Brennisteinsfjöll

Þegar horft er til Brennisteinsfjalla (sem sjást vel víðasthvar af Reykjanesskaganum) má með sanni segja að sjaldan hafi jafn merkilegu svæði verið jafn lítill gaumur gefinn. Á svæðinu er að finna merkar gosminjar sem nánast eru ósnortnar, t.d. gígar, hraun, sprungur og hellar.
Í Brennisteinsfjöllum er háhitasvæði sem er nánast ósnortið. Náttúrustofa Íslands telur að á svæðinu megi “rekja opnar jarðskjálftasprungur og misgengi. Eldvirkt svæði nær frá sjó norður í Rauðuhálsa ofan við Sandskeið. Víðáttumikil dyngjuhraun eru á svæðinu. Frá gíg sunnan í Draugahlíðum hefur runnið hraun niður að Hlíðarvatni. Gos hafa orðið þarna á sögulegum tíma, sbr. Kistuhraunið og Draugahlíðagígshraunið, sem neðst hefur fengið nafnið Stakkavíkurhraun. Stærð þessa svæðis er um 198,7 km.” Drög hafa verið lögð að því að friðlýsa hluta Brennisteinsfjallasvæðisins.
Á Brennisteinsfjallasvæðinu eru nánast ósnortnar og merkar eldgosaminjar, jarðskjálftasprungur og misgengi. Þar er og háhitasvæði. Það mun hafa alþjóðlegt náttúruverndargildi. Fjölbreyttur gróður er og á svæðinu. Eldgosaminjar eru og miklar í Brennisteinsfjöllum, s.s. opnar jarðskjálftasprungur og misgengi. Eldvirki hlutinn nær frá sjó og norður í Rauðuhálsa ofan við Sandskeið. Oft hefur gosið á þessari sprungurein og hafa hraunin runnið niður í Heiðmörk í vestri, á Sandskeið í norðri og suður til Herdísarvíkur. Austurhlutinn er markaður af Bláfjöllum og Vífilsfelli sem mynduðustu við gos á ísöld. Á heildarsvæðinu eru ummerki um 3-4 eldgos á sögulegum tíma. Mikið er um hrauntraðir, hrauntjarnir, niðurföll, hraunfossa, hraunhella og aðrar jarðminjar í eldstöðvakerfinu.
Kistufellsgígurinn er sérkennilegur, girtur háum hömrum og liggja nokkrar hrauntraðir frá honum til vesturs. Eldborg á Brennisteinsfjöllum er hæsti gígurinn í gígaröð sem kemur í beinu framhaldi af Kistufelli til suðvesturs. [Hér er reyndar um misvísun að ræða. Augað blekkir. Elborgargígurinn svonefndi stendur hæst eldborganna í Brennisteinsfjöllum, en Eldborgin (drottningin) sjálf er skammt vestan hennar, rislítil en með drjúgum stærri gígskál. Úr henni hefur meginhraunið runnið til vesturs].
Háhitasvæði í Brennisteinsfjöllum er nánast ósnortið. Merki um háhitann sjást ekki mikið á yfirborði. Umhverfið er þó stórbrotið, með ósnortnum gígum, eldhraunum og opnum sprungum. Leifar námuvinnslu eru enn til staðar, ef vel er að gáð. Ofninn í brennisteinsnámunum er falinn undir moldarbakka. Einungis þarf að skafa ofan af ofninum og þá kemur hann í ljós. Búðir námumann voru skammt ofar og sjást tóftir þeirra enn.
Ein af sérstökum plöntum Brennisteinsfjalla er Botrychium simplex. Hún er háplanta og mjög sjaldgæf. Vorstör er þarna (Carex caryophyllea), einnig sjaldgæf. Sandlæðingur hefur ekki fundist annar staðar en í Brennisteinsfjöllum. Vatnalaukur hefur og fundist í Fjöllunum, sem fyrr sagði.
Á vefsíðunni http://www.os.is/page/ald/orkuaudlindir má sjá umfjöllun um háhita. Þar segir m.a. um svæði í rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og helstu virkjunarkosti á Reykjanesi: “Brennisteinsfjallasvæðið er fremur lítið og afmarkað.”
Náttúrufræðistofnun Íslands hefur fjallað um Brennisteinsfjöll í tengslum við Herdísarvíkurfriðland. Þar segir m.a. “Á svæðinu eru háhitasvæði í Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum og Hengli. Innan þeirra er mikil eldvirkni og háhitasvæði tilheyrir hverri rein. Brennisteinsfjöll eru eina sprungureinin og háhitasvæðið sem enn er að mestu er ósnortið – öllum hinum hefur verið raskað að meira eða minna leyti vegna jarðhitanýtingar.
Í Brennisteinsfjöllum og nærliggjandi Í Brennisteinsfjöllumsvæði eru einstakar gos- og jarðminjar, þar á meðal stakir eldgígar (t.d. gígurinn í Þríhnjúkum), gígaraðir, dyngjugígar, eldborgir og a.m.k. níu nútímahraun oft með fallegum hrauntröðum og einstökum hraunfossum þar sem hraunin hafa flætt fram af fjöllunum til suðurs.
Brennisteinsfjöll og svæðið þar í kring eru síðasta ósnortna víðernið á Reykjanesi þangað sem þéttbýlisbúar á SV-horninu o.fl. geta sótt afdrep, innblástur og menntun – verðmæti ósnortinna útivistarsvæða sem þessa munu vafalítið aukast á næstu árum og áratugum. Umrætt svæði er nú þegar friðað að stærstum hluta innan Herdísarvíkurfriðlands. Í tillögum Umhverfisstofnunar að náttúruverndaráætlun 2004-2008 er lagt til að Herdísarvíkurfriðland verði stækkað verulega til vesturs og austurs til að tryggja vernd mikilvægra jarðminja og landslags.”
Náttúrufræðistofnun Íslands gerir ekki lítið úr gildi rannsókna en bendir á að fyrirhugaðar jarðhitarannsóknir í Brennisteinsfjöllum, eins og þeim er lýst í greinargerð, munu skaða náttúruminjar og ímynd hins ósnortna svæðis verulega. Við fyrirhugaðar rannsóknir, sem byggja á borunum, þarf að leggja vegi og slóða um úfin nútímahraun inn á svæðið, byggja 2–3 borplön (hvert um sig u.þ.b. 1 ha), bora eftir grunnvatni til skolunar því ekkert yfirborðsvatn er á svæðinu, farga skolvatni, flytja inn eða taka efni úr gígum og hraunum á svæðinu til ofaníburðar og byggingar borpalla.
Ef virkjanlegur jarðhiti finnst er stefnt að því að fjölnýta svæðið svipað og gert er í Svartsengi og á Nesjavöllum til framleiðslu á rafmagni, hitaveituvatni, grunnvatni, iðnaðargufu og til útivistar. Slík fjölnýting kallar á enn meiri mannvirki svo sem varanlega vegi og byggingar, hitaveituleiðslur og raflínur. Að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands hafa Brennisteinsfjöll og nærliggjandi svæði mikið verndargildi og eru til langs tíma mun verðmætari þjóðinni og þéttbýlinu á SV-landi ósnortin en sem fjölnýtt orkuvinnslusvæði. Í því sambandi má benda á að innan seilingar verða a.m.k. þrjú fjölnýtt orkuvinnslusvæði, þ.e. Svartsengi, Nesjavellir og Hengilssvæðið.
Eftir jarðhitarannsóknir, eins og fyrirhugaðar eru í Brennisteinsfjöllum, verður svæðið ekki lengur ósnortið og forsendur fyrir frekari vernd þess breyttar að sama skapi.
Rannsóknaleyfi jafngildir því stefnumörkun um framtíðarnýtingu. Þess vegna er brýnt, áður en farið er í að breyta friðlýsingu Herdísarvíkurfriðlands, að umhverfisyfirvöld marki stefnu um framtíð svæðisins m.a. hvort ástæða sé til að taka frá og friða a.m.k. eina sprungurein og háhitasvæði í vestra gosbeltinu.

Í Brennisteinsfjöllum

Í samtölum Náttúrufræðistofnunar Íslands og umhverfisráðuneytis haustið 2003 í aðdraganda að gerð þingsályktunartillögu um náttúruverndaráætlun 2004–2008 var spurt um forsendur fyrir vali á jarðfræðisvæðum á Reykjanesi – m.a. hvers vegna ákveðið hefði verið að velja Reykjanes fremur en Brennisteinsfjöll. Í svari ráðuneytisins kom m.a. fram að orkuvinnsla í Brennisteinsfjöllum væri framtíðarmál og nægur tími til ákvarðanatöku varðandi landnýtingu þar. Í ljósi þessa telur Náttúrufræðistofnun Íslands ekki tímabært að breyta friðlýsingu Herdísarvíkurfriðlands í þá veru að leyfa umræddar jarðhitarannsóknir.”
Í ritgerð fyrir meistaranám í umhverfis- og auðlindafræðum, Háskóla Íslands, er fjallað um Reykjanesskagann og Brenisteinsfjöll. “Reykjanesskagi er eldbrunninn og hrjóstrugur með fjölbreyttu landslagi sem minnir um margt á miðhálendið. Þar eru hraun, sandar, vötn, hverasvæði, móbergshryggir og stök fjöll en fuglabjörg við sjóinn. Landið er lítt til ræktunar fallið og byggð að mestu bundin við sjávarsíðuna. Stór hluti skagans er án mannvirkja s.s. uppbyggðra vega, bygginga eða háspennulína. Á skaganum eru tvö friðlýst útivistarsvæði, Bláfjallafólkvangur (84 km²) sem fyrst og fremst þjónar sem skíðaland höfuðborgarsvæðisins, og Reykjanesfólkvangur (300 km²). Reykjanesfólkvangur tekur m.a. yfir Kleifarvatn, Brennisteinsfjöll, Ögmundarhraun, Krýsuvík og Krýsuvíkurberg. Þrátt fyrir nálægð við mesta þéttbýli landsins eru víðáttumikil lítt snortin svæði innan fólkvangsins en Brennisteinsfjöll og nágrenni eru stærsta óbyggða víðernið á suðvesturhorni landsins.

Aðdráttarafl Reykjanesfólkvangs liggur ekki síst í fjölbreyttu og sérstæðu landslagi en lega fólkvangsins í útjaðri höfuðborgarsvæðisins eykur útivistargildi hans. Hvort tveggja gerir svæðið að áhugaverðum efnivið til rannsókna á landslagi. Landslag hefur á undanförnum áratugum fengið síaukið vægi í þjóðmálaumræðu og sem viðfangsefni rannsókna. Fimmtán þjóðir, þar á meðal allar Norðurlandaþjóðirnar nema Íslendingar, hafa undirritað evrópska landslagssáttmálann (frá árinu 2000) og þannig viðurkennt mikilvægi landslags sem þjóðararfleifðar og sem uppsprettu lífsgæða fyrir almenning. Kannanir sýna að sérstök og óspillt náttúra landsins, einkum í óbyggðum, er það sem dregur langflesta erlenda ferðamenn til landsins. Ákaflega litlar rannsóknir hafa þó enn farið fram á íslensku landslagi, einkennum þess og verðmætum.
Rannsóknum á landslagi má skipta í þær sem taka til náttúrufars (eðlisrænna þátta) annars vegar og upplifunar hins vegar. Kerfi til flokkunar á landslagi byggja fyrst og fremst á eðlisrænum þáttum en matskerfi þurfa að taka tillit til samspils eðlisrænna og huglægra þátta. Mörg flokkunarkerfi fyrir landslag eru til erlendis en fæst þeirra henta fyrir íslenskt landslag vegna þess hve óvenjulegt það er. Lítið hefur verið reynt að aðlaga þessi kerfi að íslensku landslagi eða vinna fræðilegan grunn að íslensku matskerfi. Slík vinna er þó brýn, m.a. til að meta verndargildi svæða, fyrir skipulagsvinnu tengda stórframkvæmdum, og vegna hagsmuna útivistar. Markmið þessarar rannsóknar er að greina og flokka helstu drætti og breytileika í landslagi innan Reykjanesfólkvangs. Byrjað verður á því að skilgreina helstu landslagsgerðir út frá kortum en sérkennum hverrar gerðar verða síðan lýst að loknum rannsóknum á vettvangi. Að lokum verður beitt mismunandi flokkunarkerfum (áströlsku, ensku, norsku, svo og matskerfi Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma) til að flokka helstu landslagsgerðir en slík vinna gæti nýst sem grunnur að almennu kerfi sem hentar íslensku landslagi.”

Á 126. löggjafarþingi (2000–2001) er m.a. fjallað um Brennisteinsfjöll (Þskj. 816 — 520. mál). Þar segir m.a: að markmið Hitaveitu Suðurnesja er að: “– að stuðla að nýtingu jarðhitaauðlinda á Reykjanesskaga, þar með talið í Krýsuvík, við Trölladyngju, Brennisteinsfjöll og eftir atvikum víðar á landinu.”
Varabæjarfulltrúi í Reykjavík, Dofri Hermannsson, hefur fjallað einn fárra um Brennisteinsfjöll. Yfirskriftin er “Einkavædd stóriðjustefna”. “Inni á borði nýja ráðherrans bíða umsóknir um rannsóknarleyfi á 13 stöðum á landinu [m.a. í Brennisteinsfjöllum]. Þessir staðir bíða þess að ráðherra gefi leyfi til orkurannsókna. Einn hinna stóru banka hefur nýverið ráðið sér fyrrverandi ráðherra sem sérfræðiráðgjafa á sviði orkufjárfestinga. Hann kann þá list að krækja í álver en hann aðstoðaði þarsíðasta iðnaðarráðherra við að landa samningum við Alcoa fyrir austan.
Það er ljóst að margir bíða spenntir eftir að láta greipar sópa. Stóriðjustefnan hefur skotið rótum fyrir utan veggi ráðuneytisins og lifir nú sjálfstæðu lífi á hinum frjálsa markaði. Lagaramminn sem vernda á náttúruperlur Íslands er hins vegar engan veginn tilbúinn fyrir frelsið. Hann er líka ófær um að segja stopp vegna skuldbindinga Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda. Það er ekki heldur kominn lagarammi sem kveður á um afnotagjald þeirra sem vinna orkuauðlindabingó ríkisstjórnarinnar.” Orkuveitan reiknað með því að orka fáist í fyrsta lagi úr Brennisteinsfjöllum árið 2010, sbr. árskýrslu hennar árið 2002.

Í Brennisteinsfjöllum

Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson gerðu eftirfarandi grein fyrir svæðinu árið 2001: “Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í 40–500 m hæð yfir sjó. Virkur jarðhiti kemur fram sem gufur í um 450 m hæð, en köld ummyndun er á fjórum stöðum og vitnar um meiri virkni á fyrri tíð. Jarðhiti á yfirborði er óverulegur og miðað við útbreiðslu jarðhita og ummyndunar er svæðið um 3 km2. Viðnámsmælingar benda til þess að svæðið sé um 18 km2 á 700 m dýpi undir sjávarmáli, um 1200 m undir yfirborði þar sem jarðhita verður vart. Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í samnefndri sprungurein og hefur gosið þar a.m.k. 30–40 sinnum eftir að ísöld lauk. Brotalínur eru ungar á svæðinu frá sjó og norður á Mosfellsheiði og verða oft jarðskjálftar á um 5 km breiðu og um 40 km löngu belti. Jarðskjálftar í Brennisteinsfjöllum geta orðið nokkuð stórir. Megingerð jarðlaga er móberg, og þar sem gosstöðvar hafa náð upp úr jökli hafa runnið hraun og myndast stapar eða hraunahryggir. Allar bergmyndanir eru basalt og ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði.”
Ljóst er að Brennisteinsfjöllin búa yfir miklum verðmætum, ekki síst náttúruverðmætum. En reynslan hefur sýnt að þegar ásókn í jarðvarma og von um arðsemi fjármagns er annars vegar mega gildi náttúruverðmætanna sín lítils.
Sjá meira um Brennisteinsfjöll HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.
Sjá MYNDIR.

Í Brennisteinsfjöllum

Brennisteinsfjöll.