Stafnes

Svo er sagt að endur fyrir löngu hét Stafnes ekki því nafni, heldur aðeins Nes. En sú saga er til þess, að nafnið breyttist, er hér fer á eftir:

Stafnes

Á Stafnesi.

Í fyrndinni bjó maður nokkur í Nesi og mun bærinn þá hafa staðið þar sem nú er kallað Urð. Er þar nú rif sem kemur aðeins upp með hálfföllnum sjó. Maður þessi var orðinn gamall og blindur þegar þessi saga gerðist. Hann átti tvo sonu er stunduðu sjómennsku og reru til fiska frá Nesi. Einn dag að áliðnum vetri er þeir voru á sjó að vanda brimaði snögglega svo mikið að ólendandi var. Gerðist gamli maðurinn órór gekk til smíðahúss og telgdi þar til staf einn eða kefli. Bað hann vinnukonur sínar að vera á höttunum og tjá sér hvers þær yrðu áskynja um afdrif skipsins. Um miðjan dag kemur ein þeirra inn til hans og segir að ekki muni lengur þurfa að bíða þess að synir hans lendi. Þær stúlkurnar hafi horft á þá bræður leggja í sundið en þá hafði Boðinn komið og fallið á bátinn flatan og honum þá þegar hvolft og borizt upp á skerið.

Stafnes

Stafnesviti – tóft.

Gamla manninum sást lítt bregða og svo var að sjá sem honum kæmi þetta ekki á óvart. Bað hann stúlkuna að koma aftur til smíðahússins eftir litla stund og þær tvær saman. Þegar stúlkurnar komu til karls hafði hann lokið við að smíða stafprik sitt svo sem honum líkaði. Var stafurinn ekki mikill en haglega gerður og með útskurði allmiklum. Stakk hann stafnum niður með vestisboðang sínum og biður stúlkurnar að leiða sig fram á nesið þar sem Boðinn falli á land. Segir þeim að leiða sig svo nærri sjónum sem frekast sé fært og láta sig vita nákvæmlega þegar Boðinn falli hæst á land við fætur sér. Gera þær nú sem karl leggur fyrir og þegar Boðinn rís hæst tvíhendir karl stafinn á loft, keyrir hann í ölduna og mælir: “Héðan í frá skaltu Stafur heita og nesið Stafnes. Aldrei skaltu framar mönnum að tjóni verða sé rétt sundleið farin. Og leiðið mig nú heim.”

Stafnes

Stafnesviti.

Það fylgir sögu þessari að ummæli karls hafi orðið að áhrínsorðum því að í manna minnum hafi engir menn frá Stafnesi farizt á sundinu þó að jafnan hafi þaðan sjór verið sóttur djarflega og stundum brimað snögglega. Á þeim tímum er konungsútgerðin stóð í sem mestum blóma fórst þó eitt skip þarna með 20 manna áhöfn, en þeir voru komnir langt inn fyrir aðalsundið og boðann Staf. Hafði skipið ekki farið rétta sundleið og steytti á skeri því sem Brúnkolla heitir, á gjánni rétt framan til við aðallendinguna.

Heimild:
http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=172
-Rauðskinna I 57.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.