuströnd væru afgirt með vír.””

Borgarkot

Þorvaldur Örn við einn stein stórgripagirðingarinnar. Sjá má trétappa með járnlykkju í steininum.