Eldfjallagarður

Hér fer á eftir Framtíðarsýn Landverndar gjörð í kjölfar aðalfundar 29. apríl 2006. Lagt er til að Reykjanesskagi verði ,,Eldfjallagarður og fólkvangur“.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Framtíðarsýn Landverndar fyrir Reykjanesskaga, þ.m.t. Hengilssvæðið, er að frá Þingvallavatni og út á Reykjanestá og Eldey verði stofnaður ,,Eldfjallagarður og fólkvangur.“ Þessi framtíðarsýn grundvallast á náttúruvernd samhliða fjölbreyttri annarri nýtingu á auðlindum Reykjanesskagans. Skaginn hefur óumdeilanlega jarðfræðilega sérstöðu á heimsvísu og í reynd skortir alþjóðleg viðmið til að staðfesta verndargildi hans. Reykjanes er til að mynda eini staðurinn á jörðinni þar sem berlega má sjá hvar úthafshryggur gengur á land með eldsumbrotum og jarðhræringum.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – þrívíddarkort.

Fjölmörg náttúruvætti og minjar á náttúruminjaskrá yrðu innan „Eldfjallagarðsins og fólkvangsins“, þ.á.m. Reykjanesfólkvangur og Bláfjallafólkvangur. Jarðmyndanir á Reykjanesskaganum hafa margar hverjar hátt verndargildi og gætu orðið helsta aðdráttarafl skagans fyrir ferðamenn og útivistarfólk.
Svæðið frá Stóra Kóngsfelli suður og vestur fyrir Brennisteinsfjöll eru ósnortin víðerni. Fágætt er að slíkar landslagsheildir sé að finna svo nálægt þéttbýli og er mikilvægt að halda þeim ósnortnum.

Eldborg

Eldborg í Svínahrauni.

Verðmætar menningarminjar eru einnig víðsvegar á Reykjanesskaganum og má þar nefna Selvog, Herdísarvík, Krýsuvík, Húshólma og Selatanga. Þá ber að nefna mikilfenglegt lífríki, s.s. fuglalíf í Eldey, Hafnarbjargi og Krýsuvíkurbergi, mosaþakin nútímahraun og gróskumikil svæði með háplöntum á stöku stað. Á svæðum sem þessum þarf að leggja ríka áherslu á að varðveita menningarlandslag, lífríki, einstaklega fjölbreyttar jarðmyndanir og minjar um eldvirkni á úthafshryggnum.

Seltún

Hverasvæðið í Seltúni.

Á Reykjanesskaga eru nokkur háhitasvæði, Reykjanes, Eldvörp, Svartsengi, Sandfell, Trölladyngja, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengilssvæðið. Umtalsverð orkuvinnsla er þegar til staðar á svæðunum austast og vestast á skaganum. Helst er skynsamlegt að þróa áfram nýtingu jarðvarmans á þeim svæðum sem þegar hafa verið virkjuð að hluta. Leggja þarf áherslu á rannsóknir og djúpboranir sem gætu margfaldað orkuvinnslugetu þessara svæða.
Auk orkunýtingar væru á virkjunarsvæðum starfrækt heilsuböð og nýting jarðhitaefna s.s. í framleiðslu húðvara, upplýsingastöðvar og þjónustumannvirki fyrir ferðamenn, útivistarfólk og íbúa.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg undir Geitahlíð.

Á og við Reykjanesskaga búa nú um 200 þúsund manns og er fyrirsjáanlegt að þeim fjölgi á næstu árum. Þannig vex þörfin fyrir fjölbreytt og skipulagt útivistarland í nágrenni þéttbýlisins enn frekar. Flestir ferðamenn sem koma til landsins fara um Keflavíkurflugvöll og spár benda til að eftir áratug verði árlegur fjöldi þeirra allt að ein milljón. Rannsóknir sýna að íslensk náttúra dregur þá flesta til landsins og bætt aðgengi að náttúru og menningarminjum skagans myndi efla ferðaþjónustu innan svæðisins til mikilla muna því flestar gistinætur ferðamanna hérlendis eru einmitt á Reykjanesskaganum.

Sogin

Horft yfir Sogin.

Með því að nýta hin mörgu tækifæri sem Reykjanesskagi hefur upp á að bjóða til náttúruverndar, útivistar og ferðaþjónustu auk orkuvinnslu og nýtingu jarðhitaefna, er unnt að skapa mikinn arð fyrir samfélagið. Framtíðarsýn Landverndar um náttúruvernd og fjölbreytta nýtingu felur í sér jákvæð áhrif á efnahag, samfélag og umhverfi í anda sjálfbærrar þróunar.

Heimild:
-http://www.landvernd.is/

Ferlir

“Græna stöffið” í hellinum FERLIR.