Gullbringa

Gullbringusýsla sem slík á sér merka, en margflókna, sögu. Hér verður reynt að gera henni svolítil skil.

Í bókinni Landnám Ingólfs II eftir Magnús Grímsson er þess getið að Gullbringusýsla sé kennd við fornkonuna Gullbryngu og munnmæli herma að hún hafi átt kornakra í Sáðgerði (Sandgerði).
HjartaGullbringusýsla er fyrst nefnd í skjali frá árinu 1535 og náði hún yfir hluta hins forna Kjalarnesþings. Gullbringa er sýnd á herforingjaráðskortum sem hæðarbunga við suðaustanvert Kleifarvatn (308 m). Stefán Stefánsson sem kallaður var “gæd” (af “guide”) taldi það þó hæpið, þar sem kunnugir menn á þessum slóðum hefðu jafnan kallað lyngbrekku þá sem er vestan í Vatnshlíðinni Gullbringu og nær hún niður undir austurströnd vatnsins.
Vilhjálmur Hinrik Ívarsson í Merkinesi sagði að grasbrekkur frá Hlíðarhorni vestra og austur að Hvannahrauni (Hvammahrauni) væru nefndar Gullbringur (Örnefnaskrá í Örnefnastofnun).
Jón Ólafsson úr Grunnavík taldi að nafnið Gullbringa nærri Geitahlíð væri frá Dönum komið sem hafi talið það fallegt og viðeigandi þar sem staðurinn lá nærri sýslumörkum við Árnessýslu. (Kristian Kålund: Íslenzkir sögustaðir I:51). Álitið er að staðurinn hafi fyrrum verið blómlegri en síðar hefur orðið vegna uppblásturs.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – hér fellur Mígandi fram af berginu í skorunni nær.

Ekki virðast beinar heimildir um þinghald í eða við Gullbringu og er því margt á huldu um þessa nafngift. Gullbringur eru í Mosfellsheiði, en sýslunafnið getur ekki átt við þær þar sem þær eru ekki í sýslunni. Örnefnið Gullbringa eða -bringur er til víðar á landinu og virðist merkingin vera ‘gróðursælt land’.
Á ferðum FERLIRs um svæðið hefur bæði mátt sjá suðurbak Gullbringu “gullhúðað” í hádegissólinni á vetrum og hlíðina ofan hennar “gullbikaða” í kvöldsólinni á sumrin.

Skv. Járnsíðu (1271) og Jónsbók (1281) var landinu skipt í 12 þing (umdæmi) Suðurnes voru í Kjalarnesþingi.
Gullbringusýslu er fyrst getið 1535 og Kjósarsýslu er fyrst getið 1637. Mörk milli sýslnanna voru lengst af við Elliðaár.
Gullbringu- og Kjósarsýsla voru sameinaðar með konunglegri tilskipun 19. mars 1754.
Skv. tilskipun 28. júní 1781 voru Landfógeta falin fjármál og löggæsla í Gullbringusýslu.
Með konungsúrskurði 9. maí 1806 voru fjármál og löggæsla færð frá Landfógeta til héraðsdómara í Gullbringusýslu, sem fór þá með öll sýsluvöld.

Hnúkar

Í Hnúkum.

Reykjavík varð að sérstöku lögsagnarumdæmi með konungsúrskurði 15. apríl 1803 og þar skipaður sérstakur bæjarfógeti.
Árið 1874 var bæjarfógetaembættið í Reykjavík sameinað sýslumannsembættinu í Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Árið 1878 var bæjarfógeti skipaður í Reykjavík og embættin aðskilin. Reykvíkingar undu sambúðinni illa og 16. ágúst 1878 voru embættin aðskilin á ný og sérstakur bæjarfógeti skipaður í Reykjavík. Allt land Reykjavíkur var áður í Seltjarnarneshreppi. Með lögum 1923 stækkaði Reykjavík með yfirtöku jarða í Mosfellshreppi.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1903.

Árin 1878 til 1908 varð bæjarfógetinn í Hafnarfirði og sýslumaður Gullbringu- og Kjósarsýslu. Landshöfðingi samþykkti að skipta Álftaneshreppi 17. september 1878 í tvo hreppa, Bessastaðahrepp og Garðahrepp. Hafnfirðingar undu þessu illa og vildu vera sér og eftir 30 ára baráttu varð Hafnarfjörður kaupstaður 1. júní 1908.

Þann 3.10.1903 var samþykkt á Alþingi að Gullbringu- og Kjósarsýslu myndi verða skipt upp í tvö sýslufélög. Annað er hin forna Kjósarsýsla og Seltjarnarneshreppur. Hitt er Bessastaðahreppur, Garðahreppur, Vatnsleysustrandarhreppur, Njarðvíkurhreppur, Rosmhvalaneshreppur, Miðneshreppur, Hafnarhreppur, og Grindavíkurhreppur. Eitt sýslumannsembætti, með aðsetur í Hafnarfirði, fór með málefni beggja sýslna. Með lögunum voru mörk milli sýslnanna flutt frá Elliðaám að hreppamörkum Seltjarnarneshrepps þar sem þau lágu þá að mörkum Garða- og Bessastaðahrepps.

Kristján X

Kristján X.

Árið 1938 var skipaður lögreglustjóri í Keflavíkur. Með lögum 16/1934, undirskrifuð í Amalíuborg 25. janúar 1934 af Christian R. (Kristján tíundi (R.=Rex (konungur)) var ákveðið að skipa lögreglustjóra í Keflavíkurhreppi og skyldi hann einnig fara með dómsvald í lögreglumálum, innheimtu opinberra gjalda, fógetavald og hreppstjórastörf í Keflavíkurhreppi. Embættinu var komið á laggirnar 1. janúar 1938 og Alfreð Gíslason var skipaður lögreglustjóri, reyndar frá 31. desember 1937. Fram að þeim tíma hafði sýslumaður Gullbringusýslu með aðsetri í Hafnarfirði stjórnað löggæslumálum í Keflavík. Embættinu fylgdi ekki dómsvald einungis framkvæmdavald.
Þegar Keflavík varð kaupstaður 1. apríl 1949 var Alfreð skipaður bæjarfógeti í Keflavík og gegndi því starfi til 19. apríl 1961 þegar hann fékk lausn frá starfi og varð bæjarstjóri í Keflavík frá 8. júní 1961. Eggert Jónsson f. 22. maí 1919, sem verið hafði bæjarstjóri var skipaður bæjarfógeti í Keflavík frá 1. júlí 1961 og gegndi því starfi til dauðadags en hann lést ungur maður 18. júlí 1962. Alfreð var þá aftur skipaður bæjarfógeti í Keflavík frá 5. september 1962.
Festisfjall1. apríl 1949 fær Keflavíkurhreppur kaupstaðarréttindi og lögreglustjórinn verður jafnframt bæjarfógeti í Keflavík. Auk lögreglumála og dómsvalds í þeim fer hann nú með önnur dóms- og umboðsstörf í Keflavík.
Með bráðabirgðalögum sem sett voru 19. janúar 1954 var embætti Lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli komið á fót. Þann 8. apríl 1954 voru samþykkt lög á Alþingi um lögreglustjóraembættið og tóku þau þegar gildi. Umdæmið var samningssvæði þau á Reykjanesi, sem varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna tók til og eru eign ríkisins. Lögreglustjórinn fór með sömu störf og sýslumenn og bæjarfógetar.

Seltjarnarneshreppi var skipt 1948 í Seltjarnarneshrepp og Kópavogshrepp. Kópavogur varð kaupstaður 1955 og fór undan sýslunni. Sigurgeir Jónsson var skipaður bæjarfógeti í Kópavogi 11. ágúst 1955.

Vatnagarður

Hraun og Vatnagarður.

Alfreð var síðan skipaður sýslumaður í Gullbringusýslu frá 1. jan. 1974 og bæjarfógeti í Grindavík frá 10. apríl 1974. Hann fékk lausn frá embætti 8. júlí 1975 frá og með 1. október 1975. Þann 22. ágúst 1975 var Jón Eysteinsson f. 10. janúar 1937 skipaður bæjarfógeti í Keflavík og Grindavík og sýslumaður í Gullbringusýslu frá 1. október 1975 að telja og síðan bæjarfógeti í Njarðvík frá 1. maí 1976.

Seltjarnarneshreppur og Garðahreppur urðu kaupstaðir 1974. Bæjarfógetinn í Hafnarfirði varð jafnframt bæjarfógeti í þessum kaupstöðum. Í Kjósarsýslu voru Garðahreppur, Bessastaðahreppur, Seltjarnarneshreppur, Mosfellshreppur, Kjalarneshreppur og Kjósarhreppur. Bæjarfógetinn í Hafnarfirði varð jafnframt sýslumaður í Kjósarsýslu.
Fyrir forgöngu Geirs Gunnarssonar og Karls G. Sigurbergssonar urðu til sérstök lögsagnarumdæmi á Suðurnesjum og voru lög þess efnis samþykkt á Alþingi 24. apríl 1973 og tóku gildi 1. janúar 1974.

Í Gullbringusýslu voru Grindavíkurhreppur, Hafnarhreppur, Miðneshreppur, Gerðahreppur, Njarðvíkurhreppur og Vatnsleysustrandarhreppur.

Gálgahraun

Gálgahraun – skófir.

Bæjarfógetinn í Keflavík varð jafnframt Sýslumaður í Gullbringusýslu.
Grindavík hlaut kaupstaðarréttindi 10. apríl 1974.
Árið 1976 var bæjarfógetinn í Grindavík, Keflavík og Njarðvík jafnframt sýslumaður Gullbringusýslu.
Njarðvík fékk kaupstaðarréttindi 1. janúar 1976. Bæjarfógetinn í Keflavík varð jafnframt bæjarfógeti í Grindavík og Njarðvík.

Við aðskilnað dómsvalds og framkvæmdavalds í héraði 1. júlí 1992 var Jón skipaður sýslumaður í Keflavík en lögsagnarumdæmið er það sama og var. Þennan dag tóku gildi lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði nr. 92/1989. Hugtakið bæjarfógeti féll niður og sýslumenn voru kenndir við staði.

Bæjarfógetinn í Keflavík, Njarðvík og Grindavík og sýslumaður Gullbringusýslu heitir nú Sýslumaðurinn í Keflavík. Lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli verður Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli. Sýslumaðurinn í Hafnarfirði, Garðakaupstað og Seltjarneskaupstað og Sýslumaður Kjósarsýslu verður Sýslumaðurinn í Hafnarfirði.

Hugtakið Gullbringusýsla er ekki lengur notað og má segja að þetta aldagamla heiti stjórnsýsluumdæmis sýslumanna leggist af með lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði.

Heimild m.a.:
-Eyþór Þórðarson, Stjórnsýsla í Gullbringusýslu, birtist í Árbók Suðurnesja 1984-85.
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2182

Gullbringa

Gullbringa.