Krýsuvík

12. Krýsuvíkurkirkja – Seltún

-Trúmál
Langflestir Íslendinga Lúthers-kaþólskir. Stjórnarskráin gerir ráð fyrir trúfrelsi og umburðarlyndi í garð trúarskoðana fólks.

-Sóknarkirkjur
Flestar kirkjur á Íslandi voru sóknarkirkjur þótt sumar virðist afskekktar í dag. Áður var þéttbýlið meira. Hér í Krýsuvík voru t.d., auk Krýsuvíkurbæjarins, a.m.k. 12 hjáleigur og má sjá tóftir sumra þeirra enn þann dag í dag. Talið er að kirkja hafi verið í Krýsuvík frá því um 1200. Sumir segja að elsta kirkjan hafi verið í Húshólma, en síðan verið færð hingað upp eftir. Víst er að kirkja var hér um 1662.

-Sveitakirkjur
Sveitarkirkjur eru nú víða hér á landi. Þær eru margar hverjar gamlar, en yfirleitt haldið vel við.

-Krýsuvíkurskóli, hverjir eru þar, hver rekur hann, hverjir kosta hann.
-Krýsuvíkurskóli – Krýsuvíkursamtökin.
Meðferð. Aðalmarkmið samtakanna er meðferð við sjúkdómnum alkóhólisma, en vistmenn taka sjálfir ábyrgð á bata sínum og velferð með stuðningi frá ráðgjöfum vistheimilisins.
Meðferðarmarkmiðin eru:
Að hjálpa vistmönnum til að sjá og viðurkenna vanmátt sinn gegn áfengi og eiturlyfjum og að þeir hafa ekki haft stjórn á eigin lífi.
Að hjálpa vistmönnum til að sjá að þörf til að breyta til og að þeir hafa möguleika til að breyta lífi sínu með hjálp tólf spora meðferðarinnar.
Að hjálpa vistmönnum til að gera átak hér og nú, taka ákvörðun um að taka þátt í þessari breytingu, breyta lífsstíl sínum og æfa þessa nýju háttu hér í Krýsuvík.

Aðalmarkmiðið er lífsleikni, að gera vistmennina tilbúna til að taka þátt í samfélaginu á nýjan leik.

-Grænavatn – aldur, tilurð og einkenni. Augun…. (sprengigígar líkt og Arnarvatn á Sveifluhálsi)
Grænavatn hefur fengið nafn af hinum sérkennilega græna lit vatnsins, er stafar af brennisteinssamböndum. Þetta litla vatn, nokkur hundruð metra breitt, en 45 metra djúpt, er myndað eftir ísöld, við eldgos, sem orðið hefur með sérkennilegum hætti, sem hér er ekki tími til að rekja. Meðal annars hafa í því gosi, sem myndaði vatnið, þeyst upp hraunkúlur, sem hafa gabbrókjarna, en bergtegundin gabbró hefur ekki fundist annars staðar á Suðvesturlandi. Þetta litla vatn er óefað meðal merkustu náttúrurfyrirbrigða í sinni röð, og þar sem það liggur í sérkennilegu umhverfi, við þjóðveg, og ekki nema klukkutímakeyrslu frá höfuðstaðnum, kemur vart sá útlendur jarðfræðingur til landsins, að ekki sé keyrt með hann um um Krísuvíkurveg og honum sýnt Grænavatn, og fjöldi annarra útlendinga fer um þann veg. En nú er á einu ári búið að fordjarfa þetta fallega og merkilega náttúrufyrirbrigði, að hér eftir mun maður blygðast sín fyrir að sýna það nokkrum útlendingi. Svo sem kunnugt er hefur Hafnarfjarðarbær hafið mikla nýsköpun á Krísuvíkursvæðinu og sé fjarri mér að lasta það. Þarna á að verða mikil gróðurhúsarækt og stórt kúabú. Búið er að reisa tvo votheysturna og verið er að byggja stórt fjós bak við þá. Gott og blessað. En þessum turnum og fjósi hefur verið valinn undarlegur staður, frammi á norðurbakka Grænavatns. Nú er búið að fara um stórt svæði með jarðýtum alveg fram á bakka vatnsins. Með þessu umróti og hinum háu votheysturnum er búið að gjörbreyta svip vatnsins og svipta svæðið þeirri sérkennilegu auðnarstemningu, er þar ríkti áður. Ég fæ ekki annað séð, en að í því landrými sem þarna er, hefði, með góðum vilja, verið hægt að koma þaki yfir beljurnar annars staðar en á bakka Grænavatns. Og jafnvel þó að þessi staður hafi, af mér ókunnum ástæðum, verið valinn, var vart nauðsynlegt þetta jarðýtuumrót alveg fram á vatnsbakka. Og ekki nóg með það.Svo virðist, sem nú eigi að fara að nota Grænavatn sem eins konar ruslatunnu. Það er búið að hella hlassi af glerbrotum og drasli niður yfir suðurbakka vatnsins svo að við blasir vegfarendum langt að” – (Náttúrufræðingurinn 21. árg. bls. 5-7).

Grænavatn skammt frá Krýsuvík er ekki einvörðungu merkilegt fyrir sinn græna lit sem líklega orsakast af dýpt þess heldur einnig af því að margar sögur gengu af undarlegum skepnum sem komu stundum upp úr því. Einn maður fullyrti að hann hefði séð eina slíka skepnu, þó eigi mjög stóra, líkasta marsvíni. Hún hvarf fljótt.
Kleifarvatn gengu þó enn þá fleiri sögur um. 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

-Krýsuvíkurbúið Fyrirhugaða mjólkurbú fyrir Hafnfirðinga – byggt af bænum um 1953 – varð aldrei að veruleika. Breytt löggjöf v/gerilsneyðingu.

-Sveinssafn
Sýningaraðstaðan, sem safnið ræður yfir er í Sveinshúsi í Krýsuvík, þar sem aðal sýningargripurinn er húsið sjálft, sem tekist hefur að varðveita í þeirri mynd, sem listamaðurinn skildi við það. Til að byrja með verður húsið opið fyrsta sunnudag í mánuði yfir sumarmánuðina og þegar messur eru í Krýsuvíkurkirkju í maí og október á hverju ári. Í maí er altaristaflan, sem Sveinn málaði fyrir kirkjuna, hengd upp, en í október er hún tekin niður til vetursetu í Þjóðkirkjunni í Hafnarfirði. Einnig er hægt að fá leiðsögn um húsið á öðrum tímum eftir nánara samkomulagi.

-Stórihver – Austurengjahver – vatnshver

-Seltún – jarðhiti – brennisteinsnám
Jarðhiti er mjög algengur á íslandi. Jarðhitasvæðum má skipta í lág- og háhitasvæði. Á þeim fyrri eru volgar eða heitar uppsprettur sem nefnast laugar eða hverir sem sumir eru goshverir.
Einkenni háhitasvæða eru gufuaugu, leir- og brennisteinshverir. Á Reykjanesskaganum er mest af jarðhitanum háhiti. Í Krýsuvík eru bæði leirhverir og gufuaugu. Í gufuaugunum sést gulur brennisteinn.
Vatnið í hverunum er oftast upprunalega úrkoma sem hefur falið sem regn eða snjór. Það hefur síðan sigið niður í heit berglög á nokkurra kílómetra dýpi og hitnað þar upp í 200 – 300 gráður á Celsíus. Þegar vatn hitnar stígur það aftur upp á yfirborð jarðar, ýmist sem vatn eða gufa.
Á flestum háhitasvæðunum á utanverðum Reykjanesskaga er það hins vegar aðallega sjór sem sígur inn í berglögin og hitnar þar.
Jarðhiti er ein aðalorkulind Íslands Nær 90% húsa eru beint eða óbeint hituð með hveravatni. Háhitasvæðin eru einnig noðuð til raforkuframleiðslu.
Önnur helsta orkulind Íslendinga er vatnsorka.

-Brennisteinsnámur
Þeir félagar Eggert og Bjarni voru á ferð um Krýsuvík árið 1756 og var þá unnin brennisteinn í Krýsuvík. Bændur höfðu í gegnum aldirnar grafið upp brennistein og selt ferðamönnum milliliðalaust. Árið 1753 var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein að undirlagi Skúla Magnússonar landfógeta og Bjarna Pálssonar landlæknis. Nokkur ágóði varð af brennisteinsvinnslunni. Árið 1858 keypti Bretinn Joseph William Bushby brennisteinsnámurnar í Krýsuvík. Kostnaðurinn varð þó of mikill og var bara unnin brennisteinn í tvö sumur eftir það. Eftir það tóku ýmsir námurnar á leigu en síðastur þeirra var Bretinn T. G. Paterson og bróðir hans W. G. S. Paterson sem tóku námurnar á leigu árið 1876. Þeir stofnuðu Brennisteinsfélag Krýsuvíkur en á þessum tíma var orðið lítið af brennisteini ofanjarðar þar sem auðvelt var að ná í hann. Bora þurfti því eftir brennisteininum. Árið 1880 er talið að allri námuvinnslu hafi verið lokið og sama ár var uppboð á ýmsum eigum félagsins. Vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir. (Sveinn Þórðarson, 1998)

Nýting jarðhita í Krýsuvík
Árið 1941 fékk Hafnarfjarðarbær afsal fyrir jörðinni Krýsuvík ásamt hitaréttindum. Sama ár voru boraðar þrjár tilraunaholur við sunnanvert Kleifarvatn. Ætlunin var að komast að því hvort þar mætti fá gufu til að framleiða rafmagn fyrir Hafnarfjarðarbæ. Það varð þó ekki raunin því ekki fékkst nægt vatn eða gufa úr holunum. Hafnfirðingar gáfust þó ekki upp og árin 1945 og 1946 var ráðist í nýjar boranir. Tilgangurinn var sem fyrr að fá gufu til að framleiða rafmagn en einnig að virkja jarðhitann til upphitunar gróður- og íbúðarhúsa á jörðinni. Í þetta skiptið gekk aðeins betur og fékkst meiri gufa en í borununum árið 1941. Gufan var nýtt til upphitunar í Krýsuvík en ekki var ráðist í gerð jarðgufustöðvar eins og staðið hafði til og streymdi því gufan út í loftið, engum til gagns. Enn sem komið er hefur ekki orðið neitt úr framkvæmdum um nýtingu jarðhitans í Krýsuvík til rafmagnsframleiðslu og upphitunar en það er þó ekki ólíklegt að jarðhitinn á svæðinu verði nýttur í framtíðinni til upphitunar á höfuðborgarsvæðinu eða iðnaðarframleiðslu. Orkustofnun hefur einnig látið bora rannsóknarholur og gert víðtækar rannsóknir á svæðinu í gegnum tíðina (Sveinn Þórðarson, 1998).

-Jarðhiti er eftir bókstaflegri merkingu orðsins sá hiti í jörðinni sem er umfram þann hita er ríkir við yfirborð jarðar.

-Menn hafa lengi vitað að hiti fer vaxandi eftir því sem dýpra kemur undir yfirborðið. Fyrirbæri eins og eldgos og heitar lindir hafa alla tíð verið óræk sönnun fyrir þessu.

-Með aukinni nýtingu jarðhitans á tuttugustu öldinni hefur merking orðsins þrengst nokkuð og er það nú fyrst og fremst notað um það fyrirbæri er heitt vatn og gufa kemur upp úr jörðinni á svokölluðum jarðhitasvæðum.

-Í ritmálsskrá Orðabókar Háskólans eru fjölmörg dæmi um notkun orðsins á síðastliðnum tvö hundruð árum og er elsta dæmið frá lokum 18. aldar.

-Forsendur þess að jarðhiti í þessum þrengri skilningi verði til eru að jarðskorpan sé nægilega heit og í henni séu nægar sprungur og vatnsgeng jarðlög til að vatn geti runnið þar um og flutt með sér hitaorku eða varma neðan úr dýpri og heitari jarðlögum til yfirborðs. Þessar aðstæður eru fyrir hendi í eldfjallalöndum eins og á Íslandi þar sem jarðskorpuflekar snertast og myndast, en síður annars staðar.

-Jarðskorpan á Íslandi er tiltölulega heit vegna þess að neðri hluti hennar er að talsverðu leyti myndaður úr kvikuinnskotum sem ekki hafa náð til yfirborðs heldur storknað á leiðinni upp. Heitust er hún undir gos- og gliðnunarbeltunum en kólnar þegar fjær dregur og jarðskorpan verður eldri.

-Talið er að undir flestum háhitasvæðum landsins, sem öll eru í gosbeltinu, séu kvikuinnskot í tengslum við eldvirkni og þau séu aðalvarmagjafi þessara jarðhitasvæða. Lághitasvæðin sem svo eru kölluð eru þar sem jarðskorpan er kaldari, en þó nægilega heit til að hita vatn upp í 50 til 150 °C…

Þegar greina þarf á milli fyrirbærisins jarðhita og þeirrar orku sem berst með vatni og gufu upp til yfirborðs er orðið jarðvarmi notað um orkuna. Þannig er talað um jarðvarmavirkjanir (eða jarðgufuvirkjanir) fremur en um jarðhitavirkjanir. Er að þessu nokkur eftirsjá því að (jarð)hitaveitur voru lengi vel séríslenskt fyrirbæri og orðið hitaveita á góðri leið með að verða að alþjóðlegu orði um þess konar fyrirbæri, svipað og geysir hefur orðið í fjölmörgum tungumálum.

-Jarðhitasvæði eru mjög mismunandi að útliti frá náttúrunnar hendi. Volgrur, laugar, vatnshverir, gufuhverir, leirhverir, útfellingar af kalki, kísli og brennisteini og marglitt umhverfi, einkum háhitasvæða, er meðal þess sem einkennir jarðhitann sem náttúrufyrirbæri. Þetta eru hin ytri ummerki orkuflutninga sem eiga sér stað í jarðskorpunni.

-Mörg jarðhitasvæði eru hreinustu gersemar frá náttúrunnar hendi. Til að mynda má nefna Torfajökulssvæðið, Kverkfjallasvæðið, Námafjall og Þeystareyki sem dæmi um einkar litskrúðug háhitasvæði. Geysissvæðið í Haukadal er tvímælalaust það jarðhitasvæði sem þekktast er erlendis og hefur orðið erlendum sem innlendum vísindamönnum áhugavert rannsóknarefni. Hefur nafnið Geysir yfirfærst á önnur tungumál sem almennt nafn á goshverum og á ensku hefur það afbakast í geyser. Þannig eru til dæmis til Geysissvæði í Kaliforníu og á Kamtsjatkaskaganum austast í Síberíu. Vel þekkt jarðhitasvæði erlendis eru til dæmis í Yellowstone þjóðgarðinum í Wyoming í Bandaríkjunum, sem er stærsta goshverasvæði heims, Pamukkale í Tyrklandi, þar sem einstæðir kalkútfellingastallar hafa myndast, og Taupo gosbeltið á Nýja Sjálandi, þar sem til skamms tíma var einn öflugasti goshver í heimi.

-Sveifluháls

Sveifluháls

Sveifluháls.

Móbergsfjöll myndast við gos undir jökli, í sjó eða vatni. Meðan vatnsþrýstingur er nægur yfir eldstöðinni hleðst upp bólstraberg. Ljúki gosi á þessu stigi verður til bólstrabergshryggur, dæmi: Sigalda. Haldi gosið áfram, minnkar vatnsdýpið vegna upphleðslu gosefna undir yfirborði vatnsins/jökulsins og tekur þá fyrir bólstrabergsmyndun enda er vatnsþrýstingur þá ekki nægur til að halda vatnsgufu og gosgufum niðri. Gosvirkni breytist þá í þeytigos. Ofan á bólstrabergið leggst því gjóska sem er ýmist úr vikri, ösku eða brotabergi. Ef gosið hættir á þessu stigi verða til móbergshryggir, dæmi: Sveifluháls, eða keilulaga móbergsfjöll, dæmi: Keilir (ef um gos á kringlóttu goseopi eða stuttri sprungu er að ræða).Haldi gosið enn áfram, hlaðast gígrimar upp úr vatnsborðinu og vatn nær þá ekki lengur að komast í snertingu við bergkvikuna og snöggkæla hana og valda þeytigosi. Tekur þá að mestu fyrir myndun lausra gosefna og hraun fer að renna úr gígnum. Séu gígrimarnir umflotnir vatni, fyllir hraunið undir sig upp að vatnsborði með skálögðuð bólstra- og gjalllagi sem hraunhella leggst síðan ofan á. Móbergsfjöll, sem náð hafa þessu stigi nefnast móbergsstapar, dæmi: Eiríksjökull og Herðubreið.

-Fúlipyttur (leirhver)
Dæmigerður leirhver af stærri gerðinni. Kemur við sögu í meintu morðmáli hér á landi, auk þess sem hann er notaður í einni af skáldsögum Hrafns Jökulssonar.

Bleikhóll

Bleikhóll – málverk Jóhannesar Kjarvals.