Maístjarnan

Það var vel við hæfi að kíkja í Maístjörnuna í byrjun maímánuðar. Gengið var…… (má ekki segja því um er að ræða einn af fegurstu, en jafnframt viðkvæmustu hraunhellum landsins). Fyrst var þó komið við í Húshelli til að afhræða þátttakendur.

Húshellir

Í Húshelli.

Húshellir er bæði víður og hár hellir með a.m.k. tveimur breiðum hliðarrásum og því tilfallinn til að draga hugsanlegan skrekk úr fólki áður en haldið er inn í þrengri hella á svæðinu. Á miðju gólfi hellisins er hlaðið stórt byrgi. Í annarri hliðarrásinni eru bein, sem ekki hafa verið aldursgreind, en ekki er talið ólíklegt að þar geti verið um bein úr hreindýri að ræða. Til eru gamlar sagnir um útilegumenn á Selsvöllum, “sem færðu sig norður með fjöllunum” þegar að þeim var sótt. FERLIR hefur fundið álitlegt skjól við Selsvelli, sem gæti hafa verið fyrra athvarf útilegumannanna, en ekki er óhugsandi að þeir hafi hafst um tíma við í Húshelli eða allt þar til þeir voru handteknir og færðir yfirvaldinu á Bessastöðum. A.m.k. eru miklar heillegar mannvistarleifar í hellinum. Skjólið í hellinum gæti einnig hafa verið athvarf hreindýra- og/eða rjúpnaveiðimanna fyrrum.

Þá var haldið í Maístjörnuna. Hellirinn er tvískiptur og óaðgengilegur á millum. Að þessu sinni var skriðið inn um “augað” í vestari rásinni. Þá var komið í rúmgóða þverrás. Að ofanverðu var dropasteinabreiða á gólfinu og hraunnálar í lofti. Niður liggur rás, sem skiptist síðan í tvennt. Haldið var upp eftir hellinu og fetað varlega í gegnum dropasteinana. Þá var komið í rúmbetri þverrás, sem skiptist síðan í nokkrar aðrar. Litatilbrigðin eru mikil, sem og hraunmyndanir þar sem gangar og op opnast í allar áttir.

Maístjarnan.

Augað í Maístjörnunni.

Rás liggur upp á við, en hún lokast síðan með hruni. Rásin liggur talsverðan spotta niður á við. Þar er fallegur rauðlitaður flór. Rásin þrengist síðan uns loft og gólf koma saman. Fetið var tekið til baka að “auganu” og síðan haldið niður þá rás. Vinstri rásin þrengist og lokast, en sú hægri liggur áfram niður eftir. Á hana kemur þverrás, nokkru lægri. Rásinni var fylgt yfir hana. Hún þrengist svolítið, en opnast síðan aftur í stórum litskrúðugum geimi. Haldið var til baka upp rásina, hoppað niður í þverrásina og henni fylgt til vinstri. Þá var komið út í opnu hellisins utan við “augað”. Þar hafði verið útbúið kertasett veisluborð í tilefni 500. FERLIRsgöngunnar – lifrapylsa og hákarl. Þjóðlegra gerist það nú varla undir yfirborði jarðar. Hvernig verður dagamunurinn í tilefni af 600. göngunni?
Til baka var gengið um tröllvaxið landslag. Þegar gengið var framhjá einum hraunhólnum virtist sem raulað væri inni í honum. Lagt var við hlustir og þegar betur var að gáð heyrði fleiri en einn að kveðið var lágri, en dimmri röddu: “Hóhó og hananú, Halldor ei falli. Híhí og snusnu, Solrun af stalli”. Þetta var endurtekið aftur og aftur. Hvort eða hvað þetta kann að boða verður bara að koma í ljós. (Ferðin var farin viku fyrir alþingiskosningarnar 2002).

Í göngunni fannst enn ein hlaðin refagildra, sú 70. sem vitað er um á Reykjanesi.
Gangan tók um tvær klukkustundir. Veður var frábært – lygnt og hlýtt.

Maístjarnan

Maístjarnan – uppdráttur ÓSÁ.